Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvert var helsta hlutverk klaustra á miðöldum?

Inga Huld Hákonardóttir

Hér verður aðallega fjallað um nunnuklaustrin tvö á Íslandi: Kirkjubæjarklaustur og Reynistaðarklaustur.

Frá því snemma á miðöldum voru klaustur helstu menningarstofnanir í Vestur-Evrópu. Þau geymdu og ávöxtuðu arf frá tímum Grikkja og Rómverja sem fléttaðist svo saman við kristnar kenningar. Sögur af helgum mönnum og meyjum, sem í frumkristni höfðu látið lífið fyrir trú sína, voru með því fyrsta sem þýtt var á íslenska tungu.

Klaustrin á miðöldum voru í senn trúarleg og veraldleg. Abbadísir voru í hávegum hafðar sem andlegir leiðtogar og voru ábyrgar fyrir helgihaldi og góðum siðum hver í sínu klaustri. Jafnframt réðu klaustrin yfir miklum eignum, einkum jörðum sem leigðar voru út, og höfðu stóran hóp starfsfólks.


Klaustur á miðöldum gegndu bæði trúarlegu og veraldlegu hlutverki.

Sjö sinnum á sólarhring voru sungnar helgar tíðir, sú fyrsta klukkan þrjú að nóttu og sú sjöunda, náttsöngurinn, klukkan níu að kvöldi, og tíðkaðist það einnig í munkaklaustrum, sömuleiðis bænagerðir. Hver regla gat þó haft sín afbrigði. Oft voru sögur helgra manna og meyja lesnar upphátt á matmálstímum. Abbadísirnar höfðu umsjón með námi verðandi nunna, leiðbeindu þeim og veittu þeim áminningu ef með þurfti. Þær fengu samt ekki prestvígslu, máttu ekki flytja messur né vinna önnur preststörf.

Af máldögum eða skrám yfir innbú klaustra má sjá að myndir eða líkneski af Maríu mey, heilagri Katrínu af Alexandríu sem var verndari fræða, Þorláki biskupi og fleiri dýrlingum voru í báðum nunnuklaustrunum. Þau áttu líka mikið af sálmabókum og alls konar öðrum kristilegum ritum. Ítarlegasti máldaginn var gerður í Kirkjubæjarklaustri árið 1397 að undirlagi Vilkins biskups í Skálholti. Af honum má sjá að klaustrið átti þá ótrúlega mikið af messubúningum presta, altarisklæðum og góðum gripum. Þar á meðal voru 20 glergluggar, en þeir voru sjaldséðir hér á landi á þessum tíma. Nunnurnar hafa verið snjallar hannyrðakonur, því Vilkin biskup pantaði hjá þeim mikil veggtjöld til að prýða „stóru stofuna“ heima í Skálholti.

Hér á landi varðveittust fleiri kirkjuklæði en í mörgum öðrum löndum, jafnvel þótt geymsluskilyrði hafi almennt verið slæm, meðal annars vegna raka og músagangs. Annars staðar, svo sem í Danmörku, gengu siðbreytingarmenn vasklega fram í eyðileggingu sinni á þessum kaþólsku minjum. Kannski var það af nýtni, eða einfaldlega fátækt, sem kirkjuklæði prýddu kirkjur hér á landi löngu eftir að lútherskur siður gekk í garð, jafnvel fram undir 1900 í sjálfri Hóladómkirkju.


Heilög Katrín af Alexandríu var verndari fræða í báðum nunnuklaustrunum hér á landi. Hún hafði karlmannlegan hug í kvenlegu brjósti, kvað 50 heiðna heimspekinga í kútinn og kaus að láta líf sitt fremur en ganga í sæng með heiðnum keisara.

Samkvæmt máldaga frá 1446 átti Reynistaðarklaustur þá rúmlega 40 jarðir auk sjö eyðijarða. Leigugjöld eru skilmerkilega skráð og þar eru nefndir um 20 kálfar, en auk þess eru 30 kálfar heima á búi klaustursins sjálfs. Á miðöldum var kálfskinn mikið notað til handritagerðar, og þessi stóri kálfahópur gæti verið vísbending um iðni klaustursystra við skriftir.

