Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvar var Ferdinand de Saussure og hvert var hans framlag til málvísinda?

Magnús Snædal

Æviágrip

Svissneski málfræðingurinn Ferdinand de Saussure fæddist 26. nóvember árið 1857 í borginni Genf í Sviss og lést þar 22. febrúar árið 1913. Faðir hans var náttúruvísindamaður og þegar Saussure hóf háskólanám í Genf 1875 lagði hann fyrst stund á efnafræði og eðlisfræði, en sótti einnig fyrirlestra í latínu og grísku. Eftir fyrsta árið sá hann þó að málvísindi voru hans fag enda hafði hann snemma sýnt tungumálum áhuga. Hann fór því til Þýskalands og hóf nám í indóevrópskri samanburðarmálfræði við háskólann í Leipzig. Þar í borg má segja að hafi verið miðstöð sögulegra málvísinda og samanburðarmálfræði undir forystu svokallaðra ungmálfræðinga en hreyfing þeirra var þá í burðarliðnum.

Þegar Saussure var 21. árs kom út eftir hann ritið Mémoire sur le système primitif des voyelles dans les langues indo-européennes 1879 (Ritgerð um frumkerfi sérhljóða í indóevrópskum málum). Óhætt er að segja að þetta rit hafði mjög mikil áhrif á hugmyndir manna um sérhljóðakerfi indóevrópska frummálsins og hvernig það þróaðist í einstökum indóevrópskum málum og málaættum. Ritinu var vel tekið og það er mikilvægt framlag á þessu fræðasviði. Eftir fjögur ár í Leipzig (og Berlín), þegar hann hafði varið doktorsritgerð sína um notkun eignarfalls í sanskrít, hélt Saussure til Parísar. Þar kenndi hann sanskrít, gotnesku og fornháþýsku, en síðar einnig indóevrópska samanburðarmálfræði, við École pratiques des hautes études.

Árið 1891 var Saussure boðin prófessorstaða í sinni gömlu heimaborg. Hann flutti því til Genfar og hóf að kenna sanskrít og almenna sögulega málfræði við háskólann þar. Árið 1906 fól háskólinn Saussure að sjá um kennslu í almennum málvísindum. Það gerði hann svo þrisvar sinnum, 1907, 1908–9, 1910–11.

Saussure mun hafa haft í hyggju að skrifa bók um almenna málfræði. Úr því varð þó aldrei. Bókin um almenna málfræði sem við hann er kennd, Cours de linguistique générale (Kennslubók í almennri málfræði), kom út árið 1916 eða þremur árum eftir dauða hans. Hún var sett saman af samstarfsmönnum hans, Charles Bally og Albert Sechehaye. Þeir hugðust byggja ritið á fyrirlestranótum Saussures en þar gripu þeir eiginlega í tómt. Þeir leituðu því til fyrrverandi nemenda hans og byggðu bókina á glósum nokkurra þeirra. Það er rétt að hafa þetta í huga, að Saussure skrifaði aldrei þá bók sem hann er frægastur fyrir. Hér verður vikið stuttlega að þremur mikilvægum hugmyndum sem tengdar eru nafni Saussures.

Samtímaleg málfræði og söguleg málfræði

Saussure skipti málvísindum í tvær ólíkar greinar eftir ólíkum viðfangsefnum: Samtímalega málfræði þar sem málið er athugað sem samskiptakerfi á einhverjum ákveðnum tíma, og sögulega málfræði þar sem breytingar á málinu í gegnum tíðina eru raktar. Þrátt fyrir þessa skiptingu er rétt að leggja áherslu á að Saussure taldi báðar greinar jafnréttháar og jafnmikilvægar. Hvor grein þarfnaðist aftur á móti sinnar aðferðar og það mætti ekki blanda þeim saman.

