Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað liggur á bak við deilur Íraks og Írans? Hvert er ástandið nú og hverjar eru horfurnar?

Sveinn Guðmarsson

Íranar og Írakar hafa marga hildina háð í gegnum tíðina enda tæpast við öðru að búast af tveimur stórþjóðum sem báðar státa af glæstri sögu og búa nánast í túngarðinum hvor hjá annarri. Í Íran búa tæpar sjötíu milljónir manna en Írak er talsvert fámennara, með um 27 milljónir íbúa. Allur þorri Írana er sjíta-múslimar og í Írak aðhyllast 66 prósent íbúanna þessa grein íslams. Til að skilja sambandið á milli landanna tveggja er lykilatriði að átta sig á stöðu sjíta í Írak.


Nágrannaríkin Írak og Íran.

Af orðalagi spurninganna að ofan mætti draga þá ályktun að Íranar og Írakar hafi alla tíð átt í erjum en sú er þó ekki raunin. Frá því að safavídar komust til valda í Persíu og gerðust sjítar (Íran var kallað Persía allt til ársins 1935) ríkti stöðugleiki í samskiptum þeirra við Tyrkjaveldi, en allt fram undir lok fyrri heimsstyrjaldar var Írak aðeins hérað í veldi Tyrkja. Þar sem helgidóma sjíta er að finna í Írak, til dæmis í Karbala og Najaf, var þó óhjákvæmilegt að þangað bærust margháttuð áhrif frá nágrannaríkinu í austri með klerkum, kaupsýslumönnum og pílagrímum.

Þegar Írakar fengu sjálfstæði árið 1921 (þó aðeins að nafninu til, Bretar stýrðu í raun landinu í umboði Þjóðabandalagsins) var gengið fram hjá sjítum við stjórnarmyndun og fengu þeir engan fulltrúa í stjórn landsins. Fyrir því eru nokkrar ástæður, þeir stóðu til dæmis fyrir uppreisn gegn breska herliðinu sem þeir töldu standa fyrir ólöglegu hernámi – athyglisverð hliðstæða við samtímann. Að líkindum hefur ekki skipt minna máli að súnnítar, sem lengst af höfðu skipað flestar valdastöðurnar, tortryggðu mjög sjítana vegna tengsla þeirra við Persíu og fengu því framgengt að þeir yrðu sniðgengnir.

Allt fram á sjötta áratug síðustu aldar gekk sambúð Íraka og Írana samt að mestu snurðulaust fyrir sig. Írakar voru önnum kafnir við að byggja upp nýtt ríki og á ýmsu gekk við það. Ítök Breta og síðar Bandaríkjamanna á svæðinu tryggðu að á tímum kalda stríðsins voru bæði ríkin dyggir bandamenn þessara heimsvelda í baráttunni við heimskommúnismann. Þannig áttu Írakar og Íranar aðild að svonefndum Bagdad-sáttmála sem var varnarbandalag þeirra við Pakistana, Tyrki og Breta, stofnað árið 1955. Sáttmálinn mæltist mjög illa fyrir meðal almennings í þessum ríkjum, sérstaklega í Írak, og hann er ein meginástæða þess að konungi Íraks var steypt af stóli í herforingjabyltingu árið 1958 og lýðveldi stofnað í kjölfarið.


Áróðursmynd af Saddam Hussein, leiðtoga Baath-flokksins í Írak.

Fljótlega eftir lýðveldisstofnunina fór mjög að halla undan fæti hjá sjítum. Má segja að þeir hafi farið að sæta ofsóknum eftir að Baath-flokkurinn komst til valda árið 1968. Á þessum árum varð mikil pólitísk vakning meðal múslima alls staðar í Mið-Austurlöndum og Íslam fékk pólitíska stöðu í samfélögum þeirra. Þannig töldu íraskir sjítar að í ljósi sameiginlegrar harmsögu sinnar ættu múslimar einmitt að vinna saman að markmiðum sínum og leiðina að þeim væri ekki síst að finna í trúnni.

