Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er meginmunurinn á rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki?

Geir Þ. Þórarinsson

Á tuttugustu öld urðu til tveir meginstraumar í vestrænni heimspeki, rökgreiningarheimspeki annars vegar og svokölluð meginlandsheimspeki hins vegar. Þessi skipting heimspekinnar á sér að vísu miklu lengri forsögu. En hún er einnig svolítið villandi. Munurinn á þessum meginstraumum innan heimspekinnar er ekki fyllilega skýr og auk þess er nafngiftin villandi því að annað nafnið vísar til ákveðinnar aðferðafræði, það er rökgreiningar, en hitt til ákveðins landsvæðis, það er meginlands Evrópu. Samt sem áður voru margir rökgreiningarheimspekingar frá meginlandinu og meginlandsheimspekin einskorðast ekki við meginlandið.

Rökgreiningarheimspeki

Seint á 19. öld og í byrjun 20. aldar varð til nútímarökfræði. Það voru einkum þeir Gottlob Frege, Bertrand Russell og Alfred North Whitehead sem hana skópu. Nýju rökfræðinni fylgdi þó nokkur bjartsýni um framþróun og árangur í heimspeki. Þeir Frege og Russell voru einnig helstu upphafsmenn rökgreiningarheimspekinnar en upphaf hennar tengist tilkomu nútímarökfræði órofa böndum. Rökgreiningarheimspeki (eða analýtísk heimspeki) dregur nafn sitt af rökgreiningu (e. logical analysis). Hugmyndin var sú að þýða mætti venjulegar setningar hversdagsmáls yfir á mál rökfræðinnar og greina síðan rökform setninganna. Þannig mætti leysa ýmis vandamál sem verða til vegna ónákvæmni hversdagsmálsins.

Bertrand Russel var einn af þeim sem skópu nútímarökfræði.

Í ritgerðinni „Um tilvísun” sem birtist árið 1905 fjallaði Russell til að mynda um setninguna „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur”. Frakkland er lýðveldi og það er enginn núverandi konungur Frakklands svo að ekki er setningin sönn; en ef hún er ósönn þá má gera ráð fyrir að setningin „Það er ekki svo að núverandi konungur Frakklands sé sköllóttur” sé sönn. Af þeirri setningu virðist hins vegar sem draga mætti þá ályktun að núverandi konungur Frakklands sé hærður. Hvað er til ráða? Eru setningingarnar ef til vill merkingarlausar? Russell beitti kenningu sinni um ákveðnar lýsingar og þýddi setninguna yfir á mál rökfræðinnar til þess að koma auga á hvar vandinn liggur. Þá fást eftirfarandi yrðingar:

  1. Til er x þannig að x er konungur Frakklands.
  2. Um öll x gildir að ef x er konungur Frakklands, þá gildir um öll y að ef y er konungur Frakklands þá er y x.
  3. Um öll x gildir að ef x er konungur Frakklands, þá er x sköllóttur.

Eða á táknmáli rökfræðinnar

∃x [(Fx & ∀y (Fy → y=x)) & Gx].

(það er „Til er x þannig að x er F og um öll y gildir, að ef y er F þá er y x, og x er G” þar sem F stendur fyrir „er konungur Frakklands” og G stendur fyrir „er sköllóttur”).

Niðurstaða Russells var sú að setningin „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur” feli í raun í sér fullyrðingu um tilvist („Til er x þannig að x er konungur Frakklands”) og sú fullyrðing er ósönn og þar af leiðandi einnig setningin „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur”. Á sama hátt má sýna að setningin „Núverandi konungur Frakklands er ekki sköllóttur” er líka ósönn.

Hugmyndinni um rökgreiningu fylgdi kenning sem nefnist rökfræðileg eindahyggja eða rökeindahyggja. Kenningin á einkum rætur að rekja til ritgerðar Russells Heimspeki rökeindahyggjunnar sem kom út árið 1918 og Rökfræðilegrar ritgerðar um heimspeki (Tractatus Logico-Philosophicus) eftir austurríska heimspekinginn Ludwig Wittgenstein sem kom út árið 1921. (Nafnið rökeindahyggja er að vísu eldra en Russell hafði notað það til að lýsa heimspeki sinni löngu áður.) Kenningin fól í sér að endanleg niðurstaða rökgreiningar væri rökeind sem samsvaraði einhverjum þætti í staðreynd eða stöðu mála. Russell taldi að rökeindir væru þau tákn sem stæðu fyrir það sem maður gæti einungis þekkt með því að hafa kynni af því, það er sem maður hefði beina reynslu af. En hann taldi einnig (á þessum tímapunkti) að maður gæti ekki haft beina reynslu af hlutum sem slíkum heldur einungis af skynreyndum (e. sense data), til dæmis af því að sjá rautt, því að finna hrjúfa áferð eða finna tiltekna lykt. Hjá Russell voru rökeindirnar því skynreyndir. Wittgenstein greindi aftur á móti ekki nákvæmlega frá því hverjar eindirnar væru í hans kenningu.