Saussure lagði áherslu á að söguleg málfræði segði ekkert um hlutverk málsins frá sjónarhóli málnotandans. Hér tekur hann dæmi af skákinni. Sérhverja stöðu sem upp kemur má líta á sem sérstaka, óháða fyrri leikjum. Möguleikarnir felast í stöðunni hverju sinni og þeim er hægt að lýsa án vitneskju um það hvernig staðan kom upp. Muninn á samtímalegum og sögulegum lögmálum sýnir Saussure með dæmum úr grísku:
 1. Orð í grísku enda á sérhljóði eða á s, n eða r.
 2. m breyttist í n í enda orðs.
 3. lokhljóð (t.d. t eða k) féll brott í enda orðs.

Fyrsta lögmálið er samtímalegt; það gerir grein fyrir því á hvaða hljóði grísk orð geta endað. Síðari tvö lögmálin eru söguleg: í enda orðs breytist m í n og lokhljóð falla brott án þess að skilja eftir sig spor. Fyrsta lögmálið er afleiðing af hinum tveimur. Tvö söguleg lögmál hafa skapað eitt samtímalegt.

Saussure lítur svo á að hljóðbreytingar séu ókerfisbundnar. Breyting á borð við a verður að e í einhverju máli skiptir engu hafi ekkert e verið til staðar í málinu áður. Henni yrði tæplega veitt athygli. Í skák skiptir ekki máli hvort riddarinn er úr tré að járni eða hvort í hans stað er notuð brauðskorpa eða tala svo lengi sem staðgengillinn heldur áfram að ganga riddaragang. Öðru máli gegnir ef e hefur verið til staðar í málinu áður. Þá hafa a og e fallið saman og breyting hefur orðið á málkerfinu.

Mál og tal

Saussure skilgreindi tvær hliðar á málinu: mál eða málkerfi (fr. langue) og tal eða málnotkun (fr. parole). Talið er það sem sagt er, hin raunverulega birtingarmynd tungumálsins. Þaðan koma gögnin sem málfræðingar byggja mállýsingu sína á. Viðfangsefni málfræðinga er á hinn bóginn málkerfi hvers samfélags og því eiga þeir að lýsa: orðaforða, beygingakerfi og hljóðkerfi sem plantað er í hvern einstakling í uppeldi hans í samfélaginu. Á grundvelli þess talar hann og skilur tungumálið.

Saussure dró því skil á milli efnislegra staðreynda tungumálsins sem hægt er að athuga beint, það er talsins, og kerfisins sem efnislegu hlutarnir birta en er sjálft ekki efnislegt. Talið er myndað af hverjum einstaklingi en málið er ekki fullkomið í neinum einstaklingi, aðeins innan málsamfélagsins.

Samtímaleg mállýsing

Saussure lagði áherslu á að sérhverju máli yrði að lýsa samtímalega sem kerfi tengdra eininga, orðasafnslegra, beygingarlegra og hljóðkerfislegra. Það sem máli skiptir eru venslin milli eininganna: p er gagnvart b það sem t er gagnvart d. Hvert hljóðfræðilegt innihald þeirra er skiptir litlu máli, aðalatriðið er að einingarnar eru ólíkar. Hljóðfræðin sem fæst við nákvæmar athuganir á framburði er ekki hluti málvísindanna, heldur hjálpargrein.

Málinu verður ekki lýst sem hrúgaldi sjálfstæðra eininga. Einingar málsins eru frekar eins og taflmenn sem hafa mismunandi gildi eftir stöðunni. Þetta sést ef til vill best þegar borin eru saman ólík mál. Íslenska orðið tagl hefur til dæmis allt annað gildi en tail í ensku. Íslenska hefur ýmis fleiri orð á þessu sviði, til dæmis hali, rófa, skott, dindill, stél og sporður. Segja má að í íslensku sé orðið valið með tilliti dýrsins sem til umræðu er. Ef sagt er um mann að hann sperri stél er honum um leið líkt við fugl.


Einingar málsins eru eins og taflmenn sem hafa mismunandi gildi eftir stöðunni.

