Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Voru lögréttumenn á miðöldum þingmenn þess tíma eða hver var embættisskylda þeirra?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Stöður lögréttumanna urðu til eftir að Ísland komst undir konungsvald, fyrst með lögbókinni Járnsíðu 1271, síðan með Jónsbók sem tók gildi 1281. Þessar stöður voru til uns Alþingi var lagt niður um aldamótin 1800. Lögréttumenn voru bændur, karlmenn sem ráku bú, tilnefndir af sýslumönnum og lögmönnum. Það gerðist þannig að sýslumenn nefndu ákveðna bændur til að ríða til Alþingis á Þingvöllum, upphaflega 140 talsins, síðar 84 og enn færri þegar lengra leið. Þessir menn voru kallaðir nefndarmenn. Þegar á þingið var komið skipuðu lögmenn 36 þessara manna í lögréttu, og voru þeir kallaðir lögréttumenn. Á 18. öld, eftir að konungseinveldi komst á, var þeim einnig fækkað, síðast niður í fjóra menn sem sátu aðeins sem vottar í lögréttu þar sem lögmenn dæmdu. Stundum voru allir nefndarmennirnir kallaðir lögréttumenn, en við skulum kalla lögréttumenn þá eina sem sátu í lögréttunni.

Lögrétta samþykkti stundum almennar reglur sem voru kallaðar alþingissamþykktir eða alþingisdómar en höfðu sama gildi og lög, að minnsta kosti ef konungur staðfesti þær. Svolítið óljóst er hvort endilega var krafist staðfestingar hans. En konungur gat líka sett lagareglur án þess að lögrétta fengi neinu ráðið um það, og voru þær kallaðar réttarbætur eða síðar tilskipanir. Má því segja að lögrétta hafi haft snefil af löggjafarvaldi lengi framan af. En árið 1662 var einveldi konungs lögleitt á Íslandi, og eftir það var lítið um að lögrétta skipti sér af löggjöf, alls ekkert eftir 1700. Og allan tímann voru dómstörf meginviðfangsefni lögréttu, að dæma í refsimálum, sem sýslumenn lögðu fram í nafni konungsvalds, og í einkamálum á milli einstaklinga. Lögrétta dæmdi ýmist sem fyrsti dómstóll eða áfrýjunardómstóll eftir reglum sem óþarft er að rekja hér. Við dómstörf skiptist lögrétta ævinlega í tvo eða fleiri hópa sem störfuðu samtímis, og fór fjöldi lögréttumanna í þeim eftir mikilvægi málanna sem fengist var við.

Lögréttumenn sem sóttu Alþingi á Þingvöllum voru að vissu leyti þingmenn síns tíma en allt stjórnkerfi þeirra tíma var harla ólíkt því sem starfar nú.

Orðið lögréttumaður er að vísu stundum notað í lögbókinni Grágás sem gilti áður en Ísland komst undir konungsvald. En þá er það oftast haft um þá menn sem sátu á miðpalli lögréttu og settu lög, en algengasta starfsheiti þeirra var goðar eða goðorðsmenn. Því er betra að nota orðið lögréttumaður eingöngu um bændur sem sátu í lögréttu á tímabilinu 1271–1800.

Voru lögréttumenn þá þingmenn síns tíma? Þingmenn okkar tíma hafa einkum tvö hlutverk. Þeir setja lög, og þeir ráða því hvaða stjórnmálaflokkar eigi menn í ríkisstjórn því að ríkisstjórnir þurfa að hafa stuðning meirihluta þingsins. Þetta síðartalda hlutverk alþingismanna kom ekki til greina hjá lögréttumönnum því að hliðstæðu ráðherra okkar tíma, nánustu ráðgjafa konungs, valdi konungur sjálfur. Fram að einveldistímanum var hlutverk lögréttumanna hins vegar að því leyti hið sama og alþingismanna okkar að þeir gátu samþykkt lög, sem konungur staðfesti svo, eins og forseti okkar staðfestir lög frá Alþingi. En mest af tíma lögréttumanna á þingi hefur farið í að hlusta á málflutning í dómsmálum og dæma í þeim, nokkuð sem löglærðir dómarar gera á okkar dögum. Þetta dómakerfi var líkt kviðdómum sem tíðkast í mörgum löndum nú, þar sem ólöglært fólk situr í dómstólum og úrskurðar um sekt eða sýknu.