Í kringum 1970 tóku samskipti Írana og Íraka að versna umtalsvert en deilur um landamæri urðu kveikjan að þeirri óheillaþróun. Baath-flokkurinn, sem frá upphafi hafði það nánast að aðalmarkmiði að koma öllum völdum í hendur fámennrar klíku súnníta, sá sér hins vegar þarna leik á borði til að klekkja á sjítum. Leiðtogar flokksins, þeirra á meðal Saddam Hussein, höfðu illan bifur á sívaxandi pólitískum afskiptum sjíta-múslima og sem fyrr grunuðu þeir sjítana um að vera hliðhollari trúbræðrum sínum í Íran en sínu eigin föðurlandi. Því voru tugþúsundir sjíta af persneskum uppruna reknar yfir landamærin til Írans. Árið 1974 tók svo að sverfa til stáls á milli Kúrda í norðurhéruðum landsins og ríkisstjórnarinnar í Bagdad. Íranar studdu Kúrdana á ýmsa lund sem vitaskuld jók enn á spennuna á milli ríkjanna tveggja. Ári síðar gerðu hins vegar Saddam Hussein og Reza Pahlavi Íranskeisari með sér samkomulag, kennt við Algeirsborg, þar sem sá fyrrnefndi gaf eftir í landamæradeilunni gegn því að Íranar hættu stuðningnum við Kúrda.

Klerkabyltingin í Íran árið 1979 var vendipunktur í samskiptum ríkjanna. Saddam taldi (eflaust með réttu) að hún gæti leitt til þess að íraskir sjítar myndu rísa upp gegn sér og því yrði hann að bregðast við sem fyrst. Með landamæraágreining að yfirskini fyrirskipaði hann innrás í Íran og í hönd fór átta ára löng styrjöld sem kostaði hálfa milljón mannslífa. Alþjóðasamfélagið gerði ekkert til að stöðva stríðið, jafnvel þótt grimmdarverkin sem þar voru unnin væru öllum ljós, heldur hellti það olíu á eldinn með því að veita báðum ríkjunum, sérstaklega þó Írak, margvíslega fyrirgreiðslu, til dæmis með hagstæðum vopnasölusamningum. Því dróst styrjöldin á langinn. Framan af vegnaði Írökum betur en þegar líða tók á stríðið óx Írönum ásmegin, meðal annars með því að beita sjálfsmorðsárásum sem fram að því höfðu verið nánast óþekktar. Eftir því sem fjaraði undan Írökum fóru þeir að beita óþverrabrögðum í æ ríkari mæli, til dæmis efnavopnaárásum. Auk íranskra hermanna fengu Kúrdar í Írak óspart að kenna á slíkum vopnum.


Bandarískar herþotur fljúga yfir brennandi olíulindum sem Írakar kveiktu sjálfir í.

Klerkastjórnin reyndi að fá íraska sjíta til að snúast á sveif með sér í stríðinu en hafði ekki erindi sem erfiði. Vegna ofríkis Baath-flokksins höfðu hins vegar margir klerkar og helstu stjórnmálaleiðtogar sjíta flúið til Írans og sumir þeirra tengdust valdhöfunum þar allnánum böndum. Að tilstuðlan klerkastjórnarinnar voru á þessum árum stofnaðir stjórnmálaflokkar á borð við Íslamska byltingarráðið í Írak (SCIRI) sem nú er mjög valdamikið í Írak.

Eftir að Bandaríkjamenn og fleiri "staðfastar þjóðir" réðust inn í Írak vorið 2003 og steyptu Saddam Hussein af stóli myndaðist hættulegt valdatómarúm í landinu. Upplausn og átök hafa því öðru fremur einkennt ástandið í Írak frá innrásinni og virðist ekkert lát þar á. Þjóðareining er lítil í landinu heldur fylkir fólk sér um stjórnmálaöfl sem leggja áherslu á sérkenni sinna þjóðarbrota. Þetta kom glögglega í ljós í kosningaúrslitunum í janúar 2005 og desember sama ár. Veraldlegar fylkingar skipaðar fólki úr öllum þjóðfélagshópum biðu afhroð á meðan flokkum sem berjast fyrir hagsmunum síns þjóðarbrots, eins og framboð Kúrda og sameinað bandalag heittrúaðra sjíta, vegnaði vel.