Tengsl og samspil slíkra eininga eða formdeilda kemur fram ýmist lárétt sem raðvensl (e. syntagmatic relations) eða lóðrétt sem staðvensl (e. paradigmatic relations).

Raðvensl koma fram í afleiddum orðmyndum sem tengsl rótar og viðskeytis, leik+ari, í samsetningum, eld-hús, og föstum orðasamböndum, taka sig saman í andlitinu. Að áliti Saussures tilheyrir þetta málkerfinu. En setningar, hin venjulega birtingarmynd raðvensla, eru frjálsar að gerð, reglur um þær byggja á venju og setningafræði telst því til rannsókna á talinu og er utan verksviðs málfræðinga.

Staðvenslin lýsa því til dæmis að á tilteknum stað í setningu er hægt að setja inn nafnorð eða lýsingarorð eða atviksorð, ekki öll á sama stað. Beygingarendingar orðs mynda einnig staðvensl; við hund má bæta ur eða i eða s og svo framvegis. Einnig má setja mismunandi hljóð á undan til dæmis _ól og fá alltaf nýtt orð: pól, ból, tól og svo framvegis.

Niðurlag

Saussure stóð föstum fótum í hinni málfræðilegu hefð. Sumt af því sem honum er eignað eða hann talinn vera upphafsmaður að getur verið komið frá þeim sem settu rit hans um almenna málfræði saman en annað á sér langa sögu. Það á til dæmis við um þá hugmynd að táknið sé tilviljunarkennt (fr. arbitraire): Það eru engin rökleg tengsl milli hlutarins ‘borð’ og hljóðmyndarinnar borð sem notuð er til þess að tákna hlutinn. Þessa hugmynd má rekja allt aftur til Aristótelesar og einnig þá hugmynd að táknið sé samsett úr hugtaki og hljóðmynd.

Greinarmunur samtímalegra og sögulegra málvísinda á sér fyrirmynd til dæmis í bók eftir Georg von der Gabelentz, Sprachwissenschaft sem út kom 1891 og aftur 1901. Hugtökin mál og tal eiga sér einnig samsvörun hjá von der Gabelentz í hugtökunum Einzelsprache og Rede.

Raunar hefur því verið haldið fram að eina mikilvæga nýjungin sem Saussure færði málvísindunum sé hugtakið andstæða (e. opposition). Það er ekki hljóðið sem skiptir máli í málinu heldur andstæður milli hljóða: par : bar : far : var. Þetta, sem kallað hefur verið lögmál mismunarins, kemur einnig fram á öðrum sviðum málsins. Munurinn á endingunum ur og ar aðgreinir nefnifall eintölu hestur og fleirtölu hestar.

Það er sem sé ekki svo að allt sem Saussure sagði hafi verið nýtt eða óþekkt. Hvað sem öðru líður tók fræðaheimurinn riti hans um almenna málfræði fagnandi og áhrifin náðu langt út fyrir málvísindin. Því skal samt ekki gleymt hvernig ritið varð til og að þegar upp er staðið er framlag hans til sögulegrar málfræði og indóevrópskrar samanburðarmálfræði meira en til samtímalegrar málfræði. Þar átti hann þó með einkennilegum hætti þátt í að ýta úr vör nýjum aðferðum við mállýsingu.

Helstu heimildir:
 • Eugenio Coseriu. Einführung ind die Strukturelle Linguistik. 1969.
 • Jonathan Culler. Saussure. Fjórða prentun 1984.
 • Roy Harris. Saussure and his Interpreters. 2001.
 • Ferdinand de Saussure. Cours in General Linguistics. Translated and Annotated by Roy Harris. Sautjánda prentun 2007.

Myndir:

Höfundur

prófessor í málvísindum við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

19.9.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Magnús Snædal. „Hvar var Ferdinand de Saussure og hvert var hans framlag til málvísinda?“ Vísindavefurinn, 19. september 2011. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60676.

