Sólin Sólin Rís 10:47 • sest 15:46 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:25 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:26 • Síðdegis: 21:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:05 • Síðdegis: 15:48 í Reykjavík

Af hverju gefur fólk gjafir um jólin og hvenær varð sá siður almennur?

Árni Björnsson

Jólahald var ekki með sama sniði um alla Evrópu á fyrri öldum. Það var breytilegt í tímans rás eftir löndum, héruðum og kirkjuskipan. Jólagjafir virðast að sumu leyti sprottnar frá hinum fornu rómversku skammdegishátíðum, en þær voru í eðli sínu alþýðlegar nýársgjafir.

Áramót voru víða á miðöldum miðuð við fæðingardag Jesú Krists og því var eðlilegt að þar yrðu jóla- og nýársgjafir eitt og hið sama. Þó sést lengi vel ekki getið um jólagjafir nema meðal evrópskra höfðingja. Oftast er það á þá lund að húsbóndinn færir gestum sínum og undirsátum gjafir, þótt einnig beri við að hann fái eitthvað frá gestum sínum. Þessu bregður líka fyrir í Íslendinga sögum, einnig þeim sem eiga að gerast í heiðni. Vera má að jólagjafir húsbænda hafi síður farið eftir efahag þeirra en hinu, hvort þeir litu á sig sjálfstæða menn.

Allir fá þá eitthvað fallegt ...

Meðal almennings þekktust jólagjafir í nútímaskilningi ekki í neinum mæli fyrr en kom fram á 19. öld. Hinn eiginlegi gjafadagur til barna á miðöldum og lengi síðan meðal katólskra var messudagur heilags Nikulásar, 6. desember. Á 18. og 19. öld koma upp jólamarkaðir í evrópskum borgum þar sem bæði er til sölu jólaskraut og hlutir til jólagjafa.

Matargjafir til fátækra fyrir jól virðast eiga sér ævafornar rætur og voru með ýmsu móti eftir löndum. Vel stætt greiðvikið fólk sendi snauðum nágrönnum matarögn. Katólska kirkjan lét sér einnig annt um þetta og jarteinasaga í Jóns sögu helga sýnir að á Íslandi þótti vænlegra að beiðast ölmusu um jól en endranær. Í íslenskum máldögum og testamentisbréfum allar götur frá 13. öld sést kveðið á um slíka ölmusu.

Með vaxandi þéttbýli á 19. og 20. öld spruttu upp kvenfélög, ungmennafélög og sérstök góðgerðafélög sem mörg hver leituðust við að veita bágstöddum einhvern jólaglaðning. Víðast hvar sinntu kvenfélög þessu starfi af mestri alúð. Í Reykjavík má nefna Thorvaldsensfélagið 1875 og Mæðrastyrksnefnd 1928 en af öðrum samtökum Hjálpræðisherinn 1895 og Vetrarhjálpina 1934 sem reyndar var styrkt af bæjarstjórn. Mörgum fannst niðurlæging fólgin í því að taka við slíkri ölmusu, og munu flest heimili í lengstu lög hafa reynt að komast hjá því.

Jólamarkaður í Berlín 1892.

Á Íslandi verður ekki vart við einstaklingsbundnar jólagjafir í nútímaskilningi fyrr en seint á 19. öld. Sumargjafir voru miklu eldri, enda lítur út fyrir að í gamla íslenska tímatalinu sé gert ráð fyrir að árið byrji á sumardaginn fyrsta. Að vísu er greinilega reiknað með því að hver heimilismaður fái einhverja nýja flík og nýja skó á jólunum. Þetta var þó ekki nefnt jólagjöf og virðist frekar hafa verið litið á það sem einskonar aukaþóknun eða „desemberuppbót“ á nútímamáli. Eftir að þéttbýli myndast í Reykjavík og nokkrir menn taka að hafa atvinnu af skósmíði, má sjá að þeir reyna að höfða til jólaskónna í auglýsingum.

Annar einfaldur og algengur jólaglaðningur var kerti handa hverjum manni. Kertin voru reyndar allmikils virði því þau voru gerð úr sauðatólg og í rauninni alldýr, enda helst notuð í kirkjum og að jafnaði ekki meðal almúgans. Þar varð hversdagslega að láta lýsiskoluna nægja, sem bar mjög daufa birtu. Kertaljósið var langtum bjartara.

Myndir:


Þessi texti er úr bókinni Saga jólanna sem út kom árið 2006 og birtist hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur

Árni Björnsson

dr. phil. í menningarsögu

Útgáfudagur

21.12.2011

Spyrjandi

Nökkvi Nils Bernhardsson, f. 1998, Elísabet Steinbjörnsdóttir, f. 1992

Tilvísun

Árni Björnsson. „Af hverju gefur fólk gjafir um jólin og hvenær varð sá siður almennur?“ Vísindavefurinn, 21. desember 2011. Sótt 2. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=61528.

