Sólin Sólin Rís 08:40 • sest 18:42 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:24 • Sest 09:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:32 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:29 • Síðdegis: 14:44 í Reykjavík

Hvernig er HPV-smit greint og hverju skilar bólusetning gegn veirunni?

Ágúst Ingi Ágústsson

HPV-veirupróf er gert til að kanna hvort kona[1] hafi smitast af veiru sem á ensku kallast Human Papilloma Virus (HPV). Veiran hefur um 200 undirflokka og valda sumir þeirra góðkynja vörtum á kynfærum (e. condyloma), en um 15 tegundir þeirra geta leitt til þróunar á forstigsbreytingum og að lokum leghálskrabbameins ef ekkert er að gert. Veiran smitast við kynlíf[2] og getur jafnframt valdið krabbameini á skapabörmum, í leggöngum, getnaðarlim, hálsi og öndunarvegi. Greina má virkt smit með því að taka strok frá leghálsi konu. Engin meðferð er við HPV-smiti en veiran hverfur af sjálfu sér í langflestum tilfellum innan 2-3 ára. Ef HPV-smit leiðir til forstigsbreytinga er unnt að lækna þær með minniháttar skurðaðgerð.

Tíðni HPV-smits

Talið er að um 80% allra kvenna sem hafa stundað kynlíf smitist af HPV einhvern tímann á ævinni. Áhættan á smiti eykst meðal annars með fjölda rekkjunauta, reykingum og öðrum kynsjúkdómum eins og klamydíu. Ónæmiskerfi smitaðra einstaklinga vinnur þó á endanum oftast gegn sýkingu af völdum veirunnar sem glögglega má sjá á því að tíðni forstigsbreytinga og kynfæravarta hjá yngri konum er mun lægri en tíðni HPV-smitaðra.

Hér sjást tvö stroksýni úr leghálsi. Frumurnar hægra megin eru HPV-smitaðar.

HPV-frumskimun (e. primary screening)

Þar sem sýnt hefur verið fram á sterk tengsl milli HPV-smits og þróunar forstigsbreytinga hefur víða verið tekin upp svokölluð HPV-frumskimun. Hún felur í sér að í stað þess að gera frumuskoðun á öllum leghálssýnum má fyrst kanna hvort HPV-smit sé til staðar og ef svo er ekki, þá er óþarft að gera frumuskoðun. Sýnt hefur verið fram á að HPV-mæling er næmari en frumuskoðun til þess að finna meðalsterkar og sterkar forstigsbreytingar. Í þeim tilfellum þar sem HPV-smit er til staðar er þá gerð frumuskoðun til þess að kanna hvort vísbendingar um forstigsbreytingar séu til staðar. Þetta fyrirkomulag var tekið upp á Íslandi árið 2021 hjá konum 30 ára og eldri. Þar sem algengi HPV-smits er ennþá hátt hjá konum yngri en 30 ára er gerð prímer-frumuskoðun hjá þeim aldurshópi. Ef frumusýni reynast óeðlileg má með HPV-mælingu skera úr um hvort þörf sé á frekari rannsóknum eða ekki.

Alvarleiki forstigsbreytinga

Óeðlilegar niðurstöður úr leghálsstroki ber aðeins að líta á sem vísbendingar um forstigsbreytingar en þær geta verið missterkar og er skipt í mismunandi stig eftir því hversu alvarlegar þær teljast. Flestar vægar vísbendingar um forstigsbreytingar hverfa sjálfkrafa án meðferðar og reynslan hefur sýnt að óhætt er að fylgja þeim eftir með nýju leghálsstroki eftir hálft til eitt ár frá greiningu. Vísbendingar um meðalsterkar og sterkar forstigsbreytingar í leghálsstroki leiða ávallt til nánari skoðunar með leghálsspeglun. Við speglunina er tekið lítið vefjasýni frá leghálsi en rannsókn þess ákvarðar síðan hvort áfram verði fylgst með konunni með endurteknu leghálsstroki eða hvort gera þurfi svokallaðan keiluskurð.