Eins og vonlegt er fylgjast nágrannaríkin grannt með framvindunni í Írak og reyna jafnvel að hafa áhrif á hana. Íranar eru engin undantekning frá því enda eiga þeir þar talsverðra hagsmuna að gæta. Stjórnvöld í Teheran hafa í gegnum árin stutt samtök á borð við Dawa-flokkinn og einkum og sér í lagi SCIRI, tvo stærstu flokkana í áðurnefndu bandalagi heittrúaðra sjíta. Nuri al-Maliki, núverandi forsætisráðherra Íraks, kemur úr Dawa-flokknum, rétt eins og Ibrahim al-Jaafari, forveri hans. Abdul Aziz al-Hakim, leiðtogi SCIRI, situr hins vegar ekki í nýju ríkisstjórninni, sjálfum sér til mikillar gremju og eflaust oddvitum klerkastjórnarinnar líka. Hvað sem því líður er erfitt að horfa framhjá því að ítök Írana í stjórn Íraks eru allnokkur, að minnsta kosti óbein.

Erfitt er að spá fyrir um hvernig samskipti ríkjanna muni þróast á næstu árum nema að átök þeirra á milli virðast ólíkleg eins og sakir standa. Írakar eiga fullt í fangi með að koma á friði í eigin landi en ekki er útlit fyrir að rósturnar þar muni teygja sig yfir landamærin. Fari svo er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að Íranar muni bregðast við með einhverjum hætti. Þeir eru samt ekki algerlega saklausir af því hvernig ástandið er í Írak, því þeir eru sagðir styrkja skæruliðaflokka sjía sem berjast gegn erlendri hersetu og uppreisnarhópum súnníta. Í fyrsta sinn í sögunni báðum ríkjunum að mestu stjórnað af sjítum og það út af fyrir sig gæti stuðlað að þíðu í samskiptunum, sérstaklega ef litið er til þess hversu margir íraskir áhrifamenn hafa dvalið langdvölum í Íran og eru valdhöfunum þar handgengnir.


Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, lýsti því yfir 29. apríl 2006 að Íran félli aldrei frá kjarnorkuáætlun sinni.

Ekki er hægt að ljúka þessum vangaveltum án þess að minnast á kjarnorkuáætlun Írana og þá óvissu sem hún skapar í þessum brothætta heimshluta. Hér skal ekki fullyrt hvort Íranar hyggist raunverulega koma sér upp kjarnavopnum en tæpast hugnast Írökum þær horfur vel. Með það í huga að bandarískt herlið er enn í Írak og verður það í mörg ár til viðbótar er vandséð hvernig þessir nágrannar ætla að halda uppi vingjarnlegum samskiptum ef til átaka kemur á milli Bandaríkjanna og Írans.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir

  • Fuller, Graham E. & Francke, Rend Rahim (1999): The Arab Shia – The Forgotten Muslims. New York: St. Martin’s Press.
  • Jabar, Faleh A. (2003): The Shi’ite Movement in Iraq. London: Faqi.
  • Magnús Þorkell Bernharðsson (2005): Píslarvottar nútímans. Samspil trúar og stjórnmála í Íran og Írak. Reykjavík: Mál og menning.

Myndir

  • Kortið er af síðunni Iraq. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
  • Mynd af Saddam Hussein er af síðunni Image:Saddam Hussein (1).jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
  • Mynd af orrystuþotum er af síðunni Gulf war. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
  • Mynd af forseta Írans er af Iran. Wikipedia: The Free Encyclopedia.

Höfundur

stundakennari við stjórnmálafræðiskor HÍ

Útgáfudagur

7.6.2006

Síðast uppfært

8.11.2018

Spyrjandi

Herdís Haraldsdóttir

Tilvísun

Sveinn Guðmarsson. „Hvað liggur á bak við deilur Íraks og Írans? Hvert er ástandið nú og hverjar eru horfurnar?“ Vísindavefurinn, 7. júní 2006, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6000.

