Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Alkóhól er í raun samheiti fyrir flokk lífrænna efna. Í daglegu tali er orðið alkóhól þó oftast notað um etanól eða vínanda sem er aðeins eitt þessara efna. Dæmi um önnur alkóhól eru metanól öðru nafni tré- eða iðnaðarspíritus og bútanól eða ísvari.
Notkun alkóhóls hefur fylgt manninum í árþúsundir. Í dag er það eina löglega vímuefnið í okkar heimshluta og neysla þess hluti af eðlilegu lífi margra. Því hefur verið haldið fram að hófleg neysla áfengis sé ekki skaðleg líkamanum og geti jafnvel reynst gagnleg í forvörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Heilbrigðisstarfsfólk er þó fæst tilbúið til að hvetja til áfengisneyslu þar sem alkóhól er ávanabindandi og misnotkun þess algeng og skaðleg.
Notkun alkóhóls veldur bæði andlegum og líkamlegum breytingum hjá þeim sem þess neyta. Hversu mikil áhrifin verða fer til dæmis eftir magni þess sem er innbyrt, stærð og þyngd einstaklingsins, hvort drukkið er á fastandi maga eða ekki, hvort viðkomandi er vanur áfengisneyslu og síðast en ekki síst geta erfðir haft sitt að segja um hversu mikil áhrif áfengi hefur. Ef einstaklingur drekkur sjaldan, í hófi og nærist vel eru litlar líkur á að líkaminn beri skaða af. Ef hins vegar er drukkið mikið og reglubundið fer líkaminn smám saman að gefa sig.
Eins og önnur alkóhól leysist etanól bæði upp í fitu og vatni og dreifist því um allan líkamann eftir neyslu. Etanól er lítil sameind og þarf því ekki að melta það áður en það sogast út í blóðið. Þetta þýðir að strax og byrjað er að neyta áfengis fer það að sogast út í blóðrásina um slímhimnu í munni og vélinda þó í mjög litlum mæli sé. Um 10-20% af því alkóhóli sem neytt er fer út í blóðrásina í maganum en megnið, eða um 80%, sogast í gegnum slímhimnu smáþarmanna. Sé alkóhóls neytt með gosi sogast það hraðar út í blóðið og því berst alkóhólið í freyðivíni hraðar út í blóðrásina en sama magn í léttu víni án goss.
Þolmyndun gagnvart alkóhóli er mjög mikil. Þeir sem drekka oft og mikið verða fyrir mun minni áhrifum en þeir sem drekka sjaldan. Talið er að þetta þol stafi af breytingum á frumuhimnum sem umlykja heilafrumurnar og breytingum á viðbrögðum við boðefnum. Vegna þessara breytinga myndast ekki bara áfengisþol heldur getur líkaminn aðlagast alkóhólinu og orðið háður því þar sem heilinn getur ekki unnið eðlilega nema að hafa áfengi. Þess vegna koma fram fráhvarfseinkenni ef neyslu er skyndilega hætt. Algengasta fráhvarfseinkennið er ofurörvun sem einkennist af skjálfta, kvíða, pirringi, svefnleysi, útvíkkuðum sjáöldrum, svitnun og hröðum hjartslætti. Alvarlegri fráhvarfseinkenni eru krampar, ofskynjanir eða titurvilla (Delerium tremens).
Alkóhól verkar slævandi á taugakerfið og hægir á og truflar starfsemi heila. Ekki eru þó allir hlutar heilans jafnnæmir fyrir áhrifum þess. Litlir alkóhólskammtar duga til að slæva þann heilahluta sem stjórnar hömlum. Þess vegna losnar um hömlur og gerir þessi eiginleiki það að verkum að sumir álíta alkóhól vera örvandi efni. Eftir því sem meira er innbyrt af áfengi slævast fleiri heilastöðvar og þar á meðal þær sem stjórna grundvallar líkamsstarfsemi. Eftir neyslu mjög stórra skammta verður öndunarstöðin fyrir áhrifum og hætta er á öndunarstöðvun og þar með dauða.
Stöðug ofdrykkja getur valdið verulegum skemmdum á taugakerfinu og þá sérstaklega heila. Það getur lýst sér í breytingum á tilfinningaviðbrögðum einstaklingsins, persónuleika hans og viðhorfum, hæfileikinn til að læra nýja hluti getur minnkað og minni hrakað.
Áfengi hefur ekki einungis áhrif á heilann heldur nánast alla líkamshluta. Hér verður stuttlega gerð grein fyrir hver áhrif mikillar drykkju eru á hina ýmsu líkamshluta.
Úttaugakerfið, það er taugarnar sem liggja til og frá heila og mænu, getur orðið fyrir varanlegum skaða af mikilli neyslu áfengis. Helsta einkennið er dofi í útlimum sem síðar getur orðið að tilfinningaleysi og kraftleysi.
