Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Jacques Derrida og hvert var framlag hans til heimspekinnar?

Björn Þorsteinsson

Um franska heimspekinginn Jacques Derrida (1930-2004) er óhætt að fullyrða að hann hafi verið býsna umdeild persóna sem öðru fremur helgaði sig linnulausri gagnrýni á hvers kyns ríkjandi valdhafa og kennivald. Enda þótt menntun hans hafi að mörgu leyti verið dæmigerð fyrir franska heimspekinga var samband hans við heimspekina sem stofnun, í heimalandi hans jafnt sem erlendis, alla tíð einkar stormasamt. Það kom hvað skýrast fram árið 1992, þegar sú ákvörðun yfirstjórnar Cambridge-háskóla að veita honum heiðursdoktorsnafnbót varð ýmsum „virðulegri“ kollegum hans tilefni til að reka upp mikið ramakvein og mótmæla því að þessi svarti sauður fengi þennan mikla heiður. Allt kom þó fyrir ekki, og Derrida hlaut nafnbótina.

Jacques Derrida (1930-2004).

Derrida fæddist 15. júlí 1930 í Alsír. Foreldrar hans voru frönskumælandi gyðingar af ættmeiði sefarda, það er gyðinga sem hröktust frá Spáni og Portúgal á 15. og 16. öld. Derrida ólst upp í úthverfi Algeirsborgar og gekk þar í skóla. Eftir að Þjóðverjar hernámu Frakkland og leppstjórn þeirra, Vichy-stjórnin svonefnda, tók við völdum, voru gyðingabörn gerð burtræk úr skólakerfinu í Alsír og Derrida var þar ekki undanskilinn. Þessi bitra reynsla reyndist hinum unga sveini þungbær og átti sjálfsagt sinn þátt í því að hann hélt fyrir tvítugt yfir Miðjarðarhafið, staðráðinn í að brjóta sér leið inn í raðir franskra menntamanna. Árið 1952 náði Derrida (í þriðju tilraun) inntökuprófi í hinn rómaða École Normale Supérieure í París og fylgdi þannig í fótspor Jean-Pauls Sartre, Simone de Beauvoir og Maurice Merleau-Ponty, svo fáein stórmenni séu nefnd.

Í náminu kynntist Derrida ýmsum upprennandi fræðimönnum sem áttu eftir að setja svip sinn á heimspeki og hugvísindi 20. aldar: Deleuze, Foucault, Althusser, Lyotard, Bourdieu og Barthes. Derrida vann náið með Althusser og síðar með Jean Hyppolite, þeim merka sérfræðingi í heimspeki Hegels. Árið 1959 hélt Derrida sinn fyrsta opinbera fyrirlestur og fjallaði þar um hugtökin tilurð og formgerð í fyrirbærafræði Husserls.1 Fyrstu textarnir sem Derrida sendi frá sér á prenti fjölluðu einnig margir hverjir um arfleifð og endursköpun fyrirbærafræðinnar. Árið 1967 kvaddi Derrida sér svo hljóðs á ritvellinum svo um munaði, og sendi frá sér þrjár bækur: Röddin og fyrirbærið (La voix et le phénomène), Um ritunarfræði (De la grammatologie) og Skrif og mismunur (L’écriture et la différence).2 Þessi þrjú verk lögðu grunninn að ævistarfi hans innan fræðanna.

