Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér er einnig að finna svar við spurningu Móeiðar:
Er hægt að halda íslenskum ríkisborgararétti þótt maður búi í útlöndum að staðaldri?
Það fer eftir löggjöf hvers ríkis hverjir eiga rétt á ríkisborgararétti í landinu. Í megindráttum er byggt á tveimur reglum við veitingu ríkisborgararéttar, annars vegar "jus solis"-reglunni, sem lýtur að því að hver sá sem fæðist í landinu er ríkisborgari þess, og hins vegar "jus sanguinis"-reglunni, sem lýtur að blóðtengslum, það er að barn fær sama ríkisborgararétt og foreldrar þess. Auk þessara tveggja meginaðferða þá setja ríki sér fleiri reglur um það hvernig hægt sé að öðlast ríkisborgararétt. Á Íslandi eru í gildi lög um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952 og geyma þau reglur um það hverjir geti fengið íslenskan ríkisborgararétt. Í 6. gr. segir að Alþingi veiti ríkisborgararétt með lögum og í 5. gr. a) koma fram þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að öðlast hann; það eru skilyrði um búsetu, hegðun og framfærslu.
Að sama skapi fer það eftir löggjöf hvers ríkis hvort það heimili tvöfaldan ríkisborgararétt. Á Íslandi er tvöfaldur ríkisborgararéttur leyfður. Þegar útlendingi er veittur íslenskur ríkisborgararéttur með lögum frá Alþingi þá er ekki gerð krafa um að hann afsali sér fyrri ríkisborgararétti sínum. Hins vegar getur verið að lög ríkisins sem útlendingurinn átti ríkisborgararétt í, kveði á um að ríkisborgararéttur hans þar falli niður ef hann fær ríkisborgararétt í öðru landi. Til dæmis er það svo í Danmörku og Noregi. Árið 2003 var gerð sú breyting á lögum nr. 100/1952 um íslenskan ríkisborgararétt að íslenskum ríkisborgurum er heimilt að halda íslenska ríkisfangi sínu, þótt þeir sæki um ríkisborgararétt í öðru ríki.
Þegar fólk er með tvöfaldan ríkisborgararétt nýtur það fullra ríkisborgararéttinda í hvoru landi. En helstu réttindi sem fylgja með ríkisborgararéttindum eru:
Landvistarréttur
Aðstoð og vernd frá ríkinu
Kosningaréttur og kjörgengi
Embættisgengi
Framfærslu- og bótaréttur
Atvinnuréttindi
Helstu skyldur sem fylgja með ríkisborgararéttindum eru:
Hlýðni og hollusta
Skylda til að gegna sumum opinberum störfum
Í lögum um íslenskan ríkisborgarrétt kemur fram hvernig menn geta misst íslenskan ríkisborgararétt. Í 8. gr. segir að íslenskur ríkisborgari, sem fæddur er erlendis og hefur aldrei átt lögheimili á Íslandi, missir íslenska ríkisfangið þegar hann verður 22 ára. Hann getur hins vegar haldið því ef hann sækir um það innan þess tíma. Í 9. gr. laganna er fjallað um lausn frá íslensku ríkisfangi. Þar segir að dómsmálaráðherra geti leyst mann undan íslensku ríkisfangi, óski hann eftir því, enda sanni hann að hann verði brátt erlendur ríkisborgari. Í 2. mgr. 1. gr. telst barn sem finnst hér á landi vera íslenskur ríkisborgari þangað til annað kemur í ljós.
Það að búa í útlöndum að staðaldri leiðir því ekki til missis íslensks ríkisborgararéttar, nema þá að 8. gr. eigi við um tilvikið.
Helga Hafliðadóttir. „Hvernig virkar tvöfaldur ríkisborgararéttur og hverjir geta fengið hann?“ Vísindavefurinn, 16. maí 2006, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5933.
Helga Hafliðadóttir. (2006, 16. maí). Hvernig virkar tvöfaldur ríkisborgararéttur og hverjir geta fengið hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5933
Helga Hafliðadóttir. „Hvernig virkar tvöfaldur ríkisborgararéttur og hverjir geta fengið hann?“ Vísindavefurinn. 16. maí. 2006. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5933>.