Talið er að um 50% allra kvenna sem hafa haft samfarir fái slíkt smit einhvern tímann á ævinni. Sýnt hefur verið fram á að áhættan eykst með fjölda rekkjunauta. Ónæmiskerfi smitaðra einstaklinga vinnur þó gegn sýkingu af völdum veirunnar sem glögglega má sjá á því að tíðni forstigsbreytinga og kynfæravarta hjá yngri konum er mun lægri en tíðni HPV smitaðra.

Hér sjást tvö stroksýni úr leghálsi. Frumurnar hægra megin eru HPV smitaðar.
Forstigsbreytingum í leghálsi er skipt í mismunandi stig eftir því hversu alvarlegar þær teljast. Vitað er að flest væg forstig geta sjálfkrafa horfið án meðferðar og reynslan hefur sannað að óhætt er að fylgja vægri forstigsbreytingu eftir með nýju leghálsstroki innan hálfs árs frá greiningu. Meðalsterkar og sterkar forstigsbreytingar hverfa aftur á móti síður af sjálfsdáðum og leiðir greining þeirra því ávallt strax til nánari skoðunar með leghálsspeglun. Við speglunina er tekið lítið vefjasýni frá leghálsi en rannsókn þess ákvarðar síðan hvort gera þurfi svokallaðan keiluskurð. HPV-próf getur flýtt fyrir ákvörðunartöku um meðferð
Erlendar rannsóknir hafa bent til þess að HPV-próf geti auðveldað ákvörðun um hvort framkvæma eigi strax leghálsspeglun hjá konu með óljósar vægar frumubreytingar. Erlendis er eftirlit þó mun slakara en hér á landi og því meiri hætta á að konunni sé ekki fylgt eftir sem skyldi. Hér á landi hefur því verið ákveðið að spara þann kostnað sem fylgir slíkri veirurannsókn og ákvörðun er tekin um leghálsspeglun eftir hálft ár þegar ljóst er hvort forstigsbreytingin hefur gengið til baka eða ekki. HPV veirupróf getur aftur á móti komið að gagni hjá konum þar sem misræmi er milli niðurstöðu frumustroks og leghálsspeglunar. HPV-próf auðveldar í slíkum tilfellum ákvörðunartöku um hvort sleppa megi slíkri konu úr eftirliti eða senda hana í keiluskurð þrátt fyrir eðlilega niðurstöðu leghálsspeglunar. Jafnframt hefur verið rætt um að HPV-próf geti auðveldað að sjá hvaða konur eru í áhættu að fá sjúkdóminn aftur eftir keiluskurð. Prófið gæti loks hentað til að ákveða hvort óhætt sé að hætta krabbameinsleit eða lengja millibil skoðana hjá konum eftir miðjan aldur sem hafa haft eðlileg leghálsstrok. Bólusetning
Að lokum má geta þess að sú staðreynd að leghálskrabbamein orsakast af veiru hefur leitt til þróunar bóluefnis sem leitt getur til útrýmingar sjúkdómsins er fram í sækir. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama? eftir Evu Benediktsdóttur
- Hvers vegna gengur erfiðlega að finna og þróa lyf sem virka á veirusýkingar? eftir Hilmar Hilmarsson
- Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum krabbamein? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hvernig veit maður hvort maður sé með krabbamein? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Duga smokkar alltaf? eftir EDS
Þetta svar birtist fyrst á vef Doktor.is og er birt hér með góðfúslegu leyfi.