Sveinn Guðmarsson. (2006, 7. júní). Hvað liggur á bak við deilur Íraks og Írans? Hvert er ástandið nú og hverjar eru horfurnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6000

Sveinn Guðmarsson. „Hvað liggur á bak við deilur Íraks og Írans? Hvert er ástandið nú og hverjar eru horfurnar?“ Vísindavefurinn. 7. jún. 2006. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6000>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað liggur á bak við deilur Íraks og Írans? Hvert er ástandið nú og hverjar eru horfurnar?
Íranar og Írakar hafa marga hildina háð í gegnum tíðina enda tæpast við öðru að búast af tveimur stórþjóðum sem báðar státa af glæstri sögu og búa nánast í túngarðinum hvor hjá annarri. Í Íran búa tæpar sjötíu milljónir manna en Írak er talsvert fámennara, með um 27 milljónir íbúa. Allur þorri Írana er sjíta-múslimar og í Írak aðhyllast 66 prósent íbúanna þessa grein íslams. Til að skilja sambandið á milli landanna tveggja er lykilatriði að átta sig á stöðu sjíta í Írak.


Nágrannaríkin Írak og Íran.

Af orðalagi spurninganna að ofan mætti draga þá ályktun að Íranar og Írakar hafi alla tíð átt í erjum en sú er þó ekki raunin. Frá því að safavídar komust til valda í Persíu og gerðust sjítar (Íran var kallað Persía allt til ársins 1935) ríkti stöðugleiki í samskiptum þeirra við Tyrkjaveldi, en allt fram undir lok fyrri heimsstyrjaldar var Írak aðeins hérað í veldi Tyrkja. Þar sem helgidóma sjíta er að finna í Írak, til dæmis í Karbala og Najaf, var þó óhjákvæmilegt að þangað bærust margháttuð áhrif frá nágrannaríkinu í austri með klerkum, kaupsýslumönnum og pílagrímum.

Þegar Írakar fengu sjálfstæði árið 1921 (þó aðeins að nafninu til, Bretar stýrðu í raun landinu í umboði Þjóðabandalagsins) var gengið fram hjá sjítum við stjórnarmyndun og fengu þeir engan fulltrúa í stjórn landsins. Fyrir því eru nokkrar ástæður, þeir stóðu til dæmis fyrir uppreisn gegn breska herliðinu sem þeir töldu standa fyrir ólöglegu hernámi – athyglisverð hliðstæða við samtímann. Að líkindum hefur ekki skipt minna máli að súnnítar, sem lengst af höfðu skipað flestar valdastöðurnar, tortryggðu mjög sjítana vegna tengsla þeirra við Persíu og fengu því framgengt að þeir yrðu sniðgengnir.

Allt fram á sjötta áratug síðustu aldar gekk sambúð Íraka og Írana samt að mestu snurðulaust fyrir sig. Írakar voru önnum kafnir við að byggja upp nýtt ríki og á ýmsu gekk við það. Ítök Breta og síðar Bandaríkjamanna á svæðinu tryggðu að á tímum kalda stríðsins voru bæði ríkin dyggir bandamenn þessara heimsvelda í baráttunni við heimskommúnismann. Þannig áttu Írakar og Íranar aðild að svonefndum Bagdad-sáttmála sem var varnarbandalag þeirra við Pakistana, Tyrki og Breta, stofnað árið 1955. Sáttmálinn mæltist mjög illa fyrir meðal almennings í þessum ríkjum, sérstaklega í Írak, og hann er ein meginástæða þess að konungi Íraks var steypt af stóli í herforingjabyltingu árið 1958 og lýðveldi stofnað í kjölfarið.


Áróðursmynd af Saddam Hussein, leiðtoga Baath-flokksins í Írak.