Magnús Snædal. (2011, 19. september). Hvar var Ferdinand de Saussure og hvert var hans framlag til málvísinda? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60676

Magnús Snædal. „Hvar var Ferdinand de Saussure og hvert var hans framlag til málvísinda?“ Vísindavefurinn. 19. sep. 2011. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60676>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar var Ferdinand de Saussure og hvert var hans framlag til málvísinda?

Æviágrip

Svissneski málfræðingurinn Ferdinand de Saussure fæddist 26. nóvember árið 1857 í borginni Genf í Sviss og lést þar 22. febrúar árið 1913. Faðir hans var náttúruvísindamaður og þegar Saussure hóf háskólanám í Genf 1875 lagði hann fyrst stund á efnafræði og eðlisfræði, en sótti einnig fyrirlestra í latínu og grísku. Eftir fyrsta árið sá hann þó að málvísindi voru hans fag enda hafði hann snemma sýnt tungumálum áhuga. Hann fór því til Þýskalands og hóf nám í indóevrópskri samanburðarmálfræði við háskólann í Leipzig. Þar í borg má segja að hafi verið miðstöð sögulegra málvísinda og samanburðarmálfræði undir forystu svokallaðra ungmálfræðinga en hreyfing þeirra var þá í burðarliðnum.

Þegar Saussure var 21. árs kom út eftir hann ritið Mémoire sur le système primitif des voyelles dans les langues indo-européennes 1879 (Ritgerð um frumkerfi sérhljóða í indóevrópskum málum). Óhætt er að segja að þetta rit hafði mjög mikil áhrif á hugmyndir manna um sérhljóðakerfi indóevrópska frummálsins og hvernig það þróaðist í einstökum indóevrópskum málum og málaættum. Ritinu var vel tekið og það er mikilvægt framlag á þessu fræðasviði. Eftir fjögur ár í Leipzig (og Berlín), þegar hann hafði varið doktorsritgerð sína um notkun eignarfalls í sanskrít, hélt Saussure til Parísar. Þar kenndi hann sanskrít, gotnesku og fornháþýsku, en síðar einnig indóevrópska samanburðarmálfræði, við École pratiques des hautes études.

Árið 1891 var Saussure boðin prófessorstaða í sinni gömlu heimaborg. Hann flutti því til Genfar og hóf að kenna sanskrít og almenna sögulega málfræði við háskólann þar. Árið 1906 fól háskólinn Saussure að sjá um kennslu í almennum málvísindum. Það gerði hann svo þrisvar sinnum, 1907, 1908–9, 1910–11.

Saussure mun hafa haft í hyggju að skrifa bók um almenna málfræði. Úr því varð þó aldrei. Bókin um almenna málfræði sem við hann er kennd, Cours de linguistique générale (Kennslubók í almennri málfræði), kom út árið 1916 eða þremur árum eftir dauða hans. Hún var sett saman af samstarfsmönnum hans, Charles Bally og Albert Sechehaye. Þeir hugðust byggja ritið á fyrirlestranótum Saussures en þar gripu þeir eiginlega í tómt. Þeir leituðu því til fyrrverandi nemenda hans og byggðu bókina á glósum nokkurra þeirra. Það er rétt að hafa þetta í huga, að Saussure skrifaði aldrei þá bók sem hann er frægastur fyrir. Hér verður vikið stuttlega að þremur mikilvægum hugmyndum sem tengdar eru nafni Saussures.

Samtímaleg málfræði og söguleg málfræði

Saussure skipti málvísindum í tvær ólíkar greinar eftir ólíkum viðfangsefnum: Samtímalega málfræði þar sem málið er athugað sem samskiptakerfi á einhverjum ákveðnum tíma, og sögulega málfræði þar sem breytingar á málinu í gegnum tíðina eru raktar. Þrátt fyrir þessa skiptingu er rétt að leggja áherslu á að Saussure taldi báðar greinar jafnréttháar og jafnmikilvægar. Hvor grein þarfnaðist aftur á móti sinnar aðferðar og það mætti ekki blanda þeim saman.