Eftir 1970 sneri Derrida sér í auknum mæli að skrifum sem beindust að bókmenntum, fagurfræði og sálgreiningu eins og sjá má á verkum á borð við Sannleikurinn í málverkinu (La vérité en peinture, 1978), Póstkortið (La carte postale, 1980) og Minningar hinna blindu (Mémoirs de l’aveugle, 1990), en hann sendi einnig frá sér fjölda bóka sem tókust á við heimspekihefðina í víðum skilningi (Platon, Hegel, Nietzsche, Heidegger, Austin, Searle og fleiri), til dæmis: Sundurdreifing (La disséminaton, 1972), Spássíur – í heimspeki (Marges – de la philosophie, 1972), Glymur (Glas, 1974), Sporar: Stílar Nietzsches (Éperons: Les styles de Nietzsche, 1978) Um andann (De l’esprit, 1987) og Limited Inc. (1990).3 Meðan á þessu stóð óx vegur Derrida utan Frakklands hröðum skrefum, ekki síst vestanhafs, með þeim afleiðingum að upp spratt nýr skóli í akademískri fræðaiðkun sem leit á Derrida sem upphafsmann sinn og kenndi sig við eitt af lykilhugtökum hans, afbyggingu (fr. déconstruction). Derrida átti alla tíð erfitt með að gangast við þessu meinta afkvæmi sínu og beindi á köflum nokkrum umvöndunartóni að „afbyggingarsinnum“. Þessi innri endurskoðun Derrida sjálfs á afleggjurum höfundarverks síns leiddi til þess, á 10. áratugnum, að hann sneri sér æ meir að siðferðilegum og pólitískum hugðarefnum og freistaði þess að tengja hugsun sína við hugsjónir eins og réttlæti og lýðræði í bókum á borð við Vofur Marx (Spectres de Marx, 1993), Gildi laga (Force de loi, 1994), Stjórnmál vináttunnar (Politiques de l’amitié, 1994) og Villingar (Voyous, 2003).4 Sama ár og síðasttalda bókin kom út greindist Derrida með krabbamein í brisi og hann lést ári síðar, 9. október 2004.

En um hvað snýst þá hugsun Derrida nánar tiltekið? Eitt mikilvægasta hugtakið sem hann mótaði nefnist la différance, og hefur verið kallað skilafrestur á íslensku. Það vísar í senn til flæðis tímans, framleiðslu mismunar og uppsprettu ólíkra túlkana. Derrida uppgötvaði différance í gagnrýninni túlkun sinni á fyrirbærafræði Husserls og táknfræði Saussures, og segja má að différance sé það sem veldur því að viðleitninni til að festa hendur á veruleikanum í skynjun, tungumáli eða táknkerfum sé aldrei að fullu lokið. Différance er nafnið á samspili nærveru og fjarveru, hins augljósa og hins dulda; différance er sú víxlverkun tíma og rúms sem veldur því að tíminn heldur áfram að líða og rúmið heldur áfram að mótast og breytast.

Á grundvelli þessa hugtaks mótaði Derrida hugsun sem kennd var við afbyggingu. Afbyggingin einkennist af og nærist á ákveðinni tvöfeldni, enda er hún í ákveðnum skilningi sú framvinda veruleikans, og kortlagning hans, sem skín í gegnum hugtakið um différance. Derrida streittist mjög gegn þeirri kröfu, sem til hans var gerð, að skilgreina afbygginguna í eitt skipti fyrir öll. Afbyggingin verður ekki ákvörðuð; henni er ætlað að hefjast alltaf upp að nýju, við nýjar aðstæður, á nýjum tíma og stað – á allsendis ófyrirsjáanlegan hátt, og í takt við hið óvænta. Í raun kemur afbyggingin ekki utan frá, hún er ekki lesin inn í samhengi hlutanna, heldur er hún að verki í hlutunum sjálfum. Veruleikanum vindur fram; eða, með orðalagi í anda Derrida, veruleikinn er eitt stórt samhengi, eða texti, þar sem eitt tengist öðru og er í stöðugri verðandi: veruleikinn skrifar (sig).

Derrida stóð í margflóknu sambandi við þýska heimspekinginn Hegel.

