Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Fyrir hvaða rannsóknir hlaut Edmund Phelps Nóbelsverðlaun í hagfræði 2006?

Gylfi Zoëga

Nú nýlega var tilkynnt að Edmund S. Phelps frá Columbia-háskóla í New York hljóti minningarverðlaun Nóbels í hagfræði 2006. Verðlaunin fær Phelps fyrir rannsóknir sínar á því hvernig hagstjórn getur haft mismunandi áhrif til skamms og langs tíma.

Phelps hefur sérstaklega beint sjónum sínum að sambandinu milli verðbólgu og atvinnuleysis. Lengi var talið að þetta samband væri að stöðugt og hærra atvinnuleysi færi saman með lægri verðbólgu. Til þess að minnka atvinnuleysi mætti því auka verðbólgu. Til að mynda mætti fá fram aukna verðbólgu með stjórn peningamála og ríkisfjármála, með því til dæmis að lækka vexti (eða auka peningamagn í umferð) eða lækka skatta.


Edmund S. Phelps (f. 1933).

Phelps sýndi aftur á móti fram á að þetta gæti í besta falli verið tilfellið til skamms tíma en að slíkar aðgerðir á eftirspurnarhlið hagkerfis til að draga úr atvinnuleysi myndu ekki hafa jákvæð áhrif til langframa. Þegar til lengri tíma væri litið myndi atvinnuleysi ekki ráðast af verðbólgu heldur af raunverulegum aðstæðum á vinnumarkaði, af framboðshlið hagkerfisins.

Hækki verðbólga umfram tiltekin mörk sé hins vegar við því að búast að fólks myndi væntingar um meiri verðbólgu sem síðan leiðir til launaskriðs og verðbólga eykst enn frekar. Þannig getur verðbólgan hækkað upp úr öllu valdi við víxlverkun launa og verðlags. Lægra atvinnuleysi í nútíð er keypt með hærri verðbólgu í framtíð.

Af þessu leiðir að ef ráðist er í aðgerðir til þess að lækka verðbólgu þá krefst það hærra atvinnuleysis til skamms tíma en verðbólga verður lægri í framtíðinni. Þetta er kenningin um svokallað „náttúrulegt atvinnuleysi“; til lengri tíma leitar atvinnuleysi í náttúrulegt stig sitt en ef stjórnvöld þrýsta því niður fyrir þetta stig þá er afleiðingin sívaxandi verðbólga.

Phelps setti einnig fram áhrifamikla kenningu um samband menntunar og atvinnuleysis. Samkvæmt kenningunni felur menntun í sér „hæfileika til þess að læra“ þannig að vel menntað fólk á auðveldara með að tileinka sér nýja þekkingu. Vel menntaðar þjóðir eiga þá auðveldara með að tileinka sér tækni annarra þjóða og búa við hærri hagvöxt. Þessi tilgáta hefur verið staðfest með tölfræðirannsóknum á síðustu árum. Menntun er lykillinn að hagvexti!

Að lokum má minnast á annað framlag Phelps til hagvaxtarfræða. Hann sýndi fram á að þjóðhagslegur sparnaður getur verið of mikill í þeim skilningi að þjóð væri betur sett – hefði meiri neyslu í nútíð og framtíð – ef hún sparaði minna. Hér er oft bent á Sovétríkin sálugu en sparnaður og fjárfesting hélt hagvexti gangandi um áratuga skeið en neysla og lífskjör voru lág vegna þess að stórum hluta þjóðarframleiðslu þurfti að verja í viðhald og rekstur gríðarlegs fjármagnsstofns. Phelps sýndi að hagkvæmasti sparnaðurinn fer eftir hraða fólksfjölgunar og tækniframförum.

Hér er stiklað á stóru en segja má að það sem tengi þessar kenningar sé tengsl nútíðar og framtíðar; með því að auka menntun og draga úr neyslu til skamms tíma er unnt að bæta lífskjör til lengri tíma; með því að draga úr verðbólgu í dag er unnt að njóta lægri verðbólgu í framtíð; og með því að spara (mátulega mikið!) í nútímanum er unnt að njóta stærri fjármagnsstofns í framtíðinni.


Auk Gylfa Zoëga komu Gylfi Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðiskor Háskóla Íslands, og Heiða María Sigurðardóttir, B.A. í sálfræði, að gerð þessa svars.

Lesendum er bent á að kynna sér líka þessi svör Gylfa Magnússonar:

Einnig er bent á heimasíðu Nóbelsverðlaunanna.

Mynd:

Höfundur

prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

11.10.2006

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Gylfi Zoëga. „Fyrir hvaða rannsóknir hlaut Edmund Phelps Nóbelsverðlaun í hagfræði 2006?“ Vísindavefurinn, 11. október 2006. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6304.

