Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Gilda reglur um tattóveringu íslenska fánann? Eru jafn strangar reglur um skjaldarmerkið og fánann?
Um meðferð íslenska þjóðfánans og skjaldarmerkisins gilda lög nr. 34/1944 um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Reglur um notkun skjaldamerkisins eru mun strangari en um þjóðfánann því skv. 12. gr. laganna er notkun ríkisskjaldarmerkisins aðeins heimil stjórnvöldum.
Notkun þjóðfánans er öllum heimil, svo fremi þeir fylgi reglum laga um notkun hans. Ákvæði laganna miða við fána sem reistur er á stöng, en 11. gr. segir þó að lögin nái jafnframt til hvers konar skírskotana til eða eftirlíkinga af þjóðfánanum, svo sem áprentana eða myndvarpana. Lögin ná því tvímælalaust yfir fána sem tattóveraður er á líkama manns.
Þau ákvæði laga og reglna sem eiga við um áprentaðan fána á borð við tattú eru einkum 12. gr. og svo hugsanlega 9. gr. laganna en þar segir:
Bannað er að hafa á boðstólum, selja eða leigja aðra fána en þá, sem gerðir eru með réttum litum og réttum hlutföllum reita og krossa.
Með stoð í ákvæði 10. gr. mætti ætla að tattóveraður fáni þyrfti að vera í réttum litum og hlutföllum. Lítið verður hinsvegar sagt um afleiðingarnar ef brotið yrði á þeim reglum.
Samkvæmt 10. gr. laganna hefur lögreglan eftirlit með því að enginn noti þjóðfána sem er ekki í samræmi við ákvæði laganna Má gera slíka fána upptæka, ef þeir eru notaðir á stöng eða sýndir úti eða inni, þar sem almenningur getur séð þá.
Helsta ákvæði laganna sem kemur til skoðunar vegna tattóveringu á fánanum er án efa ákvæði 12. gr. laganna, en í því segir: "Enginn má óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki." Í lögunum er hvergi að finna skýringu á því sem teljast mætti "óvirðandi meðferð" á fánanum og hafa fræðimenn á sviði refsiréttar velt því fyrir sér hvort hér sé um nógu skýra refsiheimild að ræða svo fullnægja teljist skýrleikaskilyrðum 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hefur úrlausn um túlkun ákvæðisins aldrei komið til kasta íslenskra dómstóla og verður því ekkert fullyrt um hvað teljist fullnægjandi og gilda heimild fyrir ríkisvaldið til að refsa einstaklingum fyrir háttsemi sína.
Brot gegn 4. og 5. gr. laganna, svo og 1. mgr. 12. gr. varða sektum, eða fangelsi allt að einu ári.
Ljóst er að engum viðurlagaheimildum er fyrir að fara vegna brota á öðrum reglum um notkun íslenska þjóðfánans. Hugsanlega gæti lögregla krafist þess af viðkomandi þyrfti að hylja fánann, en slík heimild er hvergi skráð berum orðum og því alls ekki ljós, enda einungis um getgátur höfundar þessa svars að ræða.
Forsætisráðuneytið sker úr um ágreining um rétta notkun þjóðfánans sbr. 8. gr. laganna.
Mynd:Academy of Tatto
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir. „Gilda einhverjar reglur um tattóveringu þjóðfánans?“ Vísindavefurinn, 26. október 2006, sótt 12. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6340.
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir. (2006, 26. október). Gilda einhverjar reglur um tattóveringu þjóðfánans? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6340
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir. „Gilda einhverjar reglur um tattóveringu þjóðfánans?“ Vísindavefurinn. 26. okt. 2006. Vefsíða. 12. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6340>.