Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ástæða þess að oft er talað um réttlætiskennd er sú að við mannverurnar finnum iðulega hvernig óréttlæti sem fyrir okkur ber kveikir hjá okkur viðbragð sem kenna má við orðalag á borð við „nú er mér nóg boðið!“ og eðlilegt er að tengja við kröfu um réttlæti. Þannig virðist búa í okkur ákveðið skynbragð á réttlæti og óréttlæti sem lætur til sín taka þegar við á.
Franski heimspekingurinn Alain Badiou (f. 1937) tekur svo til orða á einum stað að í augum okkar sé réttlætið sveipað myrkri en óréttlætið augljóst.[1] Því má segja að réttlætið stingi í augu. Slíkt líkamlegt líkingamál á einmitt ákaflega vel við, vegna þess að það er engu líkara en að það skynbragð sem við berum á óréttlætið, og þar með réttlætiskenndin, búi í líkamanum frekar en huganum. Hún er dæmi um það hvernig líkaminn veit sínu viti og er oft skjótari til en hugurinn, sem haltrar svo að segja á eftir og reynir að setja saman lýsingar á því sem er á seyði í líkamanum.[2]
Annar Frakki, hinn merki stjórnspekingur og uppeldisfrömuður Jean-Jacques Rousseau (1712-1778), skrifaði eitt sinn vini sínum í bréfi: „Allt ólán mitt í lífinu kemur til vegna brennandi haturs sem ég ber til misréttis og hef aldrei getað slökkt“.[3] Rousseau var á margan hátt gæfusamur, en að öðru leyti fór hann illa að ráði sínu í lífinu. Hvort réttlætiskenndin og hatrið á því óréttlæti sem misrétti er hafi átt þar mikla sök skal ósagt látið hér, en fullvíst er að stjórnspeki hans snerist öðru fremur um réttlæti í mannlegu samfélagi og mögulegan framgang þess.
Þriðji Frakkinn, Stéphane Hessel (1917-2013), vakti mikla athygli í Evrópu í kjölfar efnahagshrunsins 2008-2009 með smáriti sínu Indignez-vous![4] Titill ritsins er vandþýddur en afturbeygða sögnin s’indigner vísar til þess að leyfa sér að vera ofboðið. Hessel vildi með ritinu hvetja alþýðu manna í hinum ýmsu Evrópulöndum til að loka ekki augunum fyrir óréttlætinu sem efnahagshrunið leiddi svo skýrt í ljós. Látum óréttlætið verða okkur hvatning til dáða, sagði Hessel, söfnum liði og berjum í brestina. Í framhaldinu varð til mótmælahreyfing á Spáni sem kenndi sig beinlínis við bókartitil Hessels og kallaði sig Los indignados.
Þannig starfar réttlætiskenndin í okkur mannverunum og gerir vart við sig þegar óréttlætið rekur á fjörur okkar. Og meðan það heldur áfram að gerast höldum við áfram að tala (oft) um réttlætiskennd.
Tilvísanir:
^ Alain Badiou, Infinite thought, þýð. Oliver Feltham og Justin Clemens, London: Continuum 2005, s. 52.
^ Þetta mætti einnig setja í samhengi við kenningar sálfræðingsins Daniel Kahneman (f. 1934) um tvö kerfi mannlegrar hugsunar, þar sem annað er fljótvirkt, sjálfvirkt og nátengt skynjun, en hitt hægfara og byggt á rökhugsun. Sjá t.d.: Eugene Gendlin, „Three assertions about the body“, The Folio 12(1), s. 21-33.
^ Sjá Már Jónsson, „Inngangur“, Jean-Jacques Rousseau, Samfélagssáttmálinn, þýð. Már Jónsson og Björn Þorsteinsson, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 2004, s. 45-46.
Björn Þorsteinsson. „Af hverju er oft talað um réttlætiskennd?“ Vísindavefurinn, 20. október 2025, sótt 20. október 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=64959.
Björn Þorsteinsson. (2025, 20. október). Af hverju er oft talað um réttlætiskennd? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64959
Björn Þorsteinsson. „Af hverju er oft talað um réttlætiskennd?“ Vísindavefurinn. 20. okt. 2025. Vefsíða. 20. okt. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64959>.