Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvernig koma konur fyrir í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum?

Helga Kress

Íslenskar þjóðsögur og ævintýri tilheyra aldagamalli munnlegri sagnahefð sem einkum má rekja til kvenna. Það voru þær sem sögðu sögurnar sem karlmenn síðan söfnuðu og skráðu.

Þannig segir Guðbrandur Vigfússon í formála að Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum að þótt konur hafi ekki skrifað eins margar bækur og karlmenn þá sé varðveisla þjóðsagnanna að mestu leyti þeim að þakka. Annaðhvort hafi konurnar sagt riturum sagnanna þær beint eða þeir haft þær eftir öðrum karlmönnum sem mundu það „sem mæður þeirra eður annað kvenfólk“ sagði þeim í barnæsku (Þjóðsögur II, xxxvii-iii).

Eitt elsta ævintýrið sem fært var í letur á Íslandi, Brjáms saga, var um aldamótin 1700 skráð eftir frásögn konu, og alla tíð hafa konur átt mikinn þátt í varðveislu þjóðsagna og sköpun. Lýsandi eru eftirfarandi orð skrásetjarans Jóns Borgfirðings um heimild sína fyrir útilegumannasögunni Sigríður Eyjafjarðarsól, en hann segir:
Sögufróð kona, Björg Árnadóttir í Kaupangi sagði mér undirskrif. þessa sögu, en henni sagði gömul kona Sigríður Hallgrímsdóttir á Svalbarðsströnd, en henni aftur gömul kona Elín Eiríksdóttir í sömu sveit, en hver henni sagði veit enginn maður. (Þjóðsögur II, 575).
Mjög margar þjóðsögur fjalla um konur og taka beinlínis fyrir líf þeirra og vandamál, svo sem ást í leynum, svik í tryggðum, vinnuhörku, heimilisofbeldi, nauðungargiftingar og barneignir, en einnig uppreisnir kvenna og kvennasamstöðu. Einkum sér þessa stað í huldufólkssögum og útilegumannasögum, sögum sem gerast utan samfélagsins eða á jöðrum þess og einkennast af fantasíu, draumi um öðruvísi heim.


„Djákninn á Myrká“ er ein frægasta íslenska draugasagan. Myndin er eftir Ásgrím Jónsson, 1916-18.

Nokkrar draugasögur eru einnig skráðar eftir konum, til að mynda ein sú þekktasta, Djákninn á Myrká. Fjallar hún um dauðan mann sem kemur á bæ að sækja unnustu sína. Hún heldur að hann ætli með sig á jólagleði, en í rauninni ætlar hann að taka hana með sér í gröfina.

Lýsingin á ferðalagi þeirra á hesti í tunglskini yfir ísiþakið landið er í senn mjög myndræn og full af óhugnaði. Unnustan gerir sér smám saman grein fyrir hvert ferðalagið stefnir og bjargast á síðustu stundu með því að taka í klukkustrenginn í sáluhliðinu. Djákninn steypist í gröfina en hún sturlast og á því ekki fremur en hann afturkvæmt í samfélag manna.

Í annarri frægri og örstuttri sögu, Móðir mín í kví, kví segir frá fátækri ógiftri vinnukonu sem hefur fætt barn sitt í dul og borið það út. Tekur sagan skýrt fram að hún hafi að öðrum kosti átt harða refsingu og jafnvel líflát yfir höfði sér. Þótt sagan sýni henni skilning losnar móðirin ekki við sektarkenndina. Útburðurinn kemur til hennar þar sem hún er að mjólka í kvíum, ávarpar hana í vísu og býðst til að lána henni duluna sína svo að hún komist á dansleik. Móðurinni bregður svo að hún sturlast. Fjarveru föðurins og ábyrgðarleysi sýnir sagan með þögn sinni.

