Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Er eðlilegt að finna til pirrings yfir smjatti, sötri, háum andardrætti og klukkutifi?

Árni Kristjánsson

Svarið við spurningunni er einfaldlega já. Það er alveg fullkomlega eðlilegt að verða þreyttur og pirraður á ákveðnum hljóðum. Hinu er ekki að neita að það er afskaplega persónubundið hvort og hversu mikið þau fari í taugarnar á fólki, og þá er lykilatriði hve mikla athygli fólk veitir smjatti, sötri og öðrum slíkum hljóðum.

Athyglin ræður miklu um hvað við heyrum, sjáum eða skynjum á annan hátt. Við getum sem dæmi verið ótrúlega ’blind‘ á hluti sem birtast í sjónsviði okkar ef við gefum þeim engan gaum. Skemmtilegt dæmi um hlutverk athyglinnar í sjónskynjun er tilraun þar sem þátttakendur horfðu á tvö körfuboltalið henda á milli sín bolta. Annað liðið var svartklætt en hitt hvítklætt, og áttu sumir þátttakenda að telja sendingar milli leikmanna svarta liðsins, en aðrir sendingar leikmanna hvíta liðsins. Í miðjum klíðum gekk manneskja íklædd górillubúningi inn á leikvöllinn, barði sér á brjóst og gekk svo í burtu. Myndbandið má finna hér.

Það er skemmst frá því að segja að um helmingur þeirra sem töldu sendingar milli hvítklæddu leikmannanna tóku ekki eftir górillunni! Aftur á móti urðu langflestir þeirra sem töldu sendingar svartklæddu leikmannanna varir við hana. Hér er greinilegt að liturinn sem fylgst var með skipti miklu máli – fólkið sem veitti hvíta litnum athygli gat leitt hjá sér svörtu leikmennina, en það varð til þess að stór hluti sá heldur ekki manneskjuna í svarta górillubúningnum. Þetta sýnir glöggt hvernig athygli hefur áhrif á hvað fólk skynjar og hvað það skynjar ekki.

Annað dæmi sem fólk kannast eflaust við eru svokölluð hanastélshrif (e. cocktail party effect). Ímyndið ykkur að þið séuð í kokteilboði þar sem heyrist mikill kliður. Ykkur tekst samt sem áður að útiloka raddir allra nema þess sem þið eigið í samræðum við – allt þar til einhver í salnum nefnir nafnið ykkar; þá heyrið þið allt í einu hvað sá hinn sami er að tala um. Þessar alvanalegu aðstæður sýna hvernig athyglin gerir manni kleift að einblína á það sem skiptir máli þá stundina, en að sama skapi hundsa það sem litlu máli skiptir. Þetta sýnir líka að einstaka áreiti, í þessu tilviki nafnið, nær vitund manns jafnvel þótt maður hafi reynt að útiloka það.


Klukkutif fer stundum óstjórnlega í taugarnar á fólki.

Svipaða sögu má eflaust segja af smjatti, sötri, háum andardrætti og klukkutifi. Sumir ná að leiða þessi hljóð algjörlega hjá sér, rétt eins og kliðinn í kokteilboðinu, og þá fara hljóðin að sjálfsögðu ekki í taugarnar á þeim. Öðrum tekst ekki að beina athyglinni algjörlega frá þeim og þau þrengja sér inn í vitundina, rétt eins og nafnið sem veislugesturinn nefndi.

Í þessu samhengi er oft einnig minnst á hrotur; það er misjafnt hversu mikið þær trufla svefn þeirra sem eru í námunda við þann sem hrýtur. Þeir sem verða fyrir truflun af hrotum virðast eiga afskaplega erfitt að með að leiða þær hjá sér og geta þaðan af síður sofið. Öðrum gengur hins vegar vel að hundsa hroturnar og geta auðveldlega sofið þrátt fyrir hávaðann.

Svo virðist sem reynsla ráði að sumu leyti hversu vel fólki tekst að útiloka óviðkomandi hljóð, og þessi áhrif geta bæði varað í lengri og skemmri tíma. Dæmi um skammtímaáhrif er svokallaður viðvani (e. habituation) þar sem lífverur, bæði menn og önnur dýr, bregðast sífellt minna við áreiti því oftar sem það er endurtekið. Þegar fólk kemur til að mynda inn í herbergi með suðandi flúrljósum finnst því oft sem suðið sé mjög hávært, en smám saman fer það að leiða suðið hjá sér.

