Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hverjir eru 5 bestu háskólar í heimi og hvað kostar að stunda þar nám?

Heiða María Sigurðardóttir

Þetta er ein af þeim spurningum sem ekki er hægt að svara afdráttarlaust, en hvað telst vera best er alltaf háð ákveðnu gildismati. Nokkur eining ríkir þó um hvaða háskólar séu taldir meðal þeirra bestu, en reynt hefur verið að meta gæði skóla á hlutlægan hátt.

Ein þekktasta rannsóknin á gæðum háskóla er á vegum Shanghai Jiao Tong háskólans sem birtir lista yfir 500 bestu háskóla heims á hverju ári. Í Shanghai-rannsókninni eru notaðar hlutlægar matsaðferðir til að reikna út hvar á listann tiltekinn skóli er settur. Meðal annars er tekið tillit til hversu margir kennarar og nemendur í hverjum skóla hafi unnið til Nóbelsverðlauna og annarra stórverðlauna á sínu sviði, hve mikið sé vitnað í rannsóknir fólks úr tilteknum skóla og hversu margar greinar úr tilteknum skóla fáist birtar í virtum vísindaritum, svo sem Science og Nature.

Samkvæmt Shanghai Jiao Tong rannsókninni (2006) tróna þessir skólar á toppnum yfir bestu skóla heims:

  1. Harvard-háskóli (Bandaríkin)
  2. Cambridge-háskóli (Bretland)
  3. Stanford-háskóli (Bandaríkin)
  4. Berkeley-háskóli (Bandaríkin)
  5. MIT: Massachusetts-tækniháskólinn (Bandaríkin)

Nám í bestu háskólum heims kostar ekki lítið. Sem dæmi má taka grunnnám í Harvard-háskóla skólaárið 2006-2007. Fyrir það þarf að borga 30.275 $ í kennslugjöld, 1390 $ fyrir heilsugæslu, 2044 $ fyrir námsmannaþjónustu, 4618 $ fyrir fæði og 5328 $ fyrir húsnæði. Samtals eru gjöldin fyrir þetta eina skólaár því 43.655 $ sem gera rúmar þrjár milljónir íslenskra króna miðað við núverandi gengi (14. ágúst 2006). Ofan á þetta leggjast svo öll persónuleg útgjöld. Fæstir þurfa þó að standa straum af öllum þessum kostnaði óstuddir. Um 70% háskólanema í Harvard hljóta styrki eða lán, eða er boðið hlutastarf innan háskólans. Að jafnaði gildir að auðveldara er að hljóta styrki til framhaldsnáms en grunnnáms.


Harvard-háskóli (stofnaður 1636) er elsti háskóli Bandaríkjanna. Hann er líka gjarnan talinn besti háskóli heims. Myndin er frá árinu 1740 og er eftir William Burgis.

Shanghai Jiao Tong rannsóknin er um margt ágæt en hún er alls ekki gallalaus. Það er til dæmis aðeins tekið tillit til verðlauna í eðlisfræði, efnafræði, læknisfræði, stærðfræði og hagfræði; engin verðlaun í hugvísindum eru hins vegar talin með og hagfræði er þarna ein félagsvísindagreina. Mun fleiri vísindagreinar birtast líka um raunvísindi í tímaritunum Nature og Science en um hug- og félagsvísindi. Skólar sem eru fremstir í flokki innan raunvísinda eru því að jafnaði ofar á listanum en skólar sem skara fram úr í hugvísindum eða félagsvísindum.

Það er líka ekki endilega hægt að leggja að jöfnu að gera bestu rannsóknirnar og veita bestu menntunina, þótt án efa séu tengsl þar á milli. Shanghai Jiao Tong rannsóknin miðast aðallega við rannsóknir, en gæði kennslu eru ekki metin sérstaklega. Það er reyndar tekið tillit til verðlauna sem fyrrum nemendur hafa hlotið, en fjöldi slíkra verðlauna gæti mögulega borið vott um gæði náms. Það þarf þó alls ekki að vera, því bestu nemendurnir sækjast eftir því að komast í skóla sem hafa gott orð á sér. ‘Bestu skólarnir’ geta því valið úr nemendum, sem aftur viðheldur góðri stöðu skólanna.

Að lokum má benda á að þrátt fyrir að skóli tróni á toppi lista yfir bestu háskóla heims segir það lítið annað en að í honum hafi starfað eða stundað nám margir virtir og afkastamiklir fræðimenn. Það þýðir ekki að allir fræðimenn innan viðkomandi menntastofnunar séu bestir innan sinnar fræðigreinar. Þegar velja á háskólanám getur því verið giftusamlegra að taka ekki aðeins tillit til grófrar almennrar flokkunar eins og þessarar, heldur skoða hvaða skólar séu framarlega á tilteknu sviði og jafnvel kanna orðspor og rannsóknir einstaka prófessora.

Þótt þessir fyrirvarar séu hafðir á er vissulega tekið mark á listum eins og þessum og mörgum finnst hreinlega ’flott‘ að hafa stundað nám í Harvard, Cambridge og öðrum skólum sem teljast með ’bestu háskólum heims‘. Það getur einnig haft áhrif á starfsmöguleika eftir nám að vera með prófgráðu frá einhverjum af þessum skólum, en það fer svo hins vegar alveg eftir starfsvettvangi hvort það reynist vera fjárhagslega hagstætt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

15.8.2006

Spyrjandi

Kara Tryggvadóttir, f. 1991

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Hverjir eru 5 bestu háskólar í heimi og hvað kostar að stunda þar nám?“ Vísindavefurinn, 15. ágúst 2006. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6125.

Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 15. ágúst). Hverjir eru 5 bestu háskólar í heimi og hvað kostar að stunda þar nám? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6125

Heiða María Sigurðardóttir. „Hverjir eru 5 bestu háskólar í heimi og hvað kostar að stunda þar nám?“ Vísindavefurinn. 15. ágú. 2006. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6125>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjir eru 5 bestu háskólar í heimi og hvað kostar að stunda þar nám?
Þetta er ein af þeim spurningum sem ekki er hægt að svara afdráttarlaust, en hvað telst vera best er alltaf háð ákveðnu gildismati. Nokkur eining ríkir þó um hvaða háskólar séu taldir meðal þeirra bestu, en reynt hefur verið að meta gæði skóla á hlutlægan hátt.

Ein þekktasta rannsóknin á gæðum háskóla er á vegum Shanghai Jiao Tong háskólans sem birtir lista yfir 500 bestu háskóla heims á hverju ári. Í Shanghai-rannsókninni eru notaðar hlutlægar matsaðferðir til að reikna út hvar á listann tiltekinn skóli er settur. Meðal annars er tekið tillit til hversu margir kennarar og nemendur í hverjum skóla hafi unnið til Nóbelsverðlauna og annarra stórverðlauna á sínu sviði, hve mikið sé vitnað í rannsóknir fólks úr tilteknum skóla og hversu margar greinar úr tilteknum skóla fáist birtar í virtum vísindaritum, svo sem Science og Nature.

Samkvæmt Shanghai Jiao Tong rannsókninni (2006) tróna þessir skólar á toppnum yfir bestu skóla heims:

  1. Harvard-háskóli (Bandaríkin)
  2. Cambridge-háskóli (Bretland)
  3. Stanford-háskóli (Bandaríkin)
  4. Berkeley-háskóli (Bandaríkin)
  5. MIT: Massachusetts-tækniháskólinn (Bandaríkin)

Nám í bestu háskólum heims kostar ekki lítið. Sem dæmi má taka grunnnám í Harvard-háskóla skólaárið 2006-2007. Fyrir það þarf að borga 30.275 $ í kennslugjöld, 1390 $ fyrir heilsugæslu, 2044 $ fyrir námsmannaþjónustu, 4618 $ fyrir fæði og 5328 $ fyrir húsnæði. Samtals eru gjöldin fyrir þetta eina skólaár því 43.655 $ sem gera rúmar þrjár milljónir íslenskra króna miðað við núverandi gengi (14. ágúst 2006). Ofan á þetta leggjast svo öll persónuleg útgjöld. Fæstir þurfa þó að standa straum af öllum þessum kostnaði óstuddir. Um 70% háskólanema í Harvard hljóta styrki eða lán, eða er boðið hlutastarf innan háskólans. Að jafnaði gildir að auðveldara er að hljóta styrki til framhaldsnáms en grunnnáms.


Harvard-háskóli (stofnaður 1636) er elsti háskóli Bandaríkjanna. Hann er líka gjarnan talinn besti háskóli heims. Myndin er frá árinu 1740 og er eftir William Burgis.

Shanghai Jiao Tong rannsóknin er um margt ágæt en hún er alls ekki gallalaus. Það er til dæmis aðeins tekið tillit til verðlauna í eðlisfræði, efnafræði, læknisfræði, stærðfræði og hagfræði; engin verðlaun í hugvísindum eru hins vegar talin með og hagfræði er þarna ein félagsvísindagreina. Mun fleiri vísindagreinar birtast líka um raunvísindi í tímaritunum Nature og Science en um hug- og félagsvísindi. Skólar sem eru fremstir í flokki innan raunvísinda eru því að jafnaði ofar á listanum en skólar sem skara fram úr í hugvísindum eða félagsvísindum.

Það er líka ekki endilega hægt að leggja að jöfnu að gera bestu rannsóknirnar og veita bestu menntunina, þótt án efa séu tengsl þar á milli. Shanghai Jiao Tong rannsóknin miðast aðallega við rannsóknir, en gæði kennslu eru ekki metin sérstaklega. Það er reyndar tekið tillit til verðlauna sem fyrrum nemendur hafa hlotið, en fjöldi slíkra verðlauna gæti mögulega borið vott um gæði náms. Það þarf þó alls ekki að vera, því bestu nemendurnir sækjast eftir því að komast í skóla sem hafa gott orð á sér. ‘Bestu skólarnir’ geta því valið úr nemendum, sem aftur viðheldur góðri stöðu skólanna.

Að lokum má benda á að þrátt fyrir að skóli tróni á toppi lista yfir bestu háskóla heims segir það lítið annað en að í honum hafi starfað eða stundað nám margir virtir og afkastamiklir fræðimenn. Það þýðir ekki að allir fræðimenn innan viðkomandi menntastofnunar séu bestir innan sinnar fræðigreinar. Þegar velja á háskólanám getur því verið giftusamlegra að taka ekki aðeins tillit til grófrar almennrar flokkunar eins og þessarar, heldur skoða hvaða skólar séu framarlega á tilteknu sviði og jafnvel kanna orðspor og rannsóknir einstaka prófessora.

Þótt þessir fyrirvarar séu hafðir á er vissulega tekið mark á listum eins og þessum og mörgum finnst hreinlega ’flott‘ að hafa stundað nám í Harvard, Cambridge og öðrum skólum sem teljast með ’bestu háskólum heims‘. Það getur einnig haft áhrif á starfsmöguleika eftir nám að vera með prófgráðu frá einhverjum af þessum skólum, en það fer svo hins vegar alveg eftir starfsvettvangi hvort það reynist vera fjárhagslega hagstætt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

...