Russell og Wittgenstein höfnuðu báðir rökeindahyggjunni um síðir en kenningin hafði eigi að síður talsverð áhrif á hina svonefndu rökfræðilegu raunhyggju. Rökfræðileg raunhyggja var römm vísindahyggja sem haldið var á lofti í Vínarhringnum og Berlínarhringnum. Vínarhringurinn var hópur heimspekinga og heimspekilega þenkjandi vísindamanna sem varð til í Vínarborg í Austurríki seint á þriðja áratug tuttugustu aldar. Helstu hugsuðir Vínarhringsins voru Moritz Schlick, Ernst Mach, Otto Neurath, Herbert Feigl, Friedrich Waismann, Kurt Gödel og Rudolf Carnap. Samsvarandi hópur varð til í Berlín í Þýskalandi um svipað leyti en helstu hugsuðir hans voru Hans Reichenbach, Carl Gustav Hempel, David Hilbert og Richard von Mises. Rökfræðilega raunhyggjan sem þeir héldu fram var annars vegar sú hugmynd að alla þekkingu mætti á endanum rekja til beinnar reynslu og hins vegar að aðferð vísindanna væri rökgreining. Rökfræðilegu raunhyggjumennirnir töldu að hvaðeina sem ekki væri hægt að sannreyna eða leiða út á stærðfræðilegan eða rökfræðilegan máta væri merkingarlaust; þeir töldu til að mynda að öll frumspeki væri merkingarlaus.

Rökfræðileg raunhyggja var skammlíf kenning enda þótt hún hefði haft þó nokkur áhrif á ýmsa heimspekinga beggja megin Atlantshafsins. Um miðja tuttugustu öldina hafði hún meira eða minna sungið sitt síðasta. Um það leyti varð á hinn bóginn til ný tíska í rökgreiningarheimspekinni en það var mannamálsheimspekin svonefnda (e. ordinary language philosophy). Nú var reynt að leysa gátur heimspekinnar með því að beina athyglinni kerfisbundið að hversdagsmálinu nema að í staðinn fyrir rökgreiningu fengust menn nú við málgreiningu (e. linguistic analysis), í stað þess að þýða setningar hversdagsmálsins á mál rökfræðinnar og rýna svo í rökformið reyndu menn að átta sig á öllum blæbrigðum hversdagsmálsins og hvernig það er notað. Þessa stefnubreytingu má rekja að einhverju leyti til Wittgensteins og bókar hans Rannsóknir í heimspeki (þ. Philosophiche Untersuchungen) sem kom út að honum látnum árið 1953. Meðal annarra helstu málsvara mannamálsheimspekinnar voru bresku heimspekingarnir Gilbert Ryle og John L. Austin en Austin var upphafsmaður málgjörðakenningarinnar (e. speech act theory) sem fjallar um athafnir þær sem menn geta framkvæmt með málnotkun sinni. Sú kenning lifir enn í dag en eftir að Austin lést árið 1960 fjaraði mannamálsheimspekin sem slík fljótt út. Áhrif Wittgensteins eru þó enn mikil.

Nú er svo komið að nánast ekkert leifir eftir af þeirri hugmynd að leysa megi flest eða öll vandamál heimspekinnar með einhvers konar greiningu, hvort sem það er rökgreining eða málgreining eða greining af einhverju öðru tagi, þótt rökgreiningarheimspekingar beiti enn ýmiss konar greiningu í heimspeki. Eftir stendur um aldarlöng heimspekihefð sem leggur áherslu á rökfræði, á tungumálið og á skýrleika og sem býr að miklum hugtakaarfi frá fyrri skeiðum rökgreiningarhefðarinnar. Með öðrum orðum er rökgreiningarheimspeki samtímans ekki einhver tiltekin stefna, heldur arfleifð tiltekinnar stefnu sem varð til í upphafi tuttugustu aldar í nánum tengslum við nútímarökfræði.

