Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvernig hafði kreppan áhrif á bókmenntir (félagslegt raunsæi)?

Stella Soffía Jóhannesdóttir

Í kjölfar verðbréfahrunsins í Kauphöllinni í New York 23. október 1929 skall á heimskreppa sem hafði gífurleg áhrif á líf fólks í hinum vestræna heimi. Lífið varð barátta um brauðið frá degi til dags, atvinnuleysi jókst mikið og fólk stóð í röðum til að komast yfir nauðsynjavörur eins og mat og fatnað. Evrópuþjóðirnar voru í sárum eftir fyrra stríð og ekki varð kreppan til að bæta ástandið þar. Breytingarnar endurspeglast í bókmenntum og listum frá þessum tíma, umfjöllunarefnin urðu önnur en áður og sjónarhornið breyttist.

Bókmenntir frá krepputímanum eru gjarnan kenndar við félagslegt eða þjóðfélagslegt raunsæi en sú stefna tók við af rómantísku stefnunni í bókmenntum og fleiri listgreinum um miðja nítjándu öld. Samkvæmt raunsæisstefnunni leitast höfundar við að lýsa umhverfinu og persónum á sem raunsannastan hátt þannig að lesandi skynji að sögurnar gætu gerst í raun og veru og persónurnar gætu verið raunverulegar.

Í raunsæisbókmenntum kreppuráranna eru vandamál líðandi stundar skoðuð og bent á það sem betur má fara í samfélaginu. Höfundarnir eru þá eins og nokkurs konar læknar, þeir greina meinið og koma með tillögu að lækningu. Samúð skáldanna er með lágstéttarfólki og smælingjum, verkalýð og bændum í þessum verkum, og er stéttavitund áberandi.


Úr kvikmyndinni 79 af stöðinni sem gerð var eftir samnefndri bók.

Á Íslandi er yfirleitt talað um að félagslegt raunsæi hafi verið ríkjandi á árunum 1930-1950 og var það mikið blómaskeið í bókmenntalífinu. Á þessum mikla umbreytingatíma í sögu þjóðarinnar var Reykjavík að stækka og óðum að breytast úr bæ í borg. Nýr veruleiki blasti skyndilega við og samfélagið, sem áður hafði verið sveitasamfélag og svo til óbreytt um aldaraðir, stökkbreyttist og varð að borgarsamfélagi. Mikið af bókmenntum þessa tímabils fjalla einmitt um breytinguna sem varð þegar fólk flutti úr sveitum og þann nýja raunveruleika sem beið fólks á mölinni, eins og það var kallað. Indriði G. Þorsteinsson skrifaði bækur um þetta efni, til dæmis 79 af stöðinni (1955) en í henni segir frá því hvernig sveitafólki sem flytur á mölina gengur að fóta sig við breyttar aðstæður.

Af þeim höfundum sem helst skrifuðu um stéttavitund og kjör verkafólks og bænda er Halldór Laxness mest áberandi. Salka Valka (1931 og 1932) er í mjög sósíalískum anda, en hún fjallar um lífsbaráttu verkafólks í litlu samfélagi úti á landi. Þar er stórt bil á milli ríkra og fátækra, auðvalds og öreiga, og möguleikar hinna efnaminni eru takmarkaðir.

Íslensk ljóðlist stóð einnig í miklum blóma á þessu tímabili. Steinn Steinarr gaf út sína fyrstu ljóðabók, Rauður loginn brann, árið 1934. Ljóðin fylgja hefðbundnum bragarháttum en innihaldið er í raunsæisanda; ljóðmælandi ávarpar öreiga með baráttukvæðum og er mjög gagnrýninn á samfélagið. Jóhannes úr Kötlum orti einnig á svipuðum nótum um þetta leyti. Hann gaf út bók sína Samt mun ég vaka árið 1935 þar sem segja má að ungmennafélagsandinn sem einkenndi fyrri bækur hans hafi vikið fyrir stéttabaráttunni.

Frægasta bandaríska bókin sem gerist á krepputímabilinu er vafalaust Þrúgur reiðinnar (e. Grapes of Wrath) eftir John Steinbeck sem kom út árið 1939. Hún segir frá flutningi landbúnaðarverkamanna frá Oklahoma til fyrirheitna landsins í vestri, Kaliforníu, þar sem þeir telja að betra líf og atvinna bíði þeirra. Tugir þúsunda annarra öreiga eru hins vegar á sömu leið í sams konar erindagjörðum og því er ekki mikla vinnu að fá þegar til Vesturstrandarinnar er komið. Aðkomufólksins bíður eymd, atvinnuleysi og niðurlæging. Steinbeck lýsir aðstæðum fólksins á raunsæjan hátt, og bjó meðal annars með fjölskyldu í svipaðri stöðu og sögupersónurnar um tíma til að öðlast betri innsýn í erfitt líf þeirra.

Frekara lesefni og mynd:

Höfundur

bókmenntafræðingur

Útgáfudagur

5.2.2007

Spyrjandi

Ólöf Líf, f. 1987

Tilvísun

Stella Soffía Jóhannesdóttir. „Hvernig hafði kreppan áhrif á bókmenntir (félagslegt raunsæi)?“ Vísindavefurinn, 5. febrúar 2007. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6489.

