Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvað eru til margar tegundir af lifrarbólgu og hvað veldur þeim?

Magnús Jóhannsson

Margar tegundir eru til af lifrarbólgum og orsakast flestar þeirra af veirum. Sumar tegundir smitast með óhreinu vatni eða matvælum, sumar smitast á svipaðan hátt og alnæmi og enn aðrar eru hitabeltissjúkdómar sem moskítóflugur bera á milli manna. Sumar lifrarbólgur eru tiltölulega vægir sjúkdómar en aðrar eru mjög hættulegar með háa dánartíðni. Sumar lifrarbólgur geta haft alvarlegar afleiðingar ef einstaklingur smitast á fósturskeiði. Eins og með flesta veirusjúkdóma er fátt um lyf sem gera gagn eftir að sýking hefur átt sér stað en nú er hægt að bólusetja við sumum þessara sjúkdóma. Alltaf er til bóta að þekkja hættur og smitleiðir þannig að hægt sé að gera ráðstafanir sem minnka hættu á smiti.

Algengustu orsakir lifrarbólgu eru veirur, áfengi og lyf. Lifrarbólguveirum er skipt í nokkra flokka og þeir helstu eru kallaðir A, B, C og D. Að auki má nefna veiruna sem veldur mýgulusótt (yellow fever).

Lifrarbólga A eða smitgula er algengur sjúkdómur og margir fá hann án þess að veikjast að ráði. Talið er að meira en helmingur fólks í Evrópu og Norður-Ameríku hafi fengið smitgulu. Allir geta smitast nema þeir hafi áður fengið sjúkdóminn eða verið bólusettir. Þeir sem fá þennan sjúkdóm verða jafngóðir og enginn verður smitberi til langframa. Sumir fá sjúkdóminn án þess að veikjast og gildir það einkum um börn. Smit verður með þeim hætti að veirur berast úr saur sjúklings með sjúkdóminn, í matvæli eða drykkjarvatn. Veirurnar eru í saur sjúklingsins í um það bil 3 vikur, í 2 vikur áður en hann veikist og eina viku eftir að sjúkdómseinkennin koma fram. Til að forðast smit verður að gæta ýtrasta hreinlætis, meðal annars með tíðum handþvotti, og gæta þess hvað borðað er og hvar. Nú er hægt að fá ágæta bólusetningu sem endist árum saman eða jafnvel ævilangt og er það besta vörnin fyrir þá sem ferðast til svæða þar sem smitgula er landlæg. Sjúkdómseinkennin koma 2-6 vikum eftir smit, fyrst þreyta, lystarleysi, sótthiti, magaverkir, niðurgangur og uppköst, síðan dökklitað þvag og að lokum gula. Gula sést best í hvítum augnanna en einnig á húðinni. Fyrir þá sem veikjast er engin meðferð önnur en rúmlega, sjúkdómurinn gengur yfir á fáeinum vikum og sjúklingurinn verður jafngóður eftir.

Lifrarbólga B, sem stundum er kölluð sermigula eða blóðvatnsgula, smitast á svipaðan hátt og alnæmi, það er einkum með nálum og kynmökum. Sermigula er algeng meðal sprautufíkla, samkynhneigðra karlmanna og sjúklinga í gervinýra. Talið er að um helmingur þeirra sem smitist fái sjúkdómseinkenni en þau eru þreyta, lystarleysi, uppköst, sótthiti, dökkt þvag, gula og ljósar hægðir. Sjúkdómseinkennin koma oftast fram 2-3 mánuðum eftir smit. Sermigula getur verið alvarlegur sjúkdómur sem leggur fólk stundum í rúmið vikum saman og einstaka sjúklingur losnar ekki við veiruna og verður smitberi jafnvel það sem eftir er ævinnar. Þeir sem bera veiruna í sér langtímum saman eiga á hættu að fá skorpulifur og lifrarkrabbamein. Móðir sem er smitberi getur smitað barn sitt á fósturskeiði eða við fæðingu. Með sérstakri meðferð er hægt að minnka líkur á að barnið verði einnig smitberi en án hennar er mikil hætta á slíku. Engin sérstök meðferð er fyrir þá sem veikjast, þeir þurfa hvíld, mikinn vökva og næringarríka fæðu og þeir verða að forðast allt sem er álag á lifrina, en þar ber hæst áfengi og viss lyf. Hægt er að bólusetja við lifrarbólgu B.

