Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er satt að maður geti orðið geðveikur af því að spila á glerhörpu?

Heiða María Sigurðardóttir

Margir þekkja að hægt er að láta syngja í glasi með því að strjúka eftir brún þess með blautum fingri. Svipuðu máli gegnir um svokallaða glerhörpu þar sem fá má fram ólíka tóna með því að renna fingri eftir misstórum glerskálum (sjá Hvað er glerharpa?). Hljómblær tónanna sem myndast þegar leikið er á glös eða glerhörpu þykir ansi sérstakur og jafnvel draugalegur eða dulrænn, og er það líklega ástæða þess að sögur komust á kreik um að þess konar hljóð gætu haft margvísleg áhrif á líkama og sál, sum góð og önnur slæm.

Sagt er frá því í heimildum frá 17. öld að mögulegt sé að lækna sjúka spili maður á glös fyllt með mismunandi vökvum, svo sem víni, saltvatni eða olíu. Sömuleiðis var sögð sagan af Íranum Richard Pockrich (um 1690-1759) sem ku hafa komið sér úr klípu með því að leika á glös, en óvinir hans hrifust svo af þessu „himneska hljóðfæri“ að þeir voru sem í leiðslu. Pólska prinsessan Isabella Czartoryska segir í bréfi frá 1772 að Benjamin Franklin, maðurinn sem fann upp glerhörpuna, hafi læknað sig af þunglyndi með því að leika á hljóðfærið. Franz Anton Mesmer, sem þekktastur er fyrir notkun sína á dáleiðslu í meðferð, notaði sömuleiðis glerhörpu til að hafa áhrif á sjúklinga sína. Við það að heyra óm glerhörpunnar féll einn skjólstæðingur hans í stafi, „skalf, missti andann, skipti litum og fannst sem hann væri dreginn niður í gólf“. Annar sjúklingur varð að biðja sér vægðar sökum mikilla óþæginda sem glerhörputónlist Mesmers olli honum.


Glerharpa, hljóðfærið sem sagt var geta valdið geðveiki.

Það er því kannski ekki skrýtið að margir urðu hræddir við glerhörpuna og hljóð hennar. Hljóðfærið var talið hafa áhrif á bæði andlegt og líkamlegt ástand; þannig gæti það til dæmis orsakað yfirlið, flog og jafnvel leitt fólk til dauða. Það ýtti undir slíkar sögur að tveir þekktir glerhörpuleikarar, Marianne Davies og Marianne Kirchgässner, urðu fyrir alvarlegum heilsubresti og var þá glerhörpunni kennt um. Í Þýskalandi komust meira að segja þær sögur á kreik að hljóðfæraleikur á glerhörpu gæti vakið fólk upp frá dauðum. Án efa hafa slíkar sögusagnir átt sinn hlut í því að glerharpan datt úr tísku og er nú afar sjaldgæf sjón.

Getur maður þá orðið geðveikur af því að spila á glerhörpu? Svarið er að það er harla ólíklegt, ef ekki ómögulegt. Fólk getur án efa hrifist af glerhörpuleik, rétt eins og annarri tónlist, eða fundist hún ljót og óþægileg. Jafnvel er ekki útilokað að hægt sé að nota hana sem hjálpartæki í dáleiðslumeðferð eins og Mesmer virðist hafa gert. En geðveiki sprettur ekki upp af því einu að hlusta á tónlist; almennt er viðurkennt að flestir geðsjúkdómar komi fram sökum samspils bæði erfða- og umhverfisþátta. Maður þarf því líklega ekki að óttast það að leika á glerhörpu, ekki frekar en píanó, gítar, flautu eða nokkurt annað hljóðfæri.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimild og mynd

  • Gallo, D. A. og Finger, S. (2000). The power of a musical instrument: Franklin, the Mozarts, Mesmer, and the glass armonica. History of Psychology, 3(4), 326-343.
  • Image:Armonica.png. Wikipedia: The Free Encyclopedia.

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

25.1.2007

Spyrjandi

Jóhann Jóhannsson, f. 1991

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Er satt að maður geti orðið geðveikur af því að spila á glerhörpu?“ Vísindavefurinn, 25. janúar 2007, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6479.