Sem dæmi um langtímaáhrif reynslu má nefna fólk sem býr nærri fjölförnum flugvöllum. Þetta fólk tekur varla eftir þotuhljóðum sem gestkomandi gæti þótt ærandi hávaði. Alltaf eru þó einhverjir sem ná ekki að venjast þessum hljóðum og neyðast til að flytja í burtu.

Varðandi smjatt og sötur þá virðist nokkuð breytilegt eftir samfélögum hvort slíkt teljist yfir höfuð ósæmandi eða ekki. Í samfélagi þar sem slíkt þykir dónaskapur er ekkert óeðlilegt við að fólk láti slíkt fara í taugarnar á sér. Sama manneskja verður hins vegar að bíta á jaxlinn og umbera slík hljóð sé hún stödd meðal fólks sem kemur úr samfélagi þar sem smjatt eða sötur þykir ekkert tiltökumál.

Svo spurningunni sé að lokum svarað er ljóst að eðlilegt getur verið að verða pirraður yfir hávaða og hljóðum en jafn eðlilegt er að finnast slík hljóð á engan hátt óþægileg. Þetta snýst að miklu leyti um hvort við getum leitt þessi hljóð hjá okkur – og í sumum tilfellum er það bara einfaldlega ekki hægt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

  • Broadbent, D.E. (1958). Perception & Communication. London: Pergamon Press.
  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
  • Kristjánsson, Á. (2006). Rapid learning in attention shifts: A review. Visual Cognition, 13, 324-362.
  • Simons, D. J., & Chabris, C. F. (1999). Gorillas in our midst: Sustained inattentional blindness for dynamic events. Perception, 28, 1059-1074.
  • Myndin er fengin af síðunni Image:Windup alarm clock.jpg. Wikimedia Commons.

Höfundur

dósent í sálarfræði við HÍ

Útgáfudagur

5.9.2006

Spyrjandi

Gunnar Gunnarsson, f. 1992

Tilvísun

Árni Kristjánsson. „Er eðlilegt að finna til pirrings yfir smjatti, sötri, háum andardrætti og klukkutifi? “ Vísindavefurinn, 5. september 2006. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6170.

Árni Kristjánsson. (2006, 5. september). Er eðlilegt að finna til pirrings yfir smjatti, sötri, háum andardrætti og klukkutifi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6170

Árni Kristjánsson. „Er eðlilegt að finna til pirrings yfir smjatti, sötri, háum andardrætti og klukkutifi? “ Vísindavefurinn. 5. sep. 2006. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6170>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er eðlilegt að finna til pirrings yfir smjatti, sötri, háum andardrætti og klukkutifi?
Svarið við spurningunni er einfaldlega já. Það er alveg fullkomlega eðlilegt að verða þreyttur og pirraður á ákveðnum hljóðum. Hinu er ekki að neita að það er afskaplega persónubundið hvort og hversu mikið þau fari í taugarnar á fólki, og þá er lykilatriði hve mikla athygli fólk veitir smjatti, sötri og öðrum slíkum hljóðum.

Athyglin ræður miklu um hvað við heyrum, sjáum eða skynjum á annan hátt. Við getum sem dæmi verið ótrúlega ’blind‘ á hluti sem birtast í sjónsviði okkar ef við gefum þeim engan gaum. Skemmtilegt dæmi um hlutverk athyglinnar í sjónskynjun er tilraun þar sem þátttakendur horfðu á tvö körfuboltalið henda á milli sín bolta. Annað liðið var svartklætt en hitt hvítklætt, og áttu sumir þátttakenda að telja sendingar milli leikmanna svarta liðsins, en aðrir sendingar leikmanna hvíta liðsins. Í miðjum klíðum gekk manneskja íklædd górillubúningi inn á leikvöllinn, barði sér á brjóst og gekk svo í burtu. Myndbandið má finna hér.

Það er skemmst frá því að segja að um helmingur þeirra sem töldu sendingar milli hvítklæddu leikmannanna tóku ekki eftir górillunni! Aftur á móti urðu langflestir þeirra sem töldu sendingar svartklæddu leikmannanna varir við hana. Hér er greinilegt að liturinn sem fylgst var með skipti miklu máli – fólkið sem veitti hvíta litnum athygli gat leitt hjá sér svörtu leikmennina, en það varð til þess að stór hluti sá heldur ekki manneskjuna í svarta górillubúningnum. Þetta sýnir glöggt hvernig athygli hefur áhrif á hvað fólk skynjar og hvað það skynjar ekki.