Vitað er að fólk leitaði oft í klaustrin til að fá hjálp, ýmist frá munkum eða nunnum, við að gera skriflega samninga um erfðir, jarðaskipti og þess háttar, sem nú til dags væru gerðir hjá lögfræðingum eða yfirvöldum. Marga slíka má lesa í Íslensku fornbréfasafni. Sennilegt er að nunnur hafi líka afritað söngbækur, messubækur, sögur helgra meyja og fleira.

Lengi töldu menn að fátt hafi verið frumsamið í nunnuklaustrum, en sú skoðun gæti breyst. Í nýlegri doktorsritgerð hefur Svanhildur Óskarsdóttir leitt líkur að því að ákveðið handrit frá miðöldum, AM 764 4to, sem hún kallar Reynistaðarbók, hafi annaðhvort verið skrifað fyrir nunnurnar í Reynistaðarklaustri eða þær sjálfar átt þátt í að skrifa það á árunum 1376-1386. Handritið geymir fjölbreytilegt safn texta og textabúta sem saman mynda veraldarsögu að kristnum hætti. Auk þess inniheldur það heilagra manna sögur, jarteiknasögur, annálabrot og fleira. Fyrirmyndin var líklega komin frá nunnum erlendis, sem oft skráðu alfræði af þessu tagi.

Ef til vill gaf fjarlægðin frá páfagarði klaustrunum hér á norðurslóðum meira frelsi til að rita á móðurmáli sínu en tíðkaðist á meginlandinu. Víst er að þegar erlendir straumar sunnan úr Evrópu blönduðust hinni ævafornu munnlegu menningu sem fyrir var upphófst hér á landi mikið blómaskeið í bókmenntum. Það stóð frá 12. öld fram eftir þeirri 14. og voru þá meðal annars skráðar Íslendingasögur og ævisögur norrænna konunga, sem enn eru dáðar og lesnar út um allan heim.

Fleira var gert í nunnuklaustrunum en að syngja helgar tíðir, sauma kirkjuklæði og skrifa á kálfskinn. Í fábreyttu bændasamfélagi fyrri alda sinntu klaustrin málum sem á okkar dögum dreifast á margvíslegar stofnanir. Mörkin milli munka- og nunnuklaustra sýnast ekki alltaf ýkja skörp. Flest sinntu einhverri kennslu ungmenna af báðum kynjum. Einnig sáu klaustrin um aðhlynningu aldraðra, en talið er að sérstök hús handa þeim hafi verið byggð í kringum klaustrin, mismunandi rúmgóð eftir efnahag. Vinnufólk annaðist veraldlegar þarfir þessa hóps, en nunnur eða munkar veittu þeim trúarlega huggun. Einnig tóku þau yfirleitt að sér að syngja sálumessur sem efnafólk pantaði hjá þeim til að tryggja sér eða ættingjum sínum góðar móttökur handan við landamæri lífs og dauða. Þá er talið að sum klaustrin að minnsta kosti hafi haft svokallaða laukagarða, þar sem ræktaðar voru nytjaplöntur til lækninga, matargerðar og jafnvel víngerðar.

Af öllu þessu höfðu klaustrin umtalsverðar tekjur, en sumt af því fé rann til ölmusugjafa, því eins og Guðmundur góði benti á var fé kirkjunnar að hluta til „föðurleifð fátækra“, samkvæmt hennar eigin lögum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir, frekara lesefni og myndir:

  • Grunnheimild um íslensku nunnuklaustrin er rit Önnu Sigurðardóttur: Allt hafði annan róm áður í páfadóm. Kvennasögusafn Íslands, 1988.
  • Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. Kristni á Íslandi, II. Aðalhöf. Gunnar F. Guðmundsson, myndritstj. Guðbjörg Kristjánsdóttir, meðhöf. Ásdís Egilsdóttir og Inga Huld Hákonardóttir. Ritstj. Hjalti Hugason. Alþingi, 2000, sjá bls. 212-245 og víðar.
  • Ásdís Egilsdóttir: „Kvendýrlingar og kvenímynd trúarlegra bókmennta á Íslandi“ í greinasafninu Konur og kristsmenn: Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstj. Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan, 1996, sjá bls. 91-116.
  • Elsa E. Guðjónsson: „Með silfurbjarta nál. Um kirkjuleg útsaumsverk íslenskra kvenna í kaþólskum og lútherskum sið“ í greinasafninu Konur og kristsmenn: Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstj. Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan, 1996, sjá bls. 119-162.
  • Svanhildur Óskarsdóttir: „Universal history in fourteenth-century of Iceland: Studies in AM 764 4to.“ University of London, 2000. [Óbirt doktorsritgerð]. Sjá kynningu á niðurstöðum hennar í Mediaeval Scandiavia 14 (2004), 185-194.
  • Síðast en ekki síst er Hið íslenska fornritafélag að gefa út biskupasögur miðalda í nýju og glæsilegu formi, undir stjórn færustu fræðimanna og ekki síður kvenna. Dreifingu annast Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Mynd af nunnu í klaustri er af síðunni Image:Nun in cloister, 1930.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia. Myndina tók Doris Ullman. Sótt 18.5.2006.
  • Mynd af heilagri Katrínu frá Alexandríu er af Image:St.CatherineofAlexandria.jpg Wikipedia: The Free Encyclopedia. Sótt 18.5.2006.

Höfundur

Útgáfudagur

18.5.2006

Spyrjandi

Anna Rut Hilmarsdóttir
Guðrún Viðarsdóttir

Tilvísun

Inga Huld Hákonardóttir. „Hvert var helsta hlutverk klaustra á miðöldum?“ Vísindavefurinn, 18. maí 2006. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5942.

Inga Huld Hákonardóttir. (2006, 18. maí). Hvert var helsta hlutverk klaustra á miðöldum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5942

Inga Huld Hákonardóttir. „Hvert var helsta hlutverk klaustra á miðöldum?“ Vísindavefurinn. 18. maí. 2006. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5942>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvert var helsta hlutverk klaustra á miðöldum?
Hér verður aðallega fjallað um nunnuklaustrin tvö á Íslandi: Kirkjubæjarklaustur og Reynistaðarklaustur.

Frá því snemma á miðöldum voru klaustur helstu menningarstofnanir í Vestur-Evrópu. Þau geymdu og ávöxtuðu arf frá tímum Grikkja og Rómverja sem fléttaðist svo saman við kristnar kenningar. Sögur af helgum mönnum og meyjum, sem í frumkristni höfðu látið lífið fyrir trú sína, voru með því fyrsta sem þýtt var á íslenska tungu.

Klaustrin á miðöldum voru í senn trúarleg og veraldleg. Abbadísir voru í hávegum hafðar sem andlegir leiðtogar og voru ábyrgar fyrir helgihaldi og góðum siðum hver í sínu klaustri. Jafnframt réðu klaustrin yfir miklum eignum, einkum jörðum sem leigðar voru út, og höfðu stóran hóp starfsfólks.


Klaustur á miðöldum gegndu bæði trúarlegu og veraldlegu hlutverki.

Sjö sinnum á sólarhring voru sungnar helgar tíðir, sú fyrsta klukkan þrjú að nóttu og sú sjöunda, náttsöngurinn, klukkan níu að kvöldi, og tíðkaðist það einnig í munkaklaustrum, sömuleiðis bænagerðir. Hver regla gat þó haft sín afbrigði. Oft voru sögur helgra manna og meyja lesnar upphátt á matmálstímum. Abbadísirnar höfðu umsjón með námi verðandi nunna, leiðbeindu þeim og veittu þeim áminningu ef með þurfti. Þær fengu samt ekki prestvígslu, máttu ekki flytja messur né vinna önnur preststörf.