Fljótlega eftir lýðveldisstofnunina fór mjög að halla undan fæti hjá sjítum. Má segja að þeir hafi farið að sæta ofsóknum eftir að Baath-flokkurinn komst til valda árið 1968. Á þessum árum varð mikil pólitísk vakning meðal múslima alls staðar í Mið-Austurlöndum og Íslam fékk pólitíska stöðu í samfélögum þeirra. Þannig töldu íraskir sjítar að í ljósi sameiginlegrar harmsögu sinnar ættu múslimar einmitt að vinna saman að markmiðum sínum og leiðina að þeim væri ekki síst að finna í trúnni.

Í kringum 1970 tóku samskipti Írana og Íraka að versna umtalsvert en deilur um landamæri urðu kveikjan að þeirri óheillaþróun. Baath-flokkurinn, sem frá upphafi hafði það nánast að aðalmarkmiði að koma öllum völdum í hendur fámennrar klíku súnníta, sá sér hins vegar þarna leik á borði til að klekkja á sjítum. Leiðtogar flokksins, þeirra á meðal Saddam Hussein, höfðu illan bifur á sívaxandi pólitískum afskiptum sjíta-múslima og sem fyrr grunuðu þeir sjítana um að vera hliðhollari trúbræðrum sínum í Íran en sínu eigin föðurlandi. Því voru tugþúsundir sjíta af persneskum uppruna reknar yfir landamærin til Írans. Árið 1974 tók svo að sverfa til stáls á milli Kúrda í norðurhéruðum landsins og ríkisstjórnarinnar í Bagdad. Íranar studdu Kúrdana á ýmsa lund sem vitaskuld jók enn á spennuna á milli ríkjanna tveggja. Ári síðar gerðu hins vegar Saddam Hussein og Reza Pahlavi Íranskeisari með sér samkomulag, kennt við Algeirsborg, þar sem sá fyrrnefndi gaf eftir í landamæradeilunni gegn því að Íranar hættu stuðningnum við Kúrda.

Klerkabyltingin í Íran árið 1979 var vendipunktur í samskiptum ríkjanna. Saddam taldi (eflaust með réttu) að hún gæti leitt til þess að íraskir sjítar myndu rísa upp gegn sér og því yrði hann að bregðast við sem fyrst. Með landamæraágreining að yfirskini fyrirskipaði hann innrás í Íran og í hönd fór átta ára löng styrjöld sem kostaði hálfa milljón mannslífa. Alþjóðasamfélagið gerði ekkert til að stöðva stríðið, jafnvel þótt grimmdarverkin sem þar voru unnin væru öllum ljós, heldur hellti það olíu á eldinn með því að veita báðum ríkjunum, sérstaklega þó Írak, margvíslega fyrirgreiðslu, til dæmis með hagstæðum vopnasölusamningum. Því dróst styrjöldin á langinn. Framan af vegnaði Írökum betur en þegar líða tók á stríðið óx Írönum ásmegin, meðal annars með því að beita sjálfsmorðsárásum sem fram að því höfðu verið nánast óþekktar. Eftir því sem fjaraði undan Írökum fóru þeir að beita óþverrabrögðum í æ ríkari mæli, til dæmis efnavopnaárásum. Auk íranskra hermanna fengu Kúrdar í Írak óspart að kenna á slíkum vopnum.


Bandarískar herþotur fljúga yfir brennandi olíulindum sem Írakar kveiktu sjálfir í.

Klerkastjórnin reyndi að fá íraska sjíta til að snúast á sveif með sér í stríðinu en hafði ekki erindi sem erfiði. Vegna ofríkis Baath-flokksins höfðu hins vegar margir klerkar og helstu stjórnmálaleiðtogar sjíta flúið til Írans og sumir þeirra tengdust valdhöfunum þar allnánum böndum. Að tilstuðlan klerkastjórnarinnar voru á þessum árum stofnaðir stjórnmálaflokkar á borð við Íslamska byltingarráðið í Írak (SCIRI) sem nú er mjög valdamikið í Írak.

