Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þroskasálfræðingar fást við rannsóknir sem tengjast þroska eða sálrænum breytingum sem verða yfir æviskeiðið. Framan af var hugtakið þroskasálfræði nánast samheiti barnasálfræði en nú líta flestir svo á að þroskasálfræði taki til breytinga sem verða yfir alla ævina. Þannig er öldrun og öldrunarsálfræði hluti af því sem fræðimenn á þessu sviði fást við. Engu að síður eru flestar rannsóknirnar tengdar bernsku og unglingsárunum þegar breytingar á þroska eru hvað örastar.
Þroskasálfræðingar fást við rannsóknir á mörgum ólíkum sviðum rétt eins og greina má ólík svið innan sálfræði almennt. Sumir einbeita sér að rannsóknum á líkamsþroska og hvernig hann tengist andlegu atgervi. Þar fléttast inn athuganir á því hvernig þættir sem eru ólíkir í fari kynjanna geti hugsanlega haft áhrif á sálarlífið. Einnig er sjálfsmyndin, engu síður en kynmyndin, að nokkru leyti tengd líkamsþroskanum. Eins og ef til vill gefur auga leið þroskast svo greind og hugsun að verulegu leyti jafnhliða þroskun heilans. Heilinn og taugakerfið er því eitt af því sem rannsóknir í þroskasálfræði snúast um.
Athuganir á greindarþroska má meðal annars rekja til þess þegar fyrstu greindarprófin voru búin til í Frakklandi í kringum aldamótin 1900. Það var Frakkinn Alfred Binet sem fyrstur bjó til greindarpróf fyrir börn í þeirri mynd sem við þekkjum í dag. Greindarpróf geta verið gagnleg í ýmsu tilliti þegar meta á þroska og andlegt ástand barna. Þroskasálfræðingar nota þau því talsvert í störfum sínum.
Þess utan fjalla þroskasálfræðingar um allt það sem lýtur að tilfinningalífi barna, máltöku, félagsmótun og raunar öllu því sem tengist og haft getur áhrif á þroska. Geta má þess að hinn þekkti austurríski taugalæknir Sigmund Freud lagði áherslu á þroska persónuleikans á fyrstu árunum, og taldi meðal annars að dulvituð kynorka og duldir ýmiss konar, eins og Ödipusarduldin, geti mótað sálarlífið til langframa.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Myndin sýnir mismunandi lífsskeið fólks og að lokum dauðann. Hún er eftir Hans Baldung og er fengin af síðunni Image:Hans Baldung 009.jpg. Wikimedia Commons.
Aldís Guðmundsdóttir. „Við hvað fást þeir sem stunda þroskasálfræði?“ Vísindavefurinn, 16. október 2006, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6314.
Aldís Guðmundsdóttir. (2006, 16. október). Við hvað fást þeir sem stunda þroskasálfræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6314
Aldís Guðmundsdóttir. „Við hvað fást þeir sem stunda þroskasálfræði?“ Vísindavefurinn. 16. okt. 2006. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6314>.