Af huldufólkssögum má nefna Selmatseljuna sem höfð er „eftir húsfrú Helgu Benediktsdóttur Egilsen“ (Þjóðsögur I, 668). Sagan gerist að miklu leyti í seli, það er á mörkum samfélagsins, og fjallar um leyndar ástir mennskrar stúlku og huldumanns sem hún verður síðar að gjalda fyrir með lífi sínu.

Um „Selmatseljuna“ fjallar Guðrún Bjartmarsdóttir í ágætri grein sem enn er jafnframt ítarlegasta umfjöllunin um íslenskar þjóðsögur frá kvennafræðilegu sjónarhorni. Niðurstaða hennar er að þessar sögur snúist „oft um tilraunir kvenhetjunnar til að finna sjálfa sig og ráða lífi sínu sjálf“, meðan flest önnur öfl sagnanna vinna að því að halda henni í hefðbundnu kvenhlutverki. „Selmatseljuna“ sé „ómögulegt að lesa öðru vísi en sem ákveðna gagnrýni á karlveldið eða a.m.k. tjáningu greinilegrar vitundar um kúgun kvenna“ („Ljúflingar“, 331). Um leið sýni þessi saga á táknrænan hátt möguleika kvenna í því samfélagi sem hún lýsir, en þeir eru annaðhvort bælingin eða dauðinn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

  • Guðrún Bjartmarsdóttir, „Ljúflingar og fleira fólk: Um formgerð, hugmyndafræði og hlutverk íslenskra huldufólkssagna“. Tímarit Máls og menningar, 3/1982.
  • Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnað hefur Jón Árnason. I-VI. Ný útgáfa. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954-1961. Frumútgáfa 1862-64.
  • Úr manna minnum. Greinar um íslenskar þjóðsögur. Ritstjórar Baldur Hafstað og Haraldur Bessason. Reykjavík: Heimskringla, Háskólaforlag Máls og menningar, 2002.
  • Myndin er í eigu Listasafns Íslands.

Höfundur

Helga Kress

prófessor emerita í almennri bókmenntafræði

Útgáfudagur

22.6.2006

Spyrjandi

Brynja Einarsdóttir

Tilvísun

Helga Kress. „Hvernig koma konur fyrir í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2006. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6029.

Helga Kress. (2006, 22. júní). Hvernig koma konur fyrir í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6029

Helga Kress. „Hvernig koma konur fyrir í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2006. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6029>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig koma konur fyrir í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum?
Íslenskar þjóðsögur og ævintýri tilheyra aldagamalli munnlegri sagnahefð sem einkum má rekja til kvenna. Það voru þær sem sögðu sögurnar sem karlmenn síðan söfnuðu og skráðu.

Þannig segir Guðbrandur Vigfússon í formála að Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum að þótt konur hafi ekki skrifað eins margar bækur og karlmenn þá sé varðveisla þjóðsagnanna að mestu leyti þeim að þakka. Annaðhvort hafi konurnar sagt riturum sagnanna þær beint eða þeir haft þær eftir öðrum karlmönnum sem mundu það „sem mæður þeirra eður annað kvenfólk“ sagði þeim í barnæsku (Þjóðsögur II, xxxvii-iii).

Eitt elsta ævintýrið sem fært var í letur á Íslandi, Brjáms saga, var um aldamótin 1700 skráð eftir frásögn konu, og alla tíð hafa konur átt mikinn þátt í varðveislu þjóðsagna og sköpun. Lýsandi eru eftirfarandi orð skrásetjarans Jóns Borgfirðings um heimild sína fyrir útilegumannasögunni Sigríður Eyjafjarðarsól, en hann segir:
Sögufróð kona, Björg Árnadóttir í Kaupangi sagði mér undirskrif. þessa sögu, en henni sagði gömul kona Sigríður Hallgrímsdóttir á Svalbarðsströnd, en henni aftur gömul kona Elín Eiríksdóttir í sömu sveit, en hver henni sagði veit enginn maður. (Þjóðsögur II, 575).
Mjög margar þjóðsögur fjalla um konur og taka beinlínis fyrir líf þeirra og vandamál, svo sem ást í leynum, svik í tryggðum, vinnuhörku, heimilisofbeldi, nauðungargiftingar og barneignir, en einnig uppreisnir kvenna og kvennasamstöðu. Einkum sér þessa stað í huldufólkssögum og útilegumannasögum, sögum sem gerast utan samfélagsins eða á jöðrum þess og einkennast af fantasíu, draumi um öðruvísi heim.