Saussure lagði áherslu á að söguleg málfræði segði ekkert um hlutverk málsins frá sjónarhóli málnotandans. Hér tekur hann dæmi af skákinni. Sérhverja stöðu sem upp kemur má líta á sem sérstaka, óháða fyrri leikjum. Möguleikarnir felast í stöðunni hverju sinni og þeim er hægt að lýsa án vitneskju um það hvernig staðan kom upp. Muninn á samtímalegum og sögulegum lögmálum sýnir Saussure með dæmum úr grísku:
 1. Orð í grísku enda á sérhljóði eða á s, n eða r.
 2. m breyttist í n í enda orðs.
 3. lokhljóð (t.d. t eða k) féll brott í enda orðs.

Fyrsta lögmálið er samtímalegt; það gerir grein fyrir því á hvaða hljóði grísk orð geta endað. Síðari tvö lögmálin eru söguleg: í enda orðs breytist m í n og lokhljóð falla brott án þess að skilja eftir sig spor. Fyrsta lögmálið er afleiðing af hinum tveimur. Tvö söguleg lögmál hafa skapað eitt samtímalegt.

Saussure lítur svo á að hljóðbreytingar séu ókerfisbundnar. Breyting á borð við a verður að e í einhverju máli skiptir engu hafi ekkert e verið til staðar í málinu áður. Henni yrði tæplega veitt athygli. Í skák skiptir ekki máli hvort riddarinn er úr tré að járni eða hvort í hans stað er notuð brauðskorpa eða tala svo lengi sem staðgengillinn heldur áfram að ganga riddaragang. Öðru máli gegnir ef e hefur verið til staðar í málinu áður. Þá hafa a og e fallið saman og breyting hefur orðið á málkerfinu.

Mál og tal

Saussure skilgreindi tvær hliðar á málinu: mál eða málkerfi (fr. langue) og tal eða málnotkun (fr. parole). Talið er það sem sagt er, hin raunverulega birtingarmynd tungumálsins. Þaðan koma gögnin sem málfræðingar byggja mállýsingu sína á. Viðfangsefni málfræðinga er á hinn bóginn málkerfi hvers samfélags og því eiga þeir að lýsa: orðaforða, beygingakerfi og hljóðkerfi sem plantað er í hvern einstakling í uppeldi hans í samfélaginu. Á grundvelli þess talar hann og skilur tungumálið.

Saussure dró því skil á milli efnislegra staðreynda tungumálsins sem hægt er að athuga beint, það er talsins, og kerfisins sem efnislegu hlutarnir birta en er sjálft ekki efnislegt. Talið er myndað af hverjum einstaklingi en málið er ekki fullkomið í neinum einstaklingi, aðeins innan málsamfélagsins.

Samtímaleg mállýsing

Saussure lagði áherslu á að sérhverju máli yrði að lýsa samtímalega sem kerfi tengdra eininga, orðasafnslegra, beygingarlegra og hljóðkerfislegra. Það sem máli skiptir eru venslin milli eininganna: p er gagnvart b það sem t er gagnvart d. Hvert hljóðfræðilegt innihald þeirra er skiptir litlu máli, aðalatriðið er að einingarnar eru ólíkar. Hljóðfræðin sem fæst við nákvæmar athuganir á framburði er ekki hluti málvísindanna, heldur hjálpargrein.

Málinu verður ekki lýst sem hrúgaldi sjálfstæðra eininga. Einingar málsins eru frekar eins og taflmenn sem hafa mismunandi gildi eftir stöðunni. Þetta sést ef til vill best þegar borin eru saman ólík mál. Íslenska orðið tagl hefur til dæmis allt annað gildi en tail í ensku. Íslenska hefur ýmis fleiri orð á þessu sviði, til dæmis hali, rófa, skott, dindill, stél og sporður. Segja má að í íslensku sé orðið valið með tilliti dýrsins sem til umræðu er. Ef sagt er um mann að hann sperri stél er honum um leið líkt við fugl.


