Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Marco Polo var landkönnuður og einn víðförlasti Evrópumaður sinnar tíðar. Það sem hann hafði fram yfir aðra sem lögðust í ferðalög var að hann lét eftir sig skráðar heimildir og veitti þannig ómetanlega innsýn í heim sem var Evrópubúum mjög framandi.
Marco Polo fæddist um 1254, en nákvæmlega hvar og hvenær er ekki vitað. Um móður hans er lítið sagt en vitað er að hún dó þegar hann var ungur að árum, eftir það ólst hann upp hjá skyldfólki. Föður sinn, feneyskan kaupmann að nafni Niccolò, hitti Marco Polo fyrst þegar hann var orðinn stálpaður. Ástæðan var sú að faðir hans og föðurbróðir, Maffeo Polo, höfðu lagt af stað í verslunarleiðangur til Krímskaga áður en Marco fæddist. Leiðangur þeirra bræðra varð lengri en upphaflega stóð til þar sem þeir enduðu á að ferðast alla leið til Peking í Kína og sneru ekki aftur heim til Feneyja fyrr en árið 1269.
Í Peking voru Niccolò og Maffeo Polo í boði mongólska keisarans Kúblai Khan. Þar dvöldu þeir í góðu yfirlæti og svöluðu forvitni stórkhansins sem hafði áhuga á að fræðast um Evrópu. Þegar þeir bræður sneru loks aftur höfðu þeir meðferðis bréf til Klemensar páfa 4. þar sem stórkhaninn bað um að sér yrðu sendir 100 kristnir lærdómsmenn til að miðla þekkingu Evrópumanna og að auki sýnishorn af olíunni á lampanum í Grafarkirkjunni í Jerúsalem.
Þegar þeir Polobræður komu til Feneyja var Klemens páfi látinn. Að tveimur árum liðnum var enn ekki búið að velja nýjan páfa og ákváðu þeir að bíða ekki lengur, urðu sér út um olíuna sem Kúblai Khan hafði beðið um og héldu aftur af stað til Kína. Með í för var Marco, þá um 17 ára gamall. Þetta var upphafið að mikilli ævintýraför sem stóð yfir í tæpan aldarfjórðung.
Ferðin til Kína tók um þrjú og hálft ár yfir Asíu þvera; austur að Persaflóa, yfir Pamírfjalllendið og um Góbíeyðimörkina. Þegar þeir loks komu að hirð Kúblai Khan var þeim vel tekið. Næstu 16 árin dvöldu þeir við hirð stórkhansins. Marco Polo náði fljótt að tileinka sér mál og siði hinna ráðandi Mongóla og var tekinn í þjónustu keisarans. Á vegum keisarans ferðaðist hann víða til þess að afla upplýsinga um fjarlægar þjóðir og staði og fór um slóðir sem voru Evrópumönnum áður lítt kunnar. Hann fór meðal annars um Norður- og Suður-Kína, til Indlands, að Tíbet og Búrma og jafnvel að Síberíu.
Feneyingarnir virðast hafa haft það nokkuð gott í Kína og efnast vel. Þó kom sá tími að þeir vildu snúa aftur heim, meðal annars vegna þess að Kúblai Khan var farinn að eldast og þeir voru óvissir um sína stöðu þegar nýr valdhafi tæki við. Keisarinn var tregur til að veita þeim fararleyfi en tækifæri gafst þegar fylgja þurfti mongólskri prinsessu sem lofuð var Arghún Ilkhan í Persíu.
Lagt var af stað á 14 skipum frá Zaiton í Suður-Kína í upphafi árs 1292. Ferðin til Persíu var löng og ströng og tók um tvö ár. Komið var við í Singapúr, stoppað á Súmötru, siglt fyrir suðurodda Indlands og að endingu yfir Arabíuhaf til borgarinnar Hormuz í Persíu. Þar skiluðu þeir prinsessunni af sér og héldu svo ferð sinni áfram, með hléum þó, og náðu til Feneyja árið 1295.
Marco Polo fór landleiðina til Kína en sigldi góðan hluta af leiðinni til baka. Hvor leið um sig tók á bilinu 3-4 ár, reyndar með langri viðkomu víða á leiðinni. Í dag er hægt að fljúga á milli Feneyja og Peking á um það bil 10 klukkustundum.
Á þessum tíma deildu Feneyingar og Genúabúar um yfirráð yfir Miðjarðarhafinu og laust þeim stundum saman. Í einni sjóorrustunni skömmu eftir heimkomuna frá Kína handsömuðu Genúamenn marga Feneyinga, þar á meðal Marco Polo. Hann var fangelsaður en komst í fangavistinni í kynni við mann að nafni Rustichello sem skráði niður frásagnir hans af förinni til Austurlanda. Þegar fangavistinni lauk, tæpu ári síðar, var bókin Il milione tilbúin og kom hún út í Feneyjum skömmu síðar.
Marco Polo bjó í Feneyjum það sem eftir lifði ævinnar og stundaði kaupmennsku. Hann lést árið 1324 þá sjötugur að aldri.
Frásögn Marco Polo af för sinni um Austurlönd er um margt mjög merkilegt rit. Hann var ekki fyrsti eða eini Evrópumaðurinn sem ferðast hafði víða á þessum tíma en það sem gerir hann frábrugðinn er að hann skildi eftir sig ritaðar heimildir. Þar fengu Evrópumenn í fyrsta skipti nokkuð raunsanna lýsingu á Austur-Asíu. Reyndar þótti mörgum sem bókin væri uppfull af ýkjum og tröllasögum og tóku hana ekki mjög trúanlega, enda var þar sagt frá mörgum mjög framandi hlutum. Seinni tímar hafa þó leitt í ljós að þótt ýmis atriði standist ekki voru lýsingar á því sem fyrir augu og eyru bar að miklu leyti réttar.
Ekki er vitað nákvæmlega hvernig frásögn Marco Polo var í upphafi þar sem ekkert upprunalegt handrit af bókinni hefur varðveist. Bókin var afrituð af ýmsum og þýdd og í slíkri meðhöndlun hefur ýmislegt skolast til, tekið breytingum eða jafnvel verið bætt við. Þekktar eru vel yfir 100 mismunandi útgáfur af frásögninni.
Bók Marco Polo varð fljótt vinsælt rit og hefur án efa veitt mörgum seinni tíma landkönnuðum innblástur. Má þar nefna Hinrik sæfara sem var upphafsmaður könnunarferða suður með Afríkuströnd, Vasco da Gama sem fystur sigldi frá Evrópu fyrir suðurodda Afríku og til Indlands og Kristófer Kólumbus sem ætlaði að finna siglingaleiðina til Asíu en endaði í Ameríku eins og frægt er.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver var Marco Polo og hversu langt ferðaðist hann?“ Vísindavefurinn, 5. apríl 2011, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=57937.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2011, 5. apríl). Hver var Marco Polo og hversu langt ferðaðist hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=57937
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver var Marco Polo og hversu langt ferðaðist hann?“ Vísindavefurinn. 5. apr. 2011. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=57937>.