Flestrar bjórtegundir sem seldar eru á Íslandi innihalda á bilinu 4-6% magn alkóhóls. Samkvæmt upplýsingum af vef Lýðheilsustöðvar hækkar orkuinnihald bjórs með áfengisstyrkleika: Bjór með 3,8% alkóhól af rúmmáli inniheldur 35 kkal í hverjum 100 g, í sama magni af 4,5% bjór eru 39 kkal, 5,0% bjór inniheldur 45 kkal og í 5,6% bjór eru 46 kkal í 100 g. Þetta þýðir að drekki menn fjóra stóra bjóra (samtals tvo lítra) innbyrða þeir á bilinu 700 til 920 hitaeiningar, sem slagar vel upp í helming af daglegri orkuþörf meðalmanneskju.
Til er svokallaður léttbjór sem inniheldur nokkuð færri hitaeiningar en venjulegur bjór. Léttbjór hefur um 4,4% áfengisstyrkleika og í hverjum 100 g eru 29 kkal. Samkvæmt upplýsingum frá Baldri Kárasyni, bruggmeistara hjá Vífilfelli, verður alltaf eitthvað eftir af svokölluðum ógerjanlegum kolvetnum eftir bruggun á venjulegum bjór, en þessi kolvetni auka orkuinnihald bjórsins. Við gerð léttbjórs er aftur á móti sérstökum aðferðum beitt til að gerja öll kolvetni og léttbjór er því ekki jafn orkuríkur og venjulegur bjór af sama styrkleika.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hvað er hollt mataræði? eftir Björn Sigurð Gunnarsson.
- Hvenær hófu menn að brugga bjór? Var bjór bruggaður á Íslandi fyrr á öldum? eftir Hallgerði Gísladóttur.
- Hver er lágmarks næringarþörf mannsins? eftir Bryndísi Evu Birgisdóttur.
- Hvernig er bjór búinn til? eftir Finnboga Óskarsson.
- Hvernig er farið að því að finna út næringargildi matvæla? eftir Björn Sigurð Gunnarsson.
- Hvers vegna verða sumir feitir þótt þeir borði alveg eins mat og þeir grönnu? eftir Magnús Jóhannsson.
- Bjór. Vínbúð.
- Næringarefnatöflur: Drykkir, nema mjólkurdrykkir. Lýðheilsustöð.
- Myndin er fengin af síðunni Image:Leffe_900px.jpg. Wikimedia Commons.