Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver er Eric Hobsbawm og hvert er hans framlag til sagnfræðinnar?

Loftur Guttormsson

Eric Hobsbawm er af gyðingaættum, fæddur árið 1917 í Alexandríu í Egyptalandi þar sem faðir hans var í þjónustu breska heimsveldisins. Hann missti foreldra sína á unga aldri en ólst upp í Vín og Berlín hjá ættingjum sem tóku hann í fóstur. Í kjölfar valdatöku nasista í Þýskalandi 1933 fluttist hann ásamt ættingjunum til Lundúna þar sem hann hélt áfram menntaskólanámi. Hann lauk doktorsprófi i sagnfræði frá Cambridge-háskóla (King‘s College). Ólíkt flestum breskum sagnfræðingum gerðist hann mikill málamaður: auk ensku og þýsku, sem hann ólst upp við, náði hann valdi á öllum rómönsku málunum. Árið 1947 varð Hobsbawm kennari við Lundúnaháskóla (Birkbeck College) og prófessor þar frá 1970, emeritus frá 1982. Hann var frumkvöðull að stofnun hins vel metna tímarits Past and Present 1952. Á sjöunda áratugnum var Hobsbawm gestaprófessor við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum og gestaprófessor við The New School for Social Research í New York 1984-1997. Á langri starfsævi hafa honum hlotnast margs konar viðurkenningar; meðal annars var hann kjörinn félagi í Bresku akademíunni (1978) og heiðursfélagi í Bandarísku vísindaakademíunni (1982). Hann er tvígiftur og þriggja barna faðir.

Eric Hobsbawm.

Hobsbawm er án efa þekktasti sagnfræðingur samtímans í hópi þeirra sem starfa í anda marxisma. Eins og vel kemur fram í sjálfsævisögu hans, Ineresting times: a twentieth-century life (2002), mótuðust pólitísk viðhorf hans mjög af stjórnmálaástandinu í Berlín undir lok Weimarlýðveldisins upp úr 1930. Hobsbawm skipaði sér þá strax í sveit með kommúnistum. Í Englandi gekk hann síðan í Kommúnistaflokk Bretlands. Ásamt sagnfræðingunum Christopher Hill (1912-2003) og E. P. Thompson (1924-1993) myndaði hann hið fræga þríeyki – troika – í sagnfræðihópi kommúnistaflokksins; af þeim þremenningum var Hobsbawm reyndar sá sem sneri síðastur baki við sovétkommúnismanum.

Ekki leyna sér tengslin milli þjóðfélags- og stjórnmálaviðhorfa Hobsbawms og þeirra sagnfræðilegu viðfangsefna sem hann hefur einkum lagt stund á. Hér er um að ræða annars vegar þróun kapítalískra, borgaralegra þjóðfélagshátta frá dögum iðnbyltingar og til okkar daga og hins vegar andóf í ýmissi mynd sem þessi þróun hefur vakið, bæði af hálfu verkalýðs og einstakra uppreisnarmanna og -hópa, sem og félagslegar afleiðingar hennar í víðari skilningi.

Varðandi fyrrnefnda viðfangsefnið ber fremst að nefna „þríleikinn“ The Age of Revolution: Europe 1789-1848 (1962), The Age of Capital: 1848-1875 (1975) og The Age of Empire: 1875-1914 (1987). Í þessu mikla verki fer saman skörp greining, víðfeðm þekking, sem byggist meðal annars á mikilli málakunnáttu höfundar, og einstök ritleikni. Hobsbawm hagnýtir sér hér marxíska söguskoðun einkum til að opna víða sýn – til að tengja saman ólíka þætti hinnar sögulegu þróunar þannig að úr verður samfelld og áhrifamikil heild. Strax með fyrsta bindinu ávann Hobsbawm sér almenna viðurkenningu sem afburðahöfundur yfirlitssögu. Hér er rakinn framgangur hinnar tvíþættu byltingar – iðnbyltingarinnar bresku og stjórnarbyltingarinnar frönsku – sem ruddi braut kapítalískum þjóðfélagsháttum. Í seinni bindunum tveimur víkkar sögusviðið út fyrir Evrópu í takt við útþenslu kapítalismans og heimsveldisstefnu hinna helstu Evrópuvelda. Árið 1994 birti Hobsbawm svo framhald þessarar sögu, The Age of Extremes: the short twentieth century, 1914-1991 sem komið hefur út á íslensku undir heitinu Öld öfganna: saga heimsins 1914-1991 í þýðingu Árna Óskarssonar.



Þríleikur Hobsbawms ásamt Öld öfganna spanna tímabilið frá síðari hluta 18. aldar og fram undir lok þeirrar 20.

Í tengslum við síðarnefnda viðfangsefnið hefur Hobsbawm birt á langri starfsævi allmörg rit, meðal annars Primitive Rebels: studies in archaic forms of social movements in the 19th and 20th centuries (1959), Labouring Men: studies in the history of labour (1964) og Uncommon People: resistance, rebellion and jazz (1998). Hér er fjallað um kjör og menningu einstakra hópa verkafólks og handverksmanna sem og viðbrögð þeirra við þeim miklu breytingum sem hin öra en skrykkjótta efnahagsþróun 19. aldar hafði í för með sér.