Í skrifum sínum lagði Derrida sig í framkróka við að gagnrýna hefðbundna og kreddubundna frumspekilega hugsun. Samband hans við fyrri tíma heimspekinga var þó engan veginn einrætt, til dæmis stóð hann í margflóknu sambandi við mesta kerfishugsuð heimspekisögunnar, þýska heimspekinginn G.W.F. Hegel. Þannig má lengi velta því fyrir sér hver munurinn sé á différance Derrida og upphafningu (þý. Aufhebung) Hegels – en jafnframt er deginum ljósara að Derrida sjálfur gerði sér grein fyrir þeirri nálægð sem þarna er í húfi. Í einni merkustu bók sinni, Glas (1974), tekst Derrida á við Hegel og teflir honum fram á móti franska skáldinu og tugthúslimnum Jean Genet. Þannig er ætlunin að sýna, á allt að því leikrænan hátt, hvernig kerfi Hegels getur falið í sér útilokun og einföldun á veruleikanum sem kerfinu er þó ætlað að gera tæmandi og hæfileg skil.

Eins og áður var nefnt sneri Derrida við blaðinu um það leyti sem Berlínarmúrinn féll og tók af öll tvímæli um að verk hans bæri að skoða sem viðleitni til að móta pólitíska hugsun sem leitast við að svara kalli tiltekinnar hugmyndar um réttlæti. Afbyggingin er réttlætið, segir Derrida á einum stað. Þetta réttlætishugtak á að vísu sífellt á hættu að umhverfast yfir í andstæðu sína, hið versta óréttlæti. Réttlætið útheimtir skilyrðislausa gestrisni gagnvart hverju því sem er í vændum; ella koðnar samband okkar við hið ókomna niður í huglausa og andlausa málsvörn þess sem er, með tilheyrandi blindu á óréttlætið sem þrífst við dyrastafinn. Hugsun Jacques Derrida kveður já við hinu ókunna.5

Tilvísanir:

1 Fyrirlestur þessi er til á íslensku: Jacques Derrida, „„Tilurð og formgerð“ og fyrirbærafræðin“, Egill Arnarson þýddi, Hugur 17 (2005), bls. 148-166. Sbr. einnig Björn Þorsteinsson, „Messías á Íslandi: Inngangur að þema“, Hugur – tímarit um heimspeki 17 (2005), s. 108–117.

2 Tvær greinar úr síðasttöldu bókinni hafa komið út á íslensku: Jacques Derrida, „Cogito og saga sturlunar“, Ólöf Pétursdóttir þýddi, í Matthías Viðar Sæmundsson (ritstj.), Útisetur: Samband geðlækninga, bókmennta og siðmenningar, Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1998; og Jacques Derrida, „Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna“, Garðar Baldvinsson þýddi, í Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar: Frá Shklovskíj til Foucault, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991.

3 Ein þessara bóka hefur komið út á íslensku: Jacques Derrida, Sporar. Stílar Nietzsches, Garðar Baldvinsson þýddi, Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 2003.

4 Um Vofur Marx sjá Björn Þorsteinsson, „Endalok sögunnar og framtíð lýðræðisins“, Skírnir 176 (vor 2002), s. 175-188; um Villinga sjá sama höfund, „Villingurinn og lýðræðið: Um Voyous eftir Jacques Derrida“, Hugur – tímarit um heimspeki 15 (2003), s. 225-239.

5 Um þetta sjá „Vofa gengur nú ljósum logum um heiminn – Vofa Marx!“, viðtal við Jacques Derrida, þýð. Friðrik Rafnsson og Torfi H. Tulinius, Heimspekivefurinn, 11. febrúar 2005, https://heimspeki.hi.is/?page_id=546 (skoðað 22. nóvember 2011); og Björn Þorsteinsson, „Samhengið í hugsun Jacques Derrida“, Heimspekivefurinn, 8. nóvember 2004, https://heimspeki.hi.is/?page_id=532 (skoðað 22. nóvember 2011).

Myndir:

Höfundur

Björn Þorsteinsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

23.11.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Björn Þorsteinsson. „Hver var Jacques Derrida og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 23. nóvember 2011, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61310.

