Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:06 • Sest 03:07 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:24 • Síðdegis: 13:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:38 • Síðdegis: 20:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:06 • Sest 03:07 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:24 • Síðdegis: 13:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:38 • Síðdegis: 20:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér sem mest um Hallgrím Pétursson?

Kristján Eiríksson

Hallgrímur Pétursson er jafnan talinn fæddur í Gröf á Höfðaströnd árið 1614. Foreldrar hans voru Pétur Guðmundsson og kona hans Solveig Jónsdóttir. Hallgrímur mun að mestu hafa verið alinn upp á Hólum í Hjaltadal en þar var faðir hans hringjari. Hefur hann þar líklega notið frændsemi við Guðbrand biskup Þorláksson en Pétur og hann voru bræðrasynir.

Hallgrímur þótti nokkuð baldinn í æsku og af ókunnum ástæðum hverfur hann frá Hólum. Segir síra Vigfús Jónsson frá Hítardal, sem skrifaði ævisögu Hallgríms, að hann hafi að sumra sögn komist „í einhvörja ólempni fyrir kveðskap eður þesskonar unggæðishátt hjá fyrirkvenfólki á stólnum“. Telur Vigfús að fyrir þennan kveðskap hafi Hallgrímur verið látinn fara frá Hólum og hafi eftir það farið utan og komist þar í þjónustu hjá járnsmið eða kolamanni, annaðhvort í Glückstadt í Norður-Þýskalandi eða í Kaupmannahöfn.

Hvað sem því líður þá er Hallgrímur kominn til Kaupmannahafnar árið 1632 en þá um haustið kemst hann í Vorrar frúar skóla fyrir tilstyrk Brynjólfs Sveinssonar, síðar biskups. Haustið 1636 er hann kominn í efsta bekk skólans og er þá fenginn til þess að hressa upp á kristindóm Íslendinga þeirra sem leystir höfðu verið úr ánauð í Alsír eftir að hafa verið herleiddir þangað eftir Tyrkjaránið 1627.

Meðal hinna útleystu var Guðríður Símonardóttir úr Vestmannaeyjum en hún mun hafa verið um það bil sextán árum eldri en Hallgrímur (líklega fædd 1598). Guðríður var gift kona. Hét maður hennar Eyjólfur Sölmundarson og hafði hann sloppið við herleiðinguna úr Eyjum. Þau Hallgrímur og Guðríður felldu hugi saman og varð Guðríður brátt barnshafandi af hans völdum. Þar með var skólanámi Hallgríms sjálfhætt og hélt hann með Guðríði til Íslands vorið 1637. Eyjólfur, maður Guðríðar, var þá dáinn, hafði farist í fiskiróðri rúmu ári áður en óvíst er að sú frétt hafi borist Hallgrími og Guðríði fyrr en eftir að þau komu til ættjarðarinnar.

Guðríður ól barn stuttu eftir komuna til Íslands og skömmu síðar gengu þau Hallgrímur í hjónaband. Næstu árin vann Hallgrímur ýmiss konar púlsvinnu á Suðurnesjum og þar munu þau hjón hafa lifað við sára fátækt en ekki er vitað með vissu hvar þau bjuggu á þeim tíma. Árið 1644 var Hallgrímur vígður til prests á Hvalsnesi og mun hann þar hafa notið síns forna velgjörðarmanns, Brynjólfs biskups. Heldur vænkaðist hagur þeirra hjóna við það en sagnir herma að sambúð Hallgríms við stórbokka og auðuga útvegsbændur í nágrenninu hafi þó verið heldur brösótt og hann þá stundum látið fjúka í kviðlingum.

Hallgrímur þjónaði Halsnesþingum þangað til honum var veittur Saurbær á Hvalfjarðarströnd árið 1651. Þar bjó hann við nokkuð góð efni þrátt fyrir að bær þeirra Guðríðar brynni í eldi árið 1662. Nokkru seinna, 1665, var Hallgrímur sleginn líkþrá og átti erfitt með að þjóna embætti sínu. Lét hann endanlega af prestskap 1668. Þau hjón flytja síðan til Eyjólfs sonar síns á Kalastöðum og síðan að Ferstiklu og þar andaðist Hallgrímur 27. október 1674.