„Djákninn á Myrká“ er ein frægasta íslenska draugasagan. Myndin er eftir Ásgrím Jónsson, 1916-18.

Nokkrar draugasögur eru einnig skráðar eftir konum, til að mynda ein sú þekktasta, Djákninn á Myrká. Fjallar hún um dauðan mann sem kemur á bæ að sækja unnustu sína. Hún heldur að hann ætli með sig á jólagleði, en í rauninni ætlar hann að taka hana með sér í gröfina.

Lýsingin á ferðalagi þeirra á hesti í tunglskini yfir ísiþakið landið er í senn mjög myndræn og full af óhugnaði. Unnustan gerir sér smám saman grein fyrir hvert ferðalagið stefnir og bjargast á síðustu stundu með því að taka í klukkustrenginn í sáluhliðinu. Djákninn steypist í gröfina en hún sturlast og á því ekki fremur en hann afturkvæmt í samfélag manna.

Í annarri frægri og örstuttri sögu, Móðir mín í kví, kví segir frá fátækri ógiftri vinnukonu sem hefur fætt barn sitt í dul og borið það út. Tekur sagan skýrt fram að hún hafi að öðrum kosti átt harða refsingu og jafnvel líflát yfir höfði sér. Þótt sagan sýni henni skilning losnar móðirin ekki við sektarkenndina. Útburðurinn kemur til hennar þar sem hún er að mjólka í kvíum, ávarpar hana í vísu og býðst til að lána henni duluna sína svo að hún komist á dansleik. Móðurinni bregður svo að hún sturlast. Fjarveru föðurins og ábyrgðarleysi sýnir sagan með þögn sinni.

Af huldufólkssögum má nefna Selmatseljuna sem höfð er „eftir húsfrú Helgu Benediktsdóttur Egilsen“ (Þjóðsögur I, 668). Sagan gerist að miklu leyti í seli, það er á mörkum samfélagsins, og fjallar um leyndar ástir mennskrar stúlku og huldumanns sem hún verður síðar að gjalda fyrir með lífi sínu.

Um „Selmatseljuna“ fjallar Guðrún Bjartmarsdóttir í ágætri grein sem enn er jafnframt ítarlegasta umfjöllunin um íslenskar þjóðsögur frá kvennafræðilegu sjónarhorni. Niðurstaða hennar er að þessar sögur snúist „oft um tilraunir kvenhetjunnar til að finna sjálfa sig og ráða lífi sínu sjálf“, meðan flest önnur öfl sagnanna vinna að því að halda henni í hefðbundnu kvenhlutverki. „Selmatseljuna“ sé „ómögulegt að lesa öðru vísi en sem ákveðna gagnrýni á karlveldið eða a.m.k. tjáningu greinilegrar vitundar um kúgun kvenna“ („Ljúflingar“, 331). Um leið sýni þessi saga á táknrænan hátt möguleika kvenna í því samfélagi sem hún lýsir, en þeir eru annaðhvort bælingin eða dauðinn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

  • Guðrún Bjartmarsdóttir, „Ljúflingar og fleira fólk: Um formgerð, hugmyndafræði og hlutverk íslenskra huldufólkssagna“. Tímarit Máls og menningar, 3/1982.
  • Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnað hefur Jón Árnason. I-VI. Ný útgáfa. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954-1961. Frumútgáfa 1862-64.
  • Úr manna minnum. Greinar um íslenskar þjóðsögur. Ritstjórar Baldur Hafstað og Haraldur Bessason. Reykjavík: Heimskringla, Háskólaforlag Máls og menningar, 2002.
  • Myndin er í eigu Listasafns Íslands.
...