Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:12 • Sest 01:42 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:44 • Síðdegis: 15:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:04 • Síðdegis: 21:42 í Reykjavík

Hver var Jacques Lacan og hvert var framlag hans til fræðanna?

Nanna Hlín Halldórsdóttir

Jacques Lacan (1901-1981) var franskur sálgreinir og geðlæknir. Verk hans hafa haft mikil áhrif á kenningar bæði í félags- og hugvísindum. Lacan, sem oft hefur verið kallaður „hinn franski Freud“, var áhrifamikill í menningarlífi Parísarborgar á síðari hluta 20. aldar og iðulega var þétt setinn bekkurinn á málstofum hans um sálgreiningu. Meðal annars sátu þar mikilsverðir kenningasmiðir á borð við Michel Foucault og Luce Irigaray.

Það sama gildir um Lacan og starfsbróður hans Sigmund Freud, hann er og verður umdeildur hugsuður og gagnrýni á verk hans hefur leitt af sér áhugaverða fræðimennsku. Lacan var mjög gagnrýninn á þróun sálgreiningarinnar eftir daga Freuds og boðaði „afturhvarf til Freuds“. Ólíkt Freud gekkst Lacan þó fúslega við og nýtti sér hina heimspekilegu hefð, auk þess sem eitt helsta kennimark hugmynda hans eru strúktúralískar áherslur. Þekktustu hugmyndir Lacans um sálræn efni eru án efa þær sem fjalla um þrjú svið sálarlífsins, hið ímyndaða, hið táknræna og raunina (einnig nefnt hið raunverulega), sem og hugmyndir hans um spegilstigið, sjálfið og að dulvitundin sé byggð upp eins og tungumál.

Jacques Lacan (1901-1981).

Ævi og störf

Lacan fæddist árið 1901 í París og bjó þar allt til dauðadags árið 1981. Vegna menntunar sinnar í geðlækningum komst hann í kynni við sálgreiningu Freuds auk hugmynda ýmissa heimspekinga eins og G.W.F. Hegels en fyrirlestrar og túlkun Alexandre Kojève um Hegel á fjórða áratugnum höfðu mikil áhrif á hugsun Lacans, sem og annarra franskra fræðimanna. Lacan var virkur í menningarlífi Parísarborgar, hann var undir miklum áhrifum af súrrealisma og vingaðist meðal annars við listamennina Salvador Dali og Pablo Picasso sem og rithöfundinn og heimspekinginn Georges Bataille. Þannig voru áhrifaþættir Lacans margvíslegir; ekki aðeins nám hans í geðlækningum og sálgreiningu, heldur einnig saga heimspekinnar, bókmenntir og það frjóa lista- og menningarlíf sem ríkti í Parísarborg á ungdómsárum hans.

Í seinni heimstyrjöldinni gegndi Lacan herþjónustu og starfaði sem geðlæknir á hersjúkrahúsum bæði í Frakklandi og Englandi. Á sama tíma skrifaði hann nokkuð af textum sem drógu dám af þessari reynslu. Það var hins vegar í byrjun sjötta áratugarins sem fór að bera á Lacan sem sálgreini en þá var hann undir miklum áhrifum frá strúktúralískum kenningum málvísindamannsins Ferdinands de Saussure. Strúktúralisminn kom fram sem ákveðið andsvar við tilvistarstefnunni sem var ríkjandi hugmyndastefna á eftirstríðsárunum. Strúktúralisminn lagði áherslu á að koma auga á og greina þá formgerð sem finna mætti í ólíkum samfélögum og á ólíkum stigum samfélagsins.

