Sólin Sólin Rís 04:00 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:12 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:18 • Síðdegis: 18:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:19 • Síðdegis: 12:23 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:00 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:12 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:18 • Síðdegis: 18:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:19 • Síðdegis: 12:23 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=
Veira (e. virus) er örvera sem inniheldur erfðaefni en getur þó ekki fjölgað sér sjálf. Hver gerð af veiru getur sýkt ákveðna lífveru og fjölgað sér innan fruma hennar. Veirur eru mjög sértækar með tilliti til hýsillífvera og geta oftast bara sýkt eina eða fáar tegundir, til dæmis bara menn eða nokkrar tegundir dýra.

Veiruögnin (e. virion) er dreifingarform veirunnar. Hún er hylki (e. capsid) úr prótíneiningum sem raðast í einkennandi form og umlykja erfðaefni veirunnar (mynd 1). Sumar veirur, þar á meðal margar dýraveirur, hafa að auki fituhjúp sem er upprunninn úr himnum hýsilsins og kallast slíkar veirur hjúpaðar (e. enveloped). Hjúplausar veiruagnir eru sagðar naktar.

Mynd 1. Skýringarmynd af veiruögn.

Uppröðun prótíneininga ræður lögun veiruhylkisins. Margar þekktar veiruagnir eru þráðlaga eða á formi tuttuguflötungs (e. icosahedral) (mynd 2). Sumar eru þó flóknari að byggingu, til dæmis sumir fagar. Prótín á yfirborði veirunnar (e. spike, peplomer) gegna mikilvægu hlutverki við að þekkja og bindast réttum frumum. Þessi tengsl eru mjög sértæk og ráða miklu um hvaða hýsil og vefi veiran getur sýkt.

Eiginleikar veirunnar eru skráðir í erfðaefni hennar, þar á meðal nauðsynlegar upplýsingar um fjölgun hennar innan hýsilfrumu. Veiran nýtir þó kerfi frumunnar til að eftirmynda erfðaefni sitt og framleiða annað efni sem verður að nýjum veiruögnum. Erfðaefni veira getur verið DNA eða RNA og á einþátta eða tvíþátta formi, ólíkt frumum sem allar hafa tvíþátta DNA. Gerð og form erfðaefnis veira er eitt þeirra einkenna sem notuð eru til flokkunar þeirra.

Mynd 2. Rafeindasmásjármyndir af þráðlaga ebóluveiru (til vinstri) og adenóveirum sem eru á formi tuttuguflötungs (til hægri).

Veirusýking hefur mismunandi áhrif á hýsilfrumur. Stundum sjást engin merki um sýkinguna en oft veldur hún skemmdum eða því að fruman drepst. Sumar veirur eins og inflúensuveiran valda bráðum (e. acute) sýkingum þar sem veiruagnir myndast hratt. Aðrar valda viðvarandi sýkingum eins og HIV-veiran og sumar lifrarbólguveirur og geta því orsakað langvinna sjúkdóma. Viðvarandi veirusýkingar geta verið duldar (e. latent) en veiran virkjast og valdið einkennum við ákveðnar aðstæður. Veirur sem valda frunsum geta þannig lagst í dvala en valdið endurteknum sýkingum, til dæmis í kringum munn. Enn aðrar veirur geta svo orsakað illkynja breytingar á hýsilfrumum eins og papilloma-veirur (HPV) sem eiga þátt í myndun leghálskrabbameins.

Ýmsar veirur innlima erfðaefni sitt í erfðaefni hýsilfrumunnar og kallast þá forveirur (dulveirur, e. provirus). Gen slíkra veira geta verið tjáð og breytt svipgerð hýsilsins og oft myndast nýjar veiruagnir. Sumar forveirur eru þó óvirkar og mikill hluti erfðaefnis mannsins virðist vera komið frá slíkum innlimuðum veirum eða enn einfaldari einingum sem kallast stökklar (e. transposable elements).

Heimild:
  • Prescott´s Microbiology eftir Willey o.fl., 11. útgáfa, McGraw Hill, 2020.

Myndir:

Spurningu Emblu Karenar er hér svarað að hluta.

Höfundur

Snædís Huld Björnsdóttir

sameindalíffræðingur og prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Útgáfudagur

15.6.2020

Spyrjandi

Embla Karen, ritstjórn

Tilvísun

Snædís Huld Björnsdóttir. „Hvað er veira?“ Vísindavefurinn, 15. júní 2020, sótt 21. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79644.

