Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Af hverju dregur oft fyrir sólu síðdegis á sólríkum góðviðrisdögum í Reykjavík?

Trausti Jónsson

Í Reykjavík er að meðaltali mjög skýjað og dægursveifla skýjahulunnar er lítil. Skýjahula er metin í áttunduhlutum himinhvolfs, sé alskýjað er hulan 8, en í heiðskíru er hún 0.

Meðalskýjahula í Reykjavík í júlímánuði er mest kl. 3 að nóttu, 6,4 áttunduhlutar, en minnst 5,9 áttunduhlutar síðdegis, kl. 15 og kl. 18. Meðalsólskinsstundafjöldi er 5,5 stundir á dag í júlí. Komi sólskin eru meiri líkur á því að það standi aðeins í nokkrar klukkustundir heldur en að það sé sól mestallan daginn. Að jafnaði er ekki léttskýjað allan sólarhringinn í Reykjavík nema tvo daga í hverjum júlímánuði.

Talið er léttskýjað ef skýjahula er minni en 3 áttunduhlutar á athugunartíma. Í júlímánuði á tímabilinu 1949 til 2006 var 216 sinnum léttskýjað kl. 9 í Reykjavík, en 226 sinnum kl. 18. Í 91 tilviki var léttskýjað bæði kl. 9 og kl. 18. Á sama tímabili var skýjað 80 sinnum kl. 18 þegar léttskýjað var kl. 9, en 96 sinnum léttskýjað kl. 18 þegar skýjað var kl. 9.

Þetta bendir til þess að álíka oft dragi fyrir sólu síðdegis og ekki geri það. Álíka oft dregur frá sólu síðdegis þegar skýjað hefur verið að morgni. Hægt er að lesa meira um skýjafar í Reykjavík í svari sama höfundar við spurningunni Getur verið léttskýjað í Reykjavík í sunnanátt?



Sjaldgæft er að það sé léttskýjað í Reykjavík allan sólahringinn.

Skýjafar ræðst af lóðréttum hreyfingum lofts og rakastigi þess, eins og lesa má um í svari Haraldar Ólafssonar við spurningunni Af hverju myndast ský? Uppstreymi kælir loft og myndar ský (sé raki nægur), en niðurstreymi hitar loft og eyðir skýjum. Kæling lofts eða rakaíbæting eykur rakastig þess. Á sumrin er talsverð dægursveifla í hvoru tveggja. Á daginn er uppstreymi yfir landi vegna þess að land hitnar meira en sjór (sjá svar sama höfundar við spurningunni Hvers vegna lygnir oft á kvöldin?). Þá er tilhneiging til þess að ský myndist yfir landinu, en bjart veður sé yfir sjónum. Sólarvarminn veldur einnig því að raki gufar upp á daginn, bæði yfir sjó og landi, þannig að rakamagn í lofti vex þegar á daginn líður.

Í meginatriðum má segja að tvenns konar ský myndist yfir landi á daginn, eftir því hvort loft er óstöðugt eða stöðugt. Sé loft óstöðugt myndast bólstrar og jafnvel skúraklakkar. Uppstreymi er þá óhindrað upp í nokkur þúsund metra hæð. Loftið kólnar í uppstreyminu og raki þess þéttist og myndar ský og jafnvel skúrir nái hitinn í skýinu niður fyrir frostmark. Þá dregur fyrir sól.

Sé loft aðallega stöðugt verða til svonefnd fláka- eða netjuský. Það eru nokkuð samfelldar skýjabreiður, sem einkum myndast þegar uppstreymi rekst upp undir hlýrri og stöðugri loftlög ofan við. Hér á landi hagar mjög oft þannig til að tiltölulega hlýrra loft liggur yfir kaldara (sjá svar sama höfundar við spurningunni Af hverju er stundum svona mikill hitamunur á milli nálægra staða?). Þá eru oftast takmörk fyrir því hversu hátt uppstreymi getur náð og fer síðan eftir raka hvort ský myndast eða ekki.

Skýjabreiður af þessu tagi myndast oft yfir landinu og þegar líður á daginn leita þær til hliðanna og breiðast í átt til sjávar án þess að valda úrkomu. Stundum er neðsta lagið ekki nægilega rakt til að ský geti myndast í því. Þó bólgnar loftið út við að hitna á daginn og getur þá lyft næsta lagi fyrir ofan upp á við, þannig að þar myndist skýjabreiða (netjuský). Nokkur skýjalög geta myndast á þennan veg, mishátt á lofti.

Nokkuð algengt er að undir kvöld á sólardögum myndist ský efst í því lofti sem streymdi utan af hafi sem hafgola síðdegis. Þetta loft er að jafnaði mjög rakt og þegar það kólnar eftir að sól er hætt að verma það, þéttist rakinn og ský myndast. Í Reykjavík byrja þannig ský oftast að myndast í Esjuhlíðum, þá sem mjótt band, en fyrr en varir er komin nokkuð samfelld þokuskýjabreiða yfir allt loftið.

Mynd: Seattle Sister Cities

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

22.9.2006

Spyrjandi

Sif Þráinsdóttir

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Af hverju dregur oft fyrir sólu síðdegis á sólríkum góðviðrisdögum í Reykjavík?“ Vísindavefurinn, 22. september 2006. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6204.

