Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Af hverju segja sumir „sjáustum“ en ekki „sjáumst“?

Í fornu máli var ending fyrstu persónu eintölu í miðmynd –umsk, köllumsk en ending 3. persónu –st, kallast. Á 14. öld fór að verða vart þeirrar breytingar að í fyrstu persónu var tekin upp ending þriðju persónu, kallast. Þetta eru talin norsk áhrif sem komu fyrst fram í tilteknu málsniði. Þessi breyting breiddist síðan út í öðrum málsniðum.

Bæði sjáumst og sjáustum þekkjast í málinu. Endingin –umst er nú kennd í skólum sem rétt ending fyrstu persónu miðmyndar í fleirtölu.

Fyrsta persóna fleirtölu hafði á 13. öld endinguna –umzk sem smám saman breytist í –umzt. Á 15. öld koma fram myndir með –nzt og –zt og síðar –nst og –st. Þessar myndir fyrstu persónu fleirtölu voru einráðar á 16. öld og ríkjandi á þeirri 17. Á 17. öld var nýrri endingu bætt við endinguna –st þannig að til varð endingin –ustum og var hún ríkjandi í talmáli. Gamla endingin –umst var endurvakin af lærdómsmönnum á 18. öld og er Árni Magnússon handritasafnari oftast nefndur í þeirri umræðu. Sú mynd vann á á 19. öld, að minnsta kosti í ritmáli, og er nú kennd í skólum sem rétt ending fyrstu persónu miðmyndar í fleirtölu. Endingin –ustum er þó enn algeng í talmáli.

Heimild:
  • Stefán Karlsson. 2000. Tungan. Í: Stafkrókar. Ritgerðir eftir Stefán Karlsson gefnar út í tilefni af sjötugsafmæli hans 2. desember 1998. Bls. 39. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar.

Mynd:

Útgáfudagur

17.7.2013

Spyrjandi

Guðrún Eydís Jónsdóttir

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Af hverju segja sumir „sjáustum“ en ekki „sjáumst“?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2013. Sótt 23. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=64865.

Guðrún Kvaran. (2013, 17. júlí). Af hverju segja sumir „sjáustum“ en ekki „sjáumst“? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=64865

Guðrún Kvaran. „Af hverju segja sumir „sjáustum“ en ekki „sjáumst“?“ Vísindavefurinn. 17. júl. 2013. Vefsíða. 23. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=64865>.

Chicago | APA | MLA

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Valdimar Sigurðsson

1978

Valdimar Sigurðsson er prófessor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og forstöðumaður Rannsóknarseturs HR í markaðsfræði og neytendasálfræði. Rannsóknir Valdimars hafa einkum beinst að neytendahegðun og markaðssetningu á stafrænum miðlum og í verslunarumhverfi tengt matvælum og hollustu.