Fyrirlestrar Lacans nutu sífellt meiri vinsælda; sérstaklega á sjöunda áratugnum þegar lista- og fræðafólk úr margvíslegum greinum fjölmennti á þá. Fyrirlestrar hans samþættu hugmyndir hans um sálgreiningu við stef úr sögu heimspekinnar og ráðandi hugmyndastefnur á borð við fyrirbærafræði, strúktúralisma, tilvistarstefnu og femínisma. Þar að auki voru ýmis menningarleg fyrirbæri honum hugleikin auk þess sem hann hafði mikinn áhuga á rökfræðilegri og stærðfræðilegri hugsun eins og sjá má á skýringarmyndum hans á sálrænum þáttum. Árið 1966 kom út hið mikla bindi Écrits eða Skrif, safn verka Lacans. Sú bók þykir nokkuð tyrfin en fyrirlestrar hans þóttu auðskiljanlegri og hafa þeir einnig verið gefnir út. Lacan var mjög virkur sem sálgreinir en um leið umdeildur meðal starfsbræðra sinna vegna nýstárlegra aðferða. Hann stofnaði sín eigin samtök eða skóla, L'École freudienne de Paris og þar fékk hann tækifæri til að gera ýmsar tilraunir við kennslu og þjálfun sálgreina.

Þrjú svið sálarlífsins: Hið ímyndaða, hið táknræna og raunin

Lacan skipti sálarlífinu upp í þrjú svið til útskýringar á sálrænum ferlum. Oft er starfsævi hans skipt upp í tímabil eftir því hvaða svið er ráðandi. Hugmyndir um sviðin er þó að finna í öllu höfundarverki Lacans. Þessi þrjú svið eru innbyrðis háð hvert öðru og standa ekki sjálfstæð ein og sér. Mest var áherslan á hið ímyndaða í upphafi ferils hans og er hugmynd hans um spegilstigið þar í meginhlutverki. Allt sem við ímyndum okkur um aðra og okkur sjálf fellur undir þetta svið. Jafnvel þótt slíkar ímyndanir feli ávallt í sér ákveðinn skáldskap telur Lacan þær vera nauðsynlegar til þess að byggja upp mynd af sjálfri sér og öðrum. Þær eru þannig ekki beint neikvæðar blekkingar þó svo að þær geti leiðst út í slíkt.

Við ímyndum okkur ekki út í bláinn; það er eitthvað sem liggur til grundvallar því sem við getum ímyndað okkur og þannig tengist hið ímyndaða hinu táknræna og einnig rauninni. Það er hið táknræna sem markar hin strúktúralísku áhrif Lacans en með því sviði reynir hann að lýsa því mótunarferli sem einstaklingar ganga í gegnum þegar þeir læra á skilaboð og merki samfélagsins eins og sjá má þegar börn læra að tala. Til þess að lýsa þessu ferli notaðist Lacan við hugmynd Freuds um Ödipusarduldina en þó í eilítið breyttri mynd. Þegar barnið lærir og skilur samfélagslegar táknmyndir og innbyrðis tengsl þeirra getur það átt í samskiptum við aðra og tjáð sig á skiljanlegan hátt. Erfitt er að útskýra þriðja sviðið, raunina þar sem hún brýst stöðugt undan allri táknun. Segja má að Lacan hafi verið að reyna að útskýra þann skilning okkar á raunveruleikanum sem er til staðar en við náum aldrei tökum á, né náum að miðla á skiljanlegan hátt.

Jacques Lacan við kennslu.

Spegilstigið

Hið svokallaða spegilstig (fr. stade du miroir) er tímabil í lífi ungbarns um 6-18 mánaða aldur þegar það fer að þekkja spegilmynd sína. Speglunin á ekki aðeins við um það að sjá sig í raunverulegum spegli heldur einnig að geta speglað sig í öðrum. Raunar er slík speglun til grundvallar þessu tímabili og mótunar sjálfsins eða „ég-sins“ sem verður til við það að barnið samsamar sig öðrum sjálfum og gerir þau að sínu. Það mætti segja að sjálfið verði þannig til í annarleika - til þess að þekkja sig þarf barnið að líta út fyrir sig, hvort sem um er að ræða þá mynd sem það sér í speglinum eða í öðru fólki. Til að tilgreina sjálfan sig er maður þannig að benda annað en á sig. Þessi sýn á sig sjálfa og aðra er nauðsynleg til þess að ná einhverri mynd á tilveruna. Barnið þarf að líta önnur sjálf sem virðast hafa tök á tilverunni og taka upp ímynd þeirra. Eins og með allar hugmyndir Lacans er hér ekki verið að lýsa lífrænu ferli hvers einstakling heldur að tilgreina formgerð þess tímabils í lífi barns þegar það byrjar að samsama sig öðrum og mynda sitt eigið sjálf.

