Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nicolas de Condorcet, eða Marie Jean Antoine Nicolas Caritat, markgreifinn af Condorcet (1743-1794) var franskur stærðfræðingur, hagfræðingur og heimspekingur sem auk þess fékkst við söguspeki og vann brautryðjandi verk í sögu félagsvísinda. Condorcet telst vera einn af síðustu svonefndu philosophes frönsku upplýsingarinnar.
Nicolas de Condorcet (1743-1794).
Veturinn 1793-1794 var harður í lífi Nicolas de Condorcet. Hann var eftirlýstur af frönsku byltingarstjórninni sem óvinur alþýðunnar og fór huldu höfði í París. Ef hann næðist beið hans ekkert nema fallöxin. Við upphaf byltingarinnar 1789 hafði Condorcet verið í fararbroddi þeirra menntamanna sem tóku henni fagnandi. Hann tók sæti á löggjafarþinginu 1791 þar sem hann meðal annars vann hugmyndum sínum um breytingar á menntakerfinu brautargengi og lagði áherslu á að réttindi kvenna yrðu tryggð innan hins nýja þjóðskipulags. Strax eftir byltinguna hafði hann haldið fram mikilvægi þess að konur hefðu kosningarétt til löggjafarþingsins (De l'admission des femmes au droit de cite, 1790). En nú var byltingin farin að éta börnin sín.
Tímabilið frá september 1793 til júlí 1794 hefur einfaldlega verið kallað le Terreur, þegar ógnarstjórn Comité de salut public undir forystu Maximiliens Robespierres (1758-1794) gekk á milli bols og höfuðs þeirra sem töldust ógna öryggi þegnanna og framgangi byltingarinnar. Aðstæður Condorcets gáfu því ekki tilefni til bjartsýni. En einmitt á þessum tíma, þegar Condorcet gat hvenær sem er verið handsamaður og leiddur undir fallöxina, skrifaði hann Esquisse d’un tableau historique des progrès de l’esprit humain eða Drög að sögu framfara mannsandans. Þrátt fyrir aðstæður sínar var Condorcet sannfærður um að harðstjórn, fáfræði, fordómar og félagsleg kúgun myndu brátt heyra sögunni til. Þær byltingar sem stæðu yfir á sviðum stjórnskipunar, þekkingar, vísinda og tækni myndu brátt binda enda á þær stofnanir og þau viðhorf sem héldu aftur af mannlegri velferð. Þau skilyrði væru fyrir hendi að maðurinn gæti haldið áfram að bæta sjálfan sig og samfélag sitt um ókomna tíð. Condorcet var gripinn á flótta í úthverfi Parísar og fáum dögum síðar, þann 28. mars 1794, fannst hann látinn í fangaklefa sínum. Hann var 51 árs.
Condorcet fæddist í Ribemont í norðurhluta Frakklands þann 17. september árið 1743 og hóf skólagöngu sína í Jesúítaskólanum í Reims en hélt svo til frekara náms í París þar sem hann lagði stund á siðfræði, frumspeki, rökfræði og stærðfræði við Collège de Navarre. Þar komst hann meðal annars í kynni við verk Newtons (1642-1727) og heimspeki Lockes (1632-1704) og Condillacs (1715-1780) sem höfðu mótandi áhrif á mannskilning hans og heimsmynd. Árið 1765 vakti ritgerð Condorcet um örsmæðareikning (Essai sur le calcul intégral) athygli vísindasamfélagsins og skömmu síðar varð hann félagi í Konunglegu vísindaakademíunni (Académie royale des Sciences). Condorcet var einn fremsti stærðfræðingur heims á sínum tíma og skrifaði til að mynda á þriðja tug greina um stærðfræði í viðbótarbindi Alfræðibókar Diderots (1713-1784) og d‘Alemberts (1717-1783) sem komu út á árunum 1776-1777, en d‘Alembert hafði tekið Condorcet undir sinn verndarvæng meðan hann var enn í námi.
Anne Robert Jacques Turgot (1727-1781).
Það urðu straumhvörf í lífi Condorcets þegar hann kynntist hagfræðingnum Anne Robert Jacques Turgot (1727-1781). Skömmu eftir að vinskapur komst á með þeim var Turgot skipaður fjármálaráðherra af Loðvík XVI. og sem slíkur beitti hann sér fyrir því að Condorcet hlaut embætti yfirmanns frönsku myntsláttunnar (Monnaie de Paris) árið 1774. Turgot og Condorcet deildu frjálslyndri hugmyndafræði varðandi efnahags- og þjóðfélagsmál. Kynni Condorcets af verkum Turgot víkkuðu sjóndeildarhring hans. Áhugi hans beindist æ meir að því hvernig væri hægt að beita aðferðum stærðfræðinnar til að takast á við félagsleg vandamál. Verk Condorcets á þessum sviðum voru mikilvægur þáttur í mótun þess sem í dag er kallað félagsvísindi, og sumt af því hefur haldið fræðilegu gildi sínu. Gott dæmi er ritgerðin Essai sur l’application de l’analyse à la probabilité des décisions rendues à la pluralité des voix (1785). Þar kynnti Condorcet til sögunnar með hvaða hætti notast megi við stærðfræðileg líkön til að bæta kosningakerfi. Þar setur hann meðal annars fram hina svokölluðu Condorcet-aðferð þar sem hver kjósandi raðar frambjóðendum í röð eftir því hvern hann vill helst styðja til sigurs. Með þeim hætti getur kjósandinn komið vilja sínum skýrar á framfæri heldur en með þeirri aðferð að velja einungis einn frambjóðenda. Sigurvegari slíkrar kosningar er sá frambjóðandi sem mest sátt ríkir um.