Af máldögum eða skrám yfir innbú klaustra má sjá að myndir eða líkneski af Maríu mey, heilagri Katrínu af Alexandríu sem var verndari fræða, Þorláki biskupi og fleiri dýrlingum voru í báðum nunnuklaustrunum. Þau áttu líka mikið af sálmabókum og alls konar öðrum kristilegum ritum. Ítarlegasti máldaginn var gerður í Kirkjubæjarklaustri árið 1397 að undirlagi Vilkins biskups í Skálholti. Af honum má sjá að klaustrið átti þá ótrúlega mikið af messubúningum presta, altarisklæðum og góðum gripum. Þar á meðal voru 20 glergluggar, en þeir voru sjaldséðir hér á landi á þessum tíma. Nunnurnar hafa verið snjallar hannyrðakonur, því Vilkin biskup pantaði hjá þeim mikil veggtjöld til að prýða „stóru stofuna“ heima í Skálholti.

Hér á landi varðveittust fleiri kirkjuklæði en í mörgum öðrum löndum, jafnvel þótt geymsluskilyrði hafi almennt verið slæm, meðal annars vegna raka og músagangs. Annars staðar, svo sem í Danmörku, gengu siðbreytingarmenn vasklega fram í eyðileggingu sinni á þessum kaþólsku minjum. Kannski var það af nýtni, eða einfaldlega fátækt, sem kirkjuklæði prýddu kirkjur hér á landi löngu eftir að lútherskur siður gekk í garð, jafnvel fram undir 1900 í sjálfri Hóladómkirkju.


Heilög Katrín af Alexandríu var verndari fræða í báðum nunnuklaustrunum hér á landi. Hún hafði karlmannlegan hug í kvenlegu brjósti, kvað 50 heiðna heimspekinga í kútinn og kaus að láta líf sitt fremur en ganga í sæng með heiðnum keisara.

Samkvæmt máldaga frá 1446 átti Reynistaðarklaustur þá rúmlega 40 jarðir auk sjö eyðijarða. Leigugjöld eru skilmerkilega skráð og þar eru nefndir um 20 kálfar, en auk þess eru 30 kálfar heima á búi klaustursins sjálfs. Á miðöldum var kálfskinn mikið notað til handritagerðar, og þessi stóri kálfahópur gæti verið vísbending um iðni klaustursystra við skriftir.

Vitað er að fólk leitaði oft í klaustrin til að fá hjálp, ýmist frá munkum eða nunnum, við að gera skriflega samninga um erfðir, jarðaskipti og þess háttar, sem nú til dags væru gerðir hjá lögfræðingum eða yfirvöldum. Marga slíka má lesa í Íslensku fornbréfasafni. Sennilegt er að nunnur hafi líka afritað söngbækur, messubækur, sögur helgra meyja og fleira.

Lengi töldu menn að fátt hafi verið frumsamið í nunnuklaustrum, en sú skoðun gæti breyst. Í nýlegri doktorsritgerð hefur Svanhildur Óskarsdóttir leitt líkur að því að ákveðið handrit frá miðöldum, AM 764 4to, sem hún kallar Reynistaðarbók, hafi annaðhvort verið skrifað fyrir nunnurnar í Reynistaðarklaustri eða þær sjálfar átt þátt í að skrifa það á árunum 1376-1386. Handritið geymir fjölbreytilegt safn texta og textabúta sem saman mynda veraldarsögu að kristnum hætti. Auk þess inniheldur það heilagra manna sögur, jarteiknasögur, annálabrot og fleira. Fyrirmyndin var líklega komin frá nunnum erlendis, sem oft skráðu alfræði af þessu tagi.