Hinn/hinn

Hugtakið Hinn/hinn skipar stóran sess í kenningum Lacan en þýðir tvennt ólíkt eftir því hvort hástafur eða lágstafur er notaður. Sé lágstafur notaður er um að ræða sjálfið eða önnur sjálf sem það gerir að sínu. Með þessu leggur Lacan áherslu á annarleika sjálfsins sem og ímyndarsköpun þess. Sé um Hinn eða jafnvel Stóra Hinn að ræða lýsir hugtakið tengslum innan hins táknræna sviðs; hvernig við tökum þátt og eigum samskipti við aðra með hjálp nafnlausrar táknrænnar miðlunar. Þetta á einnig við um hvernig hið táknræna kemur fyrir okkur sem nafnlaus valdavídd þannig að okkur líður eins og við séum að hlýða valdboðum Stóra Hins án þess að hann/hún sé nein ákveðin persóna. Oftar en ekki sjáum við Stóra Hinn sem Guð, Söguna, Kapítalisma, Vald, Vísindi eða aðra slíka persónugervingu hugtaka.

Dulvitundin sem tungumál

Sem fyrr segir er hugtakið um formgerð eða strúktúr einna mikilvægast þegar hugað er að kenningum Lacans. Þetta sést glöggt í því hvernig hann lítur á dulvitundina. Í kjölfar Freuds var algengt að sjá dulvitundina sem eina bendu, eitthvað dularfullt og mystískt fyrirbæri sem við höfum ekki beinan aðgang að. Lacan telur aftur á móti að innganga okkar í hið táknræna sé grundvallarforsenda dulvitundarinnar; hún er byggð upp eins og tungumál. Ekki eitthvert einstakt tungumál eins og franska eða íslenska heldur er dulvitundin undir sömu lögmál sett og tungumál almennt. Dulvitundin á sér ekki lífrænan samastað heldur er hún einhvers konar afleiðing allra þeirra ótal táknmynda sem við tökum inn. Hið ytra, táknræna kerfi er þannig til grundvallar dulvitundinni og skilyrðir allar þær ómeðvituðu hugsanir sem geta skotist upp og orðið meðvitaðar. Dulvitundin er því ekki eitthvert frumstætt, mystískt afl sem getur haft áhrif á hið samfélagslega heldur er hún einmitt alltaf byggð upp af táknmyndum samfélagsins, allar ómeðvitaðar hugsanir tengjast öðrum á sama hátt og orð tungumálsins og þurfa að lúta reglum kerfisins á sama hátt og einstaka orð svo megi mynda skiljanlegar setningar.

Arfleifð Lacans

Sálgreining Lacans, það kerfi eða mynstur sem hann bjó til og notaði til þess að lýsa sálarlífinu, hugsum okkar og athöfnum, hefur haft mikil áhrif á ólíkar fræðigreinar þótt kenningar hans hafi oftar en ekki verið teknar upp með gagnrýnum hætti. Gott dæmi um þetta er nýting og gagnrýni femínískra fræða á hugmyndir Lacans. Það mætti segja að Lacan komi fram með strúktúralíska kenningu um sálarlífið sem dansar á mörkum þess að vera algild og söguleg; það er, lýsing hans á samskiptamynstrum hins táknræna er að miklu leyti byggð á því samfélagi sem hann sjálfur kemur úr, vestrænu, kapítalísku feðraveldissamfélagi. Hann viðurkenndi sjálfur að formgerð samfélagsins sé sögulega mótuð en taldi afar erfitt að breyta þeirri mótun. Því hafa kenningar hans verið gagnrýndar fyrir að náttúrugera formgerð sem sé söguleg og viðhalda þannig þeirri formgerð.

Heimild:

  • Johnston, Adrian, „Jacques Lacan“, The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Summer 2013 Edition), Edward N. Zalta (ed.)

Myndir:

Höfundur

Nanna Hlín Halldórsdóttir

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

11.10.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Nanna Hlín Halldórsdóttir. „Hver var Jacques Lacan og hvert var framlag hans til fræðanna? “ Vísindavefurinn, 11. október 2013. Sótt 17. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=65539.