Björn Þorsteinsson. (2011, 23. nóvember). Hver var Jacques Derrida og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61310

Björn Þorsteinsson. „Hver var Jacques Derrida og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 23. nóv. 2011. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61310>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Jacques Derrida og hvert var framlag hans til heimspekinnar?
Um franska heimspekinginn Jacques Derrida (1930-2004) er óhætt að fullyrða að hann hafi verið býsna umdeild persóna sem öðru fremur helgaði sig linnulausri gagnrýni á hvers kyns ríkjandi valdhafa og kennivald. Enda þótt menntun hans hafi að mörgu leyti verið dæmigerð fyrir franska heimspekinga var samband hans við heimspekina sem stofnun, í heimalandi hans jafnt sem erlendis, alla tíð einkar stormasamt. Það kom hvað skýrast fram árið 1992, þegar sú ákvörðun yfirstjórnar Cambridge-háskóla að veita honum heiðursdoktorsnafnbót varð ýmsum „virðulegri“ kollegum hans tilefni til að reka upp mikið ramakvein og mótmæla því að þessi svarti sauður fengi þennan mikla heiður. Allt kom þó fyrir ekki, og Derrida hlaut nafnbótina.

Jacques Derrida (1930-2004).

Derrida fæddist 15. júlí 1930 í Alsír. Foreldrar hans voru frönskumælandi gyðingar af ættmeiði sefarda, það er gyðinga sem hröktust frá Spáni og Portúgal á 15. og 16. öld. Derrida ólst upp í úthverfi Algeirsborgar og gekk þar í skóla. Eftir að Þjóðverjar hernámu Frakkland og leppstjórn þeirra, Vichy-stjórnin svonefnda, tók við völdum, voru gyðingabörn gerð burtræk úr skólakerfinu í Alsír og Derrida var þar ekki undanskilinn. Þessi bitra reynsla reyndist hinum unga sveini þungbær og átti sjálfsagt sinn þátt í því að hann hélt fyrir tvítugt yfir Miðjarðarhafið, staðráðinn í að brjóta sér leið inn í raðir franskra menntamanna. Árið 1952 náði Derrida (í þriðju tilraun) inntökuprófi í hinn rómaða École Normale Supérieure í París og fylgdi þannig í fótspor Jean-Pauls Sartre, Simone de Beauvoir og Maurice Merleau-Ponty, svo fáein stórmenni séu nefnd.

Í náminu kynntist Derrida ýmsum upprennandi fræðimönnum sem áttu eftir að setja svip sinn á heimspeki og hugvísindi 20. aldar: Deleuze, Foucault, Althusser, Lyotard, Bourdieu og Barthes. Derrida vann náið með Althusser og síðar með Jean Hyppolite, þeim merka sérfræðingi í heimspeki Hegels. Árið 1959 hélt Derrida sinn fyrsta opinbera fyrirlestur og fjallaði þar um hugtökin tilurð og formgerð í fyrirbærafræði Husserls.1 Fyrstu textarnir sem Derrida sendi frá sér á prenti fjölluðu einnig margir hverjir um arfleifð og endursköpun fyrirbærafræðinnar. Árið 1967 kvaddi Derrida sér svo hljóðs á ritvellinum svo um munaði, og sendi frá sér þrjár bækur: Röddin og fyrirbærið (La voix et le phénomène), Um ritunarfræði (De la grammatologie) og Skrif og mismunur (L’écriture et la différence).2 Þessi þrjú verk lögðu grunninn að ævistarfi hans innan fræðanna.

