Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík
COVID-19 borði í flokk

Geta menn fengið fuglaflensu?

Jón Magnús Jóhannesson

Eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað er fuglaflensa? er fuglaflensa einfaldlega inflúensa í fuglum sem orsakast af mörgum mismunandi tegundum inflúensuveiru A.

Ef fugl smitast samtímis af tveimur eða fleiri inflúensuveirum (til dæmis mannaveiru og fuglaveiru) geta veirurnar skipst á erfðaefni. Slík þróun getur leitt til myndunar nýrra tegunda inflúensuveira sem geta auðveldlega sýkt menn og smitast þeirra á milli. Þetta er talinn vera undanfari allra heimsfaraldra inflúensu, þó stundum sé annað dýr milliliður.[1] Í þessum tilfellum berst nýja inflúensuveiran til manna og verður að eiginlegri mannaveiru.

Mikilvægt er að árétta að þetta er ekki það sem átt er við þegar manneskja „fær fuglaflensu“.[2] Þá er átt við að einstaklingur sýkist af fuglaflensuveiru sem hefur þann eiginleika að geta sýkt menn en hefur þó takmarkaða aðlögun að þeim. Til einföldunar má segja að fuglaflensa í mönnum sé mjög sjaldgæf, dreifist illa manna á milli en getur verið sérlega skæð. Einkenni líkjast að mörgu leyti COVID-19, þó algengi alvarlegra einkenna sé margfalt hærra. Sumir geta verið alveg einkennalausir; aðrir fá væg kveflík einkenni eða flensulík einkenni á borð við hita, hósta og höfuðverk. Einkennalaus eða -lítil tilfelli eru líklegast mun algengari en við gerum okkur grein fyrir, enda ólíklegt að þeir einstaklingar leiti sér læknisþjónustu til að greina undirliggjandi veirusýkingu. Hins vegar geta alvarlegri einkenni og afleiðingar komið fram 1-2 vikum eftir smit, með veirulungnabólgu (hósti, mæði, andþyngsli, brjóstverkir), öndunarbilun, fjölkerfa líffærabilun og dauða.

Skýringarmynd sem sýnir hvernig ein veira getur leitt til þróunar á mörgum mismunandi afbrigðum með mismunandi bútum af erfðaefni. Veiran H9N2 er algengasta veiruabrigði fuglaflensuveira í kjúklingum í Kína. Hún hefur þróast í aðrar veirur og sumar þeirra hafa sýkt menn. Þær sem aðallega valda veikindum í mönnum um þessar mundir eru H5N1 og H5N6.

Tvær gerðir fuglaflensuveiru hafa valdið langsamlega stærstum hluta tilfella í mönnum til þessa: H5N1 og H7N9 (um er að ræða ákveðnar tegundir veira með þessa mótefnavaka). Hins vegar eru það H5N1 og H5N6-fuglaflensuveirur sem aðallega valda veikindum í mönnum um þessar mundir. Almennt er dánarhlutfall hátt, en einnig er talið að verulegt vanmat sé á fjölda þeirra sem fá fuglaflensu og eru með lítil sem engin einkenni.

Fyrsta staðfesta tilfelli fuglaflensu í manneskju var hjá þriggja ára dreng í Hong Kong, vegna sýkingar með H5N1 HPAI-veiru. Drengurinn greindist í maí 1997 og því miður enduðu veikindin með fjölkerfa líffærabilun og dauða. Síðar sama ár greindust 17 tilfelli til viðbótar í Hong Kong vegna sama veiruafbrigðis. Tólf manns náðu fullum bata en fimm frekari andlát urðu. Talið er að flestir hafi fengið veiruna frá hænsnfuglum en einnig voru merki um takmarkaða dreifingu milli einstaklinga. Þann 29. desember 1997 var ákveðið að slátra öllum hænsnum í Hong Kong (1,5 milljón talsins) og því verki lauk tveimur dögum síðar. Með þessu móti tókst að ná stjórn á fuglaflensunni. Hins vegar hefur þessi H5N1-fuglaflensuveira valdið endurteknum faröldrum í fuglum víða um heim, og einnig litlum faröldrum í mönnum sem eru útsettir fyrir sýktum fuglum. Samtals hafa 863 tilfelli H5N1-fuglaflensu greinst í mönnum fram til 21. apríl 2022; þar af dóu 455 einstaklingar, sem gerir dánarhlutfall í kringum 53%. Síðasta staðfesta tilfellið greindist í Bretlandi í janúar 2022.

Í mars 2013 greindist fuglaflensa í mönnum í Kína vegna H7N9 LPAI-veiru og faraldrar komu í bylgjum fram til ársins 2017. Hins vegar hafa stök tilfelli komið fram síðar meir. Líkt og með H5N1 HPAI-veiruna var H7N9 LPAI-veiran talin hafa borist frá hænsnum til manna. Samtals hafa greinst 1568 tilfelli H7N9-fuglaflensu í mönnum fram til 21. apríl 2022; þar af dóu 616 einstaklingar, sem gerir dánarhlutfall í kringum 39%. Síðasta staðfesta tilfellið greindist árið 2019.