Snædís Huld Björnsdóttir. (2020, 15. júní). Hvað er veira? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79644

Snædís Huld Björnsdóttir. „Hvað er veira?“ Vísindavefurinn. 15. jún. 2020. Vefsíða. 21. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79644>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er veira?
Veira (e. virus) er örvera sem inniheldur erfðaefni en getur þó ekki fjölgað sér sjálf. Hver gerð af veiru getur sýkt ákveðna lífveru og fjölgað sér innan fruma hennar. Veirur eru mjög sértækar með tilliti til hýsillífvera og geta oftast bara sýkt eina eða fáar tegundir, til dæmis bara menn eða nokkrar tegundir dýra.

Veiruögnin (e. virion) er dreifingarform veirunnar. Hún er hylki (e. capsid) úr prótíneiningum sem raðast í einkennandi form og umlykja erfðaefni veirunnar (mynd 1). Sumar veirur, þar á meðal margar dýraveirur, hafa að auki fituhjúp sem er upprunninn úr himnum hýsilsins og kallast slíkar veirur hjúpaðar (e. enveloped). Hjúplausar veiruagnir eru sagðar naktar.

Mynd 1. Skýringarmynd af veiruögn.

Uppröðun prótíneininga ræður lögun veiruhylkisins. Margar þekktar veiruagnir eru þráðlaga eða á formi tuttuguflötungs (e. icosahedral) (mynd 2). Sumar eru þó flóknari að byggingu, til dæmis sumir fagar. Prótín á yfirborði veirunnar (e. spike, peplomer) gegna mikilvægu hlutverki við að þekkja og bindast réttum frumum. Þessi tengsl eru mjög sértæk og ráða miklu um hvaða hýsil og vefi veiran getur sýkt.

Eiginleikar veirunnar eru skráðir í erfðaefni hennar, þar á meðal nauðsynlegar upplýsingar um fjölgun hennar innan hýsilfrumu. Veiran nýtir þó kerfi frumunnar til að eftirmynda erfðaefni sitt og framleiða annað efni sem verður að nýjum veiruögnum. Erfðaefni veira getur verið DNA eða RNA og á einþátta eða tvíþátta formi, ólíkt frumum sem allar hafa tvíþátta DNA. Gerð og form erfðaefnis veira er eitt þeirra einkenna sem notuð eru til flokkunar þeirra.

Mynd 2. Rafeindasmásjármyndir af þráðlaga ebóluveiru (til vinstri) og adenóveirum sem eru á formi tuttuguflötungs (til hægri).

Veirusýking hefur mismunandi áhrif á hýsilfrumur. Stundum sjást engin merki um sýkinguna en oft veldur hún skemmdum eða því að fruman drepst. Sumar veirur eins og inflúensuveiran valda bráðum (e. acute) sýkingum þar sem veiruagnir myndast hratt. Aðrar valda viðvarandi sýkingum eins og HIV-veiran og sumar lifrarbólguveirur og geta því orsakað langvinna sjúkdóma. Viðvarandi veirusýkingar geta verið duldar (e. latent) en veiran virkjast og valdið einkennum við ákveðnar aðstæður. Veirur sem valda frunsum geta þannig lagst í dvala en valdið endurteknum sýkingum, til dæmis í kringum munn. Enn aðrar veirur geta svo orsakað illkynja breytingar á hýsilfrumum eins og papilloma-veirur (HPV) sem eiga þátt í myndun leghálskrabbameins.

Ýmsar veirur innlima erfðaefni sitt í erfðaefni hýsilfrumunnar og kallast þá forveirur (dulveirur, e. provirus). Gen slíkra veira geta verið tjáð og breytt svipgerð hýsilsins og oft myndast nýjar veiruagnir. Sumar forveirur eru þó óvirkar og mikill hluti erfðaefnis mannsins virðist vera komið frá slíkum innlimuðum veirum eða enn einfaldari einingum sem kallast stökklar (e. transposable elements).

Heimild:
  • Prescott´s Microbiology eftir Willey o.fl., 11. útgáfa, McGraw Hill, 2020.

Myndir:

Spurningu Emblu Karenar er hér svarað að hluta....