Sólin Sólin Rís 04:02 • sest 22:49 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:53 • Sest 03:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:57 • Síðdegis: 15:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:24 • Síðdegis: 21:47 í Reykjavík

Hver var Niccolò Machiavelli?

Henry Alexander Henrysson

Niccolò Machiavelli er talinn vera einn helsti hugsuður endurreisnarinnar á Ítalíu. Hann fæddist í Flórens árið 1469 á þeim tíma sem borgin var að festa sig í sessi sem miðstöð menningar og viðskipta á Ítalíu. Hann starfaði sem embættismaður en þótti einnig ljómandi gott skáld og eru sum verka hans talin vera með því besta sem skrifað var á ítalska tungu á endurreisnartímanum. Þekktastur er hann án efa fyrir Furstann (Il Principe) sem hann skrifaði eftir að hafa misst opinbert embætti sitt þegar Medici-fjölskyldan komst aftur til valda í Flórens eftir að nokkurs konar lýðveldi hafði verið komið á í um tvo áratugi. Verkinu hefur verið lýst sem handbók í stjórnun en í því greinir Machiavelli skilyrði þess að stjórnandi ríkis, það er furstinn, geti haldið völdum sínum, sérstaklega ef hann hefur nýlega tekið við þeim.

Niccolò Machiavelli (1469‒1527).

Áhrif verksins, sem kom ekki út fyrr en að honum látnum, voru takmörkuð á sextándu öld en hafa verið því meiri á seinni öldum. Má segja að Machiavelli hafi í Furstanum lagt grundvöll að stjórnmálafræði nútímans með því að leitast við að lýsa raunverulegum aðstæðum stjórnvalds fremur en að draga fram einkenni hins besta mögulega ríkis. Samtímamönnum hans sem lásu verkið í handriti þótti einkennilegt að skrifa rit um stjórnspeki sem reyndi markvisst að feta stigið milli staðleysu annars vegar og kaldhæðni hins vegar. Hlutu skáldverk hans, þar á meðal leikverk, betri viðtökur. Machiavelli lést árið 1527.

Furstinn er þekktur fyrir raunsæi og kaldaranalegar lýsingar á mannlegu samfélagi. Áherslur á skuggahliðar mannsins fá lesandann til að velta fyrir sér hvort alger uppgjöf gagnvart verstu eiginleikum hans sé óumflýjanleg. Sú dökka mynd sem Machiavelli dregur upp af stjórnspeki virðist leiða lesandann út í fen algerrar tómhyggju um félagsheiminn. Raunsæi var raunar eitt af einkennum endurreisnartímans. Fjarvíddin, sem kom fram í málaralistinni á þessum tíma, reyndist til að mynda mikilvægt tæki til að draga upp mynd af heiminum eins og hann er í raun og veru. Greiningu Machiavellis er einmitt fyrst og fremst ætlað að draga fram raunsæja mynd af samspili valds og stjórnmála. En ólíkt málaralistinni sem taldi sig hafa höndlað ákveðinn sannleika með fjarvíddinni vildi Machiavelli draga fram mikilvægi ásýndarinnar eða blekkingarinnar. Hún gat haft gildi í sjálfri sér. Raunsæi Furstans er ekki síst fólgið í þeim ráðleggingum að furstinn gæti að því hvernig hann kemur þegnum sínum fyrir sjónir. Rétt sköpuð ásýnd getur skapað sinn eigin veruleika. Önnur gæði skipta minna máli. Völd furstans byggja á því að fólk líti upp til hans og eru öll brögð leyfileg til þess að skapa þetta sjónarhorn almennings.

Machiavelli var þó enginn ruddi. Hann hvetur ekki til tilgangslauss ofbeldis í Furstanum eða öðrum ritverkum sínum. Hann var ákaflega fágaður og kænn höfundur og embættismaður sem var sannfærður um að sá fursti sem gætti ekki að því að láta skuggalegustu verk sín líta vel út myndi fljótt skapa sér of marga óvini. Jafnframt var honum umhugað um lög væru ekki brotin. Það væru lögin eftir allt saman sem skildu okkur frá dýrunum. Ráð hans voru að furstinn skyldi gagnast við og rækta frumstæðustu hvatir sínar en gæta þess að fela þær vandlega um leið.

Þrátt fyrir óumdeild áhrif Machiavellis á stjórnmálafræði nútímans þá dylst engum að sitthvað ógeðfellt fylgir ráðleggingum hans. Í mörgum tungumálum er jafnvel vísað í þá stjórnmálamenn sem gæta ekki að réttindum almennings með lýsingarorðinu „machiavellískur“ (e. Machiavellian). En það má einnig velta fyrir sér hvað honum myndi finnast um þær lýðræðishefðir sem hafa skotið rótum í samtímanum og við miðum gildismat okkar við í dag. Machiavelli kynni að saka okkur á Vesturlöndum um ákveðna hræsni. Að samfélagsgerð okkar byggi ekki á jafnræði heldur valdbeitingu og áhrifum fámennrar valdastéttar. Furstar nútímans hafi einfaldlega náð meiri leikni en nokkru sinni fyrr í að klæða eigin hagsmuni í búning réttlætis og sanngirni.

Mynd:


Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvað getur þú sagt mér um Niccoló Machiavelli og furstann?
sem Sahara Rós Ívarsdóttir bar upp.

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

5.11.2012

Spyrjandi

Lára Sif Þórisdóttir

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Hver var Niccolò Machiavelli?“ Vísindavefurinn, 5. nóvember 2012. Sótt 18. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=62078.