Annar grundvallarmunur er á lögréttumönnum og alþingismönnum. Lögréttumenn voru tilnefndir af sýslumönnum og lögmönnum, sem töldust hafa æðri stöðu í valdakerfinu en lögréttumenn sjálfir. Þessir æðri valdhafar höfðu svo verið skipaðir í störf sín af konungi eða embættismanni sem konungur hafði skipað í starf sitt. Lögmenn voru að vísu kosnir af lögréttu, en sú kosning þurfti að fá staðfestingu konungs. Alþingismenn okkar tíma eru hins vegar kosnir af öllum almenningi. Það er af því að lögréttumenn lifðu í fámennisveldi þar sem valdið kom að ofan og niður samfélagsstigann, en við búum við lýðræði þar sem valdið á að koma að neðan, frá almenningi. Þessu skyldur er sá munur að alþingismenn eru nú kosnir til fjögurra ára í senn og geta því misst umboð sitt ef almenningi finnst þeir ekki beita valdi sínu rétt. En lögréttumenn voru nefndir til alþingisreiðar svo lengi sem þeir héldu lífi, heilsu og kröftum, eða voru hestfærir og ölfærir eins og stundum var sagt. Loks má nefna þann mun að þingmenn okkar eru í starfi sínu allt árið, en á tímum lögréttumanna stóð þingið stundum innan við viku og í mesta lagi þrjár vikur.

Jú, að vissu leyti voru lögréttumenn þingmenn síns tíma en allt stjórnkerfi þeirra tíma var harla ólíkt því sem starfar nú.

Heimildir og mynd:
  • Einar Arnórsson: Réttarsaga Alþingis. Reykjavík, Alþingissögunefnd, 1945 (Saga Alþingis I).
  • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
  • Gunnar Karlsson: „Að ná íslenskum lögum. Um lagaákvæði Gamla sáttmála og löggjafarvald á Íslandi í veldi Noregskonungs.“ Yfir Íslandsála. Afmælisrit til heiðurs Magnúsi Stefánssyni sextugum (Reykjavík, Sögufræðslusjóður, 1991), 53–75.
  • Járnsíða og Kristinréttur Árna Þorlákssonar. Útgefendur Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon, Már Jónsson. Reykjavík, Sögufélag, 2005.
  • Jónsbók. Lögbók Íslendinga, hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2004 (Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar VIII).
  • Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 29. 8. 2013).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

22.10.2013

Spyrjandi

Ásgeir Hjálmar Sigurðsson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Voru lögréttumenn á miðöldum þingmenn þess tíma eða hver var embættisskylda þeirra? “ Vísindavefurinn, 22. október 2013. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=64494.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2013, 22. október). Voru lögréttumenn á miðöldum þingmenn þess tíma eða hver var embættisskylda þeirra? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=64494

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Voru lögréttumenn á miðöldum þingmenn þess tíma eða hver var embættisskylda þeirra? “ Vísindavefurinn. 22. okt. 2013. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=64494>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Voru lögréttumenn á miðöldum þingmenn þess tíma eða hver var embættisskylda þeirra?
Stöður lögréttumanna urðu til eftir að Ísland komst undir konungsvald, fyrst með lögbókinni Járnsíðu 1271, síðan með Jónsbók sem tók gildi 1281. Þessar stöður voru til uns Alþingi var lagt niður um aldamótin 1800. Lögréttumenn voru bændur, karlmenn sem ráku bú, tilnefndir af sýslumönnum og lögmönnum. Það gerðist þannig að sýslumenn nefndu ákveðna bændur til að ríða til Alþingis á Þingvöllum, upphaflega 140 talsins, síðar 84 og enn færri þegar lengra leið. Þessir menn voru kallaðir nefndarmenn. Þegar á þingið var komið skipuðu lögmenn 36 þessara manna í lögréttu, og voru þeir kallaðir lögréttumenn. Á 18. öld, eftir að konungseinveldi komst á, var þeim einnig fækkað, síðast niður í fjóra menn sem sátu aðeins sem vottar í lögréttu þar sem lögmenn dæmdu. Stundum voru allir nefndarmennirnir kallaðir lögréttumenn, en við skulum kalla lögréttumenn þá eina sem sátu í lögréttunni.

Lögrétta samþykkti stundum almennar reglur sem voru kallaðar alþingissamþykktir eða alþingisdómar en höfðu sama gildi og lög, að minnsta kosti ef konungur staðfesti þær. Svolítið óljóst er hvort endilega var krafist staðfestingar hans. En konungur gat líka sett lagareglur án þess að lögrétta fengi neinu ráðið um það, og voru þær kallaðar réttarbætur eða síðar tilskipanir. Má því segja að lögrétta hafi haft snefil af löggjafarvaldi lengi framan af. En árið 1662 var einveldi konungs lögleitt á Íslandi, og eftir það var lítið um að lögrétta skipti sér af löggjöf, alls ekkert eftir 1700. Og allan tímann voru dómstörf meginviðfangsefni lögréttu, að dæma í refsimálum, sem sýslumenn lögðu fram í nafni konungsvalds, og í einkamálum á milli einstaklinga. Lögrétta dæmdi ýmist sem fyrsti dómstóll eða áfrýjunardómstóll eftir reglum sem óþarft er að rekja hér. Við dómstörf skiptist lögrétta ævinlega í tvo eða fleiri hópa sem störfuðu samtímis, og fór fjöldi lögréttumanna í þeim eftir mikilvægi málanna sem fengist var við.