Condorcet taldi að aðferðir raunvísindanna væru nauðsynleg forsenda þess að hægt væri að takast á við félagsleg vandamál af skynsemi og skapa grundvöll fyrir nýtt þjóðskipulag. Lykilþáttur í hugmyndum hans var að sanngildi fullyrðinga, eða ályktana, sem eru dregnar af reynsluathugunum má tjá stærðfræðilega sem líkur. Condorcet hafnaði því að alger vissa sé nauðsynlegt skilyrði allrar þekkingar. Það sem skiptir máli er réttmæti þeirrar aðferðar sem leiðir í ljós líkurnar á því að tiltekinn ályktun sé sönn. Við getum kannski ekki verið viss um ótvírætt sanngildi einhvers, en við getum verið viss um hvort það sé líklega eða ólíklega satt. Þessa þekkingarfræðilegu afstöðu má túlka sem viðbragð við efahyggju í anda Descartes (1596-1650) og á sér meðal annars hljómgrunn í heimspeki Davids Humes (1711-1776). Með því að leggja áherslu á að reynslustaðreyndir gætu verið traustur grundvöllur þekkingar á félagslegum veruleika mannsins steig Condorcet skref í átt til pósitívisma nítjándu aldar og hafði veruleg áhrif á verk fræðimanna á borð við Saint-Simon (1760-1825) og Auguste Comte (1798-1857) sem lögðu grunninn að félagsfræði nútímans.
Marie-Louise-Sophie de Grouchy eða Sophie de Condorcet (1764-1822).
Áhugi Condorcets á félagslegu umhverfi mannsins var ekki bundinn við hina fræðilegu hlið, heldur lét hann til sín taka á opinberum vettvangi. Árið 1781 birti hann rit gegn þrælahaldi (Réflexions sur l’esclavage des nègres) og hann tók undir samfélags gagnrýni Voltaire (1694-1778) í ritinu Vie de Voltaire (1789). Eftir að Condorcet giftist Sophie de Grouchy (1764-1822) árið 1786 varð heimili þeirra vettvangur eins áhrifamesta salon áranna fyrir frönsku byltinguna og Condorcet skipaði sér í fremstu röð þeirra sem beittu sér fyrir félagslegum umbótum. En það voru einmitt staðfastar hugsjónir Condorcets sem komu honum í ónáð byltingarmanna. Condorcet hafði alltaf verið andsnúinn dauðarefsingu og í samræmi við það tók hann skýra afstöðu gegn aftöku Loðvíks XVI. í þjóðþinginu 1793, það gerðu reyndar margir aðrir þingmenn en þetta undirstrikaði að Condorcet átti ekki samleið með róttækustu þingmönnunum, hinum svokölluðu Jakobínum. Eftir að sá hópur náði undirtökum á þinginu var tillögu Condorcets að nýrri stjórnarskrá, sem hann hafði unnið á vegum þingsins, hafnað. Condorcet mótmælti kröftuglega og taldi að hugmyndir sínar hefðu verið rangtúlkaðar. Condorcet dró ekki dul á óánægju sína með þá stjórnarskrá sem var á endanum samþykkt og var andstaða hans túlkuð sem gagnbyltingarsinnuð viðhof. Handtökuskipun var gefin út á hendur honum í október 1793 og Condorcet fór í felur.
Ári eftir að Condorcet fannst látinn í fangaklefa sínum kom Esquisse d’un tableau historique des progrès de l’esprit humain fyrir sjónir almennings. Þar kristölluðust framtíðarhugsjónir og hin söguspekilega afstaða upplýsingarinnar. Vissulega þekktust höfundar á átjándu öld sem voru ekki bjartsýnir á framtíðarhorfur mannkyns, en eitt af grundvallarstefjum upplýsingarinnar fólst í trúnni á möguleika mannsins til að hafa mótandi áhrif á líf sitt og samfélag. Þó svo að fræðilegt gildi verka Condorcets sé ekki síst fólgið í aðferðafræði hans við að takast á við það sem nú mætti kalla félagsfræðilegar spurningar, þá verður nafn hans þó ætíð fyrst og fremst tengt hugmyndafræði framfarahyggjunnar. Framfarahyggja Condorcets sló tóninn fyrir sumar af þeim hugmyndafræðilegu stefnum og áherslum sem höfðu hvað mest áhrif á hugmynda- og heimspekisögu Vesturlanda á nítjándu öld og hafði til að bera mikilvæg sérkenni sem verður að halda til haga. Hún fól til að mynda ekki í sér nauðhyggju eða gagnrýnislausa afstöðu til samfélagslegra markmiða. Þó svo að tilvist mannsins sé vissulega háð náttúrulegum lögmálum og ferlum, eru framfarir mannkynsins fyrst og fremst háðar mannlegum vilja, beitingu skynseminnar og félagslegu eðli mannsins. Framfarir í þessum skilningi eru ekki óhjákvæmilegar eða fólgnar í einföldum töfralausnum. Condorcet reyndi á eigin skinni að þrá og vilji mannsins eftir betra og siðmenntaðra samfélagi getur leitt til upplausnar og ranglætis.
Myndir:
Jakob Guðmundur Rúnarsson. „Hver var Nicolas de Condorcet og hvert var framlag hans til fræðanna?“ Vísindavefurinn, 11. nóvember 2011, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61163.
Jakob Guðmundur Rúnarsson. (2011, 11. nóvember). Hver var Nicolas de Condorcet og hvert var framlag hans til fræðanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61163
Jakob Guðmundur Rúnarsson. „Hver var Nicolas de Condorcet og hvert var framlag hans til fræðanna?“ Vísindavefurinn. 11. nóv. 2011. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61163>.