Trausti Jónsson. (2006, 22. september). Af hverju dregur oft fyrir sólu síðdegis á sólríkum góðviðrisdögum í Reykjavík? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6204

Trausti Jónsson. „Af hverju dregur oft fyrir sólu síðdegis á sólríkum góðviðrisdögum í Reykjavík?“ Vísindavefurinn. 22. sep. 2006. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6204>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju dregur oft fyrir sólu síðdegis á sólríkum góðviðrisdögum í Reykjavík?
Í Reykjavík er að meðaltali mjög skýjað og dægursveifla skýjahulunnar er lítil. Skýjahula er metin í áttunduhlutum himinhvolfs, sé alskýjað er hulan 8, en í heiðskíru er hún 0.

Meðalskýjahula í Reykjavík í júlímánuði er mest kl. 3 að nóttu, 6,4 áttunduhlutar, en minnst 5,9 áttunduhlutar síðdegis, kl. 15 og kl. 18. Meðalsólskinsstundafjöldi er 5,5 stundir á dag í júlí. Komi sólskin eru meiri líkur á því að það standi aðeins í nokkrar klukkustundir heldur en að það sé sól mestallan daginn. Að jafnaði er ekki léttskýjað allan sólarhringinn í Reykjavík nema tvo daga í hverjum júlímánuði.

Talið er léttskýjað ef skýjahula er minni en 3 áttunduhlutar á athugunartíma. Í júlímánuði á tímabilinu 1949 til 2006 var 216 sinnum léttskýjað kl. 9 í Reykjavík, en 226 sinnum kl. 18. Í 91 tilviki var léttskýjað bæði kl. 9 og kl. 18. Á sama tímabili var skýjað 80 sinnum kl. 18 þegar léttskýjað var kl. 9, en 96 sinnum léttskýjað kl. 18 þegar skýjað var kl. 9.

Þetta bendir til þess að álíka oft dragi fyrir sólu síðdegis og ekki geri það. Álíka oft dregur frá sólu síðdegis þegar skýjað hefur verið að morgni. Hægt er að lesa meira um skýjafar í Reykjavík í svari sama höfundar við spurningunni Getur verið léttskýjað í Reykjavík í sunnanátt?



Sjaldgæft er að það sé léttskýjað í Reykjavík allan sólahringinn.

Skýjafar ræðst af lóðréttum hreyfingum lofts og rakastigi þess, eins og lesa má um í svari Haraldar Ólafssonar við spurningunni Af hverju myndast ský? Uppstreymi kælir loft og myndar ský (sé raki nægur), en niðurstreymi hitar loft og eyðir skýjum. Kæling lofts eða rakaíbæting eykur rakastig þess. Á sumrin er talsverð dægursveifla í hvoru tveggja. Á daginn er uppstreymi yfir landi vegna þess að land hitnar meira en sjór (sjá svar sama höfundar við spurningunni Hvers vegna lygnir oft á kvöldin?). Þá er tilhneiging til þess að ský myndist yfir landinu, en bjart veður sé yfir sjónum. Sólarvarminn veldur einnig því að raki gufar upp á daginn, bæði yfir sjó og landi, þannig að rakamagn í lofti vex þegar á daginn líður.

Í meginatriðum má segja að tvenns konar ský myndist yfir landi á daginn, eftir því hvort loft er óstöðugt eða stöðugt. Sé loft óstöðugt myndast bólstrar og jafnvel skúraklakkar. Uppstreymi er þá óhindrað upp í nokkur þúsund metra hæð. Loftið kólnar í uppstreyminu og raki þess þéttist og myndar ský og jafnvel skúrir nái hitinn í skýinu niður fyrir frostmark. Þá dregur fyrir sól.

Sé loft aðallega stöðugt verða til svonefnd fláka- eða netjuský. Það eru nokkuð samfelldar skýjabreiður, sem einkum myndast þegar uppstreymi rekst upp undir hlýrri og stöðugri loftlög ofan við. Hér á landi hagar mjög oft þannig til að tiltölulega hlýrra loft liggur yfir kaldara (sjá svar sama höfundar við spurningunni Af hverju er stundum svona mikill hitamunur á milli nálægra staða?). Þá eru oftast takmörk fyrir því hversu hátt uppstreymi getur náð og fer síðan eftir raka hvort ský myndast eða ekki.

Skýjabreiður af þessu tagi myndast oft yfir landinu og þegar líður á daginn leita þær til hliðanna og breiðast í átt til sjávar án þess að valda úrkomu. Stundum er neðsta lagið ekki nægilega rakt til að ský geti myndast í því. Þó bólgnar loftið út við að hitna á daginn og getur þá lyft næsta lagi fyrir ofan upp á við, þannig að þar myndist skýjabreiða (netjuský). Nokkur skýjalög geta myndast á þennan veg, mishátt á lofti.

Nokkuð algengt er að undir kvöld á sólardögum myndist ský efst í því lofti sem streymdi utan af hafi sem hafgola síðdegis. Þetta loft er að jafnaði mjög rakt og þegar það kólnar eftir að sól er hætt að verma það, þéttist rakinn og ský myndast. Í Reykjavík byrja þannig ský oftast að myndast í Esjuhlíðum, þá sem mjótt band, en fyrr en varir er komin nokkuð samfelld þokuskýjabreiða yfir allt loftið.

Mynd: Seattle Sister Cities...