Það er ekki til neitt eitt rétt svar við þessari spurningu því að það er ekki til neinn algildur mælikvarði á gæði hagfræðinga eða hve miklir frumkvöðlar þeir eru. Væntanlega mundu flestir þó svara að Adam Smith (1723-1790) sé helsti brautryðjandi hagfræðinnar og hann er oft nefndur faðir fræðigreinarinnar.
Smith var Skoti og þekktastur fyrir bók sína An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations sem út kom 1776. Bókin er til á íslensku sem Auðlegð þjóðanna í þýðingu Þorbergs Þórssonar. Hún er oft kölluð fyrsta hagfræðiritið en þó höfðu ýmsir skrifað um það sem nú myndi kallast hagfræði á undan Smith.
Fyrsta íslenska hagfræðiritið er oftast talið bók Arnljóts Ólafssonar (1823-1904), Auðfræði. Hún var gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1880 og síðan endurútgefin af Fjölsýn og Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga rúmri öld síðar.
Áhrifamesti hagfræðingur 20. aldar er væntanlega Englendingurinn John Maynard Keynes (1883-1946). Kenningar hans höfðu talsverð áhrif á hagstjórn víða um heim á síðari hluta 20. aldar og hefur verið hart deilt um þær bæði í stjórnmálum og af fræðimönnum.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hver var Adam Smith og fyrir hvað er hann helst þekktur? eftir Þorberg Þórsson
- Hvert var framlag Adams Smiths til hagfræðinnar? eftir Þorberg Þórsson
- Fyrir hvað vann John Nash Nóbelsverðlaun og hvert var framlag hans til hagfræðinnar? eftir Gylfa Magnússon
- Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur? eftir Þorberg Þórsson
- Hver var David Ricardo og fyrir hvað er hann helst þekktur? eftir Þorberg Þórsson
- Adam Smith. Sótt 3.9.2003.