Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nær allar rannsóknir um algengi og nýgengi HPV-sýkinga (e. Human Papillomavirus) benda til að aðaláhættan sé tengd fjölda kynlífsfélaga. Ungt fólk sem er mjög virkt kynferðislega er í mestri áhættu að fá HPV-sýkingu og er tíðnin hæst hjá ungmennum á aldrinum 18-28 ára.1,2 Áhættuþættir sem tengjast HPV-sýkingum hjá konum eru ungur aldur, yngri en 25 ára, ungur aldur við fyrstu samfarir og fjöldi fyrri kynlífsfélaga hjá kynlífsfélaga þeirra.3 Hjá körlum eru áhættuþættirnir ungur aldur og að vera ekki umskorinn. Áhættuþættirnir eru því að vissu leyti svipaðir hjá báðum kynjum.4
Yfirborðsmynd af HPV.
HPV er hluti af svonefndri Papillomaviridae-fjölskyldu DNA-veira. Það er ekki auðvelt að rækta HPV á rannsóknarstofu og þess vegna er HPV-sýking oftast greind með greiningu á HPV-DNA. Mismunandi HPV-tegundir eru ákvarðaðar af mismunandi röðum DNA. Yfir 100 tegundir af HPV eru þekktar, þar sem meira en 30 þeirra sýkja kynfærin.3
Veiran smitar ekki eingöngu húðina á kynfærunum heldur líka slímhúðina í leghálsi, leggöngum, endaþarmi og þvagrás. Flestar HPV-sýkingar valda engum klínískum vandamálum og hverfa án nokkurar meðferðar en nokkrar leiða til kynfæravarta hjá báðum kynjum og óeðlilegs stroks frá leghálsi hjá konum.3
Kynfæra-HPV-sýking er fyrst og fremst kynsjúkdómur þannig að hættan á að fá sýkingu er tengd kynhegðun, aðallega hjá ungu fólki.1,3,4 Við þetta bætist svo vanþekking unga fólksins á HPV, hvernig veiran smitast, hvað sé hægt að gera til að verjast henni og hverjir meðferðarmöguleikar séu.5 Unglingsstúlka eykur verulega áhættuna á að fá kynfæra-HPV með hverjum nýjum kynlífsfélaga. Smit berst oftast frá einkennalausum karlkyns kynlífsfélögum sem vita þar af leiðandi ekki af því að þeir eru sýktir.1,3,4 Kynhegðun karlmanna svo sem fjöldi kynlífsfélaga, fyrri kynsjúkdómar og að nota ekki smokka við samfarir eru afgerandi áhættuþættir á að fá HPV-sýkingu.6 Rannsóknir hafa bent til að allt að 45% kynferðislega virkra karla smitist og allt að 84% kvenna.3 Kynferðislega virkar unglingsstúlkur eru einnig í sérstaklega mikilli áhættu á að smitast þar sem þær eru líffræðilega næmari fyrir sýkingu.5
Annað atriði sem rannsóknir hafa sýnt að auki áhættu kvenna er fyrri kynferðisleg virkni kynlífsfélaga þeirra. Konur sem hafa samfarir við mann sem hefur áður haft tvo eða fleiri kynlífsfélaga eða óþekktan fjölda kynlífsfélaga eru í meiri hættu en þær sem hafa samfarir við mann sem hefur aldrei áður stundað kynlíf.
Önnur rannsókn bendir til að ef konur hafa þekkt kynlífsfélagann í að minnsta kosti átta mánuði áður en þau hefja að stunda kynlíf séu þær ólíklegri til að smitast.3,7 Á árunum 2000-2006 var gerð rannsókn þar sem markmið var að meta áhættu kvenna af að smitast af HPV með fyrsta karlkyns kynlífsfélaga sínum. Niðurstöðurnar bentu til að um 30% þeirra sem tóku þátt höfðu smitast af HPV innan árs frá fyrstu samförum og eftir 3 ár var þessi tala komin í 50%. Samkvæmt rannsókninni virðist aldur kynlífsfélagans skipta minna máli en fyrri kynlífsreynsla hans. Nýr kynlífsfélagi sem hefur haft einn eða fleiri eða óþekktan fjölda kvenkyns kynlífsfélaga eykur mikið líkurnar á að sýkjast af HPV. Það er líklegt að konur vanmeti fyrri kynlífsreynslu kynlífsfélagans og því eru töluverðar líkur á að áhættan sé meiri en kemur fram í rannsóknargögnunum. Þar að auki getur meiri áhætta verið tengd því að þekkja ekki fyrri kynlífsreynslu kynlífsfélagans heldur en að hafa nýjan kynlífsfélaga sem hefur haft einn eða fleiri fyrri kynlífsfélaga. Það má segja að því lengur og betur sem kona þekkir kynlífsfélaga sinn fyrir samfarir því minni hætta er á að hún sýkist.8
Til er bóluefni gegn HPV og er virkni þess best hjá stúlkum sem ekki eru byrjaðar að stunda kynlíf.