Aukagetu á efri árum má kalla rannsóknir Hobsbawms á hefðum og þjóðernishyggju, einkum ritin The Invention of Tradition (ritstjóri ásamt T. Ranger) og Nations and Nationalism since 1780 (1991). Ekki leynir sér gagnrýnið viðhorf Hobsbawms til sögulegra áhrifa þjóðernishyggjunnar – hún hafi gjarnan orðið tæki í höndum mennta- og millistétta til valda og upphefðar innan hinna nýju þjóðríkjamarka. Í þessu skyni hafi „hefðir“ einatt verið diktaðar upp (e. invented) til að efla samkennd fólks í hinum nýju þjóðríkjum 19. og 20. aldar.

Viðhorf Hobsbawms til margra álitamála í sagnfræði, bæði kenninga og aðferða, koma annars skýrt fram í ritgerðasafninu On History (1997). Það sem auðkennir öðru fremur rannsóknir og efnistök Hobsbawms er hversu víðfeðm og yfirgripsmikil þau eru. Af þessum sökum verða rit hans ekki auðveldlega dregin í dilka eftir helstu undirgreinum sagnfræðinnar – hagsögu, félagsögu, menningarsögu. Sjálfur talar hann líka gagngert fyrir því að flétta beri saman þessa meginþætti þannig að úr verði það sem hann kallar „the history of society“, þjóðfélagssaga.

Í hárri elli var Hobsbawm enn mikilvirkur fræðimaður. Níræður að aldri birti hann þannig ritið Globalisation , Democracy and Terrorism (2007) þar sem hann varpar meðal annars ljósi á kreppu lýðræðislegra stjórnarhátta sem hafi ágerst í takt við hnattvæðingu kapítalismans síðustu áratugina. Gagnrýni á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem ólíkt heimsveldum fyrri tíma beiti sér fyrir að „flytja út“ vestrænt lýðræði með hervaldi til framandi landa, er rauður þráður í þessu riti.

Eric Hobsbawm lést 1. október 2012, 95 ára að aldri.

Heimildir og myndir:

Höfundur

prófessor emeritus við menntavísindasvið HÍ

Útgáfudagur

25.10.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Loftur Guttormsson. „Hver er Eric Hobsbawm og hvert er hans framlag til sagnfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 25. október 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61005.

Loftur Guttormsson. (2011, 25. október). Hver er Eric Hobsbawm og hvert er hans framlag til sagnfræðinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61005

Loftur Guttormsson. „Hver er Eric Hobsbawm og hvert er hans framlag til sagnfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 25. okt. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61005>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er Eric Hobsbawm og hvert er hans framlag til sagnfræðinnar?
Eric Hobsbawm er af gyðingaættum, fæddur árið 1917 í Alexandríu í Egyptalandi þar sem faðir hans var í þjónustu breska heimsveldisins. Hann missti foreldra sína á unga aldri en ólst upp í Vín og Berlín hjá ættingjum sem tóku hann í fóstur. Í kjölfar valdatöku nasista í Þýskalandi 1933 fluttist hann ásamt ættingjunum til Lundúna þar sem hann hélt áfram menntaskólanámi. Hann lauk doktorsprófi i sagnfræði frá Cambridge-háskóla (King‘s College). Ólíkt flestum breskum sagnfræðingum gerðist hann mikill málamaður: auk ensku og þýsku, sem hann ólst upp við, náði hann valdi á öllum rómönsku málunum. Árið 1947 varð Hobsbawm kennari við Lundúnaháskóla (Birkbeck College) og prófessor þar frá 1970, emeritus frá 1982. Hann var frumkvöðull að stofnun hins vel metna tímarits Past and Present 1952. Á sjöunda áratugnum var Hobsbawm gestaprófessor við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum og gestaprófessor við The New School for Social Research í New York 1984-1997. Á langri starfsævi hafa honum hlotnast margs konar viðurkenningar; meðal annars var hann kjörinn félagi í Bresku akademíunni (1978) og heiðursfélagi í Bandarísku vísindaakademíunni (1982). Hann er tvígiftur og þriggja barna faðir.

Eric Hobsbawm.

Hobsbawm er án efa þekktasti sagnfræðingur samtímans í hópi þeirra sem starfa í anda marxisma. Eins og vel kemur fram í sjálfsævisögu hans, Ineresting times: a twentieth-century life (2002), mótuðust pólitísk viðhorf hans mjög af stjórnmálaástandinu í Berlín undir lok Weimarlýðveldisins upp úr 1930. Hobsbawm skipaði sér þá strax í sveit með kommúnistum. Í Englandi gekk hann síðan í Kommúnistaflokk Bretlands. Ásamt sagnfræðingunum Christopher Hill (1912-2003) og E. P. Thompson (1924-1993) myndaði hann hið fræga þríeyki – troika – í sagnfræðihópi kommúnistaflokksins; af þeim þremenningum var Hobsbawm reyndar sá sem sneri síðastur baki við sovétkommúnismanum.