Meginlandsheimspeki

Enda þótt meginlandsheimspekin hafi ekki einskorðast við meginland Evrópu voru vinsældir hennar þó mestar þar. Margir heimspekingar á meginlandi Evrópu snemma á tuttugustu öld sóttu einkum innblástur til höfunda eins og danska heimspekingsins Sørens Kierkegaard og þýsku heimspekinganna Friedrichs Nietzsche og Franz Brentano sem allir voru upp á sitt besta á síðari hluta nítjándu aldar en rætur meginlandsheimspekinnar má jafnvel rekja lengra aftur eða til þýsku hughyggjunnar en helstu málsvarar hennar voru þeir Johann Gottlob Fichte og Georg Wilhelm Friedrich Hegel. Þá er meginlandshefðin einnig undir ríkari áhrifum frá kenningum Karls Marx og Sigmunds Freud en rökgreiningarhefðin.

Edmund Husserl (1859-1938) var upphafsmaður nútímafyrirbærafræði.

Ein af helstu stefnum meginlandsheimspekinnar var fyrirbærafræðin, sem hugsuðir á borð við þýsku heimspekingana Edmund Husserl og Martin Heidegger héldu á lofti. Fyrirbærafræðin fjallaði að verulegu leyti um mannlega meðvitund og íbyggni, það er að segja þá staðreynd að hugsanir, langanir, vonir, ótti og þvíumlíkt hafi viðfang og beinast einhverju eða eru um eitthvað.

Tilvistarstefnan (eða existentíalisminn), sem fjallaði einkum um mannlega tilvist og veru mannsins í heiminum, er önnur helsta stefnan innan meginlandsheimspekinnar en helstu málsvarar hennar voru þýski heimspekingurinn Karl Jaspers og frönsku heimspekingarnir Jean-Paul Sartre, Albert Camus og Simone de Beauvoir.

Þá ber einnig að nefna póst-strúktúralismann og afbygginguna (e. deconstruction) en meðal helstu hugsuða þeirra stefna voru Roland Barthes, Michel Foucault, Jacques Derrida og Julia Kristeva. Segja má að póst-strúktúralisminn og afbyggingin felist í hnotskurn í gagnrýninni afstöðu til heimspekilegrar orðræðu og heimspekihefðarinnar. Afbyggingarspekingar hafa til dæmis beitt hugtakagreiningu (e. conceptual analysis) og haldið því fram að tilraunir til þess að skilgreina og beita ýmsum grundvallarhugtökum séu sjálfskæðar og grafi undan sjálfum sér.

Að lokum má nefna Frankfurt-skólann svonefnda sem varð til í Frankfurt am Main í Þýskalandi á þriðja áratug tuttugustu aldar. Upphaf skólans var að einhverju leyti viðbragð við raunhyggju samtímans en hugsuðir Frankfurt-skólans reyndu einnig að innleiða allar helstu greinar félagsvísindanna í samfélagsgagnrýni marxismans, sem þeir töldu of þröngt túlkaðan af öðrum marxistum síns tíma. Helstu hugsuðir skólans voru þýsku heimspekingarnir Walter Benjamin, Max Horkheimer, Herbert Marcuse, Theodor Adorno, Erich Fromm og Jürgen Habermas.

Munur á hefðum

Hér að ofan sagði frá því að lítið sem ekkert leifði eftir af upprunalegu hugmyndinni á bak við rökgreiningarheimspekina um að beita rökgreiningu eða annarri greiningu til þess að leysa flest eða öll heimspekileg vandamál, en eftir stæði meðal annars áhersla á tungumálið og á skýrar röksemdafærslur. Þótt stundum hafi meginlandsheimspekingar mátt sæta ásökunum um að vera myrkir í máli á rökgreiningarheimspekin vitaskuld ekki einkarétt á rökstuðningi og skýrleika. Þá eiga meginlandsheimspekin og rökgreiningarheimspekin ýmis viðfangsefni sameiginleg, svo sem tungumálið, meðvitund og íbyggni sem hafa verið vinsæl umfjöllunarefni innan beggja hefða. Í hverju er þá munurinn fólginn?

