Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hver er Nancy Chodorow og hvert er hennar framlag til fræðanna?

Þorgerður Einarsdóttir

Nancy Chodorow er bandarísk fræðikona, fædd 1944. Hún hefur fræðilegan bakgrunn í félagsfræði, mannfræði, sálgreiningu og fleiri greinum. Hún hefur skrifað fjölda bóka og greina og fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín. Rannsóknir Chodorow hafa að mestu snúist um þverfræðilega úrvinnslu á kenningum og sjónarmiðum sálgreiningarinnar. Hún starfaði lengst af við félagsfræðideild University of California, Berkeley, en hefur jafnframt unnið meðferðarstörf samhliða fræðimennsku.

Nancy Chodorow.

Chodorow telur, í anda sálgreiningar, að grunninn að persónueinkennum og sjálfsmynd fólks megi rekja til bernsku og frumbernsku. Hún þróar þessar hugmyndir í bókinni The Reproduction of Mothering (1978) sem er eitt frægasta verk hennar. Þar leitast hún við að skýra hvernig persónuleiki er skapaður og endurskapaður í reynsluheimi kynslóðanna. Hún tengdi persónuleikaþróun við samfélagsleg mynstur og taldi að sú staðreynd að konur væru aðalumönnunaraðilar barna hefði víðtæka þýðingu og afleiðingar.

Hugmyndir Chodorow gera ráð fyrir að persónuleikaþróun eigi rætur sínar í nánum tengslum mæðra og barna á fyrstu æviárunum og þar skipti kyn meginmáli. Hún telur að stúlkur samsami sig mæðrum sínum vegna þess að þær eru af sama kyni. Sú samsömun haldi áfram eftir barnæsku og sjálfsmynd stelpna þróist aðallega í gegnum tengsl. Af þessari ástæðu hafi stelpur ríka tilhneigingu til að vera umhyggjusamar og næmar fyrir aðstæðum og tengslum en geti hins vegar átt erfitt með að aðgreina sig frá öðrum og þróa með sér sjálfstæði.

Þessu sé öfugt farið með stráka. Þeir aðgreini sig frá mæðrum sínum af því að þeir eru af öðru kyni og það leiði til þess að þeir þrói með sér annars konar sjálfsmynd en mæðurnar, og þar með stelpurnar. Af þessari ástæðu hafi strákar betur skilgreind mörk milli sjálfs sín og annarra og eigi auðveldara með að þróa með sér sjálfstæði. Þeir geti á hinn bóginn átt erfitt með að mynda náin persónuleg og tilfinningaleg tengsl. Þessi persónuleikamyndun, sem hefst í frumbernsku, hafi síðan varanleg áhrif á reynsluheim og mótun einstaklinganna, og eigi þátt í að mynda félagslegt mynstur sem endurtaki sig kynslóð eftir kynslóð.

Framlag Chodorow á þessu sviði markaði tímamót í femínískum fræðum og kenningar hennar urðu mjög áhrifaríkar á sínum tíma. Hún byrjaði að þróa hugmyndir sínar á áttunda áratug síðustu aldar og var, eins og hennar kynslóð fræðikvenna, undir miklum áhrifum af kvennahreyfingu þess tíma. Við þeim blasti mynstur sem endurspeglaði yfirráð karla, nánast hvert sem litið var. Í þeirri viðleitni að skýra það sem fyrir augu bar var gjarnan leitað að allsherjarskýringum á undirskipun kvenna. Chodorow, eins og flestar fræðikonur á þessum tíma, taldi að kynið væri félagsleg afurð í anda Simone de Beauvoir, Margaret Mead og fleiri femínískra forgöngukvenna. Þrátt fyrir það komu fljótlega upp raddir um alhæfingar og eðlishyggju (e. essentialism). Sú gagnrýni kom ekki síst fram innan raða femínista, einkum þegar póstmódernísk sjónarmið ruddu sér til rúms á níunda áratug síðustu aldar (Fraser & Nicholson 1990).