Lögréttumenn sem sóttu Alþingi á Þingvöllum voru að vissu leyti þingmenn síns tíma en allt stjórnkerfi þeirra tíma var harla ólíkt því sem starfar nú.

Orðið lögréttumaður er að vísu stundum notað í lögbókinni Grágás sem gilti áður en Ísland komst undir konungsvald. En þá er það oftast haft um þá menn sem sátu á miðpalli lögréttu og settu lög, en algengasta starfsheiti þeirra var goðar eða goðorðsmenn. Því er betra að nota orðið lögréttumaður eingöngu um bændur sem sátu í lögréttu á tímabilinu 1271–1800.

Voru lögréttumenn þá þingmenn síns tíma? Þingmenn okkar tíma hafa einkum tvö hlutverk. Þeir setja lög, og þeir ráða því hvaða stjórnmálaflokkar eigi menn í ríkisstjórn því að ríkisstjórnir þurfa að hafa stuðning meirihluta þingsins. Þetta síðartalda hlutverk alþingismanna kom ekki til greina hjá lögréttumönnum því að hliðstæðu ráðherra okkar tíma, nánustu ráðgjafa konungs, valdi konungur sjálfur. Fram að einveldistímanum var hlutverk lögréttumanna hins vegar að því leyti hið sama og alþingismanna okkar að þeir gátu samþykkt lög, sem konungur staðfesti svo, eins og forseti okkar staðfestir lög frá Alþingi. En mest af tíma lögréttumanna á þingi hefur farið í að hlusta á málflutning í dómsmálum og dæma í þeim, nokkuð sem löglærðir dómarar gera á okkar dögum. Þetta dómakerfi var líkt kviðdómum sem tíðkast í mörgum löndum nú, þar sem ólöglært fólk situr í dómstólum og úrskurðar um sekt eða sýknu.

Annar grundvallarmunur er á lögréttumönnum og alþingismönnum. Lögréttumenn voru tilnefndir af sýslumönnum og lögmönnum, sem töldust hafa æðri stöðu í valdakerfinu en lögréttumenn sjálfir. Þessir æðri valdhafar höfðu svo verið skipaðir í störf sín af konungi eða embættismanni sem konungur hafði skipað í starf sitt. Lögmenn voru að vísu kosnir af lögréttu, en sú kosning þurfti að fá staðfestingu konungs. Alþingismenn okkar tíma eru hins vegar kosnir af öllum almenningi. Það er af því að lögréttumenn lifðu í fámennisveldi þar sem valdið kom að ofan og niður samfélagsstigann, en við búum við lýðræði þar sem valdið á að koma að neðan, frá almenningi. Þessu skyldur er sá munur að alþingismenn eru nú kosnir til fjögurra ára í senn og geta því misst umboð sitt ef almenningi finnst þeir ekki beita valdi sínu rétt. En lögréttumenn voru nefndir til alþingisreiðar svo lengi sem þeir héldu lífi, heilsu og kröftum, eða voru hestfærir og ölfærir eins og stundum var sagt. Loks má nefna þann mun að þingmenn okkar eru í starfi sínu allt árið, en á tímum lögréttumanna stóð þingið stundum innan við viku og í mesta lagi þrjár vikur.

Jú, að vissu leyti voru lögréttumenn þingmenn síns tíma en allt stjórnkerfi þeirra tíma var harla ólíkt því sem starfar nú.

Heimildir og mynd:
  • Einar Arnórsson: Réttarsaga Alþingis. Reykjavík, Alþingissögunefnd, 1945 (Saga Alþingis I).
  • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
  • Gunnar Karlsson: „Að ná íslenskum lögum. Um lagaákvæði Gamla sáttmála og löggjafarvald á Íslandi í veldi Noregskonungs.“ Yfir Íslandsála. Afmælisrit til heiðurs Magnúsi Stefánssyni sextugum (Reykjavík, Sögufræðslusjóður, 1991), 53–75.
  • Járnsíða og Kristinréttur Árna Þorlákssonar. Útgefendur Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon, Már Jónsson. Reykjavík, Sögufélag, 2005.
  • Jónsbók. Lögbók Íslendinga, hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2004 (Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar VIII).
  • Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 29. 8. 2013).

...