Almennt um inflúensu
Inflúensa orsakast af inflúensuveirum sem eru hjúpaðar veirur með erfðaefni úr mörgum bútum af RNA. Til eru fjórar gerðir inflúensuveira: A, B, C og D. Þessar gerðir kallast ættkvíslir og í hverri þeirra eru ótalmargar tegundir. Erfðaefni þessara veira hefur þá eiginleika að geta tekið miklum stakkaskiptum yfir styttri eða lengri tíma. Það er ein helsta ástæða þess að við sjáum árlega faraldra inflúensuveiru og meira að segja staka heimsfaraldra. Inflúensuveirur eru einnig flokkaðar eftir tveimur mótefnavökum (e. antigen) á yfirborði veirunnar: hemagglútínín (H) og neuramínídasi (N). Sem dæmi orsakaðist svínaflensan af inflúensuveiru sem hafði hemagglútínín af gerð 1 og neuramínídasa af gerð 1. Hún var því skilgreind sem H1N1-inflúensuveira. Talið er að nær allar tegundir inflúensuveira séu upprunnar úr fuglum, fyrir utan stakar tegundir sem finnast í leðurblökum (H17N10 og H18N11). Með tíð og tíma hafa mismunandi tegundir inflúensuveira aðlagast ákveðnum dýrum, þar með talið svínum, hestum, selum og auðvitað mönnum. Margar þeirra geta sýkt ótal tegundir dýra í einu; til að mynda geta fuglaflensuveirur sýkt mjög margar mismunandi tegundir fugla. Inflúensuveira sem sýkir eitt dýr getur einnig sýkt annað gjörólíkt dýr ef ákveðnar breytingar verða á eiginleikum veirunnar. Þrjár ættkvíslir inflúensuveira innihalda tegundir sem sýkja menn: A (geta valdið heimsfaröldrum og árstíðabundnum faröldrum), B (geta valdið árstíðabundnum faröldrum) og C (valda litlum veikindum).
Einföld skýringarmynd af inflúensuveiru af ættkvísl A.
Fuglaflensa í fuglum
Fuglaflensa er einfaldlega inflúensa í fuglum sem orsakast af mörgum mismunandi tegundum inflúensuveiru A. Fuglaflensuveirur hafa til þessa greinst með 16 gerðir hemagglútíníns (H1-H16) og 9 gerðir neuramínídasa (N1-N9). Fuglaflensuveirur eru flokkaðar í tvennt eftir alvarleika einkenna sem koma fram við sýkingu í kjúklingum: svæsin fuglaflensa (e. highly pathogenic avian influenza, HPAI) og væg fuglaflensa (e. low pathogenic avian influenza, LPAI). Þannig má segja að ákveðin fuglaflensuveira valdi annað hvort HPAI eða LPAI í kjúklingum. HPAI-veirur eru vanalega með hemagglútínín af gerð 5 eða 7 (táknað sem H5Nx og H7Nx, þar sem x getur verið tala frá 1 upp í 9). Hér er einnig mikilvægt að árétta að flokkun eftir alvarleika á við um kjúklinga, ekki aðrar fuglategundir eða menn - til dæmis valda flestar HPAI-veirur vægum veikindum í öndum. Einkenni fuglaflensu hafa best verið skilgreind í kjúklingum. Gjarnan eru hósti og hnerri einu einkennin. Í alvarlegri tilfellum geta einkenni á borð við slappleika, úfinn fiðurham, bláma á húð, öndunarerfiðleika, niðurgang og blæðingar í húð komið fram. Alvarleg einkenni geta leitt til dauða. Vissar HPAI-veirur valda allt að 100% dánarhlutfalli (átt er við hversu stór hluti þeirra sem fá sjúkdóm og síðar deyja) meðal kjúklinga og annarra alifugla. Líkt og á við um inflúensuveirur í mönnum taka fuglaflensuveirur stöðugum hamskiptum og valda endurteknum faröldrum í fuglum. Fuglaflensa dreifist aðallega á milli vatnafugla (sérstaklega farfugla) í náttúrunni en getur dreift sér þaðan til land- og alifugla. Í öllum tilfellum getur orðið mikil blöndun milli mismunandi fuglaflensuveira. Það leiðir til nýrra tegunda og afbrigða.
Fuglaflensa í villtum fuglum getur borist til alifugla og valdið þar miklum usla. Enn fremur eru það kjöraðstæður fyrir þróun nýrra afbrigða sem geta borist aftur til villtra fugla og spendýra eins og svína og manna.
- Fuglaflensa hefur nýlega greinst í fyrsta skipti í fuglum á Íslandi og virðist vera orðin útbreidd meðal villtra fugla.
- Fuglaflensa er inflúensa í fuglum sem orsakast af ótalmörgum tegundum inflúensuveira af gerð A. Talið er að nær allar inflúensuveirur séu upprunalega komnar frá fuglum.