Lifrarbólga C smitast á sama hátt og lifrarbólga B og talið er að flestir sem smitist verði smitberar það sem eftir er ævinnar. Fólk veikist 2 vikum til 6 mánuðum eftir smit og sjúkdómseinkennin eru þau sömu og lýst hefur verið að ofan.

Lifrarbólga D er mun sjaldgæfari og þekkist eingöngu sem fylgifiskur lifrarbólgu B. Mýgulusótt eða mýragula (yellow fever) er landlæg í hitabeltissvæðum Ameríku og Afríku. Þessi sjúkdómur stafar af veiru sem berst á milli manna með moskítóflugum. Fólk veikist skyndilega 3-6 dögum eftir smit með miklum höfuðverk, sótthita, verkjum í fótum og hröðum hjartslætti. Eftir 1-2 daga fær sjúklingurinn lágan blóðþrýsting, gulu og tilhneigingu til blæðinga. Flestir fá væg einkenni en stundum er þetta alvarlegur sjúkdómur sem getur endað með dauða. Hægt er að bólusetja við mýgulusótt.

Þegar fólk ferðast til suðlægra landa þarf að huga að bólusetningum og öðrum sjúkdómavörnum; þar á meðal eru þeir sjúkdómar sem hér hefur verið lýst.

Spurning Árnýjar Sigurjónsdóttur var þessi:

Er hægt að lækna C-lifrabólgu?

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

12.9.2000

Spyrjandi

Ritstjórn
Árný Sigurjónsdóttir

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Hvað eru til margar tegundir af lifrarbólgu og hvað veldur þeim?“ Vísindavefurinn, 12. september 2000. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=901.

Magnús Jóhannsson. (2000, 12. september). Hvað eru til margar tegundir af lifrarbólgu og hvað veldur þeim? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=901

Magnús Jóhannsson. „Hvað eru til margar tegundir af lifrarbólgu og hvað veldur þeim?“ Vísindavefurinn. 12. sep. 2000. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=901>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru til margar tegundir af lifrarbólgu og hvað veldur þeim?
Margar tegundir eru til af lifrarbólgum og orsakast flestar þeirra af veirum. Sumar tegundir smitast með óhreinu vatni eða matvælum, sumar smitast á svipaðan hátt og alnæmi og enn aðrar eru hitabeltissjúkdómar sem moskítóflugur bera á milli manna. Sumar lifrarbólgur eru tiltölulega vægir sjúkdómar en aðrar eru mjög hættulegar með háa dánartíðni. Sumar lifrarbólgur geta haft alvarlegar afleiðingar ef einstaklingur smitast á fósturskeiði. Eins og með flesta veirusjúkdóma er fátt um lyf sem gera gagn eftir að sýking hefur átt sér stað en nú er hægt að bólusetja við sumum þessara sjúkdóma. Alltaf er til bóta að þekkja hættur og smitleiðir þannig að hægt sé að gera ráðstafanir sem minnka hættu á smiti.

Algengustu orsakir lifrarbólgu eru veirur, áfengi og lyf. Lifrarbólguveirum er skipt í nokkra flokka og þeir helstu eru kallaðir A, B, C og D. Að auki má nefna veiruna sem veldur mýgulusótt (yellow fever).