Gylfi Zoëga. (2006, 11. október). Fyrir hvaða rannsóknir hlaut Edmund Phelps Nóbelsverðlaun í hagfræði 2006? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6304

Gylfi Zoëga. „Fyrir hvaða rannsóknir hlaut Edmund Phelps Nóbelsverðlaun í hagfræði 2006?“ Vísindavefurinn. 11. okt. 2006. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6304>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Fyrir hvaða rannsóknir hlaut Edmund Phelps Nóbelsverðlaun í hagfræði 2006?
Nú nýlega var tilkynnt að Edmund S. Phelps frá Columbia-háskóla í New York hljóti minningarverðlaun Nóbels í hagfræði 2006. Verðlaunin fær Phelps fyrir rannsóknir sínar á því hvernig hagstjórn getur haft mismunandi áhrif til skamms og langs tíma.

Phelps hefur sérstaklega beint sjónum sínum að sambandinu milli verðbólgu og atvinnuleysis. Lengi var talið að þetta samband væri að stöðugt og hærra atvinnuleysi færi saman með lægri verðbólgu. Til þess að minnka atvinnuleysi mætti því auka verðbólgu. Til að mynda mætti fá fram aukna verðbólgu með stjórn peningamála og ríkisfjármála, með því til dæmis að lækka vexti (eða auka peningamagn í umferð) eða lækka skatta.


Edmund S. Phelps (f. 1933).

Phelps sýndi aftur á móti fram á að þetta gæti í besta falli verið tilfellið til skamms tíma en að slíkar aðgerðir á eftirspurnarhlið hagkerfis til að draga úr atvinnuleysi myndu ekki hafa jákvæð áhrif til langframa. Þegar til lengri tíma væri litið myndi atvinnuleysi ekki ráðast af verðbólgu heldur af raunverulegum aðstæðum á vinnumarkaði, af framboðshlið hagkerfisins.

Hækki verðbólga umfram tiltekin mörk sé hins vegar við því að búast að fólks myndi væntingar um meiri verðbólgu sem síðan leiðir til launaskriðs og verðbólga eykst enn frekar. Þannig getur verðbólgan hækkað upp úr öllu valdi við víxlverkun launa og verðlags. Lægra atvinnuleysi í nútíð er keypt með hærri verðbólgu í framtíð.

Af þessu leiðir að ef ráðist er í aðgerðir til þess að lækka verðbólgu þá krefst það hærra atvinnuleysis til skamms tíma en verðbólga verður lægri í framtíðinni. Þetta er kenningin um svokallað „náttúrulegt atvinnuleysi“; til lengri tíma leitar atvinnuleysi í náttúrulegt stig sitt en ef stjórnvöld þrýsta því niður fyrir þetta stig þá er afleiðingin sívaxandi verðbólga.

Phelps setti einnig fram áhrifamikla kenningu um samband menntunar og atvinnuleysis. Samkvæmt kenningunni felur menntun í sér „hæfileika til þess að læra“ þannig að vel menntað fólk á auðveldara með að tileinka sér nýja þekkingu. Vel menntaðar þjóðir eiga þá auðveldara með að tileinka sér tækni annarra þjóða og búa við hærri hagvöxt. Þessi tilgáta hefur verið staðfest með tölfræðirannsóknum á síðustu árum. Menntun er lykillinn að hagvexti!

Að lokum má minnast á annað framlag Phelps til hagvaxtarfræða. Hann sýndi fram á að þjóðhagslegur sparnaður getur verið of mikill í þeim skilningi að þjóð væri betur sett – hefði meiri neyslu í nútíð og framtíð – ef hún sparaði minna. Hér er oft bent á Sovétríkin sálugu en sparnaður og fjárfesting hélt hagvexti gangandi um áratuga skeið en neysla og lífskjör voru lág vegna þess að stórum hluta þjóðarframleiðslu þurfti að verja í viðhald og rekstur gríðarlegs fjármagnsstofns. Phelps sýndi að hagkvæmasti sparnaðurinn fer eftir hraða fólksfjölgunar og tækniframförum.

Hér er stiklað á stóru en segja má að það sem tengi þessar kenningar sé tengsl nútíðar og framtíðar; með því að auka menntun og draga úr neyslu til skamms tíma er unnt að bæta lífskjör til lengri tíma; með því að draga úr verðbólgu í dag er unnt að njóta lægri verðbólgu í framtíð; og með því að spara (mátulega mikið!) í nútímanum er unnt að njóta stærri fjármagnsstofns í framtíðinni.


Auk Gylfa Zoëga komu Gylfi Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðiskor Háskóla Íslands, og Heiða María Sigurðardóttir, B.A. í sálfræði, að gerð þessa svars.

Lesendum er bent á að kynna sér líka þessi svör Gylfa Magnússonar:

Einnig er bent á heimasíðu Nóbelsverðlaunanna.

Mynd:...