Þegar líða tók að lokum síðustu aldar varð Chodorow ásamt fleirum vinsælt skotmark innan fræðanna og í hita leiksins var miklu púðri eytt í innri gagnrýni. Mótunarhyggja (e. social constructionism) varð allsráðandi sjónarmið og eðlishyggjustimpillinn var óspart notaður. Til viðbótar við eðlishyggju og alhæfingar var Chodorow gagnrýnd fyrir aðferðir sínar og hugtök hennar voru sögð ónæm á sögulegar og menningarbundnar aðstæður (Fraser & Nicholson 1990). Þær hugmyndir sem þarna tókust á og taldar voru ósamrýmanlegar, eðlishyggja og mótunarhyggja, hafa verið færðar upp á nýtt stig í ljósi þess að tregða hins félagslega kallar á skýringar. Ásta Kristjana Sveinsdóttir heimspekingur fjallar til að mynda um kenningar Chodorow sem „mótunareðlishyggju“ (2002).

Í hugmyndasögulegu samhengi er vert að halda því til haga að Chodorow og fleiri fræðikonur í hennar samtíma gjörbreyttu fræðilegri umræðu og viðmiðum hennar. Hugmyndir þeirra fólu í sér beinskeytta gagnrýni á aldagamla hefð heimspeki og vísinda sem hafði karla, reynslu þeirra og sjónarhorn, sem upphafsreit og viðmið. Nálgun þessarar kynslóðar fræðikvenna hristi upp í sjálfsskilningi hinna hefðbundnu fræðigreina og veitti femínískri gagnrýni og sjónarmiðum inn í fræðaheiminn. Texta Chodorow og samtímakvenna hennar þarf að meta í sínu sögulega samhengi (Bordo 1990).

Í nýjustu bók sinni, Individualizing Gender and Society. Theory and Practice (2011) lítur Chodorow yfir ævistarf sitt og fléttar klíníska reynslu saman við fræðileg sjónarmið sín. Þar lýsir hún hvernig mikilvægur hvati að skrifum hennar spratt af þeirri upplifun og sannfæringu að hið persónulega væri pólitískt, í samræmi við einkunnarorð kvennahreyfingarinnar á þeim tíma. Það þýddi meðal annars að taka reynslu viðmælenda sinna alvarlega þótt þær væru á skjön við ráðandi kenningar. Hún greinir frá þeirri reynslu sinni og tilfinningu að vera gjarnan á jaðrinum í fræðimennsku sinni. Þótt hún ætti stóran hóp sem fylgdi henni að máli höfðu sálgreinendur sitt hvað við kenningar hennar að athuga og sömu sögu var að segja af félagsfræðingum, þótt félagsfræðin væri á vissan hátt hennar heimavöllur.

Óhætt er að segja að fræðafólk sem hefur sig yfir sinn samtíma með nýjum og ögrandi hugmyndum verður samferðafólki sínu tilefni til samsömunar og aðgreiningar, kannski ekki svo ólíkt því sem Chodorow sjálf sagði um myndun persónuleikans. Þær samræður skapa það lífsmark og þá frjóu spennu sem vísindunum er lífsnauðsynleg. Á slíku er engin vöntun í femínískum fræðum eins og ævistarf Nancy Chodorow ber með sér.

Heimildir og mynd:

  • Ásta Kristjana Sveinsdóttir (2002) Kvenna megin. Ritdómur. Skírnir 2002; 176 (vor): s. 165-174.
  • Bordo, Susan (1990) „Feminism, Postmodernism and Gender-Scepticism" í Feminism/Postmodernism (ritstj. Nicholson, Linda). London. Routledge.
  • Fraser, Nancy og Nicholson, Linda, J. (1990) „Social Criticism without Philosophy: An Encounter between Feminism and Postmodernism“ í Feminism/Postmodernism (ritstj. Nicholson, Linda). London. Routledge.
  • Chodorow, Nancy (1978) The Reproduction of Mothering. Berkeley & Los Angeles. University of California Press.
  • Chodorow, Nancy (2011) Individualizing Gender and Society. Theory and Practice. New York. Routledge
  • Mynd: Radcliffe Institute for Advanced Study. Sótt 24. 1. 2012.

Höfundur

prófessor í kynjafræði við HÍ

Útgáfudagur

4.11.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þorgerður Einarsdóttir. „Hver er Nancy Chodorow og hvert er hennar framlag til fræðanna?“ Vísindavefurinn, 4. nóvember 2011. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61090.

