Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á Íslandi er börnum yngri en 13 ára almennt bannað að vinna. Börn undir þeim aldri mega þó vinna við heimilisaðstoð á einkaheimilum og í fjölskyldufyrirtækjum, ef um er að ræða létt verk sem vara í skamman tíma og teljast hvorki skaðleg né hættuleg börnum. Einnig er heimilt að ráða börn undir 13 ára aldri til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi að fengnu leyfi frá Vinnueftirlitinu.
***
Eins og fjallað er um í svari við spurningunni Mætti fólk yngra en 18 ára vinna ef við göngum í ESB? gilda á Íslandi lög og reglur um að börn, sem eru enn á skólaskyldualdri, skuli ekki stunda launaða vinnu. Áður en reglugerð þess efnis tók gildi hér á landi, árið 1999, var algengt að 12 ára börn, og jafnvel yngri, öfluðu sér tekna með því að bera út blöð eða sinna barnagæslu. Á árum áður var einnig algengt að ung bæjarbörn væru send í sveit á sumrin eða störfuðu við fiskvinnslu. Slíkt tíðkaðist langt fram á 20. öld og gátu þá jafnvel sex til átta ára gömul börn haft af þessu einhverjar tekjur. Nú á dögum þykir hins vegar ekki lengur sjálfsagt að senda ung börn frá heimilum sínum til að vinna yfir sumartímann. Einungis börn sem eru 13 ára og eldri mega sinna blaðburði og léttum fiskvinnslustörfum og lágmarksaldur til að starfa við barnagæslu er 15 ára.
Ungir íslenskir drengir við vinnu. Myndin er tekin í kringum 1927-28.
Það er því ekki margt í boði fyrir 12 ára ungmenni sem vilja afla sér fjár. Í reglugerð um vinnu barna og unglinga (nr. 426/1999), sem byggð er á alþjóðasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (nr. 138) um lágmarksaldur við vinnu og tilskipun Evrópusambandsins (nr. 94/33/EB) um vinnuvernd ungmenna, er þó að finna sérstakt ákvæði varðandi vinnu barna yngri en 13 ára. Þar segir:
Börn, þ. á m. börn undir 13 ára aldri, er heimilt að ráða til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Afla skal leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur vegna vinnu barna yngri en 13 ára. (1. mgr. 34. gr.).
Að jafnaði skal haga vinnutíma og vinnuálagi þannig að skólaganga barna yngri en 13 ára raskist ekki og slíkt ógni ekki heilbrigði eða öryggi þeirra. Jafnframt skal taka sérstakt tillit til aldurs og þroska þeirra. (4. mgr. 34. gr.).
Börn sem eru yngri en 13 ára geta því til dæmis leikið í auglýsingum og/eða kvikmyndum, tekið þátt í leiksýningum, íþróttakeppnum og selt eigin myndverk, með því skilyrði að það komi ekki niður á skólagöngu þeirra.
Auk þess kemur eftirfarandi fram í reglugerðinni:
Reglugerðin tekur ekki til heimilisaðstoðar á einkaheimili atvinnurekanda eða vinnu í fjölskyldufyrirtækjum, enda sé vinnan tilfallandi eða vari í skamman tíma og ekki skaðleg eða hættuleg ungmenninu. (1. mgr. 2. gr.).
Fjölskyldufyrirtæki telst í þessu tilviki vera fyrirtæki sem er í eigu einstaklinga eða einstaklings sem er skyldur eða mægður ungmenni í beinan legg eða annan legg til hliðar eða tengdur því með sama hætti vegna ættleiðingar. (2. mgr. 2. gr.).
Samkvæmt þessu er ekkert því til fyrirstöðu að börn kanni hvort foreldrar, afar eða ömmur, systkini, frændur eða frænkur hafi einhver létt verkefni sem hæfa þeirra aldri og hvort áhugi sé á að greiða fyrir þau.
Á heimasíðu Umboðsmanns barna er að finna svar við svipaðri fyrirspurn sem lesandi er eindregið hvattur til að kynna sér.
Mynd:
Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvernig aflar maður sér fjár 12 ára?“ Vísindavefurinn, 22. mars 2013, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64773.
Brynhildur Ingimarsdóttir. (2013, 22. mars). Hvernig aflar maður sér fjár 12 ára? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64773
Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvernig aflar maður sér fjár 12 ára?“ Vísindavefurinn. 22. mar. 2013. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64773>.