Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 04:24 • Sest 14:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:18 • Síðdegis: 21:34 í Reykjavík

Hvernig dó Napóleon? Var honum byrlað eitur?

Stefán Gunnar Sveinsson

Napóleon Bónaparte (1769-1821), keisari Frakklands, er gjarnan talinn einn mesti hersnillingur allra tíma. Þeim sem vilja fræðast nánar um ævi hans er bent á svar sama höfundar við spurningunni Hver var Napóleon Bónaparte og hvað gerði hann svona merkan? Dauði Napóleons þykir líka áhugaverður og mikið hefur verið deilt um dánarorsökina. Skiptast menn almennt í tvær fylkingar, þá sem segja að hann hafi dáið úr magakrabbameini líkt og krufningarskýrsla hans gaf til kynna og þá sem halda því fram að honum hafi verið byrlað arsenik. Einnig eru sumir sem telja að vegna læknamistaka hafi Napóleon verið gefið kalómel (kvikasilfurs(I)-klóríð), sem notað var sem uppsölulyf, og að sú meðferð hafi gengið að honum dauðum. Engin leið er að skera úr um það með fullri vissu, en dauði vegna magakrabbameins er vissulega mun algengari en vegna eitrunar, svo sú skýring verður að teljast líkleg. Nýlegar rannsóknir benda líka flestar til þess að magakrabbi hafi átt sökina. En förum yfir söguna frá byrjun.

Napóleon var ekki heilsuhraustur maður og dó 5. maí árið 1821 eftir að hafa liðið miklar þjáningar í nokkurn tíma. Til eru ítarlegar lýsingar á einkennum hans síðustu æviárin og sérstaklega síðustu mánuðina. Meðal einkenna var niðurgangur, harðlífi, hiksti, magaverkir, svitaköst og ógleði, svo fátt eitt sé nefnt. Napóleon var krufinn af lækninum Antommarchi í viðurvist sjö breskra herlækna og nokkurra annarra vitna. Í krufningarskýrslunni kemur fram að meðal annars hafi Napóleon þjáðst af magasári og haft sár eftir berklaveiki. Maginn sýndi mörg einkenni krabbameins og voru læknarnir sammála um að magakrabbamein væri dánarorsök eða stór þáttur í henni. Það þótti styrkja þá niðurstöðu að vitað var að faðir Napóleons dó úr þessum sjúkdómi.


Napóleon á dánarbeði. Myndin er eftir Charles de Steuben (um 1828).

Lík Napóleons var grafið á St. Helenu eftir krufninguna, innsiglað líkt og rússnesk brúða í fjórum kistum, hver ofan í annarri. Þar lá keisarinn næstu 19 árin eða þar til árið 1840 þegar frönsk stjórnvöld fengu leyfi til þess að flytja hann aftur til Frakklands. Þegar líkið var grafið upp kom í ljós að það var í nánast fullkomnu ásigkomulagi. Þá fór ýmsa að gruna að dánarorsökin hefði ekki verið magakrabbamein heldur arsenikeitrun, þar sem arsenik hægir á rotnun.

Ekki var kafað dýpra í málið fyrr en á seinni hluta 20. aldar. Fyrstu hugmyndirnar um að sjúkdómseinkenni Napóleons kæmu fremur heim og saman við arsenikeitrun en krabbamein voru settar fram árið 1961. Síðan þá hafa margir fallist á þessa tilgátu. Þá var lokkur úr hári keisarans rannsakaður árið 2001 og innihélt lokkurinn 38 ng af arseniki en venjulegt magn er um 1 ng. Margir hafa túlkað niðurstöðuna þannig að keisaranum hafi vissulega verið byrlað eitur. Telja sumir sig jafnvel geta nafngreint meintan eiturbyrlara. Samkvæmt samsæriskenningunni á maður að nafni Montholon, einn úr fylgdarliði Napóleons, að hafa verið úlfur í sauðargæru – stuðningsmaður Bourbon-konungsættarinnar og skuggaleg manngerð í alla staði – en ekki eru allir sammála þessari lýsingu á honum. Að auki á Napóleon að hafa kokkálað Montholon og getið barn með konu hans, en það hefur þó ekki verið sannað. Montholon þjónaði síðar bróðursyni Napóleons, Loðvík Napóleon, sem seinna varð Napóleon þriðji.