Árni Björnsson. (2011, 21. desember). Af hverju gefur fólk gjafir um jólin og hvenær varð sá siður almennur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61528

Árni Björnsson. „Af hverju gefur fólk gjafir um jólin og hvenær varð sá siður almennur?“ Vísindavefurinn. 21. des. 2011. Vefsíða. 2. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61528>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju gefur fólk gjafir um jólin og hvenær varð sá siður almennur?
Jólahald var ekki með sama sniði um alla Evrópu á fyrri öldum. Það var breytilegt í tímans rás eftir löndum, héruðum og kirkjuskipan. Jólagjafir virðast að sumu leyti sprottnar frá hinum fornu rómversku skammdegishátíðum, en þær voru í eðli sínu alþýðlegar nýársgjafir.

Áramót voru víða á miðöldum miðuð við fæðingardag Jesú Krists og því var eðlilegt að þar yrðu jóla- og nýársgjafir eitt og hið sama. Þó sést lengi vel ekki getið um jólagjafir nema meðal evrópskra höfðingja. Oftast er það á þá lund að húsbóndinn færir gestum sínum og undirsátum gjafir, þótt einnig beri við að hann fái eitthvað frá gestum sínum. Þessu bregður líka fyrir í Íslendinga sögum, einnig þeim sem eiga að gerast í heiðni. Vera má að jólagjafir húsbænda hafi síður farið eftir efahag þeirra en hinu, hvort þeir litu á sig sjálfstæða menn.

Allir fá þá eitthvað fallegt ...

Meðal almennings þekktust jólagjafir í nútímaskilningi ekki í neinum mæli fyrr en kom fram á 19. öld. Hinn eiginlegi gjafadagur til barna á miðöldum og lengi síðan meðal katólskra var messudagur heilags Nikulásar, 6. desember. Á 18. og 19. öld koma upp jólamarkaðir í evrópskum borgum þar sem bæði er til sölu jólaskraut og hlutir til jólagjafa.

Matargjafir til fátækra fyrir jól virðast eiga sér ævafornar rætur og voru með ýmsu móti eftir löndum. Vel stætt greiðvikið fólk sendi snauðum nágrönnum matarögn. Katólska kirkjan lét sér einnig annt um þetta og jarteinasaga í Jóns sögu helga sýnir að á Íslandi þótti vænlegra að beiðast ölmusu um jól en endranær. Í íslenskum máldögum og testamentisbréfum allar götur frá 13. öld sést kveðið á um slíka ölmusu.

Með vaxandi þéttbýli á 19. og 20. öld spruttu upp kvenfélög, ungmennafélög og sérstök góðgerðafélög sem mörg hver leituðust við að veita bágstöddum einhvern jólaglaðning. Víðast hvar sinntu kvenfélög þessu starfi af mestri alúð. Í Reykjavík má nefna Thorvaldsensfélagið 1875 og Mæðrastyrksnefnd 1928 en af öðrum samtökum Hjálpræðisherinn 1895 og Vetrarhjálpina 1934 sem reyndar var styrkt af bæjarstjórn. Mörgum fannst niðurlæging fólgin í því að taka við slíkri ölmusu, og munu flest heimili í lengstu lög hafa reynt að komast hjá því.

Jólamarkaður í Berlín 1892.

Á Íslandi verður ekki vart við einstaklingsbundnar jólagjafir í nútímaskilningi fyrr en seint á 19. öld. Sumargjafir voru miklu eldri, enda lítur út fyrir að í gamla íslenska tímatalinu sé gert ráð fyrir að árið byrji á sumardaginn fyrsta. Að vísu er greinilega reiknað með því að hver heimilismaður fái einhverja nýja flík og nýja skó á jólunum. Þetta var þó ekki nefnt jólagjöf og virðist frekar hafa verið litið á það sem einskonar aukaþóknun eða „desemberuppbót“ á nútímamáli. Eftir að þéttbýli myndast í Reykjavík og nokkrir menn taka að hafa atvinnu af skósmíði, má sjá að þeir reyna að höfða til jólaskónna í auglýsingum.

Annar einfaldur og algengur jólaglaðningur var kerti handa hverjum manni. Kertin voru reyndar allmikils virði því þau voru gerð úr sauðatólg og í rauninni alldýr, enda helst notuð í kirkjum og að jafnaði ekki meðal almúgans. Þar varð hversdagslega að láta lýsiskoluna nægja, sem bar mjög daufa birtu. Kertaljósið var langtum bjartara.

Myndir:


Þessi texti er úr bókinni Saga jólanna sem út kom árið 2006 og birtist hér með góðfúslegu leyfi höfundar....