Frá 2011 hefur 12 ára stúlkum á Íslandi boðist bólusetning við HPV. Frá hausti 2023 stendur 12 ára drengjum slík bólusetning einnig til boða.

Bólusetning við HPV

Árið 2011 var 12 ára stúlkum á Íslandi boðin bólusetning við HPV en það ár var einnig 13 ára stúlkum boðin upp á bólusetninguna. Fyrsti bólusetti árgangurinn komst á svokallaðan skimunaraldur árið 2021 og í dag (2023) eru þrír árgangar bólusettir á skimunaraldri. Mikil fækkun hefur orðið á keiluskurðum vegna forstigsbreytinga í þessum árgöngum miðað við það sem áður var og árangurinn af bólusetningunni ótvíræður. Bóluefnið sem verið hefur í notkun síðan 2011 er talið hindra 75% leghálskrabbameina. Frá og með yfirstandandi skólaári (2023-2024) hefur verið tekið í notkun nýtt bóluefni sem hindrar 90% leghálskrabbameinstilfella auk þess sem tekin hefur verið upp bólusetning hjá 12 ára drengjum. Bólusetningin veitir afar öfluga vörn gegn HPV og útrýmir svo að segja þeim HPV-týpum sem bólusett er fyrir. Þegar fram líða stundir má því gera ráð fyrir að leghálskrabbamein heyri sögunni til í þeim löndum þar sem bólusetningin er almenn.

  1. ^ HPV-mælingar eru ekki gerðar á körlum.
  2. ^ Snerting milli slímhúða dugar til þess að smit eigi sér stað og þarf ekki samfarir til.

Myndir:


Við sambærilegri spurningu var áður birt svar á Vísindavefnum 15. febrúar 2008. Höfundur þess var Kristján Sigurðsson, yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Vegna nýrrar þekkingar var nýtt svar skrifað og birt 11. október 2023.

Höfundur

Ágúst Ingi Ágústsson

yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana

Útgáfudagur

11.10.2023

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Ágúst Ingi Ágústsson. „Hvernig er HPV-smit greint og hverju skilar bólusetning gegn veirunni?“ Vísindavefurinn, 11. október 2023. Sótt 28. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=7071.

Ágúst Ingi Ágústsson. (2023, 11. október). Hvernig er HPV-smit greint og hverju skilar bólusetning gegn veirunni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7071

Ágúst Ingi Ágústsson. „Hvernig er HPV-smit greint og hverju skilar bólusetning gegn veirunni?“ Vísindavefurinn. 11. okt. 2023. Vefsíða. 28. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=7071>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig er HPV-smit greint og hverju skilar bólusetning gegn veirunni?
HPV-veirupróf er gert til að kanna hvort kona[1] hafi smitast af veiru sem á ensku kallast Human Papilloma Virus (HPV). Veiran hefur um 200 undirflokka og valda sumir þeirra góðkynja vörtum á kynfærum (e. condyloma), en um 15 tegundir þeirra geta leitt til þróunar á forstigsbreytingum og að lokum leghálskrabbameins ef ekkert er að gert. Veiran smitast við kynlíf[2] og getur jafnframt valdið krabbameini á skapabörmum, í leggöngum, getnaðarlim, hálsi og öndunarvegi. Greina má virkt smit með því að taka strok frá leghálsi konu. Engin meðferð er við HPV-smiti en veiran hverfur af sjálfu sér í langflestum tilfellum innan 2-3 ára. Ef HPV-smit leiðir til forstigsbreytinga er unnt að lækna þær með minniháttar skurðaðgerð.

Tíðni HPV-smits

Talið er að um 80% allra kvenna sem hafa stundað kynlíf smitist af HPV einhvern tímann á ævinni. Áhættan á smiti eykst meðal annars með fjölda rekkjunauta, reykingum og öðrum kynsjúkdómum eins og klamydíu. Ónæmiskerfi smitaðra einstaklinga vinnur þó á endanum oftast gegn sýkingu af völdum veirunnar sem glögglega má sjá á því að tíðni forstigsbreytinga og kynfæravarta hjá yngri konum er mun lægri en tíðni HPV-smitaðra.