Nanna Hlín Halldórsdóttir. (2013, 11. október). Hver var Jacques Lacan og hvert var framlag hans til fræðanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65539

Nanna Hlín Halldórsdóttir. „Hver var Jacques Lacan og hvert var framlag hans til fræðanna? “ Vísindavefurinn. 11. okt. 2013. Vefsíða. 17. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65539>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Jacques Lacan og hvert var framlag hans til fræðanna?
Jacques Lacan (1901-1981) var franskur sálgreinir og geðlæknir. Verk hans hafa haft mikil áhrif á kenningar bæði í félags- og hugvísindum. Lacan, sem oft hefur verið kallaður „hinn franski Freud“, var áhrifamikill í menningarlífi Parísarborgar á síðari hluta 20. aldar og iðulega var þétt setinn bekkurinn á málstofum hans um sálgreiningu. Meðal annars sátu þar mikilsverðir kenningasmiðir á borð við Michel Foucault og Luce Irigaray.

Það sama gildir um Lacan og starfsbróður hans Sigmund Freud, hann er og verður umdeildur hugsuður og gagnrýni á verk hans hefur leitt af sér áhugaverða fræðimennsku. Lacan var mjög gagnrýninn á þróun sálgreiningarinnar eftir daga Freuds og boðaði „afturhvarf til Freuds“. Ólíkt Freud gekkst Lacan þó fúslega við og nýtti sér hina heimspekilegu hefð, auk þess sem eitt helsta kennimark hugmynda hans eru strúktúralískar áherslur. Þekktustu hugmyndir Lacans um sálræn efni eru án efa þær sem fjalla um þrjú svið sálarlífsins, hið ímyndaða, hið táknræna og raunina (einnig nefnt hið raunverulega), sem og hugmyndir hans um spegilstigið, sjálfið og að dulvitundin sé byggð upp eins og tungumál.

Jacques Lacan (1901-1981).

Ævi og störf

Lacan fæddist árið 1901 í París og bjó þar allt til dauðadags árið 1981. Vegna menntunar sinnar í geðlækningum komst hann í kynni við sálgreiningu Freuds auk hugmynda ýmissa heimspekinga eins og G.W.F. Hegels en fyrirlestrar og túlkun Alexandre Kojève um Hegel á fjórða áratugnum höfðu mikil áhrif á hugsun Lacans, sem og annarra franskra fræðimanna. Lacan var virkur í menningarlífi Parísarborgar, hann var undir miklum áhrifum af súrrealisma og vingaðist meðal annars við listamennina Salvador Dali og Pablo Picasso sem og rithöfundinn og heimspekinginn Georges Bataille. Þannig voru áhrifaþættir Lacans margvíslegir; ekki aðeins nám hans í geðlækningum og sálgreiningu, heldur einnig saga heimspekinnar, bókmenntir og það frjóa lista- og menningarlíf sem ríkti í Parísarborg á ungdómsárum hans.

Í seinni heimstyrjöldinni gegndi Lacan herþjónustu og starfaði sem geðlæknir á hersjúkrahúsum bæði í Frakklandi og Englandi. Á sama tíma skrifaði hann nokkuð af textum sem drógu dám af þessari reynslu. Það var hins vegar í byrjun sjötta áratugarins sem fór að bera á Lacan sem sálgreini en þá var hann undir miklum áhrifum frá strúktúralískum kenningum málvísindamannsins Ferdinands de Saussure. Strúktúralisminn kom fram sem ákveðið andsvar við tilvistarstefnunni sem var ríkjandi hugmyndastefna á eftirstríðsárunum. Strúktúralisminn lagði áherslu á að koma auga á og greina þá formgerð sem finna mætti í ólíkum samfélögum og á ólíkum stigum samfélagsins.