Hér er hins vegar ástæða til að staldra við. Þó svo að arsenik finnist í hári keisarans í stærri skömmtum en eðlilegt getur talist segir það ekkert um hvernig það barst þangað. Í hugum nútímamanna er arsenik einatt talið eitur, en efnið hefur verið notað á ýmsan hátt í gegnum tíðina. Í fyrsta lagi var arsenik notað sem lyf við ýmsum sjúkdómum, þar á meðal sárasótt (sýfílis), svefnsýki og síðast en ekki síst, krabbameini. Í öðru lagi var arsenik borið innan á víntunnur til þess að styrkja þær, en Napóleon drakk mikið vín. Hvort tveggja gæti valdið því að Bónaparte hafi reglulega tekið inn smáa skammta af arseniki. Einnig gat fundist arsenik í hársnyrtivörum þessa tíma. Viljandi eitrun er því einungis ein möguleg ástæða af mörgum fyrir hinu háa magni arseniks. Einnig má geta þess að Napóleon fékk ekki öll einkenni arsenikeitrunar. Ber þar helst að nefna að húð á höndum og fótum hans þykknaði ekki óeðlilega né heldur missti hann tá- og fingurneglur.

Nýjustu rannsóknir benda til þess að dánarorsökin hafi verið krabbamein í maga eða magasár af völdum magakrabba. Með því að mæla breytingar á buxnamáli keisarans sýndu svissneskir fræðimenn fram á að Napóleon léttist um 11 kíló síðasta hálfa árið sem hann lifði, en magakrabbamein á síðari stigum veldur einmitt minnkandi líkamsþyngd. Vitnisburður nær allra þeirra sem voru með Bónaparte á St. Helenu styður að hann hafi horast niður á síðustu mánuðunum. Stuðningsmenn arseniktilgátunnar taka þetta oftast ekki fram, sem er tilgátu þeirra síst til framdráttar. Þá hefur nýlega fundist lýsing eins aðstoðarlæknisins á krufningunni sem styður við upphaflega krufningarskýrslu Antommarchis um að maginn hafi verið illa farinn af krabbameini.

Flestir benda því á magakrabbamein sem langlíklegustu orsökina fyrir dauða Napóleons. Ekki er þó hægt að útiloka eiturbyrlun, en benda verður á að engin leið er að vita af hverju arsenikið barst í keisarann; það er langur vegur frá því að finna arsenikleifar í hári og til þess að sanna morðtilgátu. Hvernig sem Napóleon fór að því að fá allt þetta arsenik í sig, þá hefur það þó örugglega ekki haft góð áhrif á heilsufar hans.

Frekara lesefni

Mynd

Höfundur

Útgáfudagur

11.8.2006

Spyrjandi

Ingibjörg Ingadóttir

Tilvísun

Stefán Gunnar Sveinsson. „Hvernig dó Napóleon? Var honum byrlað eitur?“ Vísindavefurinn, 11. ágúst 2006. Sótt 8. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=6119.

Stefán Gunnar Sveinsson. (2006, 11. ágúst). Hvernig dó Napóleon? Var honum byrlað eitur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6119

Stefán Gunnar Sveinsson. „Hvernig dó Napóleon? Var honum byrlað eitur?“ Vísindavefurinn. 11. ágú. 2006. Vefsíða. 8. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6119>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig dó Napóleon? Var honum byrlað eitur?
Napóleon Bónaparte (1769-1821), keisari Frakklands, er gjarnan talinn einn mesti hersnillingur allra tíma. Þeim sem vilja fræðast nánar um ævi hans er bent á svar sama höfundar við spurningunni Hver var Napóleon Bónaparte og hvað gerði hann svona merkan? Dauði Napóleons þykir líka áhugaverður og mikið hefur verið deilt um dánarorsökina. Skiptast menn almennt í tvær fylkingar, þá sem segja að hann hafi dáið úr magakrabbameini líkt og krufningarskýrsla hans gaf til kynna og þá sem halda því fram að honum hafi verið byrlað arsenik. Einnig eru sumir sem telja að vegna læknamistaka hafi Napóleon verið gefið kalómel (kvikasilfurs(I)-klóríð), sem notað var sem uppsölulyf, og að sú meðferð hafi gengið að honum dauðum. Engin leið er að skera úr um það með fullri vissu, en dauði vegna magakrabbameins er vissulega mun algengari en vegna eitrunar, svo sú skýring verður að teljast líkleg. Nýlegar rannsóknir benda líka flestar til þess að magakrabbi hafi átt sökina. En förum yfir söguna frá byrjun.

Napóleon var ekki heilsuhraustur maður og dó 5. maí árið 1821 eftir að hafa liðið miklar þjáningar í nokkurn tíma. Til eru ítarlegar lýsingar á einkennum hans síðustu æviárin og sérstaklega síðustu mánuðina. Meðal einkenna var niðurgangur, harðlífi, hiksti, magaverkir, svitaköst og ógleði, svo fátt eitt sé nefnt. Napóleon var krufinn af lækninum Antommarchi í viðurvist sjö breskra herlækna og nokkurra annarra vitna. Í krufningarskýrslunni kemur fram að meðal annars hafi Napóleon þjáðst af magasári og haft sár eftir berklaveiki. Maginn sýndi mörg einkenni krabbameins og voru læknarnir sammála um að magakrabbamein væri dánarorsök eða stór þáttur í henni. Það þótti styrkja þá niðurstöðu að vitað var að faðir Napóleons dó úr þessum sjúkdómi.