Ekki leyna sér tengslin milli þjóðfélags- og stjórnmálaviðhorfa Hobsbawms og þeirra sagnfræðilegu viðfangsefna sem hann hefur einkum lagt stund á. Hér er um að ræða annars vegar þróun kapítalískra, borgaralegra þjóðfélagshátta frá dögum iðnbyltingar og til okkar daga og hins vegar andóf í ýmissi mynd sem þessi þróun hefur vakið, bæði af hálfu verkalýðs og einstakra uppreisnarmanna og -hópa, sem og félagslegar afleiðingar hennar í víðari skilningi.

Varðandi fyrrnefnda viðfangsefnið ber fremst að nefna „þríleikinn“ The Age of Revolution: Europe 1789-1848 (1962), The Age of Capital: 1848-1875 (1975) og The Age of Empire: 1875-1914 (1987). Í þessu mikla verki fer saman skörp greining, víðfeðm þekking, sem byggist meðal annars á mikilli málakunnáttu höfundar, og einstök ritleikni. Hobsbawm hagnýtir sér hér marxíska söguskoðun einkum til að opna víða sýn – til að tengja saman ólíka þætti hinnar sögulegu þróunar þannig að úr verður samfelld og áhrifamikil heild. Strax með fyrsta bindinu ávann Hobsbawm sér almenna viðurkenningu sem afburðahöfundur yfirlitssögu. Hér er rakinn framgangur hinnar tvíþættu byltingar – iðnbyltingarinnar bresku og stjórnarbyltingarinnar frönsku – sem ruddi braut kapítalískum þjóðfélagsháttum. Í seinni bindunum tveimur víkkar sögusviðið út fyrir Evrópu í takt við útþenslu kapítalismans og heimsveldisstefnu hinna helstu Evrópuvelda. Árið 1994 birti Hobsbawm svo framhald þessarar sögu, The Age of Extremes: the short twentieth century, 1914-1991 sem komið hefur út á íslensku undir heitinu Öld öfganna: saga heimsins 1914-1991 í þýðingu Árna Óskarssonar.



Þríleikur Hobsbawms ásamt Öld öfganna spanna tímabilið frá síðari hluta 18. aldar og fram undir lok þeirrar 20.

Í tengslum við síðarnefnda viðfangsefnið hefur Hobsbawm birt á langri starfsævi allmörg rit, meðal annars Primitive Rebels: studies in archaic forms of social movements in the 19th and 20th centuries (1959), Labouring Men: studies in the history of labour (1964) og Uncommon People: resistance, rebellion and jazz (1998). Hér er fjallað um kjör og menningu einstakra hópa verkafólks og handverksmanna sem og viðbrögð þeirra við þeim miklu breytingum sem hin öra en skrykkjótta efnahagsþróun 19. aldar hafði í för með sér.

Aukagetu á efri árum má kalla rannsóknir Hobsbawms á hefðum og þjóðernishyggju, einkum ritin The Invention of Tradition (ritstjóri ásamt T. Ranger) og Nations and Nationalism since 1780 (1991). Ekki leynir sér gagnrýnið viðhorf Hobsbawms til sögulegra áhrifa þjóðernishyggjunnar – hún hafi gjarnan orðið tæki í höndum mennta- og millistétta til valda og upphefðar innan hinna nýju þjóðríkjamarka. Í þessu skyni hafi „hefðir“ einatt verið diktaðar upp (e. invented) til að efla samkennd fólks í hinum nýju þjóðríkjum 19. og 20. aldar.

Viðhorf Hobsbawms til margra álitamála í sagnfræði, bæði kenninga og aðferða, koma annars skýrt fram í ritgerðasafninu On History (1997). Það sem auðkennir öðru fremur rannsóknir og efnistök Hobsbawms er hversu víðfeðm og yfirgripsmikil þau eru. Af þessum sökum verða rit hans ekki auðveldlega dregin í dilka eftir helstu undirgreinum sagnfræðinnar – hagsögu, félagsögu, menningarsögu. Sjálfur talar hann líka gagngert fyrir því að flétta beri saman þessa meginþætti þannig að úr verði það sem hann kallar „the history of society“, þjóðfélagssaga.

Í hárri elli var Hobsbawm enn mikilvirkur fræðimaður. Níræður að aldri birti hann þannig ritið Globalisation , Democracy and Terrorism (2007) þar sem hann varpar meðal annars ljósi á kreppu lýðræðislegra stjórnarhátta sem hafi ágerst í takt við hnattvæðingu kapítalismans síðustu áratugina. Gagnrýni á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem ólíkt heimsveldum fyrri tíma beiti sér fyrir að „flytja út“ vestrænt lýðræði með hervaldi til framandi landa, er rauður þráður í þessu riti.

Eric Hobsbawm lést 1. október 2012, 95 ára að aldri.

Heimildir og myndir:

...