Heiða María Sigurðardóttir. (2007, 25. janúar). Er satt að maður geti orðið geðveikur af því að spila á glerhörpu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6479

Heiða María Sigurðardóttir. „Er satt að maður geti orðið geðveikur af því að spila á glerhörpu?“ Vísindavefurinn. 25. jan. 2007. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6479>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er satt að maður geti orðið geðveikur af því að spila á glerhörpu?
Margir þekkja að hægt er að láta syngja í glasi með því að strjúka eftir brún þess með blautum fingri. Svipuðu máli gegnir um svokallaða glerhörpu þar sem fá má fram ólíka tóna með því að renna fingri eftir misstórum glerskálum (sjá Hvað er glerharpa?). Hljómblær tónanna sem myndast þegar leikið er á glös eða glerhörpu þykir ansi sérstakur og jafnvel draugalegur eða dulrænn, og er það líklega ástæða þess að sögur komust á kreik um að þess konar hljóð gætu haft margvísleg áhrif á líkama og sál, sum góð og önnur slæm.

Sagt er frá því í heimildum frá 17. öld að mögulegt sé að lækna sjúka spili maður á glös fyllt með mismunandi vökvum, svo sem víni, saltvatni eða olíu. Sömuleiðis var sögð sagan af Íranum Richard Pockrich (um 1690-1759) sem ku hafa komið sér úr klípu með því að leika á glös, en óvinir hans hrifust svo af þessu „himneska hljóðfæri“ að þeir voru sem í leiðslu. Pólska prinsessan Isabella Czartoryska segir í bréfi frá 1772 að Benjamin Franklin, maðurinn sem fann upp glerhörpuna, hafi læknað sig af þunglyndi með því að leika á hljóðfærið. Franz Anton Mesmer, sem þekktastur er fyrir notkun sína á dáleiðslu í meðferð, notaði sömuleiðis glerhörpu til að hafa áhrif á sjúklinga sína. Við það að heyra óm glerhörpunnar féll einn skjólstæðingur hans í stafi, „skalf, missti andann, skipti litum og fannst sem hann væri dreginn niður í gólf“. Annar sjúklingur varð að biðja sér vægðar sökum mikilla óþæginda sem glerhörputónlist Mesmers olli honum.


Glerharpa, hljóðfærið sem sagt var geta valdið geðveiki.

Það er því kannski ekki skrýtið að margir urðu hræddir við glerhörpuna og hljóð hennar. Hljóðfærið var talið hafa áhrif á bæði andlegt og líkamlegt ástand; þannig gæti það til dæmis orsakað yfirlið, flog og jafnvel leitt fólk til dauða. Það ýtti undir slíkar sögur að tveir þekktir glerhörpuleikarar, Marianne Davies og Marianne Kirchgässner, urðu fyrir alvarlegum heilsubresti og var þá glerhörpunni kennt um. Í Þýskalandi komust meira að segja þær sögur á kreik að hljóðfæraleikur á glerhörpu gæti vakið fólk upp frá dauðum. Án efa hafa slíkar sögusagnir átt sinn hlut í því að glerharpan datt úr tísku og er nú afar sjaldgæf sjón.

Getur maður þá orðið geðveikur af því að spila á glerhörpu? Svarið er að það er harla ólíklegt, ef ekki ómögulegt. Fólk getur án efa hrifist af glerhörpuleik, rétt eins og annarri tónlist, eða fundist hún ljót og óþægileg. Jafnvel er ekki útilokað að hægt sé að nota hana sem hjálpartæki í dáleiðslumeðferð eins og Mesmer virðist hafa gert. En geðveiki sprettur ekki upp af því einu að hlusta á tónlist; almennt er viðurkennt að flestir geðsjúkdómar komi fram sökum samspils bæði erfða- og umhverfisþátta. Maður þarf því líklega ekki að óttast það að leika á glerhörpu, ekki frekar en píanó, gítar, flautu eða nokkurt annað hljóðfæri.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimild og mynd

  • Gallo, D. A. og Finger, S. (2000). The power of a musical instrument: Franklin, the Mozarts, Mesmer, and the glass armonica. History of Psychology, 3(4), 326-343.
  • Image:Armonica.png. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
...