Stella Soffía Jóhannesdóttir. (2007, 5. febrúar). Hvernig hafði kreppan áhrif á bókmenntir (félagslegt raunsæi)? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6489

Stella Soffía Jóhannesdóttir. „Hvernig hafði kreppan áhrif á bókmenntir (félagslegt raunsæi)?“ Vísindavefurinn. 5. feb. 2007. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6489>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig hafði kreppan áhrif á bókmenntir (félagslegt raunsæi)?
Í kjölfar verðbréfahrunsins í Kauphöllinni í New York 23. október 1929 skall á heimskreppa sem hafði gífurleg áhrif á líf fólks í hinum vestræna heimi. Lífið varð barátta um brauðið frá degi til dags, atvinnuleysi jókst mikið og fólk stóð í röðum til að komast yfir nauðsynjavörur eins og mat og fatnað. Evrópuþjóðirnar voru í sárum eftir fyrra stríð og ekki varð kreppan til að bæta ástandið þar. Breytingarnar endurspeglast í bókmenntum og listum frá þessum tíma, umfjöllunarefnin urðu önnur en áður og sjónarhornið breyttist.

Bókmenntir frá krepputímanum eru gjarnan kenndar við félagslegt eða þjóðfélagslegt raunsæi en sú stefna tók við af rómantísku stefnunni í bókmenntum og fleiri listgreinum um miðja nítjándu öld. Samkvæmt raunsæisstefnunni leitast höfundar við að lýsa umhverfinu og persónum á sem raunsannastan hátt þannig að lesandi skynji að sögurnar gætu gerst í raun og veru og persónurnar gætu verið raunverulegar.

Í raunsæisbókmenntum kreppuráranna eru vandamál líðandi stundar skoðuð og bent á það sem betur má fara í samfélaginu. Höfundarnir eru þá eins og nokkurs konar læknar, þeir greina meinið og koma með tillögu að lækningu. Samúð skáldanna er með lágstéttarfólki og smælingjum, verkalýð og bændum í þessum verkum, og er stéttavitund áberandi.


Úr kvikmyndinni 79 af stöðinni sem gerð var eftir samnefndri bók.

Á Íslandi er yfirleitt talað um að félagslegt raunsæi hafi verið ríkjandi á árunum 1930-1950 og var það mikið blómaskeið í bókmenntalífinu. Á þessum mikla umbreytingatíma í sögu þjóðarinnar var Reykjavík að stækka og óðum að breytast úr bæ í borg. Nýr veruleiki blasti skyndilega við og samfélagið, sem áður hafði verið sveitasamfélag og svo til óbreytt um aldaraðir, stökkbreyttist og varð að borgarsamfélagi. Mikið af bókmenntum þessa tímabils fjalla einmitt um breytinguna sem varð þegar fólk flutti úr sveitum og þann nýja raunveruleika sem beið fólks á mölinni, eins og það var kallað. Indriði G. Þorsteinsson skrifaði bækur um þetta efni, til dæmis 79 af stöðinni (1955) en í henni segir frá því hvernig sveitafólki sem flytur á mölina gengur að fóta sig við breyttar aðstæður.

Af þeim höfundum sem helst skrifuðu um stéttavitund og kjör verkafólks og bænda er Halldór Laxness mest áberandi. Salka Valka (1931 og 1932) er í mjög sósíalískum anda, en hún fjallar um lífsbaráttu verkafólks í litlu samfélagi úti á landi. Þar er stórt bil á milli ríkra og fátækra, auðvalds og öreiga, og möguleikar hinna efnaminni eru takmarkaðir.

Íslensk ljóðlist stóð einnig í miklum blóma á þessu tímabili. Steinn Steinarr gaf út sína fyrstu ljóðabók, Rauður loginn brann, árið 1934. Ljóðin fylgja hefðbundnum bragarháttum en innihaldið er í raunsæisanda; ljóðmælandi ávarpar öreiga með baráttukvæðum og er mjög gagnrýninn á samfélagið. Jóhannes úr Kötlum orti einnig á svipuðum nótum um þetta leyti. Hann gaf út bók sína Samt mun ég vaka árið 1935 þar sem segja má að ungmennafélagsandinn sem einkenndi fyrri bækur hans hafi vikið fyrir stéttabaráttunni.

Frægasta bandaríska bókin sem gerist á krepputímabilinu er vafalaust Þrúgur reiðinnar (e. Grapes of Wrath) eftir John Steinbeck sem kom út árið 1939. Hún segir frá flutningi landbúnaðarverkamanna frá Oklahoma til fyrirheitna landsins í vestri, Kaliforníu, þar sem þeir telja að betra líf og atvinna bíði þeirra. Tugir þúsunda annarra öreiga eru hins vegar á sömu leið í sams konar erindagjörðum og því er ekki mikla vinnu að fá þegar til Vesturstrandarinnar er komið. Aðkomufólksins bíður eymd, atvinnuleysi og niðurlæging. Steinbeck lýsir aðstæðum fólksins á raunsæjan hátt, og bjó meðal annars með fjölskyldu í svipaðri stöðu og sögupersónurnar um tíma til að öðlast betri innsýn í erfitt líf þeirra.

Frekara lesefni og mynd:

...