Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað gerir blöðruhálskirtillinn?

Blöðruhálskirtillinn tilheyrir æxlunarkerfi karla og er útkirtill, það er hann seytir vökva frá sér út í rásir. Hann er eins og kleinuhringur í laginu en er álíka stór og valhneta. Blöðruhálskirtillinn umlykur þvagrásina rétt neðan við þvagblöðruna. Hann liggur framan við endaþarminn og er hægt að þreifa á honum við endaþarmsskoðun.Þvagrás karlmanna gegnir tveimur hlutverkum; annars vegar flytur hún þvag frá þvagblöðrunni við þvaglát og hins vegar flytur hún sæði við sáðlát. Inni í blöðruhálskirtlinum sameinast þvagrásin frá þvagblöðrunni tveimur sáðfallsrásum. Sæði inniheldur sáðfrumur og sáðvökva, en um fjórðungur af sáðvökvanum er myndaður í blöðruhálskirtlinum en afgangurinn í tveimur sáðblöðrum.

Blöðruhálskirtillinn er ekki eingöngu úr kirtilvef því þar eru einnig sléttir vöðvar sem hjálpa til við sáðlátið. Seyti blöðruhálskirtils er mjólkurlitað og svolítið súrt, en það inniheldur næringarefni fyrir sáðfrumur og nokkur ensím, svo sem sértækan vaka fyrir blöðruhálskirtilinn (e. prostate specific antigen, PSA), leysiensím (e. lysozyme) og storknunarensím. Hlutverk PSA og storknunarensíma er til dæmis að gera sæði sem hefur hlaupið vökvakennt á ný. Seyti blöðruhálskirtilsins berst inn í þvagrásina um margar rásir í kirtlinum og á það þátt í bæði hreyfanleika sáfrumna og lífvænleika.

Vandamál tengd blöðruhálskirtli eru ekki óalgeng. Sem dæmi má nefna að talið er að allt að 50% karla á aldrinum 50-60 ára séu með góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli og eykst tíðnin enn frekar með hærri aldri. Hægt er að lesa meira um þetta í grein Sólveigar Dóru Magnúsdóttur Góðkynja stækkun blöðruhálskirtils á Doktor.is og í grein Magnúsar Jóhannssonar Stækkaður blöðruhálskirtill.

Þess má einnig geta að krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein hjá karlmönnum eins og fram kemur í svari Laufeyjar Tryggvadóttur við spurningunni Hver er tíðni og nýgengi hinna ýmsu krabbameinstegunda?

Heimildir og mynd:

Útgáfudagur

9.8.2006

Spyrjandi

Eyþór Árni

Höfundur

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað gerir blöðruhálskirtillinn?“ Vísindavefurinn, 9. ágúst 2006. Sótt 19. október 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=6115.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2006, 9. ágúst). Hvað gerir blöðruhálskirtillinn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6115

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað gerir blöðruhálskirtillinn?“ Vísindavefurinn. 9. ágú. 2006. Vefsíða. 19. okt. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6115>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Gunnhildur Óskarsdóttir

1959

Gunnhildur Óskarsdóttir er dósent í kennslufræði við Deild kennslu- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að námi og kennslu ungra barna í grunnskóla, náttúrufræðikennslu og kennaramenntun.