Eftir 1970 sneri Derrida sér í auknum mæli að skrifum sem beindust að bókmenntum, fagurfræði og sálgreiningu eins og sjá má á verkum á borð við Sannleikurinn í málverkinu (La vérité en peinture, 1978), Póstkortið (La carte postale, 1980) og Minningar hinna blindu (Mémoirs de l’aveugle, 1990), en hann sendi einnig frá sér fjölda bóka sem tókust á við heimspekihefðina í víðum skilningi (Platon, Hegel, Nietzsche, Heidegger, Austin, Searle og fleiri), til dæmis: Sundurdreifing (La disséminaton, 1972), Spássíur – í heimspeki (Marges – de la philosophie, 1972), Glymur (Glas, 1974), Sporar: Stílar Nietzsches (Éperons: Les styles de Nietzsche, 1978) Um andann (De l’esprit, 1987) og Limited Inc. (1990).3 Meðan á þessu stóð óx vegur Derrida utan Frakklands hröðum skrefum, ekki síst vestanhafs, með þeim afleiðingum að upp spratt nýr skóli í akademískri fræðaiðkun sem leit á Derrida sem upphafsmann sinn og kenndi sig við eitt af lykilhugtökum hans, afbyggingu (fr. déconstruction). Derrida átti alla tíð erfitt með að gangast við þessu meinta afkvæmi sínu og beindi á köflum nokkrum umvöndunartóni að „afbyggingarsinnum“. Þessi innri endurskoðun Derrida sjálfs á afleggjurum höfundarverks síns leiddi til þess, á 10. áratugnum, að hann sneri sér æ meir að siðferðilegum og pólitískum hugðarefnum og freistaði þess að tengja hugsun sína við hugsjónir eins og réttlæti og lýðræði í bókum á borð við Vofur Marx (Spectres de Marx, 1993), Gildi laga (Force de loi, 1994), Stjórnmál vináttunnar (Politiques de l’amitié, 1994) og Villingar (Voyous, 2003).4 Sama ár og síðasttalda bókin kom út greindist Derrida með krabbamein í brisi og hann lést ári síðar, 9. október 2004.

En um hvað snýst þá hugsun Derrida nánar tiltekið? Eitt mikilvægasta hugtakið sem hann mótaði nefnist la différance, og hefur verið kallað skilafrestur á íslensku. Það vísar í senn til flæðis tímans, framleiðslu mismunar og uppsprettu ólíkra túlkana. Derrida uppgötvaði différance í gagnrýninni túlkun sinni á fyrirbærafræði Husserls og táknfræði Saussures, og segja má að différance sé það sem veldur því að viðleitninni til að festa hendur á veruleikanum í skynjun, tungumáli eða táknkerfum sé aldrei að fullu lokið. Différance er nafnið á samspili nærveru og fjarveru, hins augljósa og hins dulda; différance er sú víxlverkun tíma og rúms sem veldur því að tíminn heldur áfram að líða og rúmið heldur áfram að mótast og breytast.

Á grundvelli þessa hugtaks mótaði Derrida hugsun sem kennd var við afbyggingu. Afbyggingin einkennist af og nærist á ákveðinni tvöfeldni, enda er hún í ákveðnum skilningi sú framvinda veruleikans, og kortlagning hans, sem skín í gegnum hugtakið um différance. Derrida streittist mjög gegn þeirri kröfu, sem til hans var gerð, að skilgreina afbygginguna í eitt skipti fyrir öll. Afbyggingin verður ekki ákvörðuð; henni er ætlað að hefjast alltaf upp að nýju, við nýjar aðstæður, á nýjum tíma og stað – á allsendis ófyrirsjáanlegan hátt, og í takt við hið óvænta. Í raun kemur afbyggingin ekki utan frá, hún er ekki lesin inn í samhengi hlutanna, heldur er hún að verki í hlutunum sjálfum. Veruleikanum vindur fram; eða, með orðalagi í anda Derrida, veruleikinn er eitt stórt samhengi, eða texti, þar sem eitt tengist öðru og er í stöðugri verðandi: veruleikinn skrifar (sig).

Derrida stóð í margflóknu sambandi við þýska heimspekinginn Hegel.