Fjöldi annarra fuglaflensuveira hafa valdið sjúkdómi í mönnum, til dæmis H1N1, H1N2, H3N2, H5N6, H7N4, H7N7, H9N2 og H10N3-afbrigði. Eins og áður segir eru það aðallega H5Nx-fuglaflensuveirur sem nú valda veikindum í mannfólki, þó sjaldgæft sé. Þá ber einnig að árétta að aðeins viss afbrigði H5Nx-fuglaflensuveira geta sýkt menn og valdið sjúkdómi í þeim.

Í ljósi þess að fuglaflensa dreifist mjög illa manna á milli er helsti áhættuþátturinn mikil samskipti við alifugla eða (í minna mæli) villta fugla. Þannig er ítarleg smitgát við meðhöndlun fugla mikilvægasta leiðin til að fyrirbyggja smit.

Samantekt
  • Viss afbrigði fuglaflensu geta sýkt menn og valdið í þeim sjúkdómi. Þetta er almennt mjög sjaldgæft en náin samskipti við alifugla eru helsti áhættuþáttur fyrir að fá fuglaflensu.
  • Fuglaflensuveirur geta valdið einkennalausum eða -litlum sýkingum. Þessi tilfelli eru líklegast verulega vangreind. Hins vegar verða flestir sem greinast með fuglaflensu alvarlega veikir og er dánarhlutfall mjög hátt.
  • Einkenni alvarlegrar fuglaflensu líkjast að miklu leyti einkennum alvarlegra tilfella COVID-19.
  • Fuglaflensa dreifist mjög illa manna á milli.
  • Miðað við upplýsingar frá faraldri fuglaflensu í Evrópu er mjög ólíklegt að almenningur sé í hættu á að fá fuglaflensu vegna þeirra afbrigða sem eru nú í dreifingu. Hins vegar er ítarleg smitgát við meðhöndlun fugla nauðsynleg til að lágmarka hættuna eins og hægt er.

Tilvísanir:
  1. ^ Í svonefndri svínaflensu voru svín til að mynda millihýslar.
  2. ^ Þessi orðanotkun verður notuð í svarinu til einföldunar.

Heimildir:

Mynd:

Höfundur

Jón Magnús Jóhannesson

læknir og rannsakandi

Útgáfudagur

29.4.2022

Spyrjandi

Kristrún Heiða

Tilvísun

Jón Magnús Jóhannesson. „Geta menn fengið fuglaflensu?“ Vísindavefurinn, 29. apríl 2022. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=83626.

Jón Magnús Jóhannesson. (2022, 29. apríl). Geta menn fengið fuglaflensu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=83626

Jón Magnús Jóhannesson. „Geta menn fengið fuglaflensu?“ Vísindavefurinn. 29. apr. 2022. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=83626>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Geta menn fengið fuglaflensu?
Eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað er fuglaflensa? er fuglaflensa einfaldlega inflúensa í fuglum sem orsakast af mörgum mismunandi tegundum inflúensuveiru A.

Ef fugl smitast samtímis af tveimur eða fleiri inflúensuveirum (til dæmis mannaveiru og fuglaveiru) geta veirurnar skipst á erfðaefni. Slík þróun getur leitt til myndunar nýrra tegunda inflúensuveira sem geta auðveldlega sýkt menn og smitast þeirra á milli. Þetta er talinn vera undanfari allra heimsfaraldra inflúensu, þó stundum sé annað dýr milliliður.[1] Í þessum tilfellum berst nýja inflúensuveiran til manna og verður að eiginlegri mannaveiru.

Mikilvægt er að árétta að þetta er ekki það sem átt er við þegar manneskja „fær fuglaflensu“.[2] Þá er átt við að einstaklingur sýkist af fuglaflensuveiru sem hefur þann eiginleika að geta sýkt menn en hefur þó takmarkaða aðlögun að þeim. Til einföldunar má segja að fuglaflensa í mönnum sé mjög sjaldgæf, dreifist illa manna á milli en getur verið sérlega skæð. Einkenni líkjast að mörgu leyti COVID-19, þó algengi alvarlegra einkenna sé margfalt hærra. Sumir geta verið alveg einkennalausir; aðrir fá væg kveflík einkenni eða flensulík einkenni á borð við hita, hósta og höfuðverk. Einkennalaus eða -lítil tilfelli eru líklegast mun algengari en við gerum okkur grein fyrir, enda ólíklegt að þeir einstaklingar leiti sér læknisþjónustu til að greina undirliggjandi veirusýkingu. Hins vegar geta alvarlegri einkenni og afleiðingar komið fram 1-2 vikum eftir smit, með veirulungnabólgu (hósti, mæði, andþyngsli, brjóstverkir), öndunarbilun, fjölkerfa líffærabilun og dauða.