Lifrarbólga A eða smitgula er algengur sjúkdómur og margir fá hann án þess að veikjast að ráði. Talið er að meira en helmingur fólks í Evrópu og Norður-Ameríku hafi fengið smitgulu. Allir geta smitast nema þeir hafi áður fengið sjúkdóminn eða verið bólusettir. Þeir sem fá þennan sjúkdóm verða jafngóðir og enginn verður smitberi til langframa. Sumir fá sjúkdóminn án þess að veikjast og gildir það einkum um börn. Smit verður með þeim hætti að veirur berast úr saur sjúklings með sjúkdóminn, í matvæli eða drykkjarvatn. Veirurnar eru í saur sjúklingsins í um það bil 3 vikur, í 2 vikur áður en hann veikist og eina viku eftir að sjúkdómseinkennin koma fram. Til að forðast smit verður að gæta ýtrasta hreinlætis, meðal annars með tíðum handþvotti, og gæta þess hvað borðað er og hvar. Nú er hægt að fá ágæta bólusetningu sem endist árum saman eða jafnvel ævilangt og er það besta vörnin fyrir þá sem ferðast til svæða þar sem smitgula er landlæg. Sjúkdómseinkennin koma 2-6 vikum eftir smit, fyrst þreyta, lystarleysi, sótthiti, magaverkir, niðurgangur og uppköst, síðan dökklitað þvag og að lokum gula. Gula sést best í hvítum augnanna en einnig á húðinni. Fyrir þá sem veikjast er engin meðferð önnur en rúmlega, sjúkdómurinn gengur yfir á fáeinum vikum og sjúklingurinn verður jafngóður eftir.

Lifrarbólga B, sem stundum er kölluð sermigula eða blóðvatnsgula, smitast á svipaðan hátt og alnæmi, það er einkum með nálum og kynmökum. Sermigula er algeng meðal sprautufíkla, samkynhneigðra karlmanna og sjúklinga í gervinýra. Talið er að um helmingur þeirra sem smitist fái sjúkdómseinkenni en þau eru þreyta, lystarleysi, uppköst, sótthiti, dökkt þvag, gula og ljósar hægðir. Sjúkdómseinkennin koma oftast fram 2-3 mánuðum eftir smit. Sermigula getur verið alvarlegur sjúkdómur sem leggur fólk stundum í rúmið vikum saman og einstaka sjúklingur losnar ekki við veiruna og verður smitberi jafnvel það sem eftir er ævinnar. Þeir sem bera veiruna í sér langtímum saman eiga á hættu að fá skorpulifur og lifrarkrabbamein. Móðir sem er smitberi getur smitað barn sitt á fósturskeiði eða við fæðingu. Með sérstakri meðferð er hægt að minnka líkur á að barnið verði einnig smitberi en án hennar er mikil hætta á slíku. Engin sérstök meðferð er fyrir þá sem veikjast, þeir þurfa hvíld, mikinn vökva og næringarríka fæðu og þeir verða að forðast allt sem er álag á lifrina, en þar ber hæst áfengi og viss lyf. Hægt er að bólusetja við lifrarbólgu B.

Lifrarbólga C smitast á sama hátt og lifrarbólga B og talið er að flestir sem smitist verði smitberar það sem eftir er ævinnar. Fólk veikist 2 vikum til 6 mánuðum eftir smit og sjúkdómseinkennin eru þau sömu og lýst hefur verið að ofan.

Lifrarbólga D er mun sjaldgæfari og þekkist eingöngu sem fylgifiskur lifrarbólgu B. Mýgulusótt eða mýragula (yellow fever) er landlæg í hitabeltissvæðum Ameríku og Afríku. Þessi sjúkdómur stafar af veiru sem berst á milli manna með moskítóflugum. Fólk veikist skyndilega 3-6 dögum eftir smit með miklum höfuðverk, sótthita, verkjum í fótum og hröðum hjartslætti. Eftir 1-2 daga fær sjúklingurinn lágan blóðþrýsting, gulu og tilhneigingu til blæðinga. Flestir fá væg einkenni en stundum er þetta alvarlegur sjúkdómur sem getur endað með dauða. Hægt er að bólusetja við mýgulusótt.

Þegar fólk ferðast til suðlægra landa þarf að huga að bólusetningum og öðrum sjúkdómavörnum; þar á meðal eru þeir sjúkdómar sem hér hefur verið lýst.

Spurning Árnýjar Sigurjónsdóttur var þessi:

Er hægt að lækna C-lifrabólgu?
...