Einingar málsins eru eins og taflmenn sem hafa mismunandi gildi eftir stöðunni.

Tengsl og samspil slíkra eininga eða formdeilda kemur fram ýmist lárétt sem raðvensl (e. syntagmatic relations) eða lóðrétt sem staðvensl (e. paradigmatic relations).

Raðvensl koma fram í afleiddum orðmyndum sem tengsl rótar og viðskeytis, leik+ari, í samsetningum, eld-hús, og föstum orðasamböndum, taka sig saman í andlitinu. Að áliti Saussures tilheyrir þetta málkerfinu. En setningar, hin venjulega birtingarmynd raðvensla, eru frjálsar að gerð, reglur um þær byggja á venju og setningafræði telst því til rannsókna á talinu og er utan verksviðs málfræðinga.

Staðvenslin lýsa því til dæmis að á tilteknum stað í setningu er hægt að setja inn nafnorð eða lýsingarorð eða atviksorð, ekki öll á sama stað. Beygingarendingar orðs mynda einnig staðvensl; við hund má bæta ur eða i eða s og svo framvegis. Einnig má setja mismunandi hljóð á undan til dæmis _ól og fá alltaf nýtt orð: pól, ból, tól og svo framvegis.

Niðurlag

Saussure stóð föstum fótum í hinni málfræðilegu hefð. Sumt af því sem honum er eignað eða hann talinn vera upphafsmaður að getur verið komið frá þeim sem settu rit hans um almenna málfræði saman en annað á sér langa sögu. Það á til dæmis við um þá hugmynd að táknið sé tilviljunarkennt (fr. arbitraire): Það eru engin rökleg tengsl milli hlutarins ‘borð’ og hljóðmyndarinnar borð sem notuð er til þess að tákna hlutinn. Þessa hugmynd má rekja allt aftur til Aristótelesar og einnig þá hugmynd að táknið sé samsett úr hugtaki og hljóðmynd.

Greinarmunur samtímalegra og sögulegra málvísinda á sér fyrirmynd til dæmis í bók eftir Georg von der Gabelentz, Sprachwissenschaft sem út kom 1891 og aftur 1901. Hugtökin mál og tal eiga sér einnig samsvörun hjá von der Gabelentz í hugtökunum Einzelsprache og Rede.

Raunar hefur því verið haldið fram að eina mikilvæga nýjungin sem Saussure færði málvísindunum sé hugtakið andstæða (e. opposition). Það er ekki hljóðið sem skiptir máli í málinu heldur andstæður milli hljóða: par : bar : far : var. Þetta, sem kallað hefur verið lögmál mismunarins, kemur einnig fram á öðrum sviðum málsins. Munurinn á endingunum ur og ar aðgreinir nefnifall eintölu hestur og fleirtölu hestar.

Það er sem sé ekki svo að allt sem Saussure sagði hafi verið nýtt eða óþekkt. Hvað sem öðru líður tók fræðaheimurinn riti hans um almenna málfræði fagnandi og áhrifin náðu langt út fyrir málvísindin. Því skal samt ekki gleymt hvernig ritið varð til og að þegar upp er staðið er framlag hans til sögulegrar málfræði og indóevrópskrar samanburðarmálfræði meira en til samtímalegrar málfræði. Þar átti hann þó með einkennilegum hætti þátt í að ýta úr vör nýjum aðferðum við mállýsingu.

Helstu heimildir:
 • Eugenio Coseriu. Einführung ind die Strukturelle Linguistik. 1969.
 • Jonathan Culler. Saussure. Fjórða prentun 1984.
 • Roy Harris. Saussure and his Interpreters. 2001.
 • Ferdinand de Saussure. Cours in General Linguistics. Translated and Annotated by Roy Harris. Sautjánda prentun 2007.

Myndir:

...