Gerð var rannsókn á fyrsta árs nemendum í framhaldsskóla í Bandaríkjunum (2000) til að kanna þekkingu þeirra á HPV. Nánast allir nemendurnir höfðu heyrt um kynfæravörtur en aðeins tæp 5% stráka og rúm 11% stúlkna vissu að HPV-sýking orsakaði kynfæravörtur. Mjög fáir höfðu heyrt um HPV-sýkingar í leghálsi og typpi. Rúm 40% nemenda sem höfðu heyrt um kynfæravörtur töldu að þær smituðust með líkamsvökvum eins og blóði og sæði.9
The Kaiser Family Foundation (2003) gerði könnun á þekkingu, viðhorfum og reynslu á kynferðislegri heilsu 15-17 ára unglinga. Vanþekking þeirra var mikil. Sem dæmi vissi 19% þeirra ekki að kynsjúkdómar geta smitast með munnmökum og 3% vissi ekki að þeir geta smitast við samfarir. Meira en helmingur vissi ekki að kynsjúkdómar geta valdið sumum tegundum krabbameina, 25% töldu sig vita ef þeir væru að hitta einhvern sem væri með kynsjúkdóm og 20% að kynsjúkdómar geta bara smitað ef einkenni eru til staðar. Þá voru 12% sem töldu sig ekki þurfa að hafa áhyggjur af smiti nema að hafa stundað kynlíf með mörgum.10
Mikilvægt er að koma í veg fyrir kynfæra-HPV-sýkingu til að draga úr algengi á kynfæravörtum, óeðlilegu stroki frá leghálsi sem og leghálskrabbameini, en langvarandi sýking ákveðinna tegunda getur orsakað það. Talið er að konur sem eru sýktar í eitt ár eða lengur séu í mestri hættu að þróa síðar forstigsbreytingar samkvæmt rannsóknum.11 Meirihluti sýkinga hafa þó engin einkenni og hverfa af sjálfu sér.3 Tíðni kynfæravarta fer vaxandi hjá 15-18 ára ungmennum af báðum kynjum. Ein ástæðan gæti verið aukning á rakstri á kynfærum og í kring en við raksturinn verður húðin viðkvæmari sem getur auðveldað veirusmit.12
Ekki eru til lyf sem drepa HPV-veiruna en hægt að meðhöndla vörturnar. Veiran hverfur þó ekki þótt vörturnar fari en þær geta komið aftur meðan veiran er til staðar.13 Búið er að þróa bóluefni gegn HPV og er virknin best hjá stelpum sem ekki eru byrjaðar að stunda kynlíf. Rannsóknir sýna að ferill sjúkdómsins getur verið mjög hraður hjá ungum konum. Því miður er það þessi hópur, 20-24 ára, sem mætir minnst í skoðun hjá Krabbameinsfélaginu. Líklegast er skýringin sú að þær gera sér ekki grein fyrir mikilvægi leitarinnar. Þetta ætti að vera tilefni til að auka fræðslu um HPV-sýkingar, virkni bólusetningar og hve mikilvægt það er að fara í leghálskrabbameinsleit.11Tilvísanir
1 Koutsky, L., Epidemiology of genital human papillomavirus infection. American Journal of Medicine, 1997. 102(5A): bls. 3-8.
4 Svare, E.I., et al., Risk factors for genital HPV DNA in men resemble those found in women: a study of male attendees at a Danish STD clinic. Sexually Transmitted Infections, 2002. 78(3): bls. 215-8.
5 Beatty, B.G., et al., Human papillomavirus (HPV) education in middle and high schools of Vermont. The Journal of school health, 2003. 73(7): bls. 253-7.
6 Hippelainen, M., et al., Prevalence and risk factors of genital human papillomavirus (HPV) infections in healthy males: a study on Finnish conscripts. Sexually Transmitted Diseases, 1993. 20(6): bls. 321-8.
7 Winer, R.L., et al., Risk of female human papillomavirus acquisition associated with first male sex partner. Journal of Infectious Diseases, 2008. 197(2): bls. 279-82.
8 Winer, R.L., et al., Genital human papillomavirus infection: incidence and risk factors in a cohort of female university students. American Journal of Epidemiology, 2003. 157(3): bls. 218-26.
9 Baer, H., S. Allen, and L. Braun, Knowledge of human papillomavirus infection among young adult men and women: implications for health education and research. Journal of community health, 2000. 25(1): bls. 67-78.
Elsa Mogensen. „Hverjar eru helstu smitleiðir HPV-sýkinga og hverjir eru í mestri hættu á að smitast?“ Vísindavefurinn, 7. júní 2012, sótt 14. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62332.
Elsa Mogensen. (2012, 7. júní). Hverjar eru helstu smitleiðir HPV-sýkinga og hverjir eru í mestri hættu á að smitast? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62332
Elsa Mogensen. „Hverjar eru helstu smitleiðir HPV-sýkinga og hverjir eru í mestri hættu á að smitast?“ Vísindavefurinn. 7. jún. 2012. Vefsíða. 14. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62332>.