Fyrirlestrar Lacans nutu sífellt meiri vinsælda; sérstaklega á sjöunda áratugnum þegar lista- og fræðafólk úr margvíslegum greinum fjölmennti á þá. Fyrirlestrar hans samþættu hugmyndir hans um sálgreiningu við stef úr sögu heimspekinnar og ráðandi hugmyndastefnur á borð við fyrirbærafræði, strúktúralisma, tilvistarstefnu og femínisma. Þar að auki voru ýmis menningarleg fyrirbæri honum hugleikin auk þess sem hann hafði mikinn áhuga á rökfræðilegri og stærðfræðilegri hugsun eins og sjá má á skýringarmyndum hans á sálrænum þáttum. Árið 1966 kom út hið mikla bindi Écrits eða Skrif, safn verka Lacans. Sú bók þykir nokkuð tyrfin en fyrirlestrar hans þóttu auðskiljanlegri og hafa þeir einnig verið gefnir út. Lacan var mjög virkur sem sálgreinir en um leið umdeildur meðal starfsbræðra sinna vegna nýstárlegra aðferða. Hann stofnaði sín eigin samtök eða skóla, L'École freudienne de Paris og þar fékk hann tækifæri til að gera ýmsar tilraunir við kennslu og þjálfun sálgreina.

Þrjú svið sálarlífsins: Hið ímyndaða, hið táknræna og raunin

Lacan skipti sálarlífinu upp í þrjú svið til útskýringar á sálrænum ferlum. Oft er starfsævi hans skipt upp í tímabil eftir því hvaða svið er ráðandi. Hugmyndir um sviðin er þó að finna í öllu höfundarverki Lacans. Þessi þrjú svið eru innbyrðis háð hvert öðru og standa ekki sjálfstæð ein og sér. Mest var áherslan á hið ímyndaða í upphafi ferils hans og er hugmynd hans um spegilstigið þar í meginhlutverki. Allt sem við ímyndum okkur um aðra og okkur sjálf fellur undir þetta svið. Jafnvel þótt slíkar ímyndanir feli ávallt í sér ákveðinn skáldskap telur Lacan þær vera nauðsynlegar til þess að byggja upp mynd af sjálfri sér og öðrum. Þær eru þannig ekki beint neikvæðar blekkingar þó svo að þær geti leiðst út í slíkt.

Við ímyndum okkur ekki út í bláinn; það er eitthvað sem liggur til grundvallar því sem við getum ímyndað okkur og þannig tengist hið ímyndaða hinu táknræna og einnig rauninni. Það er hið táknræna sem markar hin strúktúralísku áhrif Lacans en með því sviði reynir hann að lýsa því mótunarferli sem einstaklingar ganga í gegnum þegar þeir læra á skilaboð og merki samfélagsins eins og sjá má þegar börn læra að tala. Til þess að lýsa þessu ferli notaðist Lacan við hugmynd Freuds um Ödipusarduldina en þó í eilítið breyttri mynd. Þegar barnið lærir og skilur samfélagslegar táknmyndir og innbyrðis tengsl þeirra getur það átt í samskiptum við aðra og tjáð sig á skiljanlegan hátt. Erfitt er að útskýra þriðja sviðið, raunina þar sem hún brýst stöðugt undan allri táknun. Segja má að Lacan hafi verið að reyna að útskýra þann skilning okkar á raunveruleikanum sem er til staðar en við náum aldrei tökum á, né náum að miðla á skiljanlegan hátt.

Jacques Lacan við kennslu.

Spegilstigið

Hið svokallaða spegilstig (fr. stade du miroir) er tímabil í lífi ungbarns um 6-18 mánaða aldur þegar það fer að þekkja spegilmynd sína. Speglunin á ekki aðeins við um það að sjá sig í raunverulegum spegli heldur einnig að geta speglað sig í öðrum. Raunar er slík speglun til grundvallar þessu tímabili og mótunar sjálfsins eða „ég-sins“ sem verður til við það að barnið samsamar sig öðrum sjálfum og gerir þau að sínu. Það mætti segja að sjálfið verði þannig til í annarleika - til þess að þekkja sig þarf barnið að líta út fyrir sig, hvort sem um er að ræða þá mynd sem það sér í speglinum eða í öðru fólki. Til að tilgreina sjálfan sig er maður þannig að benda annað en á sig. Þessi sýn á sig sjálfa og aðra er nauðsynleg til þess að ná einhverri mynd á tilveruna. Barnið þarf að líta önnur sjálf sem virðast hafa tök á tilverunni og taka upp ímynd þeirra. Eins og með allar hugmyndir Lacans er hér ekki verið að lýsa lífrænu ferli hvers einstakling heldur að tilgreina formgerð þess tímabils í lífi barns þegar það byrjar að samsama sig öðrum og mynda sitt eigið sjálf.