Ef til vill gaf fjarlægðin frá páfagarði klaustrunum hér á norðurslóðum meira frelsi til að rita á móðurmáli sínu en tíðkaðist á meginlandinu. Víst er að þegar erlendir straumar sunnan úr Evrópu blönduðust hinni ævafornu munnlegu menningu sem fyrir var upphófst hér á landi mikið blómaskeið í bókmenntum. Það stóð frá 12. öld fram eftir þeirri 14. og voru þá meðal annars skráðar Íslendingasögur og ævisögur norrænna konunga, sem enn eru dáðar og lesnar út um allan heim.

Fleira var gert í nunnuklaustrunum en að syngja helgar tíðir, sauma kirkjuklæði og skrifa á kálfskinn. Í fábreyttu bændasamfélagi fyrri alda sinntu klaustrin málum sem á okkar dögum dreifast á margvíslegar stofnanir. Mörkin milli munka- og nunnuklaustra sýnast ekki alltaf ýkja skörp. Flest sinntu einhverri kennslu ungmenna af báðum kynjum. Einnig sáu klaustrin um aðhlynningu aldraðra, en talið er að sérstök hús handa þeim hafi verið byggð í kringum klaustrin, mismunandi rúmgóð eftir efnahag. Vinnufólk annaðist veraldlegar þarfir þessa hóps, en nunnur eða munkar veittu þeim trúarlega huggun. Einnig tóku þau yfirleitt að sér að syngja sálumessur sem efnafólk pantaði hjá þeim til að tryggja sér eða ættingjum sínum góðar móttökur handan við landamæri lífs og dauða. Þá er talið að sum klaustrin að minnsta kosti hafi haft svokallaða laukagarða, þar sem ræktaðar voru nytjaplöntur til lækninga, matargerðar og jafnvel víngerðar.

Af öllu þessu höfðu klaustrin umtalsverðar tekjur, en sumt af því fé rann til ölmusugjafa, því eins og Guðmundur góði benti á var fé kirkjunnar að hluta til „föðurleifð fátækra“, samkvæmt hennar eigin lögum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir, frekara lesefni og myndir:

  • Grunnheimild um íslensku nunnuklaustrin er rit Önnu Sigurðardóttur: Allt hafði annan róm áður í páfadóm. Kvennasögusafn Íslands, 1988.
  • Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. Kristni á Íslandi, II. Aðalhöf. Gunnar F. Guðmundsson, myndritstj. Guðbjörg Kristjánsdóttir, meðhöf. Ásdís Egilsdóttir og Inga Huld Hákonardóttir. Ritstj. Hjalti Hugason. Alþingi, 2000, sjá bls. 212-245 og víðar.
  • Ásdís Egilsdóttir: „Kvendýrlingar og kvenímynd trúarlegra bókmennta á Íslandi“ í greinasafninu Konur og kristsmenn: Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstj. Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan, 1996, sjá bls. 91-116.
  • Elsa E. Guðjónsson: „Með silfurbjarta nál. Um kirkjuleg útsaumsverk íslenskra kvenna í kaþólskum og lútherskum sið“ í greinasafninu Konur og kristsmenn: Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstj. Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan, 1996, sjá bls. 119-162.
  • Svanhildur Óskarsdóttir: „Universal history in fourteenth-century of Iceland: Studies in AM 764 4to.“ University of London, 2000. [Óbirt doktorsritgerð]. Sjá kynningu á niðurstöðum hennar í Mediaeval Scandiavia 14 (2004), 185-194.
  • Síðast en ekki síst er Hið íslenska fornritafélag að gefa út biskupasögur miðalda í nýju og glæsilegu formi, undir stjórn færustu fræðimanna og ekki síður kvenna. Dreifingu annast Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Mynd af nunnu í klaustri er af síðunni Image:Nun in cloister, 1930.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia. Myndina tók Doris Ullman. Sótt 18.5.2006.
  • Mynd af heilagri Katrínu frá Alexandríu er af Image:St.CatherineofAlexandria.jpg Wikipedia: The Free Encyclopedia. Sótt 18.5.2006.
...