Þriggja barna Hallgríms og Guðríðar er getið með nafni í heimildum. Eyjólfur var elstur, þá Guðmundur og yngst Steinunn sem dó á fjórða ári. Eftir hana orti Hallgrímur eitt hjartnæmast harmljóð á íslenska tungu. Ekkert er vitað um afdrif Guðmundar en trúlega hefur hann dáið í æsku eða á unglingsárum. Eyjólfur bjó síðast á Ferstiklu eftir föður sinn og þar andaðist hann 1679. Flutti þá Guðríður móðir hans aftur að Saurbæ og dó þar árið 1682 hjá síra Hannesi Björnssyni, eftirmanni Hallgríms í embætti

Hallgrímur er tvímælalaust frægast trúarskáld Íslendinga og líklega hefur ekkert skáld orðið þjóðinni hjartfólgnara en hann. Frægasta verk hans eru Passíusálmarnir, ortir út af píslarsögu Krists. Þeir voru fyrst prentaðir á Hólum 1666 og hafa nú komið út yfir níutíu sinnum. Hallgrímskver, sálmar og trúarleg kvæði eftir Hallgrím, kom fyrst út á Hólum 1755. Það hefur síðan verið gefið út allnokkrum sinnum, meðal annars af meistara Hálfdani Einarssyni sem lagði sig mjög fram um að fá sem réttastan og bestan texta skáldsins. Þykir síðasta útgáfan sem hann sá um hvað traustust en hún kom út á Hólum 1773.

Hallgrímur orti einnig sálma út af fyrri Samúelsbók og upphafi þeirrar síðari en hætti þá í miðjum klíðum. Sigurður Gíslason og Jón Eyjólfsson á Gilsbakka luku Samúelssálmum að Hallgrími liðnum og voru þeir prentaðir á Hólum 1747. Sálmurinn Um dauðans óvissan tíma (Allt eins og blómstrið eina) er ásamt Passíusálmunum frægasta trúarljóð Hallgríms og hefur lengi verið sungið við flestar jarðarfarir á Íslandi.

Hallgrímur samdi einnig guðrækileg rit í óbundnu máli. Sjö guðrækilegar umþenkingar komu fyrst út á Hólum 1677 og Diarium Christianum (Dagleg iðkun ...) 1680.

Af veraldlegum kveðskap Hallgríms er helst að nefna Krókarefsrímur og Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu. (Sjá Rit Rímnafélagsins VII. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Reykjavík 1956). Þá tók hann til við að yrkja Rímur af Flóres og Leo þar sem Bjarni Jónsson skáldi hætti og lauk þeim. (Sjá Rit Rímnafélagsins VI. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Reykjavík 1956).

Hallgrímur var vel lesinn í íslenskum fornbókmenntum og fékkst meðal annars við skýringar á fornum kveðskap.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Helstu heimildir og myndir

  • Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 1. Margrét Eggertsdóttir bjó til prentunar. Reykjavík 2000.
  • Magnús Jónsson: Hallgrímur Pétursson. Æfi hans og starf I–II. Reykjavík 1947.
  • Sálmar og kvæði eptir Hallgrím Pétursson I–II. Grímur Thomsen annaðist útgáfuna. Reykjavík 1887–1890.
  • Vigfús Jónsson: „Hallgrímur Pétursson.“ Merkir Íslendingar – Ævisögur og minningargreinar II Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar. Reykjavík 1947, bls. 3–34.
  • Póstkortið er fengið af síðunni Póstkort frá Íslandi: Hallgrímur Pétursson. Sótt 26.7.2006.
  • Mynd af styttu er fengin af síðunni List og fræði. Heimasíða Ástu Olgu. Sótt 26.7.2006.

Höfundur

Útgáfudagur

26.7.2006

Spyrjandi

Aldís Björg Jónasdóttir

Tilvísun

Kristján Eiríksson. „Getið þið sagt mér sem mest um Hallgrím Pétursson?“ Vísindavefurinn, 26. júlí 2006, sótt 10. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6087.