Skýringarmynd sem sýnir hvernig ein veira getur leitt til þróunar á mörgum mismunandi afbrigðum með mismunandi bútum af erfðaefni. Veiran H9N2 er algengasta veiruabrigði fuglaflensuveira í kjúklingum í Kína. Hún hefur þróast í aðrar veirur og sumar þeirra hafa sýkt menn. Þær sem aðallega valda veikindum í mönnum um þessar mundir eru H5N1 og H5N6.

Tvær gerðir fuglaflensuveiru hafa valdið langsamlega stærstum hluta tilfella í mönnum til þessa: H5N1 og H7N9 (um er að ræða ákveðnar tegundir veira með þessa mótefnavaka). Hins vegar eru það H5N1 og H5N6-fuglaflensuveirur sem aðallega valda veikindum í mönnum um þessar mundir. Almennt er dánarhlutfall hátt, en einnig er talið að verulegt vanmat sé á fjölda þeirra sem fá fuglaflensu og eru með lítil sem engin einkenni.

Fyrsta staðfesta tilfelli fuglaflensu í manneskju var hjá þriggja ára dreng í Hong Kong, vegna sýkingar með H5N1 HPAI-veiru. Drengurinn greindist í maí 1997 og því miður enduðu veikindin með fjölkerfa líffærabilun og dauða. Síðar sama ár greindust 17 tilfelli til viðbótar í Hong Kong vegna sama veiruafbrigðis. Tólf manns náðu fullum bata en fimm frekari andlát urðu. Talið er að flestir hafi fengið veiruna frá hænsnfuglum en einnig voru merki um takmarkaða dreifingu milli einstaklinga. Þann 29. desember 1997 var ákveðið að slátra öllum hænsnum í Hong Kong (1,5 milljón talsins) og því verki lauk tveimur dögum síðar. Með þessu móti tókst að ná stjórn á fuglaflensunni. Hins vegar hefur þessi H5N1-fuglaflensuveira valdið endurteknum faröldrum í fuglum víða um heim, og einnig litlum faröldrum í mönnum sem eru útsettir fyrir sýktum fuglum. Samtals hafa 863 tilfelli H5N1-fuglaflensu greinst í mönnum fram til 21. apríl 2022; þar af dóu 455 einstaklingar, sem gerir dánarhlutfall í kringum 53%. Síðasta staðfesta tilfellið greindist í Bretlandi í janúar 2022.

Í mars 2013 greindist fuglaflensa í mönnum í Kína vegna H7N9 LPAI-veiru og faraldrar komu í bylgjum fram til ársins 2017. Hins vegar hafa stök tilfelli komið fram síðar meir. Líkt og með H5N1 HPAI-veiruna var H7N9 LPAI-veiran talin hafa borist frá hænsnum til manna. Samtals hafa greinst 1568 tilfelli H7N9-fuglaflensu í mönnum fram til 21. apríl 2022; þar af dóu 616 einstaklingar, sem gerir dánarhlutfall í kringum 39%. Síðasta staðfesta tilfellið greindist árið 2019.

Fjöldi annarra fuglaflensuveira hafa valdið sjúkdómi í mönnum, til dæmis H1N1, H1N2, H3N2, H5N6, H7N4, H7N7, H9N2 og H10N3-afbrigði. Eins og áður segir eru það aðallega H5Nx-fuglaflensuveirur sem nú valda veikindum í mannfólki, þó sjaldgæft sé. Þá ber einnig að árétta að aðeins viss afbrigði H5Nx-fuglaflensuveira geta sýkt menn og valdið sjúkdómi í þeim.

Í ljósi þess að fuglaflensa dreifist mjög illa manna á milli er helsti áhættuþátturinn mikil samskipti við alifugla eða (í minna mæli) villta fugla. Þannig er ítarleg smitgát við meðhöndlun fugla mikilvægasta leiðin til að fyrirbyggja smit.

Samantekt
  • Viss afbrigði fuglaflensu geta sýkt menn og valdið í þeim sjúkdómi. Þetta er almennt mjög sjaldgæft en náin samskipti við alifugla eru helsti áhættuþáttur fyrir að fá fuglaflensu.
  • Fuglaflensuveirur geta valdið einkennalausum eða -litlum sýkingum. Þessi tilfelli eru líklegast verulega vangreind. Hins vegar verða flestir sem greinast með fuglaflensu alvarlega veikir og er dánarhlutfall mjög hátt.
  • Einkenni alvarlegrar fuglaflensu líkjast að miklu leyti einkennum alvarlegra tilfella COVID-19.
  • Fuglaflensa dreifist mjög illa manna á milli.
  • Miðað við upplýsingar frá faraldri fuglaflensu í Evrópu er mjög ólíklegt að almenningur sé í hættu á að fá fuglaflensu vegna þeirra afbrigða sem eru nú í dreifingu. Hins vegar er ítarleg smitgát við meðhöndlun fugla nauðsynleg til að lágmarka hættuna eins og hægt er.

Tilvísanir:
  1. ^ Í svonefndri svínaflensu voru svín til að mynda millihýslar.
  2. ^ Þessi orðanotkun verður notuð í svarinu til einföldunar.

Heimildir:

Mynd:...