Sólin Sólin Rís 05:33 • sest 21:22 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:14 • Sest 05:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:35 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:26 • Síðdegis: 23:41 í Reykjavík

Hvernig var blekið búið til sem notað var við skriftir handritanna?

Hersteinn Brynjúlfsson

Blek er litarefni í vökvaformi og hefur sem slíkt verið notað í aldaraðir til að skrifa með og teikna. Bleki má skipta í tvo megin flokka sótblek (kolefnablek) og sútunarsýrublek.

Notkun á bleki má upphaflega rekja til Kína og Egyptalands frá því um 2500 f.Kr. Blekið sem þar var notað var gert úr sóti og/eða öskuögnum í vatni með límkvoðu sem bindiefni. Rómverjar kölluðu slíkt blek atramentum scriptorum - skrifblek.

Sótblek

Grunnefnin í sótbleki eru sótagnir, vatn og límkvoða. Sót í sótblek (e. carbon ink) fæst til dæmis með því að brenna olíur, einkum jurtaolíur, en einnig er hægt að nota fínmöluð viðarkol. Það bindiefni sem oftast er getið og hefur reynst best hvað snertir notkunareiginleika og límseiglu, er akasíulím (e. gum arabic) sem unnið er úr kvoðu akasíutrjáa. Einnig hafa menn notað límkvoðu af öðrum uppruna og eru til dæmi þess að menn hafi notast við þynnt gelatinlím.

Sótblek binst við yfirborðsflöt en nær sjaldan dýpri bindingu. Sé sótið hreint og bindiefnið hæfilegt getur það enst svo öldum skipti og haldið litstyrk sínum. Helstu annmarkar bleks af þessu tagi eru að bindiefnið er uppleysanlegt í vatni og blekið er því viðkvæmt fyrir raka. Það getur runnið treglega ef magn bindiefnis er ekki hæfilegt og eftir þornun bleksins getur það verið viðkvæmt fyrir snertingu. Menn hafa því fljótlega farið að leita af efnum sem gæfu af sér blek sem væri með varanlegri yfirborðsfestu og gott rennsli úr skriffærinu.

Sútunarsýra

Mönnum var kunnugt til forna að við samruna járnsalts og tanníns (sútunarsýru) gæti myndast sótsvart litarefni. Nátturufræðingurinn Pliníus hinn eldri (Gaius Plinius Secundus, 23-79 e.Kr.) lýsir þessum eiginleika efnasambandsins og tilraunum sínum með það og hvernig það dökknar frá því að vera nær tært á lit og yfir í að vera svart.

Sútunarsýra (tannín) og járnsölt eru grunnefni sútunarsýrubleks ásamt vatni og límkvoðu. Notkun sútunarsýrubleks, sem einnig er oft kallað járngallblek (e. iron gall ink), var þegar hafin á 9. öld. Á 11. öld var að mestu farið að nota það í stað sótbleks. Sútunarsýra (tannín) finnst víða í náttúrunni. Ríkust af þessari sýru hafa reynst vera svokölluð gallepli eikartrjáa, en það er hýðishjúpur sem tréð myndar utan um eggjabú skordýra, svo sem geitunga.

Sútunarsýra finnst í einhverju mæli í ýmsum trjátegundum og runnagróðari, berki, laufum, rótum og ávöxtum. Galleplasýran (e. gallic acid) er þó sú sýra sem að öllu jöfnu er besta hráefnið. Efnasamband hennar og járnsúlfats gefur af sér dökkt og endingargott blek með bláum tón. Eiginleikar barksýru og tanníns sem ekki er upprunnið úr galleplum eru taldir síðri til blekmyndunar. Blek úr járnsúlfati og barksýru hefur grænleitan tón og er ekki eins endingargott og dökkt.