Napóleon á dánarbeði. Myndin er eftir Charles de Steuben (um 1828).

Lík Napóleons var grafið á St. Helenu eftir krufninguna, innsiglað líkt og rússnesk brúða í fjórum kistum, hver ofan í annarri. Þar lá keisarinn næstu 19 árin eða þar til árið 1840 þegar frönsk stjórnvöld fengu leyfi til þess að flytja hann aftur til Frakklands. Þegar líkið var grafið upp kom í ljós að það var í nánast fullkomnu ásigkomulagi. Þá fór ýmsa að gruna að dánarorsökin hefði ekki verið magakrabbamein heldur arsenikeitrun, þar sem arsenik hægir á rotnun.

Ekki var kafað dýpra í málið fyrr en á seinni hluta 20. aldar. Fyrstu hugmyndirnar um að sjúkdómseinkenni Napóleons kæmu fremur heim og saman við arsenikeitrun en krabbamein voru settar fram árið 1961. Síðan þá hafa margir fallist á þessa tilgátu. Þá var lokkur úr hári keisarans rannsakaður árið 2001 og innihélt lokkurinn 38 ng af arseniki en venjulegt magn er um 1 ng. Margir hafa túlkað niðurstöðuna þannig að keisaranum hafi vissulega verið byrlað eitur. Telja sumir sig jafnvel geta nafngreint meintan eiturbyrlara. Samkvæmt samsæriskenningunni á maður að nafni Montholon, einn úr fylgdarliði Napóleons, að hafa verið úlfur í sauðargæru – stuðningsmaður Bourbon-konungsættarinnar og skuggaleg manngerð í alla staði – en ekki eru allir sammála þessari lýsingu á honum. Að auki á Napóleon að hafa kokkálað Montholon og getið barn með konu hans, en það hefur þó ekki verið sannað. Montholon þjónaði síðar bróðursyni Napóleons, Loðvík Napóleon, sem seinna varð Napóleon þriðji.

Hér er hins vegar ástæða til að staldra við. Þó svo að arsenik finnist í hári keisarans í stærri skömmtum en eðlilegt getur talist segir það ekkert um hvernig það barst þangað. Í hugum nútímamanna er arsenik einatt talið eitur, en efnið hefur verið notað á ýmsan hátt í gegnum tíðina. Í fyrsta lagi var arsenik notað sem lyf við ýmsum sjúkdómum, þar á meðal sárasótt (sýfílis), svefnsýki og síðast en ekki síst, krabbameini. Í öðru lagi var arsenik borið innan á víntunnur til þess að styrkja þær, en Napóleon drakk mikið vín. Hvort tveggja gæti valdið því að Bónaparte hafi reglulega tekið inn smáa skammta af arseniki. Einnig gat fundist arsenik í hársnyrtivörum þessa tíma. Viljandi eitrun er því einungis ein möguleg ástæða af mörgum fyrir hinu háa magni arseniks. Einnig má geta þess að Napóleon fékk ekki öll einkenni arsenikeitrunar. Ber þar helst að nefna að húð á höndum og fótum hans þykknaði ekki óeðlilega né heldur missti hann tá- og fingurneglur.

Nýjustu rannsóknir benda til þess að dánarorsökin hafi verið krabbamein í maga eða magasár af völdum magakrabba. Með því að mæla breytingar á buxnamáli keisarans sýndu svissneskir fræðimenn fram á að Napóleon léttist um 11 kíló síðasta hálfa árið sem hann lifði, en magakrabbamein á síðari stigum veldur einmitt minnkandi líkamsþyngd. Vitnisburður nær allra þeirra sem voru með Bónaparte á St. Helenu styður að hann hafi horast niður á síðustu mánuðunum. Stuðningsmenn arseniktilgátunnar taka þetta oftast ekki fram, sem er tilgátu þeirra síst til framdráttar. Þá hefur nýlega fundist lýsing eins aðstoðarlæknisins á krufningunni sem styður við upphaflega krufningarskýrslu Antommarchis um að maginn hafi verið illa farinn af krabbameini.

Flestir benda því á magakrabbamein sem langlíklegustu orsökina fyrir dauða Napóleons. Ekki er þó hægt að útiloka eiturbyrlun, en benda verður á að engin leið er að vita af hverju arsenikið barst í keisarann; það er langur vegur frá því að finna arsenikleifar í hári og til þess að sanna morðtilgátu. Hvernig sem Napóleon fór að því að fá allt þetta arsenik í sig, þá hefur það þó örugglega ekki haft góð áhrif á heilsufar hans.

Frekara lesefni

Mynd

...