Hinn/hinn

Hugtakið Hinn/hinn skipar stóran sess í kenningum Lacan en þýðir tvennt ólíkt eftir því hvort hástafur eða lágstafur er notaður. Sé lágstafur notaður er um að ræða sjálfið eða önnur sjálf sem það gerir að sínu. Með þessu leggur Lacan áherslu á annarleika sjálfsins sem og ímyndarsköpun þess. Sé um Hinn eða jafnvel Stóra Hinn að ræða lýsir hugtakið tengslum innan hins táknræna sviðs; hvernig við tökum þátt og eigum samskipti við aðra með hjálp nafnlausrar táknrænnar miðlunar. Þetta á einnig við um hvernig hið táknræna kemur fyrir okkur sem nafnlaus valdavídd þannig að okkur líður eins og við séum að hlýða valdboðum Stóra Hins án þess að hann/hún sé nein ákveðin persóna. Oftar en ekki sjáum við Stóra Hinn sem Guð, Söguna, Kapítalisma, Vald, Vísindi eða aðra slíka persónugervingu hugtaka.

Dulvitundin sem tungumál

Sem fyrr segir er hugtakið um formgerð eða strúktúr einna mikilvægast þegar hugað er að kenningum Lacans. Þetta sést glöggt í því hvernig hann lítur á dulvitundina. Í kjölfar Freuds var algengt að sjá dulvitundina sem eina bendu, eitthvað dularfullt og mystískt fyrirbæri sem við höfum ekki beinan aðgang að. Lacan telur aftur á móti að innganga okkar í hið táknræna sé grundvallarforsenda dulvitundarinnar; hún er byggð upp eins og tungumál. Ekki eitthvert einstakt tungumál eins og franska eða íslenska heldur er dulvitundin undir sömu lögmál sett og tungumál almennt. Dulvitundin á sér ekki lífrænan samastað heldur er hún einhvers konar afleiðing allra þeirra ótal táknmynda sem við tökum inn. Hið ytra, táknræna kerfi er þannig til grundvallar dulvitundinni og skilyrðir allar þær ómeðvituðu hugsanir sem geta skotist upp og orðið meðvitaðar. Dulvitundin er því ekki eitthvert frumstætt, mystískt afl sem getur haft áhrif á hið samfélagslega heldur er hún einmitt alltaf byggð upp af táknmyndum samfélagsins, allar ómeðvitaðar hugsanir tengjast öðrum á sama hátt og orð tungumálsins og þurfa að lúta reglum kerfisins á sama hátt og einstaka orð svo megi mynda skiljanlegar setningar.

Arfleifð Lacans

Sálgreining Lacans, það kerfi eða mynstur sem hann bjó til og notaði til þess að lýsa sálarlífinu, hugsum okkar og athöfnum, hefur haft mikil áhrif á ólíkar fræðigreinar þótt kenningar hans hafi oftar en ekki verið teknar upp með gagnrýnum hætti. Gott dæmi um þetta er nýting og gagnrýni femínískra fræða á hugmyndir Lacans. Það mætti segja að Lacan komi fram með strúktúralíska kenningu um sálarlífið sem dansar á mörkum þess að vera algild og söguleg; það er, lýsing hans á samskiptamynstrum hins táknræna er að miklu leyti byggð á því samfélagi sem hann sjálfur kemur úr, vestrænu, kapítalísku feðraveldissamfélagi. Hann viðurkenndi sjálfur að formgerð samfélagsins sé sögulega mótuð en taldi afar erfitt að breyta þeirri mótun. Því hafa kenningar hans verið gagnrýndar fyrir að náttúrugera formgerð sem sé söguleg og viðhalda þannig þeirri formgerð.

Heimild:

  • Johnston, Adrian, „Jacques Lacan“, The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Summer 2013 Edition), Edward N. Zalta (ed.)

Myndir:

...