Í grófum dráttum og með nokkurri einföldun má segja eftirfarandi um muninn á rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki. Meginlandsheimspekin hefur ekki jafn náin tengsl við formlega rökfræði eins og rökgreiningarheimspekin og hefur ekki lagt nærri því jafn mikla áherslu á hana eða orðið fyrir jafn miklum áhrifum frá henni. Hún hefur á hinn bóginn verið mun nátengdari bókmenntum en ýmsir rithöfundar hafa verið undir miklum áhrifum frá kenningum meginlandsheimspekinganna og þar að auki voru sumir af helstu hugsuðum meginlandsheimspekinnar sjálfir höfundar ágætra skáldverka, til dæmis Sartre og Camus. Meginlandsheimspekin hefur ekki heldur sömu taugar til vísindanna eins og rökgreiningarheimspekin, sem hefur stundum verið vísindahyggja, en á hinn bóginn hefur meginlandsheimspekin á stundum verið gagnrýnin á pólitíkina í vísindunum. Og skrif meginlandsheimspekinga hafa stundum verið blandin samfélagsgagnrýni sem er mun sjaldséðari innan rökgreiningarhefðarinnar þar sem meiri vilji er til þess að greina skilmerkilega á milli heimspeki og samfélagsgagnrýni. Munurinn sem orðið hefur er því að einhverju leyti sögulegur þar sem heimspekingar innan hefðanna tveggja draga innblástur sinn frá ólíkum forverum, það er að segja tilvísunarramminn er ekki nákvæmlega sá sami; en að einhverju leyti er munurinn fólginn í stíl heimspekinganna. Eftir sem áður hafa verið til heimspekingar sem hafa brúað bilið en þar má til að mynda nefna bandaríska heimspekinginn Richard Rorty.

Hér hafa einungis verið nefndar nokkrar stefnur og nokkrir heimspekingar innan hvorrar hefðar. Fjölmarga aðra mætti nefna til viðbótar en hér gefst ekki færi á því. Hér að neðan eru ábendingar fyrir lesandann um nokkur mikilvæg rit í rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki sem þýdd hafa verið á íslensku.

Ábendingar um lesefni:
  • Barthes, Roland, „Dauði höfundarins“. Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (þýð.), hjá Garðari Baldvinssyni, Kristínu Birgisdóttur og Kristínu Viðarsdóttur (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar: Frá Shklovskíj til Foucault (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991): 173-180.
  • Derrida, Jacques, „Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna“. Garðar Baldvinsson (þýð.), hjá Garðari Baldvinssyni, Kristínu Birgisdóttur og Kristínu Viðarsdóttur (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar: Frá Shklovskíj til Foucault (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991): 129-152.
  • Foucault, Michel, „Hvað er upplýsing? Hvað er bylting?“. Egill Arnarson (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 141-154.
  • Frege, Gottlob, „Skilningur og merking“. Guðmundur Heiðar Frímannsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 9-29.
  • Habermas, Jürgen, „Heimspekin sem staðgengill og túlkandi“. Davíð Kristinsson (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 221-244.
  • Heidegger, Martin, „Hvað er það, heimspekin?“. Róbert Jack (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 97-116.
  • Jaspers, Karl, „Heimspekin í heiminum“. Geir Sigurðsson (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 83-95.
  • Kristeva, Julia, „Orð, tvíröddun og skáldsaga“. Garðar Baldvinsson (þýð.), hjá Garðari Baldvinssyni, Kristínu Birgisdóttur og Kristínu Viðarsdóttur (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar: Frá Shklovskíj til Foucault (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991): 93-128.
  • Merleau-Ponty, Maurice, „Heimspekingurinn og félagsfræðin“. Björn Þorsteinsson (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 117-140.
  • Quine, Willard Van Orman, „Tvær kreddur raunhyggjumanna“. Þorsteinn Hilmarsson (þýð.), Hugur 3-4 (1990-1991): 30-55.
  • Quine, Willard Van Orman, „Um það sem er“. Árni Finnsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 137-155.
  • Rorty, Richard, „Heimspeki í Ameríku í dag“. Ármann Halldórsson (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 155-180.
  • Russell, Bertrand, „Um tilvísun“. Ólafur Páll Jónsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 31-46.
  • Ryle, Gilbert, „Goðsögn Descartes“. Garðar Ágúst Árnason (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 59-71.
  • Sartre, Jean-Paul, Tilvistarstefnan er mannhyggja. Páll Skúlason (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2007).
  • Tarski, Alfred, „Merkingarfræðilega hugmyndin um sannleikann og undirstöður merkingarfræðinnar“. Ásta Kristjana Sveinsdóttir og Arnór Hannibalsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 73-109.
  • Wittgenstein, Ludwig, Bláa bókin. Þorbergur Þórsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1998).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

6.11.2008

Síðast uppfært

20.6.2018

Spyrjandi

Anna Ingvadóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver er meginmunurinn á rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki?“ Vísindavefurinn, 6. nóvember 2008, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=27645.