Þorgerður Einarsdóttir. (2011, 4. nóvember). Hver er Nancy Chodorow og hvert er hennar framlag til fræðanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61090

Þorgerður Einarsdóttir. „Hver er Nancy Chodorow og hvert er hennar framlag til fræðanna?“ Vísindavefurinn. 4. nóv. 2011. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61090>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er Nancy Chodorow og hvert er hennar framlag til fræðanna?
Nancy Chodorow er bandarísk fræðikona, fædd 1944. Hún hefur fræðilegan bakgrunn í félagsfræði, mannfræði, sálgreiningu og fleiri greinum. Hún hefur skrifað fjölda bóka og greina og fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín. Rannsóknir Chodorow hafa að mestu snúist um þverfræðilega úrvinnslu á kenningum og sjónarmiðum sálgreiningarinnar. Hún starfaði lengst af við félagsfræðideild University of California, Berkeley, en hefur jafnframt unnið meðferðarstörf samhliða fræðimennsku.

Nancy Chodorow.

Chodorow telur, í anda sálgreiningar, að grunninn að persónueinkennum og sjálfsmynd fólks megi rekja til bernsku og frumbernsku. Hún þróar þessar hugmyndir í bókinni The Reproduction of Mothering (1978) sem er eitt frægasta verk hennar. Þar leitast hún við að skýra hvernig persónuleiki er skapaður og endurskapaður í reynsluheimi kynslóðanna. Hún tengdi persónuleikaþróun við samfélagsleg mynstur og taldi að sú staðreynd að konur væru aðalumönnunaraðilar barna hefði víðtæka þýðingu og afleiðingar.

Hugmyndir Chodorow gera ráð fyrir að persónuleikaþróun eigi rætur sínar í nánum tengslum mæðra og barna á fyrstu æviárunum og þar skipti kyn meginmáli. Hún telur að stúlkur samsami sig mæðrum sínum vegna þess að þær eru af sama kyni. Sú samsömun haldi áfram eftir barnæsku og sjálfsmynd stelpna þróist aðallega í gegnum tengsl. Af þessari ástæðu hafi stelpur ríka tilhneigingu til að vera umhyggjusamar og næmar fyrir aðstæðum og tengslum en geti hins vegar átt erfitt með að aðgreina sig frá öðrum og þróa með sér sjálfstæði.

Þessu sé öfugt farið með stráka. Þeir aðgreini sig frá mæðrum sínum af því að þeir eru af öðru kyni og það leiði til þess að þeir þrói með sér annars konar sjálfsmynd en mæðurnar, og þar með stelpurnar. Af þessari ástæðu hafi strákar betur skilgreind mörk milli sjálfs sín og annarra og eigi auðveldara með að þróa með sér sjálfstæði. Þeir geti á hinn bóginn átt erfitt með að mynda náin persónuleg og tilfinningaleg tengsl. Þessi persónuleikamyndun, sem hefst í frumbernsku, hafi síðan varanleg áhrif á reynsluheim og mótun einstaklinganna, og eigi þátt í að mynda félagslegt mynstur sem endurtaki sig kynslóð eftir kynslóð.

Framlag Chodorow á þessu sviði markaði tímamót í femínískum fræðum og kenningar hennar urðu mjög áhrifaríkar á sínum tíma. Hún byrjaði að þróa hugmyndir sínar á áttunda áratug síðustu aldar og var, eins og hennar kynslóð fræðikvenna, undir miklum áhrifum af kvennahreyfingu þess tíma. Við þeim blasti mynstur sem endurspeglaði yfirráð karla, nánast hvert sem litið var. Í þeirri viðleitni að skýra það sem fyrir augu bar var gjarnan leitað að allsherjarskýringum á undirskipun kvenna. Chodorow, eins og flestar fræðikonur á þessum tíma, taldi að kynið væri félagsleg afurð í anda Simone de Beauvoir, Margaret Mead og fleiri femínískra forgöngukvenna. Þrátt fyrir það komu fljótlega upp raddir um alhæfingar og eðlishyggju (e. essentialism). Sú gagnrýni kom ekki síst fram innan raða femínista, einkum þegar póstmódernísk sjónarmið ruddu sér til rúms á níunda áratug síðustu aldar (Fraser & Nicholson 1990).

