

Á þessum tíma deildu Feneyingar og Genúabúar um yfirráð yfir Miðjarðarhafinu og laust þeim stundum saman. Í einni sjóorrustunni skömmu eftir heimkomuna frá Kína handsömuðu Genúamenn marga Feneyinga, þar á meðal Marco Polo. Hann var fangelsaður en komst í fangavistinni í kynni við mann að nafni Rustichello sem skráði niður frásagnir hans af förinni til Austurlanda. Þegar fangavistinni lauk, tæpu ári síðar, var bókin Il milione tilbúin og kom hún út í Feneyjum skömmu síðar. Marco Polo bjó í Feneyjum það sem eftir lifði ævinnar og stundaði kaupmennsku. Hann lést árið 1324 þá sjötugur að aldri. Frásögn Marco Polo af för sinni um Austurlönd er um margt mjög merkilegt rit. Hann var ekki fyrsti eða eini Evrópumaðurinn sem ferðast hafði víða á þessum tíma en það sem gerir hann frábrugðinn er að hann skildi eftir sig ritaðar heimildir. Þar fengu Evrópumenn í fyrsta skipti nokkuð raunsanna lýsingu á Austur-Asíu. Reyndar þótti mörgum sem bókin væri uppfull af ýkjum og tröllasögum og tóku hana ekki mjög trúanlega, enda var þar sagt frá mörgum mjög framandi hlutum. Seinni tímar hafa þó leitt í ljós að þótt ýmis atriði standist ekki voru lýsingar á því sem fyrir augu og eyru bar að miklu leyti réttar. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig frásögn Marco Polo var í upphafi þar sem ekkert upprunalegt handrit af bókinni hefur varðveist. Bókin var afrituð af ýmsum og þýdd og í slíkri meðhöndlun hefur ýmislegt skolast til, tekið breytingum eða jafnvel verið bætt við. Þekktar eru vel yfir 100 mismunandi útgáfur af frásögninni. Bók Marco Polo varð fljótt vinsælt rit og hefur án efa veitt mörgum seinni tíma landkönnuðum innblástur. Má þar nefna Hinrik sæfara sem var upphafsmaður könnunarferða suður með Afríkuströnd, Vasco da Gama sem fystur sigldi frá Evrópu fyrir suðurodda Afríku og til Indlands og Kristófer Kólumbus sem ætlaði að finna siglingaleiðina til Asíu en endaði í Ameríku eins og frægt er. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver sigldi fyrstur umhverfis jörðina? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Marco Polo á Wikipedia. Skoðað 30. 3. 2011
- Marco Polo á Encyclopædia Britannica Online. Skoðað 30. 3. 2011.
- Eric Newby. 1982. Könnunarsaga veraldar. Reykjavík. Örn og Örlygur.
- Richard Humble. 1982. Marco Polo. Reykjavík, Örn og Örlygur.
- Mynd af Marco Polo: Marco Polo á Wikipedia. Myndin er líklega frá 16. öld. Sótt 3. 4. 2011.
- Kort: Marco Polo á Wikipedia. Sótt 3. 4. 2011.