Geir Þ. Þórarinsson. (2008, 6. nóvember). Hver er meginmunurinn á rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=27645

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver er meginmunurinn á rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki?“ Vísindavefurinn. 6. nóv. 2008. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=27645>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er meginmunurinn á rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki?
Á tuttugustu öld urðu til tveir meginstraumar í vestrænni heimspeki, rökgreiningarheimspeki annars vegar og svokölluð meginlandsheimspeki hins vegar. Þessi skipting heimspekinnar á sér að vísu miklu lengri forsögu. En hún er einnig svolítið villandi. Munurinn á þessum meginstraumum innan heimspekinnar er ekki fyllilega skýr og auk þess er nafngiftin villandi því að annað nafnið vísar til ákveðinnar aðferðafræði, það er rökgreiningar, en hitt til ákveðins landsvæðis, það er meginlands Evrópu. Samt sem áður voru margir rökgreiningarheimspekingar frá meginlandinu og meginlandsheimspekin einskorðast ekki við meginlandið.

Rökgreiningarheimspeki

Seint á 19. öld og í byrjun 20. aldar varð til nútímarökfræði. Það voru einkum þeir Gottlob Frege, Bertrand Russell og Alfred North Whitehead sem hana skópu. Nýju rökfræðinni fylgdi þó nokkur bjartsýni um framþróun og árangur í heimspeki. Þeir Frege og Russell voru einnig helstu upphafsmenn rökgreiningarheimspekinnar en upphaf hennar tengist tilkomu nútímarökfræði órofa böndum. Rökgreiningarheimspeki (eða analýtísk heimspeki) dregur nafn sitt af rökgreiningu (e. logical analysis). Hugmyndin var sú að þýða mætti venjulegar setningar hversdagsmáls yfir á mál rökfræðinnar og greina síðan rökform setninganna. Þannig mætti leysa ýmis vandamál sem verða til vegna ónákvæmni hversdagsmálsins.

Bertrand Russel var einn af þeim sem skópu nútímarökfræði.

Í ritgerðinni „Um tilvísun” sem birtist árið 1905 fjallaði Russell til að mynda um setninguna „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur”. Frakkland er lýðveldi og það er enginn núverandi konungur Frakklands svo að ekki er setningin sönn; en ef hún er ósönn þá má gera ráð fyrir að setningin „Það er ekki svo að núverandi konungur Frakklands sé sköllóttur” sé sönn. Af þeirri setningu virðist hins vegar sem draga mætti þá ályktun að núverandi konungur Frakklands sé hærður. Hvað er til ráða? Eru setningingarnar ef til vill merkingarlausar? Russell beitti kenningu sinni um ákveðnar lýsingar og þýddi setninguna yfir á mál rökfræðinnar til þess að koma auga á hvar vandinn liggur. Þá fást eftirfarandi yrðingar:

  1. Til er x þannig að x er konungur Frakklands.
  2. Um öll x gildir að ef x er konungur Frakklands, þá gildir um öll y að ef y er konungur Frakklands þá er y x.
  3. Um öll x gildir að ef x er konungur Frakklands, þá er x sköllóttur.

Eða á táknmáli rökfræðinnar

∃x [(Fx & ∀y (Fy → y=x)) & Gx].

(það er „Til er x þannig að x er F og um öll y gildir, að ef y er F þá er y x, og x er G” þar sem F stendur fyrir „er konungur Frakklands” og G stendur fyrir „er sköllóttur”).

Niðurstaða Russells var sú að setningin „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur” feli í raun í sér fullyrðingu um tilvist („Til er x þannig að x er konungur Frakklands”) og sú fullyrðing er ósönn og þar af leiðandi einnig setningin „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur”. Á sama hátt má sýna að setningin „Núverandi konungur Frakklands er ekki sköllóttur” er líka ósönn.

Hugmyndinni um rökgreiningu fylgdi kenning sem nefnist rökfræðileg eindahyggja eða rökeindahyggja. Kenningin á einkum rætur að rekja til ritgerðar Russells Heimspeki rökeindahyggjunnar sem kom út árið 1918 og Rökfræðilegrar ritgerðar um heimspeki (Tractatus Logico-Philosophicus) eftir austurríska heimspekinginn Ludwig Wittgenstein sem kom út árið 1921. (Nafnið rökeindahyggja er að vísu eldra en Russell hafði notað það til að lýsa heimspeki sinni löngu áður.) Kenningin fól í sér að endanleg niðurstaða rökgreiningar væri rökeind sem samsvaraði einhverjum þætti í staðreynd eða stöðu mála. Russell taldi að rökeindir væru þau tákn sem stæðu fyrir það sem maður gæti einungis þekkt með því að hafa kynni af því, það er sem maður hefði beina reynslu af. En hann taldi einnig (á þessum tímapunkti) að maður gæti ekki haft beina reynslu af hlutum sem slíkum heldur einungis af skynreyndum (e. sense data), til dæmis af því að sjá rautt, því að finna hrjúfa áferð eða finna tiltekna lykt. Hjá Russell voru rökeindirnar því skynreyndir. Wittgenstein greindi aftur á móti ekki nákvæmlega frá því hverjar eindirnar væru í hans kenningu.

