Margir hafa eflaust lent í því að snerta rafmagnsgirðingu og fá straum. Þar sem manneskjan sem snerti rafmagnsgirðinguna stóð á jörðinni leitaði rafstraumurinn í gegnum hana. En sitji fugl á rafmagnslínu snertir hann ekki jörðina og þar með heldur rafstraumurinn áfram í gegnum háspennulínuna í stað þess að fara um fuglinn. Eins og áður segir leitar rafstraumurinn niður í jörð og fer þess vegna ekki um fuglinn sem ekki snertir jörðina.
Háspennulínur þurfa að vera hátt yfir jörðinni svo ekkert sem snertir jörð komi við þær. Stórir fuglar geta fengið rafstraum í sig snerti til dæmis vængir þeirra tvær rafmagnslínur en við það leiðir straumur á milli línanna. Straumurinn fer þá vitanlega í gegnum fuglinn sem mun að öllum líkindum drepast.
Hér að neðan má sjá skemmtilegt myndband úr breska þættinum Brainiac (ísl. Gáfnaljós). Þar er sýnt hvernig rafmagnsgirðingar virka, hvernig straumur getur farið í gegnum aðila sem haldast í hendur og einnig hvernig koma má í veg fyrir að fá straum með því að nota einangrandi efni. Vísindavefurinn mælir þó eindregið gegn því að þessi tilraun sé endurtekin!
Frekara lesefni, heimild og mynd á Vísindavefnum:- Hvers vegna geta fuglar setið á háspennuvír án þess að fá raflost? eftir Hildi Guðmundsdóttur
- Hvers vegna fær maður straum þegar maður fer út úr bíl í frosti og hvernig kemur maður í veg fyrir það? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Ögmund Jónsson
- Hvernig drepur rafstraumur lifandi vef? eftir Gunnlaug Geirsson
- Hvernig skaða eldingar líkamann og hvernig má reyna að minnka þann skaða? eftir Hrannar Baldursson, Tryggva Þorgeirsson og Þorstein Vilhjálmsson
- YouTube: Brainiac - Electric Fence. Sótt 12.4.2011.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.