- Hvers lenskt er fólk frá Litháen, er það litháenskt eða litháískt?
- Hvað með fólk frá Filippseyjum, er það filippseyskt eða filippískt?
- Hvað kallast japanskt fólk, Japanir eða Japanar?

Á heimasíðu Íslenskrar málstöðvar kemur fram að Japanar búi í Japan en á heimasíðu Orðabókar Háskólans er orðið Japanir einnig gefið upp. Í Íslenskri orðabók (2002) kemur sömuleiðis fram að hægt sé að segja hvort sem er Japanir eða Japanar. Filippseyingar búa á Filippseyjum samkvæmt ofangreindum heimasíðum og eru filippseyskir. Þeir sem búa í Litháen kallast Litháar. Á heimasíðu Íslenskrar málstöðvar er lýsingarorðið litháískur gefið en í Íslenskri orðabók er það litháskur. Samkvæmt upplýsingum frá Guðrúnu Kvaran, forstöðumanni Orðabókar Háskólans, er hægt að nota bæði þessi orð en hún mælir þó með að nota orðið litháískur vegna þess að það virðist algengara í máli manna. Að lokum má geta þess að ef heimildirnar sem hér hafa verið nefndar greiða ekki úr því hvað sé rétt að kalla einstakar þjóðir þá er athugandi að hafa samband við Íslenska málstöð og sjá hvort ekki sé hægt að fá úr því skorið þar. Mynd: Eurovision Song Contest