Russell og Wittgenstein höfnuðu báðir rökeindahyggjunni um síðir en kenningin hafði eigi að síður talsverð áhrif á hina svonefndu rökfræðilegu raunhyggju. Rökfræðileg raunhyggja var römm vísindahyggja sem haldið var á lofti í Vínarhringnum og Berlínarhringnum. Vínarhringurinn var hópur heimspekinga og heimspekilega þenkjandi vísindamanna sem varð til í Vínarborg í Austurríki seint á þriðja áratug tuttugustu aldar. Helstu hugsuðir Vínarhringsins voru Moritz Schlick, Ernst Mach, Otto Neurath, Herbert Feigl, Friedrich Waismann, Kurt Gödel og Rudolf Carnap. Samsvarandi hópur varð til í Berlín í Þýskalandi um svipað leyti en helstu hugsuðir hans voru Hans Reichenbach, Carl Gustav Hempel, David Hilbert og Richard von Mises. Rökfræðilega raunhyggjan sem þeir héldu fram var annars vegar sú hugmynd að alla þekkingu mætti á endanum rekja til beinnar reynslu og hins vegar að aðferð vísindanna væri rökgreining. Rökfræðilegu raunhyggjumennirnir töldu að hvaðeina sem ekki væri hægt að sannreyna eða leiða út á stærðfræðilegan eða rökfræðilegan máta væri merkingarlaust; þeir töldu til að mynda að öll frumspeki væri merkingarlaus.

Rökfræðileg raunhyggja var skammlíf kenning enda þótt hún hefði haft þó nokkur áhrif á ýmsa heimspekinga beggja megin Atlantshafsins. Um miðja tuttugustu öldina hafði hún meira eða minna sungið sitt síðasta. Um það leyti varð á hinn bóginn til ný tíska í rökgreiningarheimspekinni en það var mannamálsheimspekin svonefnda (e. ordinary language philosophy). Nú var reynt að leysa gátur heimspekinnar með því að beina athyglinni kerfisbundið að hversdagsmálinu nema að í staðinn fyrir rökgreiningu fengust menn nú við málgreiningu (e. linguistic analysis), í stað þess að þýða setningar hversdagsmálsins á mál rökfræðinnar og rýna svo í rökformið reyndu menn að átta sig á öllum blæbrigðum hversdagsmálsins og hvernig það er notað. Þessa stefnubreytingu má rekja að einhverju leyti til Wittgensteins og bókar hans Rannsóknir í heimspeki (þ. Philosophiche Untersuchungen) sem kom út að honum látnum árið 1953. Meðal annarra helstu málsvara mannamálsheimspekinnar voru bresku heimspekingarnir Gilbert Ryle og John L. Austin en Austin var upphafsmaður málgjörðakenningarinnar (e. speech act theory) sem fjallar um athafnir þær sem menn geta framkvæmt með málnotkun sinni. Sú kenning lifir enn í dag en eftir að Austin lést árið 1960 fjaraði mannamálsheimspekin sem slík fljótt út. Áhrif Wittgensteins eru þó enn mikil.

Nú er svo komið að nánast ekkert leifir eftir af þeirri hugmynd að leysa megi flest eða öll vandamál heimspekinnar með einhvers konar greiningu, hvort sem það er rökgreining eða málgreining eða greining af einhverju öðru tagi, þótt rökgreiningarheimspekingar beiti enn ýmiss konar greiningu í heimspeki. Eftir stendur um aldarlöng heimspekihefð sem leggur áherslu á rökfræði, á tungumálið og á skýrleika og sem býr að miklum hugtakaarfi frá fyrri skeiðum rökgreiningarhefðarinnar. Með öðrum orðum er rökgreiningarheimspeki samtímans ekki einhver tiltekin stefna, heldur arfleifð tiltekinnar stefnu sem varð til í upphafi tuttugustu aldar í nánum tengslum við nútímarökfræði.