Eftir að Bandaríkjamenn og fleiri "staðfastar þjóðir" réðust inn í Írak vorið 2003 og steyptu Saddam Hussein af stóli myndaðist hættulegt valdatómarúm í landinu. Upplausn og átök hafa því öðru fremur einkennt ástandið í Írak frá innrásinni og virðist ekkert lát þar á. Þjóðareining er lítil í landinu heldur fylkir fólk sér um stjórnmálaöfl sem leggja áherslu á sérkenni sinna þjóðarbrota. Þetta kom glögglega í ljós í kosningaúrslitunum í janúar 2005 og desember sama ár. Veraldlegar fylkingar skipaðar fólki úr öllum þjóðfélagshópum biðu afhroð á meðan flokkum sem berjast fyrir hagsmunum síns þjóðarbrots, eins og framboð Kúrda og sameinað bandalag heittrúaðra sjíta, vegnaði vel.

Eins og vonlegt er fylgjast nágrannaríkin grannt með framvindunni í Írak og reyna jafnvel að hafa áhrif á hana. Íranar eru engin undantekning frá því enda eiga þeir þar talsverðra hagsmuna að gæta. Stjórnvöld í Teheran hafa í gegnum árin stutt samtök á borð við Dawa-flokkinn og einkum og sér í lagi SCIRI, tvo stærstu flokkana í áðurnefndu bandalagi heittrúaðra sjíta. Nuri al-Maliki, núverandi forsætisráðherra Íraks, kemur úr Dawa-flokknum, rétt eins og Ibrahim al-Jaafari, forveri hans. Abdul Aziz al-Hakim, leiðtogi SCIRI, situr hins vegar ekki í nýju ríkisstjórninni, sjálfum sér til mikillar gremju og eflaust oddvitum klerkastjórnarinnar líka. Hvað sem því líður er erfitt að horfa framhjá því að ítök Írana í stjórn Íraks eru allnokkur, að minnsta kosti óbein.

Erfitt er að spá fyrir um hvernig samskipti ríkjanna muni þróast á næstu árum nema að átök þeirra á milli virðast ólíkleg eins og sakir standa. Írakar eiga fullt í fangi með að koma á friði í eigin landi en ekki er útlit fyrir að rósturnar þar muni teygja sig yfir landamærin. Fari svo er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að Íranar muni bregðast við með einhverjum hætti. Þeir eru samt ekki algerlega saklausir af því hvernig ástandið er í Írak, því þeir eru sagðir styrkja skæruliðaflokka sjía sem berjast gegn erlendri hersetu og uppreisnarhópum súnníta. Í fyrsta sinn í sögunni báðum ríkjunum að mestu stjórnað af sjítum og það út af fyrir sig gæti stuðlað að þíðu í samskiptunum, sérstaklega ef litið er til þess hversu margir íraskir áhrifamenn hafa dvalið langdvölum í Íran og eru valdhöfunum þar handgengnir.


Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, lýsti því yfir 29. apríl 2006 að Íran félli aldrei frá kjarnorkuáætlun sinni.

Ekki er hægt að ljúka þessum vangaveltum án þess að minnast á kjarnorkuáætlun Írana og þá óvissu sem hún skapar í þessum brothætta heimshluta. Hér skal ekki fullyrt hvort Íranar hyggist raunverulega koma sér upp kjarnavopnum en tæpast hugnast Írökum þær horfur vel. Með það í huga að bandarískt herlið er enn í Írak og verður það í mörg ár til viðbótar er vandséð hvernig þessir nágrannar ætla að halda uppi vingjarnlegum samskiptum ef til átaka kemur á milli Bandaríkjanna og Írans.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir

  • Fuller, Graham E. & Francke, Rend Rahim (1999): The Arab Shia – The Forgotten Muslims. New York: St. Martin’s Press.
  • Jabar, Faleh A. (2003): The Shi’ite Movement in Iraq. London: Faqi.
  • Magnús Þorkell Bernharðsson (2005): Píslarvottar nútímans. Samspil trúar og stjórnmála í Íran og Írak. Reykjavík: Mál og menning.

Myndir

  • Kortið er af síðunni Iraq. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
  • Mynd af Saddam Hussein er af síðunni Image:Saddam Hussein (1).jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
  • Mynd af orrystuþotum er af síðunni Gulf war. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
  • Mynd af forseta Írans er af Iran. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
...