Hér sjást tvö stroksýni úr leghálsi. Frumurnar hægra megin eru HPV-smitaðar.

HPV-frumskimun (e. primary screening)

Þar sem sýnt hefur verið fram á sterk tengsl milli HPV-smits og þróunar forstigsbreytinga hefur víða verið tekin upp svokölluð HPV-frumskimun. Hún felur í sér að í stað þess að gera frumuskoðun á öllum leghálssýnum má fyrst kanna hvort HPV-smit sé til staðar og ef svo er ekki, þá er óþarft að gera frumuskoðun. Sýnt hefur verið fram á að HPV-mæling er næmari en frumuskoðun til þess að finna meðalsterkar og sterkar forstigsbreytingar. Í þeim tilfellum þar sem HPV-smit er til staðar er þá gerð frumuskoðun til þess að kanna hvort vísbendingar um forstigsbreytingar séu til staðar. Þetta fyrirkomulag var tekið upp á Íslandi árið 2021 hjá konum 30 ára og eldri. Þar sem algengi HPV-smits er ennþá hátt hjá konum yngri en 30 ára er gerð prímer-frumuskoðun hjá þeim aldurshópi. Ef frumusýni reynast óeðlileg má með HPV-mælingu skera úr um hvort þörf sé á frekari rannsóknum eða ekki.

Alvarleiki forstigsbreytinga

Óeðlilegar niðurstöður úr leghálsstroki ber aðeins að líta á sem vísbendingar um forstigsbreytingar en þær geta verið missterkar og er skipt í mismunandi stig eftir því hversu alvarlegar þær teljast. Flestar vægar vísbendingar um forstigsbreytingar hverfa sjálfkrafa án meðferðar og reynslan hefur sýnt að óhætt er að fylgja þeim eftir með nýju leghálsstroki eftir hálft til eitt ár frá greiningu. Vísbendingar um meðalsterkar og sterkar forstigsbreytingar í leghálsstroki leiða ávallt til nánari skoðunar með leghálsspeglun. Við speglunina er tekið lítið vefjasýni frá leghálsi en rannsókn þess ákvarðar síðan hvort áfram verði fylgst með konunni með endurteknu leghálsstroki eða hvort gera þurfi svokallaðan keiluskurð.

Frá 2011 hefur 12 ára stúlkum á Íslandi boðist bólusetning við HPV. Frá hausti 2023 stendur 12 ára drengjum slík bólusetning einnig til boða.

Bólusetning við HPV

Árið 2011 var 12 ára stúlkum á Íslandi boðin bólusetning við HPV en það ár var einnig 13 ára stúlkum boðin upp á bólusetninguna. Fyrsti bólusetti árgangurinn komst á svokallaðan skimunaraldur árið 2021 og í dag (2023) eru þrír árgangar bólusettir á skimunaraldri. Mikil fækkun hefur orðið á keiluskurðum vegna forstigsbreytinga í þessum árgöngum miðað við það sem áður var og árangurinn af bólusetningunni ótvíræður. Bóluefnið sem verið hefur í notkun síðan 2011 er talið hindra 75% leghálskrabbameina. Frá og með yfirstandandi skólaári (2023-2024) hefur verið tekið í notkun nýtt bóluefni sem hindrar 90% leghálskrabbameinstilfella auk þess sem tekin hefur verið upp bólusetning hjá 12 ára drengjum. Bólusetningin veitir afar öfluga vörn gegn HPV og útrýmir svo að segja þeim HPV-týpum sem bólusett er fyrir. Þegar fram líða stundir má því gera ráð fyrir að leghálskrabbamein heyri sögunni til í þeim löndum þar sem bólusetningin er almenn.

  1. ^ HPV-mælingar eru ekki gerðar á körlum.
  2. ^ Snerting milli slímhúða dugar til þess að smit eigi sér stað og þarf ekki samfarir til.

Myndir:


Við sambærilegri spurningu var áður birt svar á Vísindavefnum 15. febrúar 2008. Höfundur þess var Kristján Sigurðsson, yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Vegna nýrrar þekkingar var nýtt svar skrifað og birt 11. október 2023....