Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Af hverju er svona mikill munur á útliti og persónuleika fólks?

Heiða María Sigurðardóttir

Hægt er að skilja þessa spurningu þannig að lesandi vilji vita hvers vegna tiltekið útlit og persónuleiki fari ekki saman. Hér verður aftur á móti gert ráð fyrir að spurt sé um hvers vegna munur sé á milli manna í útliti og persónueinkennum, það er af hverju það eru ekki allir eins.

Spurningin um hvað ráði því hvernig fólk sé er ævagömul. Lengi vel skiptust menn í tvær andstæðar fylkingar, annars vegar erfðahyggjumenn* (e. nativists) og hins vegar reynsluhyggjumenn (e. empiricists). Með nokkurri einföldun má segja að erfðahyggjumenn trúi því að eiginleikar fólks séu áskapaðir en að reynsluhyggjumenn telji að þeir séu áunnir.

Nú á dögum tekur nær enginn svona róttæka afstöðu til málsins heldur eru menn þvert á móti sammála um að eiginleikar fólks verði til fyrir flókið samspil bæði erfða og umhverfis. Svarið við upphaflegu spurningunni er því: Vegna þess að fólk hefur mismunandi erfðaefni og verður fyrir mismunandi umhverfisáhrifum. Enn deila menn þó um hversu miklu hvor þáttur ráði.


Eineggja tvíburar eru líkir bæði í útliti og persónuleika. Þeir eru samt sem áður ekki alveg eins þrátt fyrir að erfðaefni þeirra sé nákvæmlega hið sama. Myndin er af leikkonunum Mary-Kate og Ashley Olsen.

Ljóst er að erfðaþættir hafa mikil áhrif á útlit fólks. Þetta má glöggt sjá með því að bera saman útlit eineggja tvíbura annars vegar, sem hafa sams konar erfðaefni, og tvíeggja tvíbura hins vegar, sem eru ekki skyldari en venjuleg systkini. Öllum má vera ljóst að eineggja tvíburar eru að jafnaði miklu líkari hvor öðrum en tvíeggja tvíburar.

Ekki er þar með sagt að umhverfið hafi engin áhrif á útlit fólks. Eineggja tvíburar hafa sama erfðaefnið en eru samt ekki algjör eftirmynd hvors annars. Til að mynda hafa eineggja tvíburar ekki sams konar fingraför, eins og lesa má um í svarinu Hefur einræktaður (klónaður) einstaklingur eins fingraför og fyrirmyndin? Önnur augljós dæmi um áhrif umhverfis á útlit er að húðin verður brún í sól og hárið lýsist. Einnig má nefna háralitun, augnmálningu, húðflúr og húðgötun.

Þegar skýra á hvað ræður persónuleika verður málið aðeins flóknara. Fyrst er vert að nefna að þegar fólk leitar skýringa á hegðun annarra kennir það persónuleika viðkomandi um oftar en tilefni er til. Fólk virðist gleyma að stundum bregst fólk einfaldlega við vegna þeirra aðstæðna sem það er statt í þá stundina, en ekki vegna þess að það er svona manneskja eða hinsegin. Sigurður J. Grétarsson fjallar ágætlega um þetta í svari sínu við spurningunni Hvers vegna eru sumir með svona mikil læti eða hávaða?

Þótt fólk vísi of oft í persónuleika manna til að skýra hegðun eiga slíkar skýringar samt stundum rétt á sér; fólk er mismunandi að upplagi og munur á skapgerð fólks virðist koma fram frekar fljótt á lífsleiðinni. Til að skýra þennan mun hafa menn meðal annars kannað persónuleika eineggja og tvíeggja tvíbura. Rétt eins og með útlit mælist persónuleiki eineggja tvíbura almennt líkari en tvíeggja tvíbura. Flestir túlka þetta sem svo að erfðir ráði allnokkru um persónuleika fólks.

Persónuleiki eineggja tvíbura er þó að sjálfsögðu ekki alveg nákvæmlega eins, svo umhverfisáhrif eru nokkur. Það kemur kannski á óvart, en fjölskylduaðstæður (uppeldi, félagsleg staða og annað slíkt) virðast ekki hafa mikil áhrif á helstu persónueinkenni, eins og hvort fólk sé innhverft eða úthverft eða hvort það sé jafnlynt eða tilfinningaríkt. Staða og reynsla hvers fjölskyldumeðlims virðist skipta mun meira máli, til dæmis hvar í systkinaröðinni menn eru og hvaða fólk þeir umgangast að jafnaði.

Svo má ekki gleyma því að samspil er á milli áhrifa erfða og umhverfis á persónuleika; manneskja með tiltekna skapgerð sækir í ákveðnar aðstæður, sem aftur móta persónuleika hennar.


* Segja mætti að íslenska orðið erfðahyggja sé dálítið rangnefni, þar sem hugtakið nær yfir þá sem aðhyllast það að eiginleikar séu meðfæddir, óháð því hvort þeir telji að þeir erfist eða ekki.


Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
  • Leahey, T. H. (2004). A history of psychology: Main currents in psychological thought (6. útgáfa). Upper Saddle River, NY: Pearson Prentice Hall.
  • Myndin er af síðunni Switching goals.

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

22.5.2006

Spyrjandi

Dagný Arnardóttir, f. 1993

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Af hverju er svona mikill munur á útliti og persónuleika fólks?“ Vísindavefurinn, 22. maí 2006. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5958.

Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 22. maí). Af hverju er svona mikill munur á útliti og persónuleika fólks? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5958

Heiða María Sigurðardóttir. „Af hverju er svona mikill munur á útliti og persónuleika fólks?“ Vísindavefurinn. 22. maí. 2006. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5958>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju er svona mikill munur á útliti og persónuleika fólks?
Hægt er að skilja þessa spurningu þannig að lesandi vilji vita hvers vegna tiltekið útlit og persónuleiki fari ekki saman. Hér verður aftur á móti gert ráð fyrir að spurt sé um hvers vegna munur sé á milli manna í útliti og persónueinkennum, það er af hverju það eru ekki allir eins.

Spurningin um hvað ráði því hvernig fólk sé er ævagömul. Lengi vel skiptust menn í tvær andstæðar fylkingar, annars vegar erfðahyggjumenn* (e. nativists) og hins vegar reynsluhyggjumenn (e. empiricists). Með nokkurri einföldun má segja að erfðahyggjumenn trúi því að eiginleikar fólks séu áskapaðir en að reynsluhyggjumenn telji að þeir séu áunnir.

Nú á dögum tekur nær enginn svona róttæka afstöðu til málsins heldur eru menn þvert á móti sammála um að eiginleikar fólks verði til fyrir flókið samspil bæði erfða og umhverfis. Svarið við upphaflegu spurningunni er því: Vegna þess að fólk hefur mismunandi erfðaefni og verður fyrir mismunandi umhverfisáhrifum. Enn deila menn þó um hversu miklu hvor þáttur ráði.


Eineggja tvíburar eru líkir bæði í útliti og persónuleika. Þeir eru samt sem áður ekki alveg eins þrátt fyrir að erfðaefni þeirra sé nákvæmlega hið sama. Myndin er af leikkonunum Mary-Kate og Ashley Olsen.

Ljóst er að erfðaþættir hafa mikil áhrif á útlit fólks. Þetta má glöggt sjá með því að bera saman útlit eineggja tvíbura annars vegar, sem hafa sams konar erfðaefni, og tvíeggja tvíbura hins vegar, sem eru ekki skyldari en venjuleg systkini. Öllum má vera ljóst að eineggja tvíburar eru að jafnaði miklu líkari hvor öðrum en tvíeggja tvíburar.

Ekki er þar með sagt að umhverfið hafi engin áhrif á útlit fólks. Eineggja tvíburar hafa sama erfðaefnið en eru samt ekki algjör eftirmynd hvors annars. Til að mynda hafa eineggja tvíburar ekki sams konar fingraför, eins og lesa má um í svarinu Hefur einræktaður (klónaður) einstaklingur eins fingraför og fyrirmyndin? Önnur augljós dæmi um áhrif umhverfis á útlit er að húðin verður brún í sól og hárið lýsist. Einnig má nefna háralitun, augnmálningu, húðflúr og húðgötun.

Þegar skýra á hvað ræður persónuleika verður málið aðeins flóknara. Fyrst er vert að nefna að þegar fólk leitar skýringa á hegðun annarra kennir það persónuleika viðkomandi um oftar en tilefni er til. Fólk virðist gleyma að stundum bregst fólk einfaldlega við vegna þeirra aðstæðna sem það er statt í þá stundina, en ekki vegna þess að það er svona manneskja eða hinsegin. Sigurður J. Grétarsson fjallar ágætlega um þetta í svari sínu við spurningunni Hvers vegna eru sumir með svona mikil læti eða hávaða?

Þótt fólk vísi of oft í persónuleika manna til að skýra hegðun eiga slíkar skýringar samt stundum rétt á sér; fólk er mismunandi að upplagi og munur á skapgerð fólks virðist koma fram frekar fljótt á lífsleiðinni. Til að skýra þennan mun hafa menn meðal annars kannað persónuleika eineggja og tvíeggja tvíbura. Rétt eins og með útlit mælist persónuleiki eineggja tvíbura almennt líkari en tvíeggja tvíbura. Flestir túlka þetta sem svo að erfðir ráði allnokkru um persónuleika fólks.

Persónuleiki eineggja tvíbura er þó að sjálfsögðu ekki alveg nákvæmlega eins, svo umhverfisáhrif eru nokkur. Það kemur kannski á óvart, en fjölskylduaðstæður (uppeldi, félagsleg staða og annað slíkt) virðast ekki hafa mikil áhrif á helstu persónueinkenni, eins og hvort fólk sé innhverft eða úthverft eða hvort það sé jafnlynt eða tilfinningaríkt. Staða og reynsla hvers fjölskyldumeðlims virðist skipta mun meira máli, til dæmis hvar í systkinaröðinni menn eru og hvaða fólk þeir umgangast að jafnaði.

Svo má ekki gleyma því að samspil er á milli áhrifa erfða og umhverfis á persónuleika; manneskja með tiltekna skapgerð sækir í ákveðnar aðstæður, sem aftur móta persónuleika hennar.


* Segja mætti að íslenska orðið erfðahyggja sé dálítið rangnefni, þar sem hugtakið nær yfir þá sem aðhyllast það að eiginleikar séu meðfæddir, óháð því hvort þeir telji að þeir erfist eða ekki.


Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
  • Leahey, T. H. (2004). A history of psychology: Main currents in psychological thought (6. útgáfa). Upper Saddle River, NY: Pearson Prentice Hall.
  • Myndin er af síðunni Switching goals.
...