Meginlandsheimspeki

Enda þótt meginlandsheimspekin hafi ekki einskorðast við meginland Evrópu voru vinsældir hennar þó mestar þar. Margir heimspekingar á meginlandi Evrópu snemma á tuttugustu öld sóttu einkum innblástur til höfunda eins og danska heimspekingsins Sørens Kierkegaard og þýsku heimspekinganna Friedrichs Nietzsche og Franz Brentano sem allir voru upp á sitt besta á síðari hluta nítjándu aldar en rætur meginlandsheimspekinnar má jafnvel rekja lengra aftur eða til þýsku hughyggjunnar en helstu málsvarar hennar voru þeir Johann Gottlob Fichte og Georg Wilhelm Friedrich Hegel. Þá er meginlandshefðin einnig undir ríkari áhrifum frá kenningum Karls Marx og Sigmunds Freud en rökgreiningarhefðin.

Edmund Husserl (1859-1938) var upphafsmaður nútímafyrirbærafræði.

Ein af helstu stefnum meginlandsheimspekinnar var fyrirbærafræðin, sem hugsuðir á borð við þýsku heimspekingana Edmund Husserl og Martin Heidegger héldu á lofti. Fyrirbærafræðin fjallaði að verulegu leyti um mannlega meðvitund og íbyggni, það er að segja þá staðreynd að hugsanir, langanir, vonir, ótti og þvíumlíkt hafi viðfang og beinast einhverju eða eru um eitthvað.

Tilvistarstefnan (eða existentíalisminn), sem fjallaði einkum um mannlega tilvist og veru mannsins í heiminum, er önnur helsta stefnan innan meginlandsheimspekinnar en helstu málsvarar hennar voru þýski heimspekingurinn Karl Jaspers og frönsku heimspekingarnir Jean-Paul Sartre, Albert Camus og Simone de Beauvoir.

Þá ber einnig að nefna póst-strúktúralismann og afbygginguna (e. deconstruction) en meðal helstu hugsuða þeirra stefna voru Roland Barthes, Michel Foucault, Jacques Derrida og Julia Kristeva. Segja má að póst-strúktúralisminn og afbyggingin felist í hnotskurn í gagnrýninni afstöðu til heimspekilegrar orðræðu og heimspekihefðarinnar. Afbyggingarspekingar hafa til dæmis beitt hugtakagreiningu (e. conceptual analysis) og haldið því fram að tilraunir til þess að skilgreina og beita ýmsum grundvallarhugtökum séu sjálfskæðar og grafi undan sjálfum sér.

Að lokum má nefna Frankfurt-skólann svonefnda sem varð til í Frankfurt am Main í Þýskalandi á þriðja áratug tuttugustu aldar. Upphaf skólans var að einhverju leyti viðbragð við raunhyggju samtímans en hugsuðir Frankfurt-skólans reyndu einnig að innleiða allar helstu greinar félagsvísindanna í samfélagsgagnrýni marxismans, sem þeir töldu of þröngt túlkaðan af öðrum marxistum síns tíma. Helstu hugsuðir skólans voru þýsku heimspekingarnir Walter Benjamin, Max Horkheimer, Herbert Marcuse, Theodor Adorno, Erich Fromm og Jürgen Habermas.

Munur á hefðum

Hér að ofan sagði frá því að lítið sem ekkert leifði eftir af upprunalegu hugmyndinni á bak við rökgreiningarheimspekina um að beita rökgreiningu eða annarri greiningu til þess að leysa flest eða öll heimspekileg vandamál, en eftir stæði meðal annars áhersla á tungumálið og á skýrar röksemdafærslur. Þótt stundum hafi meginlandsheimspekingar mátt sæta ásökunum um að vera myrkir í máli á rökgreiningarheimspekin vitaskuld ekki einkarétt á rökstuðningi og skýrleika. Þá eiga meginlandsheimspekin og rökgreiningarheimspekin ýmis viðfangsefni sameiginleg, svo sem tungumálið, meðvitund og íbyggni sem hafa verið vinsæl umfjöllunarefni innan beggja hefða. Í hverju er þá munurinn fólginn?