Henry Alexander Henrysson. (2012, 5. nóvember). Hver var Niccolò Machiavelli? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62078

Henry Alexander Henrysson. „Hver var Niccolò Machiavelli?“ Vísindavefurinn. 5. nóv. 2012. Vefsíða. 18. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62078>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Niccolò Machiavelli?
Niccolò Machiavelli er talinn vera einn helsti hugsuður endurreisnarinnar á Ítalíu. Hann fæddist í Flórens árið 1469 á þeim tíma sem borgin var að festa sig í sessi sem miðstöð menningar og viðskipta á Ítalíu. Hann starfaði sem embættismaður en þótti einnig ljómandi gott skáld og eru sum verka hans talin vera með því besta sem skrifað var á ítalska tungu á endurreisnartímanum. Þekktastur er hann án efa fyrir Furstann (Il Principe) sem hann skrifaði eftir að hafa misst opinbert embætti sitt þegar Medici-fjölskyldan komst aftur til valda í Flórens eftir að nokkurs konar lýðveldi hafði verið komið á í um tvo áratugi. Verkinu hefur verið lýst sem handbók í stjórnun en í því greinir Machiavelli skilyrði þess að stjórnandi ríkis, það er furstinn, geti haldið völdum sínum, sérstaklega ef hann hefur nýlega tekið við þeim.

Niccolò Machiavelli (1469‒1527).

Áhrif verksins, sem kom ekki út fyrr en að honum látnum, voru takmörkuð á sextándu öld en hafa verið því meiri á seinni öldum. Má segja að Machiavelli hafi í Furstanum lagt grundvöll að stjórnmálafræði nútímans með því að leitast við að lýsa raunverulegum aðstæðum stjórnvalds fremur en að draga fram einkenni hins besta mögulega ríkis. Samtímamönnum hans sem lásu verkið í handriti þótti einkennilegt að skrifa rit um stjórnspeki sem reyndi markvisst að feta stigið milli staðleysu annars vegar og kaldhæðni hins vegar. Hlutu skáldverk hans, þar á meðal leikverk, betri viðtökur. Machiavelli lést árið 1527.

Furstinn er þekktur fyrir raunsæi og kaldaranalegar lýsingar á mannlegu samfélagi. Áherslur á skuggahliðar mannsins fá lesandann til að velta fyrir sér hvort alger uppgjöf gagnvart verstu eiginleikum hans sé óumflýjanleg. Sú dökka mynd sem Machiavelli dregur upp af stjórnspeki virðist leiða lesandann út í fen algerrar tómhyggju um félagsheiminn. Raunsæi var raunar eitt af einkennum endurreisnartímans. Fjarvíddin, sem kom fram í málaralistinni á þessum tíma, reyndist til að mynda mikilvægt tæki til að draga upp mynd af heiminum eins og hann er í raun og veru. Greiningu Machiavellis er einmitt fyrst og fremst ætlað að draga fram raunsæja mynd af samspili valds og stjórnmála. En ólíkt málaralistinni sem taldi sig hafa höndlað ákveðinn sannleika með fjarvíddinni vildi Machiavelli draga fram mikilvægi ásýndarinnar eða blekkingarinnar. Hún gat haft gildi í sjálfri sér. Raunsæi Furstans er ekki síst fólgið í þeim ráðleggingum að furstinn gæti að því hvernig hann kemur þegnum sínum fyrir sjónir. Rétt sköpuð ásýnd getur skapað sinn eigin veruleika. Önnur gæði skipta minna máli. Völd furstans byggja á því að fólk líti upp til hans og eru öll brögð leyfileg til þess að skapa þetta sjónarhorn almennings.

Machiavelli var þó enginn ruddi. Hann hvetur ekki til tilgangslauss ofbeldis í Furstanum eða öðrum ritverkum sínum. Hann var ákaflega fágaður og kænn höfundur og embættismaður sem var sannfærður um að sá fursti sem gætti ekki að því að láta skuggalegustu verk sín líta vel út myndi fljótt skapa sér of marga óvini. Jafnframt var honum umhugað um lög væru ekki brotin. Það væru lögin eftir allt saman sem skildu okkur frá dýrunum. Ráð hans voru að furstinn skyldi gagnast við og rækta frumstæðustu hvatir sínar en gæta þess að fela þær vandlega um leið.

Þrátt fyrir óumdeild áhrif Machiavellis á stjórnmálafræði nútímans þá dylst engum að sitthvað ógeðfellt fylgir ráðleggingum hans. Í mörgum tungumálum er jafnvel vísað í þá stjórnmálamenn sem gæta ekki að réttindum almennings með lýsingarorðinu „machiavellískur“ (e. Machiavellian). En það má einnig velta fyrir sér hvað honum myndi finnast um þær lýðræðishefðir sem hafa skotið rótum í samtímanum og við miðum gildismat okkar við í dag. Machiavelli kynni að saka okkur á Vesturlöndum um ákveðna hræsni. Að samfélagsgerð okkar byggi ekki á jafnræði heldur valdbeitingu og áhrifum fámennrar valdastéttar. Furstar nútímans hafi einfaldlega náð meiri leikni en nokkru sinni fyrr í að klæða eigin hagsmuni í búning réttlætis og sanngirni.

Mynd:


Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvað getur þú sagt mér um Niccoló Machiavelli og furstann?
sem Sahara Rós Ívarsdóttir bar upp....