Áhrif áfengis á líffæri meltingarkerfisins eru meðal annars að það ertir slímhimnur sem getur leitt til magasára, oft blæðandi. Áfengisdrykkja slakar á vöðvum við efra magaop og getur langvarandi drykkja valdið vélindabakflæði sem leiðir af sér þrálátar bólgur og aukna hættu á krabbameini. Einnig er hætta á briskirtilsbólgu sem getur stundum verið mjög alvarlegur sjúkdómur.
Lifrin er helsta efnavinnslustöð líkamans. Það ætti því ekki að koma á óvart að hún er það líffæri sem oftast verður hvað verst úti af völdum ofdrykkju. Hún sér um að vinna úr allt að 95% af öllu því alkóhóli sem berst út í blóðið og við niðurbrot áfengis myndast mörg efni sem geta ert og skemmt lifrarvefinn. Við drykkju fer lifrin að nýta alkóhól sem orkuefni í stað fitu sem safnast þá upp í lifrarvefnum og leiðir til svokallaðrar fitulifrar. Fitulifur er sjúklegt ástand sem þó gengur til baka ef hætt er að drekka. Ef drykkju er aftur á móti haldið áfram getur fitulifur þróast í alkóhóltengda lifrarbólgu og síðan skorpulifur. Skert lifrarstarfsemi sem fylgir skorpulifur getur leitt til dauða.
Mikil áfengisdrykkja getur leitt til hækkunar blóðþrýstings og aukið hættu á heilablóðföllum. Hjartavöðvinn getur skemmst og við það dregur úr dælustarfsemi hjartans, auk þess sem það stækkar. Mæði kemur fram við litla áreynslu og óreglulegur hjartsláttur er algengur meðal drykkjusjúklinga. Alkóhól veldur því að æðar við yfirborð líkamans víkka út og við það eykst blóðflæði til húðar og veldur hitatilfinningu í fyrstu. En við það að blóð streymi í húðina lækkar líkamshiti og hætta á ofkælingu eykst. Menn hafa orðið úti á hlýjum sumarnóttum vegna þess að alkóhólmagnið í blóðinu var svo mikið og kælingin sömuleiðis.
Áfengi er hitaeiningaríkt orkuefni en í því er lítið af næringarefnum. Óhófleg áfengisneysla dregur oft úr löngun í mat sem leiðir til næringarskorts. Þvagræsandi áhrif alkóhóls eru vel þekkt en með þvaginu tapast gjarnan mikilvæg steinefni.
Húðin verður fyrir truflunum í 30-50% áfengissjúklinga. Stafa þær af beinum áhrifum alkóhóls, lélegu næringarástandi og skertri lifrarstarfsemi. Oft eru æðar í nefi og bringu sjáanlegar vegna þess að þær eru útvíkkaðar að staðaldri. Stundum stækkar neðri hluti nefs og roðnar.
Kynkerfi beggja kynja verður fyrir áhrifum af langvarandi áfengisneyslu. Konur geta sleppt egglosi eða misst úr tíðir. Í körlum getur mikil drykkja leitt þess að eistun rýrna og framleiða minna af testósteróni. Á sama tíma minnkar geta lifrar til að brjóta niður kvenhormón sem er myndað í svolitlu magni í nýrnahettum karla. Afleiðingarnar geta verið stækkuð brjóst, líkamshár minnka eða hverfa og kynhvöt og reisnargeta dvína.
Síðast en ekki síst má nefna að áfengisdrykkja á meðgöngu getur valdið fósturskaða og haft áhrif á þroska hins ófædda barns síðar meir. Alvarlegustu skemmdir sem áfengisneysla á meðgöngu getur haft er svokallað áfengisheilkenni (Fetal Alcohol Syndrome) en þar fer saman minnkaður vöxtur, lítill heili, gat milli gátta hjartans, stutt augnrifa og vanþróaðir kjálkar.
Hér hefur verið stiklað á stóru en af þessari upptalningu allri er ljóst að ofnotkun alkóhóls getur haft margvísleg og alvarleg áhrif á líkamann. Hægt er að nálgast upplýsingar um áhrif áfengis á ýmsum stöðum og út frá mismunandi sjónarhornum. Á heimasíðu SÁÁ er til dæmis að finna ítarlega samantekt á áhrifum óhóflegrar áfengisdrykkju á líkamann. Á Doktor.is er ýmiss konar fræðsluefni um áfengi og þar á meðal grein frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands sem fjallar um áfengi og íþróttir.
Á Vísindavefnum eru nokkur svör sem fjalla um áfengi á einn eða annan hátt og í þessu samhengi má sérstaklega benda á svar Björns Sigurðar Gunnarssonar við spurningunni Er áfengi fitandi eða er það lífsstíllinn sem fylgir mikill neyslu sem hefur áhrif á líkamsvöxtinn?
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvaða áhrif hefur alkóhól á heila og líkama?“ Vísindavefurinn, 9. apríl 2002, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2280.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2002, 9. apríl). Hvaða áhrif hefur alkóhól á heila og líkama? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2280
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvaða áhrif hefur alkóhól á heila og líkama?“ Vísindavefurinn. 9. apr. 2002. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2280>.