Kristján Eiríksson. (2006, 26. júlí). Getið þið sagt mér sem mest um Hallgrím Pétursson? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6087

Kristján Eiríksson. „Getið þið sagt mér sem mest um Hallgrím Pétursson?“ Vísindavefurinn. 26. júl. 2006. Vefsíða. 10. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6087>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér sem mest um Hallgrím Pétursson?
Hallgrímur Pétursson er jafnan talinn fæddur í Gröf á Höfðaströnd árið 1614. Foreldrar hans voru Pétur Guðmundsson og kona hans Solveig Jónsdóttir. Hallgrímur mun að mestu hafa verið alinn upp á Hólum í Hjaltadal en þar var faðir hans hringjari. Hefur hann þar líklega notið frændsemi við Guðbrand biskup Þorláksson en Pétur og hann voru bræðrasynir.

Hallgrímur þótti nokkuð baldinn í æsku og af ókunnum ástæðum hverfur hann frá Hólum. Segir síra Vigfús Jónsson frá Hítardal, sem skrifaði ævisögu Hallgríms, að hann hafi að sumra sögn komist „í einhvörja ólempni fyrir kveðskap eður þesskonar unggæðishátt hjá fyrirkvenfólki á stólnum“. Telur Vigfús að fyrir þennan kveðskap hafi Hallgrímur verið látinn fara frá Hólum og hafi eftir það farið utan og komist þar í þjónustu hjá járnsmið eða kolamanni, annaðhvort í Glückstadt í Norður-Þýskalandi eða í Kaupmannahöfn.

Hvað sem því líður þá er Hallgrímur kominn til Kaupmannahafnar árið 1632 en þá um haustið kemst hann í Vorrar frúar skóla fyrir tilstyrk Brynjólfs Sveinssonar, síðar biskups. Haustið 1636 er hann kominn í efsta bekk skólans og er þá fenginn til þess að hressa upp á kristindóm Íslendinga þeirra sem leystir höfðu verið úr ánauð í Alsír eftir að hafa verið herleiddir þangað eftir Tyrkjaránið 1627.

Meðal hinna útleystu var Guðríður Símonardóttir úr Vestmannaeyjum en hún mun hafa verið um það bil sextán árum eldri en Hallgrímur (líklega fædd 1598). Guðríður var gift kona. Hét maður hennar Eyjólfur Sölmundarson og hafði hann sloppið við herleiðinguna úr Eyjum. Þau Hallgrímur og Guðríður felldu hugi saman og varð Guðríður brátt barnshafandi af hans völdum. Þar með var skólanámi Hallgríms sjálfhætt og hélt hann með Guðríði til Íslands vorið 1637. Eyjólfur, maður Guðríðar, var þá dáinn, hafði farist í fiskiróðri rúmu ári áður en óvíst er að sú frétt hafi borist Hallgrími og Guðríði fyrr en eftir að þau komu til ættjarðarinnar.

Guðríður ól barn stuttu eftir komuna til Íslands og skömmu síðar gengu þau Hallgrímur í hjónaband. Næstu árin vann Hallgrímur ýmiss konar púlsvinnu á Suðurnesjum og þar munu þau hjón hafa lifað við sára fátækt en ekki er vitað með vissu hvar þau bjuggu á þeim tíma. Árið 1644 var Hallgrímur vígður til prests á Hvalsnesi og mun hann þar hafa notið síns forna velgjörðarmanns, Brynjólfs biskups. Heldur vænkaðist hagur þeirra hjóna við það en sagnir herma að sambúð Hallgríms við stórbokka og auðuga útvegsbændur í nágrenninu hafi þó verið heldur brösótt og hann þá stundum látið fjúka í kviðlingum.

