Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað er söguskekkja?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Þegar fjallað er um liðna tíma, vill oft brenna við að menn meta liðna atburði á forsendum síns eigin tíma, í stað þess að setja sig í spor þeirrar fortíðar sem við er að fást. Þessi tilhneiging hefur verið nefnd söguskekkja og er skyld því sem kallað er whig history á ensku en þau orð fela þó ekki í sér sömu aukamerkingar. Söguskekkja stendur mönnum mjög fyrir þrifum í skilningi á viðfangsefnum sögunnar, ekki síst í sögu hugmynda eða vísinda.

Í vísindasögu verður sífellt að hafa í huga, hvað menn gátu vitað í þá daga. Til dæmis hefur margt af því sem fyrirrennarar og brautryðjendur nútímavísinda héldu fram síðar reynst ófullkomið og fallvalt samkvæmt þeim stranga mælikvarða sem við leggjum á slíkar hugmyndir nú á dögum. Samt sem áður var kannski engin gild ástæða til að véfengja þessar hugmyndir á þeim tíma er þær voru fram settar: Þær stönguðust ef til vill ekki á við neinar athuganir sem þá höfðu verið gerðar, voru sæmilega einfaldar og skiljanlegar þeim sem á þurftu að halda og svo framvegis. Þannig má segja að þær hafi í rauninni verið „réttar“ samkvæmt viðurkenndum aðferðum og viðmiðunum vísinda og fræða á þeim tíma.

Rannsóknastofa í París 1884.

Þegar menn fara niðrandi orðum um slíkar hugmyndir fortíðarinnar, er það í rauninni álíka grunnfærið og að fjargviðrast yfir því, að Napóleon skuli ekki hafa beitt nifteindasprengjum í orrustunni við Waterloo eða að Gunnar á Hlíðarenda skuli ekki hafa sallað fjendur sína niður með vélbyssu, í stað þess að eiga bogastrenginn undir duttlungum Hallgerðar. Tiltækar hugmyndir á hverjum tíma eru um leið eins konar tæki eða áhöld til að móta umhverfi okkar og þróa nýjar hugmyndir. Ef einhver slík tæki vantar í hugmyndasjóðinn, verða menn einfaldlega að bjarga sér án þeirra sem best þeir geta. Maður sem hefur hamar, nagla og timbur fer öðruvísi að því að byggja sér hús en hinn sem hefur aðeins strá - og geta þó bæði húsin orðið nothæf á sína vísu. Á sama hátt gera menn sér mismunandi hugmyndir um gang himintungla eftir því hvort sólmiðjukenning Kópernikusar er þeim tiltæk eða ekki.

Annars er leikmönnum í sagnfræði kannski vorkunn þótt þeir séu glámskyggnir á söguskekkjuna, því að jafnvel sérfróðir sagnfræðingar hafa löngum verið hennar marki brenndir. Árið 1931 kom út áhrifamikil bók um gildrur söguskekkjunnar í almennri sögu eftir breska sagnfræðinginn Herbert Butterfield. Vísindasagnfræðingurinn C. B. Wilde heimfærir kenningar Butterfields á vísindasöguna með svofelldum orðum:
Túlkun í anda söguskekkjunnar hefur haft mikil áhrif innan vísindasögunnar. Það stafar af því að sagnfræðingum hafa virst vísindin sérstaklega tengd framförum. Sumir vísindasagnfræðingar hafa þess vegna litið á vísindalega þekkingu á okkar dögum sem altækan mælikvarða, sem hægt væri að leggja á allar fyrri tilraunir til að skilja náttúruna. Þetta vildi einkum við brenna fyrir 1950 eða svo. Í grófustu mynd verður söguskekkja í vísindasögu, eins og í stjórnmálasögu, til þess að brengla söguna og gera hana að frásögn af hetjum (sem settu fram hugmyndir í samræmi við núverandi stöðu vísindalegrar þekkingar) og þorpurum. Þessi öfgakennda söguskekkja hefur sætt harðri gagnrýni ..., og er nú mjög á undanhaldi í fræðigreininni.
Annar maður, sem hefur ekki síður átt hlut að því að leiðrétta söguskekkjuna í vísindasögunni, er rússnesk-franski vísindaheimspekingurinn og vísindasagnfræðingurinn Alexandre Koyré. Hann hefur meðal annars ritað mikið um byltingu Kópernikusar og aðdraganda hennar.