- Inflúensuveirur af gerð A hafa þann sérstæða eiginleika að geta deilt erfðaefni sín á milli. Það getur leitt til þróunar glænýrra afbrigða.
- Fuglaflensuveirur, eins og aðrar inflúensuveirur, eru flokkaðar eftir gerð hemagglútíníns (H) og neuramínídasa (N) á yfirborði þeirra.
- Fuglaflensa er flokkuð eftir alvarleika veikinda í kjúklingum: væg (e. low pathogenic avian influenza, LPAI) eða svæsin (e. highly pathogenic avian influenza, HPAI).
- Fuglaflensa kemur í faröldrum meðal fugla, sérstaklega á vorin og haustin.
- Fuglaflensa dreifist með saur-munn smiti og eiga vatnafuglar sem stunda farflug stærstan þátt í dreifingu sjúkdómsins.
- Villtir fuglar geta borið fuglaflensu áfram til alifugla. Það getur leitt til frekari dreifingar og þróunar fuglaflensuveira. Einnig veldur þetta víðtækum veikindum meðal fugla ef um er að ræða HPAI-veiru.
- Viss afbrigði fuglaflensu geta sýkt menn og valdið í þeim sjúkdómi. Þetta er almennt mjög sjaldgæft en náin samskipti við alifugla eru helsti áhættuþáttur fyrir að fá fuglaflensu.
- Fuglaflensuveirur geta valdið einkennalausum eða -litlum sýkingum. Þessi tilfelli eru líklegast verulega vangreind. Hins vegar verða flestir sem greinast með fuglaflensu alvarlega veikir og er dánarhlutfall mjög hátt.
- Einkenni alvarlegrar fuglaflensu líkjast að miklu leyti einkennum alvarlegra tilfella COVID-19.
- Fuglaflensa dreifist mjög illa manna á milli.
- Miðað við upplýsingar frá faraldri fuglaflensu í Evrópu er mjög ólíklegt að almenningur sé í hættu á að fá fuglaflensu vegna þeirra afbrigða sem eru nú í dreifingu. Hins vegar er ítarleg smitgát við meðhöndlun fugla nauðsynleg til að lágmarka hættuna eins og hægt er.
- File:Viruses-12-00504-g001.webp - Wikimedia Commons. (Sótt 27.04.2022). Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins.
- File:Chicken Farm 034.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 27.04.2022).
- Urður Örlygsdóttir. (2022, 24. apríl). Fuglaflensa útbreidd í villtum fuglum. RÚV.is. (Sótt 27.4.2022).
- ViralZone. Alphainfluenzavirus. (Sótt 27.4.2022).
- Matvælastofnun. (2022, 25. apríl). Fuglaflensa. (Sótt 27.4.2022).
- Hafdís Helga Helgadóttir. (7.4.2022). Skæð fuglaflensa greinist í haferni hér á landi. RÚV.is. (Sótt 27.4.2022).
- Krammer, F. o.fl. (2018). Influenza. Nature reviews. Disease primers, 4(1), 3. (Sótt 27.4.2022).
- Damien A. M. o.fl. (2020). Avian Influenza Human Infections at the Human-Animal Interface. The Journal of Infectious Diseases, 222(4), 528–537. (Sótt 27.4.2022).
- Sutton T. C. (2018). The Pandemic Threat of Emerging H5 and H7 Avian Influenza Viruses. Viruses, 10(9), 461. (Sótt 27.4.2022).
- Blagodatski, A. o.fl. (2021). Avian Influenza in Wild Birds and Poultry: Dissemination Pathways, Monitoring Methods, and Virus Ecology. Pathogens, 10(5), 630. (Sótt 27.4.2022).
- Li, Y. T. o.fl. (2019). Avian influenza viruses in humans: lessons from past outbreaks. British medical bulletin, 132(1), 81–95. (Sótt 27.4.2022).
- Norwegian Institute of Public Health. (2016, 18. apríl). Avian influenza. (Sótt 27.4.2022).
- Chan, Paul K. S. (2002). Outbreak of Avian Influenza A(H5N1) Virus Infection in Hong Kong in 1997. Clinical Infectious Diseases, 34(2), S58–S64. (Sótt 27.4.2022).
- World Health Organization. (2018, 13. nóvember). Influenza (Avian and other zoonotic). (Sótt 27.4.2022).
- World Health Organization. Influenza at the human-animal interface. Summary and assessment, from 9 August to 1 October 2021. (Sótt 27.4.2022).
- World Health Organization. (2022, 1. apríl). Human infection with avian influenza A(H5) viruses. Avian Influenza Weekly Update, 838. (Sótt 27.4.2022).
- World Health Organization. (2022, 22. apríl). Human infection with avian influenza A(H5) viruses. Avian Influenza Weekly Update, 841. (Sótt 27.4.2022).
- Matvælastofnun. (2022, 23. apríl). Fuglaflensa greinist í fleiri villtum fuglum. (Sótt 27.4.2022).