Annað dæmi sem fólk kannast eflaust við eru svokölluð hanastélshrif (e. cocktail party effect). Ímyndið ykkur að þið séuð í kokteilboði þar sem heyrist mikill kliður. Ykkur tekst samt sem áður að útiloka raddir allra nema þess sem þið eigið í samræðum við – allt þar til einhver í salnum nefnir nafnið ykkar; þá heyrið þið allt í einu hvað sá hinn sami er að tala um. Þessar alvanalegu aðstæður sýna hvernig athyglin gerir manni kleift að einblína á það sem skiptir máli þá stundina, en að sama skapi hundsa það sem litlu máli skiptir. Þetta sýnir líka að einstaka áreiti, í þessu tilviki nafnið, nær vitund manns jafnvel þótt maður hafi reynt að útiloka það.


Klukkutif fer stundum óstjórnlega í taugarnar á fólki.

Svipaða sögu má eflaust segja af smjatti, sötri, háum andardrætti og klukkutifi. Sumir ná að leiða þessi hljóð algjörlega hjá sér, rétt eins og kliðinn í kokteilboðinu, og þá fara hljóðin að sjálfsögðu ekki í taugarnar á þeim. Öðrum tekst ekki að beina athyglinni algjörlega frá þeim og þau þrengja sér inn í vitundina, rétt eins og nafnið sem veislugesturinn nefndi.

Í þessu samhengi er oft einnig minnst á hrotur; það er misjafnt hversu mikið þær trufla svefn þeirra sem eru í námunda við þann sem hrýtur. Þeir sem verða fyrir truflun af hrotum virðast eiga afskaplega erfitt að með að leiða þær hjá sér og geta þaðan af síður sofið. Öðrum gengur hins vegar vel að hundsa hroturnar og geta auðveldlega sofið þrátt fyrir hávaðann.

Svo virðist sem reynsla ráði að sumu leyti hversu vel fólki tekst að útiloka óviðkomandi hljóð, og þessi áhrif geta bæði varað í lengri og skemmri tíma. Dæmi um skammtímaáhrif er svokallaður viðvani (e. habituation) þar sem lífverur, bæði menn og önnur dýr, bregðast sífellt minna við áreiti því oftar sem það er endurtekið. Þegar fólk kemur til að mynda inn í herbergi með suðandi flúrljósum finnst því oft sem suðið sé mjög hávært, en smám saman fer það að leiða suðið hjá sér.

Sem dæmi um langtímaáhrif reynslu má nefna fólk sem býr nærri fjölförnum flugvöllum. Þetta fólk tekur varla eftir þotuhljóðum sem gestkomandi gæti þótt ærandi hávaði. Alltaf eru þó einhverjir sem ná ekki að venjast þessum hljóðum og neyðast til að flytja í burtu.

Varðandi smjatt og sötur þá virðist nokkuð breytilegt eftir samfélögum hvort slíkt teljist yfir höfuð ósæmandi eða ekki. Í samfélagi þar sem slíkt þykir dónaskapur er ekkert óeðlilegt við að fólk láti slíkt fara í taugarnar á sér. Sama manneskja verður hins vegar að bíta á jaxlinn og umbera slík hljóð sé hún stödd meðal fólks sem kemur úr samfélagi þar sem smjatt eða sötur þykir ekkert tiltökumál.

Svo spurningunni sé að lokum svarað er ljóst að eðlilegt getur verið að verða pirraður yfir hávaða og hljóðum en jafn eðlilegt er að finnast slík hljóð á engan hátt óþægileg. Þetta snýst að miklu leyti um hvort við getum leitt þessi hljóð hjá okkur – og í sumum tilfellum er það bara einfaldlega ekki hægt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

  • Broadbent, D.E. (1958). Perception & Communication. London: Pergamon Press.
  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
  • Kristjánsson, Á. (2006). Rapid learning in attention shifts: A review. Visual Cognition, 13, 324-362.
  • Simons, D. J., & Chabris, C. F. (1999). Gorillas in our midst: Sustained inattentional blindness for dynamic events. Perception, 28, 1059-1074.
  • Myndin er fengin af síðunni Image:Windup alarm clock.jpg. Wikimedia Commons.
...