Þegar líða tók að lokum síðustu aldar varð Chodorow ásamt fleirum vinsælt skotmark innan fræðanna og í hita leiksins var miklu púðri eytt í innri gagnrýni. Mótunarhyggja (e. social constructionism) varð allsráðandi sjónarmið og eðlishyggjustimpillinn var óspart notaður. Til viðbótar við eðlishyggju og alhæfingar var Chodorow gagnrýnd fyrir aðferðir sínar og hugtök hennar voru sögð ónæm á sögulegar og menningarbundnar aðstæður (Fraser & Nicholson 1990). Þær hugmyndir sem þarna tókust á og taldar voru ósamrýmanlegar, eðlishyggja og mótunarhyggja, hafa verið færðar upp á nýtt stig í ljósi þess að tregða hins félagslega kallar á skýringar. Ásta Kristjana Sveinsdóttir heimspekingur fjallar til að mynda um kenningar Chodorow sem „mótunareðlishyggju“ (2002).

Í hugmyndasögulegu samhengi er vert að halda því til haga að Chodorow og fleiri fræðikonur í hennar samtíma gjörbreyttu fræðilegri umræðu og viðmiðum hennar. Hugmyndir þeirra fólu í sér beinskeytta gagnrýni á aldagamla hefð heimspeki og vísinda sem hafði karla, reynslu þeirra og sjónarhorn, sem upphafsreit og viðmið. Nálgun þessarar kynslóðar fræðikvenna hristi upp í sjálfsskilningi hinna hefðbundnu fræðigreina og veitti femínískri gagnrýni og sjónarmiðum inn í fræðaheiminn. Texta Chodorow og samtímakvenna hennar þarf að meta í sínu sögulega samhengi (Bordo 1990).

Í nýjustu bók sinni, Individualizing Gender and Society. Theory and Practice (2011) lítur Chodorow yfir ævistarf sitt og fléttar klíníska reynslu saman við fræðileg sjónarmið sín. Þar lýsir hún hvernig mikilvægur hvati að skrifum hennar spratt af þeirri upplifun og sannfæringu að hið persónulega væri pólitískt, í samræmi við einkunnarorð kvennahreyfingarinnar á þeim tíma. Það þýddi meðal annars að taka reynslu viðmælenda sinna alvarlega þótt þær væru á skjön við ráðandi kenningar. Hún greinir frá þeirri reynslu sinni og tilfinningu að vera gjarnan á jaðrinum í fræðimennsku sinni. Þótt hún ætti stóran hóp sem fylgdi henni að máli höfðu sálgreinendur sitt hvað við kenningar hennar að athuga og sömu sögu var að segja af félagsfræðingum, þótt félagsfræðin væri á vissan hátt hennar heimavöllur.

Óhætt er að segja að fræðafólk sem hefur sig yfir sinn samtíma með nýjum og ögrandi hugmyndum verður samferðafólki sínu tilefni til samsömunar og aðgreiningar, kannski ekki svo ólíkt því sem Chodorow sjálf sagði um myndun persónuleikans. Þær samræður skapa það lífsmark og þá frjóu spennu sem vísindunum er lífsnauðsynleg. Á slíku er engin vöntun í femínískum fræðum eins og ævistarf Nancy Chodorow ber með sér.

Heimildir og mynd:

  • Ásta Kristjana Sveinsdóttir (2002) Kvenna megin. Ritdómur. Skírnir 2002; 176 (vor): s. 165-174.
  • Bordo, Susan (1990) „Feminism, Postmodernism and Gender-Scepticism" í Feminism/Postmodernism (ritstj. Nicholson, Linda). London. Routledge.
  • Fraser, Nancy og Nicholson, Linda, J. (1990) „Social Criticism without Philosophy: An Encounter between Feminism and Postmodernism“ í Feminism/Postmodernism (ritstj. Nicholson, Linda). London. Routledge.
  • Chodorow, Nancy (1978) The Reproduction of Mothering. Berkeley & Los Angeles. University of California Press.
  • Chodorow, Nancy (2011) Individualizing Gender and Society. Theory and Practice. New York. Routledge
  • Mynd: Radcliffe Institute for Advanced Study. Sótt 24. 1. 2012.
...