Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Champagne er fornt hérað í norðausturhluta Frakklands. Nafn þess er dregið af latneska orðinu campania sem merkir 'sveit', samanber latneska orðið campus sem í dag er aðallega notað um háskólasvæði. Champagne í Frakklandi ber sama nafn og ítalska héraðið Kampanía sem er í suðvesturhluta Ítalíu, umhverfis Napóli.
Hérað sem nefndist Champagne-Ardenne var stofnað árið 1956. Umráðarsvæði þess samsvaraði nokkurn veginn hinu forna Champagnehéraði. Þann 1. janúar 2016 myndaði Champagne-Ardenne eitt hérað með nágrannahéruðunum Alsace og Lorraine.
Vínræktarsvæði í hinu forna Champagnehéraði. Staðsetning Champagne sést á smærri innfelldu myndinni.
Rómverjar voru fyrstir til að planta vínvið í Champagnehéraði, líklega á 5. öld. Á miðöldum þóttu vín frá héraðinu afar góð. Sagt er að Urban II. páfi, sem uppi var á síðari hluta 11. aldar, hafi lýst því yfir að vín þaðan væri úrval annarra vína. Á síðari hluta miðalda og á endurreisnartímanum áttu páfar og konungar í Evrópu oft vínekrur í Champagne, þeirra á meðal Leó X. páfi, Karl V. Spánarkonungur og Hinrik VIII. Englandskonungur.
Í dag byggir frægð vína frá Champagnehéraði á svonefndu kampavíni sem er yfirleitt talið best allra freyðivína. Samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins og margra annarra landa má eingöngu nota kampavínsheitið um vín sem gerð eru í ákveðnum sveitum í Champagnehéraðinu.
Oftast er talið að franski benediktsmunkurinn Dom Pierre Pérignon (1638-1715) hafi fundið upp, eða fullkomnað, aðferð til að brugga kampavín á síðari hluta 17. aldar. Elsta freyðivínið er hins vegar talið eiga rætur að rekja til reglubræðra hans á fyrri hluta 16. aldar.
Mynd af vínekrum í Champagnehéraði.
Í kampavín eru nær eingöngu notaðar þrjár tegundir vínberja: pinot, meunier og chardonnay.
Kampavín er fyrst látið gerjast í tönkum og seinna stundum í tunnum. Þegar hlé verður á gerjuninni er vínið smakkað og blandað áður en það fer í flöskur. Í flöskunum heldur gerjunin áfram og gersveppir sjá um að breyta sykri í alkóhól og koltvíildi og kolsýra myndast í víninu.
Fyrstu mánuðina eru flöskunum komið þannig fyrir að stúturinn vísar niður undir 45 gráðu horni. Í þeirri stöðu er þeim snúið einn fjórða úr hring með reglulegu millibilli í að minnsta kosti hálft ár. Þá rennur botnfallið sem safnast í „herðar“ flöskunnar smám saman niður í flöskuhálsinn og loðir við tappann. Áður en vínið fer á markað er flöskuhálsinn frystur í fljótandi köfnunarefni (N2). Við það myndast frosinn kögull af víni og botnfalli. Tappinn er síðan losaður af flöskunni og þrýstingurinn á kolsýrunni ýtir kögglinum út. Áður en tappi er aftur settur í flöskurnar er oftast bætt við örlitlum sykri í formi bruggaðs sýróps. Sykurviðbótin ræður því hvort vínið verði þurrt (fr. brut) eða sætt (fr. doux), eða einhvers staðar þar á milli. Kampavín með engum viðbættum sykri er oftast nefnt brut nature. Fyrr á öldum var sykurviðbótin veruleg, líkt og á við um marga gosdrykki nútímans.
Heimildir:
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvernig er kampavín bruggað og hvað getið þið sagt mér um héraðið Champagne?“ Vísindavefurinn, 4. mars 2016, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=51458.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2016, 4. mars). Hvernig er kampavín bruggað og hvað getið þið sagt mér um héraðið Champagne? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=51458
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvernig er kampavín bruggað og hvað getið þið sagt mér um héraðið Champagne?“ Vísindavefurinn. 4. mar. 2016. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=51458>.