Hinn frægi landkönnuður Marco Polo (1254-1324) sneri aftur til Ítalíu frá Kína og hafði þá með sér uppskrift að ís. Uppskriftin barst svo til Frakklands þegar Katrín af hinni frægu Medici-ætt giftist inn í frönsku konungsfjölskylduna árið 1533. Um 100 árum síðar réði Karl I Englandskonungur (1600-1649) til sín ísgerðarmann og borgaði honum fúlgur fjár til þess að halda uppskriftinni leyndri; þannig yrði þessi lúxusfæða einungis í boði fyrir hástéttina.
Þetta eru skemmtilegar frásagnir en líklega eru þær bara gróusögur sem fundnar voru upp af ísgerðarmönnum og íssölum 19. aldar, sem að sjálfsögðu vildu gera vöru sína áhugaverða í hugum fólks.
Að öllum líkindum hefur lengi tíðkast víða um heim að menn borði frosnar vörur á borð við ís. Svo virðist sem margar fornar þjóðir hafi lagt sér til munns bragðbættan snjó eða ís. Til að mynda er sagt að rómverski keisarinn Neró (37-68) hafi í þessum tilgangi látið senda eftir snjó ofan úr fjöllum og borðað hann með ávöxtum. Í sumum löndum voru byggð sérstök íshús þar sem hægt var að kæla matvæli til lengri tíma. Ís hefur svo þróast í gegnum aldirnar í takt við betri kælitækni fyrir matvæli.
Heimild og mynd
- Ice cream. Encyclopædia Britannica Online.
- Ice Cream. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Ice cream history. Dairy Bar.
- Ice cream history and folklore. University of Guelph.
- The history of ice cream. Essortment.
- Myndin er af síðunni Image:Ice Cream dessert 02.jpg. Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Lotus Head.
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2006.