Mynd:


Texti þessa svars er að mestu fenginn úr bókinni Heimsmynd á hverfanda hveli frá 1986 eftir Þorstein Vilhjálmsson.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

15.1.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er söguskekkja?“ Vísindavefurinn, 15. janúar 2014. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=65045.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2014, 15. janúar). Hvað er söguskekkja? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65045

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er söguskekkja?“ Vísindavefurinn. 15. jan. 2014. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65045>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er söguskekkja?
Þegar fjallað er um liðna tíma, vill oft brenna við að menn meta liðna atburði á forsendum síns eigin tíma, í stað þess að setja sig í spor þeirrar fortíðar sem við er að fást. Þessi tilhneiging hefur verið nefnd söguskekkja og er skyld því sem kallað er whig history á ensku en þau orð fela þó ekki í sér sömu aukamerkingar. Söguskekkja stendur mönnum mjög fyrir þrifum í skilningi á viðfangsefnum sögunnar, ekki síst í sögu hugmynda eða vísinda.

Í vísindasögu verður sífellt að hafa í huga, hvað menn gátu vitað í þá daga. Til dæmis hefur margt af því sem fyrirrennarar og brautryðjendur nútímavísinda héldu fram síðar reynst ófullkomið og fallvalt samkvæmt þeim stranga mælikvarða sem við leggjum á slíkar hugmyndir nú á dögum. Samt sem áður var kannski engin gild ástæða til að véfengja þessar hugmyndir á þeim tíma er þær voru fram settar: Þær stönguðust ef til vill ekki á við neinar athuganir sem þá höfðu verið gerðar, voru sæmilega einfaldar og skiljanlegar þeim sem á þurftu að halda og svo framvegis. Þannig má segja að þær hafi í rauninni verið „réttar“ samkvæmt viðurkenndum aðferðum og viðmiðunum vísinda og fræða á þeim tíma.

Rannsóknastofa í París 1884.

Þegar menn fara niðrandi orðum um slíkar hugmyndir fortíðarinnar, er það í rauninni álíka grunnfærið og að fjargviðrast yfir því, að Napóleon skuli ekki hafa beitt nifteindasprengjum í orrustunni við Waterloo eða að Gunnar á Hlíðarenda skuli ekki hafa sallað fjendur sína niður með vélbyssu, í stað þess að eiga bogastrenginn undir duttlungum Hallgerðar. Tiltækar hugmyndir á hverjum tíma eru um leið eins konar tæki eða áhöld til að móta umhverfi okkar og þróa nýjar hugmyndir. Ef einhver slík tæki vantar í hugmyndasjóðinn, verða menn einfaldlega að bjarga sér án þeirra sem best þeir geta. Maður sem hefur hamar, nagla og timbur fer öðruvísi að því að byggja sér hús en hinn sem hefur aðeins strá - og geta þó bæði húsin orðið nothæf á sína vísu. Á sama hátt gera menn sér mismunandi hugmyndir um gang himintungla eftir því hvort sólmiðjukenning Kópernikusar er þeim tiltæk eða ekki.

Annars er leikmönnum í sagnfræði kannski vorkunn þótt þeir séu glámskyggnir á söguskekkjuna, því að jafnvel sérfróðir sagnfræðingar hafa löngum verið hennar marki brenndir. Árið 1931 kom út áhrifamikil bók um gildrur söguskekkjunnar í almennri sögu eftir breska sagnfræðinginn Herbert Butterfield. Vísindasagnfræðingurinn C. B. Wilde heimfærir kenningar Butterfields á vísindasöguna með svofelldum orðum:
Túlkun í anda söguskekkjunnar hefur haft mikil áhrif innan vísindasögunnar. Það stafar af því að sagnfræðingum hafa virst vísindin sérstaklega tengd framförum. Sumir vísindasagnfræðingar hafa þess vegna litið á vísindalega þekkingu á okkar dögum sem altækan mælikvarða, sem hægt væri að leggja á allar fyrri tilraunir til að skilja náttúruna. Þetta vildi einkum við brenna fyrir 1950 eða svo. Í grófustu mynd verður söguskekkja í vísindasögu, eins og í stjórnmálasögu, til þess að brengla söguna og gera hana að frásögn af hetjum (sem settu fram hugmyndir í samræmi við núverandi stöðu vísindalegrar þekkingar) og þorpurum. Þessi öfgakennda söguskekkja hefur sætt harðri gagnrýni ..., og er nú mjög á undanhaldi í fræðigreininni.
Annar maður, sem hefur ekki síður átt hlut að því að leiðrétta söguskekkjuna í vísindasögunni, er rússnesk-franski vísindaheimspekingurinn og vísindasagnfræðingurinn Alexandre Koyré. Hann hefur meðal annars ritað mikið um byltingu Kópernikusar og aðdraganda hennar.

Mynd:


Texti þessa svars er að mestu fenginn úr bókinni Heimsmynd á hverfanda hveli frá 1986 eftir Þorstein Vilhjálmsson.

...