Í skrifum sínum lagði Derrida sig í framkróka við að gagnrýna hefðbundna og kreddubundna frumspekilega hugsun. Samband hans við fyrri tíma heimspekinga var þó engan veginn einrætt, til dæmis stóð hann í margflóknu sambandi við mesta kerfishugsuð heimspekisögunnar, þýska heimspekinginn G.W.F. Hegel. Þannig má lengi velta því fyrir sér hver munurinn sé á différance Derrida og upphafningu (þý. Aufhebung) Hegels – en jafnframt er deginum ljósara að Derrida sjálfur gerði sér grein fyrir þeirri nálægð sem þarna er í húfi. Í einni merkustu bók sinni, Glas (1974), tekst Derrida á við Hegel og teflir honum fram á móti franska skáldinu og tugthúslimnum Jean Genet. Þannig er ætlunin að sýna, á allt að því leikrænan hátt, hvernig kerfi Hegels getur falið í sér útilokun og einföldun á veruleikanum sem kerfinu er þó ætlað að gera tæmandi og hæfileg skil.

Eins og áður var nefnt sneri Derrida við blaðinu um það leyti sem Berlínarmúrinn féll og tók af öll tvímæli um að verk hans bæri að skoða sem viðleitni til að móta pólitíska hugsun sem leitast við að svara kalli tiltekinnar hugmyndar um réttlæti. Afbyggingin er réttlætið, segir Derrida á einum stað. Þetta réttlætishugtak á að vísu sífellt á hættu að umhverfast yfir í andstæðu sína, hið versta óréttlæti. Réttlætið útheimtir skilyrðislausa gestrisni gagnvart hverju því sem er í vændum; ella koðnar samband okkar við hið ókomna niður í huglausa og andlausa málsvörn þess sem er, með tilheyrandi blindu á óréttlætið sem þrífst við dyrastafinn. Hugsun Jacques Derrida kveður já við hinu ókunna.5

Tilvísanir:

1 Fyrirlestur þessi er til á íslensku: Jacques Derrida, „„Tilurð og formgerð“ og fyrirbærafræðin“, Egill Arnarson þýddi, Hugur 17 (2005), bls. 148-166. Sbr. einnig Björn Þorsteinsson, „Messías á Íslandi: Inngangur að þema“, Hugur – tímarit um heimspeki 17 (2005), s. 108–117.

2 Tvær greinar úr síðasttöldu bókinni hafa komið út á íslensku: Jacques Derrida, „Cogito og saga sturlunar“, Ólöf Pétursdóttir þýddi, í Matthías Viðar Sæmundsson (ritstj.), Útisetur: Samband geðlækninga, bókmennta og siðmenningar, Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1998; og Jacques Derrida, „Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna“, Garðar Baldvinsson þýddi, í Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar: Frá Shklovskíj til Foucault, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991.

3 Ein þessara bóka hefur komið út á íslensku: Jacques Derrida, Sporar. Stílar Nietzsches, Garðar Baldvinsson þýddi, Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 2003.

4 Um Vofur Marx sjá Björn Þorsteinsson, „Endalok sögunnar og framtíð lýðræðisins“, Skírnir 176 (vor 2002), s. 175-188; um Villinga sjá sama höfund, „Villingurinn og lýðræðið: Um Voyous eftir Jacques Derrida“, Hugur – tímarit um heimspeki 15 (2003), s. 225-239.

5 Um þetta sjá „Vofa gengur nú ljósum logum um heiminn – Vofa Marx!“, viðtal við Jacques Derrida, þýð. Friðrik Rafnsson og Torfi H. Tulinius, Heimspekivefurinn, 11. febrúar 2005, https://heimspeki.hi.is/?page_id=546 (skoðað 22. nóvember 2011); og Björn Þorsteinsson, „Samhengið í hugsun Jacques Derrida“, Heimspekivefurinn, 8. nóvember 2004, https://heimspeki.hi.is/?page_id=532 (skoðað 22. nóvember 2011).

Myndir:...