Hallgrímur þjónaði Halsnesþingum þangað til honum var veittur Saurbær á Hvalfjarðarströnd árið 1651. Þar bjó hann við nokkuð góð efni þrátt fyrir að bær þeirra Guðríðar brynni í eldi árið 1662. Nokkru seinna, 1665, var Hallgrímur sleginn líkþrá og átti erfitt með að þjóna embætti sínu. Lét hann endanlega af prestskap 1668. Þau hjón flytja síðan til Eyjólfs sonar síns á Kalastöðum og síðan að Ferstiklu og þar andaðist Hallgrímur 27. október 1674.

Þriggja barna Hallgríms og Guðríðar er getið með nafni í heimildum. Eyjólfur var elstur, þá Guðmundur og yngst Steinunn sem dó á fjórða ári. Eftir hana orti Hallgrímur eitt hjartnæmast harmljóð á íslenska tungu. Ekkert er vitað um afdrif Guðmundar en trúlega hefur hann dáið í æsku eða á unglingsárum. Eyjólfur bjó síðast á Ferstiklu eftir föður sinn og þar andaðist hann 1679. Flutti þá Guðríður móðir hans aftur að Saurbæ og dó þar árið 1682 hjá síra Hannesi Björnssyni, eftirmanni Hallgríms í embætti

Hallgrímur er tvímælalaust frægast trúarskáld Íslendinga og líklega hefur ekkert skáld orðið þjóðinni hjartfólgnara en hann. Frægasta verk hans eru Passíusálmarnir, ortir út af píslarsögu Krists. Þeir voru fyrst prentaðir á Hólum 1666 og hafa nú komið út yfir níutíu sinnum. Hallgrímskver, sálmar og trúarleg kvæði eftir Hallgrím, kom fyrst út á Hólum 1755. Það hefur síðan verið gefið út allnokkrum sinnum, meðal annars af meistara Hálfdani Einarssyni sem lagði sig mjög fram um að fá sem réttastan og bestan texta skáldsins. Þykir síðasta útgáfan sem hann sá um hvað traustust en hún kom út á Hólum 1773.

Hallgrímur orti einnig sálma út af fyrri Samúelsbók og upphafi þeirrar síðari en hætti þá í miðjum klíðum. Sigurður Gíslason og Jón Eyjólfsson á Gilsbakka luku Samúelssálmum að Hallgrími liðnum og voru þeir prentaðir á Hólum 1747. Sálmurinn Um dauðans óvissan tíma (Allt eins og blómstrið eina) er ásamt Passíusálmunum frægasta trúarljóð Hallgríms og hefur lengi verið sungið við flestar jarðarfarir á Íslandi.

Hallgrímur samdi einnig guðrækileg rit í óbundnu máli. Sjö guðrækilegar umþenkingar komu fyrst út á Hólum 1677 og Diarium Christianum (Dagleg iðkun ...) 1680.

Af veraldlegum kveðskap Hallgríms er helst að nefna Krókarefsrímur og Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu. (Sjá Rit Rímnafélagsins VII. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Reykjavík 1956). Þá tók hann til við að yrkja Rímur af Flóres og Leo þar sem Bjarni Jónsson skáldi hætti og lauk þeim. (Sjá Rit Rímnafélagsins VI. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Reykjavík 1956).

Hallgrímur var vel lesinn í íslenskum fornbókmenntum og fékkst meðal annars við skýringar á fornum kveðskap.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Helstu heimildir og myndir

  • Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 1. Margrét Eggertsdóttir bjó til prentunar. Reykjavík 2000.
  • Magnús Jónsson: Hallgrímur Pétursson. Æfi hans og starf I–II. Reykjavík 1947.
  • Sálmar og kvæði eptir Hallgrím Pétursson I–II. Grímur Thomsen annaðist útgáfuna. Reykjavík 1887–1890.
  • Vigfús Jónsson: „Hallgrímur Pétursson.“ Merkir Íslendingar – Ævisögur og minningargreinar II Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar. Reykjavík 1947, bls. 3–34.
  • Póstkortið er fengið af síðunni Póstkort frá Íslandi: Hallgrímur Pétursson. Sótt 26.7.2006.
  • Mynd af styttu er fengin af síðunni List og fræði. Heimasíða Ástu Olgu. Sótt 26.7.2006.
...