Í grófum dráttum og með nokkurri einföldun má segja eftirfarandi um muninn á rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki. Meginlandsheimspekin hefur ekki jafn náin tengsl við formlega rökfræði eins og rökgreiningarheimspekin og hefur ekki lagt nærri því jafn mikla áherslu á hana eða orðið fyrir jafn miklum áhrifum frá henni. Hún hefur á hinn bóginn verið mun nátengdari bókmenntum en ýmsir rithöfundar hafa verið undir miklum áhrifum frá kenningum meginlandsheimspekinganna og þar að auki voru sumir af helstu hugsuðum meginlandsheimspekinnar sjálfir höfundar ágætra skáldverka, til dæmis Sartre og Camus. Meginlandsheimspekin hefur ekki heldur sömu taugar til vísindanna eins og rökgreiningarheimspekin, sem hefur stundum verið vísindahyggja, en á hinn bóginn hefur meginlandsheimspekin á stundum verið gagnrýnin á pólitíkina í vísindunum. Og skrif meginlandsheimspekinga hafa stundum verið blandin samfélagsgagnrýni sem er mun sjaldséðari innan rökgreiningarhefðarinnar þar sem meiri vilji er til þess að greina skilmerkilega á milli heimspeki og samfélagsgagnrýni. Munurinn sem orðið hefur er því að einhverju leyti sögulegur þar sem heimspekingar innan hefðanna tveggja draga innblástur sinn frá ólíkum forverum, það er að segja tilvísunarramminn er ekki nákvæmlega sá sami; en að einhverju leyti er munurinn fólginn í stíl heimspekinganna. Eftir sem áður hafa verið til heimspekingar sem hafa brúað bilið en þar má til að mynda nefna bandaríska heimspekinginn Richard Rorty.

Hér hafa einungis verið nefndar nokkrar stefnur og nokkrir heimspekingar innan hvorrar hefðar. Fjölmarga aðra mætti nefna til viðbótar en hér gefst ekki færi á því. Hér að neðan eru ábendingar fyrir lesandann um nokkur mikilvæg rit í rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki sem þýdd hafa verið á íslensku.

Ábendingar um lesefni:
  • Barthes, Roland, „Dauði höfundarins“. Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (þýð.), hjá Garðari Baldvinssyni, Kristínu Birgisdóttur og Kristínu Viðarsdóttur (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar: Frá Shklovskíj til Foucault (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991): 173-180.
  • Derrida, Jacques, „Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna“. Garðar Baldvinsson (þýð.), hjá Garðari Baldvinssyni, Kristínu Birgisdóttur og Kristínu Viðarsdóttur (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar: Frá Shklovskíj til Foucault (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991): 129-152.
  • Foucault, Michel, „Hvað er upplýsing? Hvað er bylting?“. Egill Arnarson (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 141-154.
  • Frege, Gottlob, „Skilningur og merking“. Guðmundur Heiðar Frímannsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 9-29.
  • Habermas, Jürgen, „Heimspekin sem staðgengill og túlkandi“. Davíð Kristinsson (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 221-244.
  • Heidegger, Martin, „Hvað er það, heimspekin?“. Róbert Jack (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 97-116.
  • Jaspers, Karl, „Heimspekin í heiminum“. Geir Sigurðsson (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 83-95.
  • Kristeva, Julia, „Orð, tvíröddun og skáldsaga“. Garðar Baldvinsson (þýð.), hjá Garðari Baldvinssyni, Kristínu Birgisdóttur og Kristínu Viðarsdóttur (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar: Frá Shklovskíj til Foucault (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991): 93-128.
  • Merleau-Ponty, Maurice, „Heimspekingurinn og félagsfræðin“. Björn Þorsteinsson (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 117-140.
  • Quine, Willard Van Orman, „Tvær kreddur raunhyggjumanna“. Þorsteinn Hilmarsson (þýð.), Hugur 3-4 (1990-1991): 30-55.
  • Quine, Willard Van Orman, „Um það sem er“. Árni Finnsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 137-155.
  • Rorty, Richard, „Heimspeki í Ameríku í dag“. Ármann Halldórsson (þýð.), hjá Róberti Jack og Ármanni Halldórssyni (ritstj.), Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld (Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2001): 155-180.
  • Russell, Bertrand, „Um tilvísun“. Ólafur Páll Jónsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 31-46.
  • Ryle, Gilbert, „Goðsögn Descartes“. Garðar Ágúst Árnason (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 59-71.
  • Sartre, Jean-Paul, Tilvistarstefnan er mannhyggja. Páll Skúlason (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2007).
  • Tarski, Alfred, „Merkingarfræðilega hugmyndin um sannleikann og undirstöður merkingarfræðinnar“. Ásta Kristjana Sveinsdóttir og Arnór Hannibalsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 73-109.
  • Wittgenstein, Ludwig, Bláa bókin. Þorbergur Þórsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1998).

Mynd:

...