Járnsúlfat er það málmsalt sem best þykir gefast en úr öðrum málmsöltum, svo sem koparsúlfati og álsúlfati, myndst brúnleitara blek. Járnsúlfat er kristallað efni og uppleyst í vatni getur það dekkt og markað yfirborðstrefjar varanlega. Járnsúlfat hefur gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem ferrous sulfate, vitriol og copperas. Járngallblek er með mun betri bindieiginleika við bókfell en sótblek og það rennur betur.Efnafræðileg samsetning bleksins sem notað er á skinnhandritunum er ekki þekkt, en sennilega hafa þeir notað sútunarsýrublek.

Uppskriftir að járngallbleki skipta hundruðum. Gamlar uppskriftir járngallbleks ráðleggja oftast að blekið sé látið standa ónotað í nokkra daga eða vikur og svo sé hrært reglulega í blekleginum og hann jafnvel hitaður upp. Á þessum tíma oxast blekið og dökknar, en í lokuðu ílati er oxunin hins vegar hæg. Oxun bleksins stýrir því hversu hratt blekið dökknar og er ör þegar blekið kemst í snertingu við súrefni. Þegar hluti þessarar oxunar verður í trefjum yfirborðsefnis, svo sem bókfells, stuðlar það að varanlegri bindingu þess.

Rannsóknir hafa sýnt að þrír hlutar galleplasýru á móti einum hluta járnsúlfats, sé það hlutfall þessa efnasambands sem gefur af sér endingarbesta og dekksta blekið. Þá er miðað við efnasamband án nokkurra aukaefna. Blöndun límkvoðu í límið er fyrst og fremst ætlað til að halda blekögnunum í grugglausn svo að hluti þess botnfalli ekki.

Blek og handritin

Engar frásagnir eru til frá upphafi ritaldar á Íslandi um blekgerð. Þekkingu á blekgerð hafa Íslendingar vafalaust haft frá Evrópu eins og ýmsa aðra hagnýta þekkingu. Þaðan hafa væntanlega einnig fengist efni og áhöld til blekgerðar. Heimildir frá 17. öld segja frá aðferð við blekgerð sem talin er byggð á eldri uppskriftum. Helstu efnin í uppskriftinni eru sortulyng sem soðið er með ólaufguðum víðileggjum og mýrarsorta. Þegar tannínrík efni, svo sem viður og börkur, eru látin liggja í járnríku vatni eða jarðvegi verða þau fjótlega brúnleit eða svört á litinn. Í uppskriftinni eru því helstu grunnforsendur sútunarsýrubleks.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á bleki íslenskra skinnhandrita hafa hins vegar ekki enn þá upplýst efnafræðilega samsetningu þess svo afgerandi sé.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir:

Höfundur

forvörður á Stofnun Árna Magnússonar

Útgáfudagur

27.2.2007

Spyrjandi

Elsa Hermannsdóttir

Tilvísun

Hersteinn Brynjúlfsson. „Hvernig var blekið búið til sem notað var við skriftir handritanna?“ Vísindavefurinn, 27. febrúar 2007. Sótt 21. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6514.

Hersteinn Brynjúlfsson. (2007, 27. febrúar). Hvernig var blekið búið til sem notað var við skriftir handritanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6514

Hersteinn Brynjúlfsson. „Hvernig var blekið búið til sem notað var við skriftir handritanna?“ Vísindavefurinn. 27. feb. 2007. Vefsíða. 21. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6514>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig var blekið búið til sem notað var við skriftir handritanna?
Blek er litarefni í vökvaformi og hefur sem slíkt verið notað í aldaraðir til að skrifa með og teikna. Bleki má skipta í tvo megin flokka sótblek (kolefnablek) og sútunarsýrublek.

Notkun á bleki má upphaflega rekja til Kína og Egyptalands frá því um 2500 f.Kr. Blekið sem þar var notað var gert úr sóti og/eða öskuögnum í vatni með límkvoðu sem bindiefni. Rómverjar kölluðu slíkt blek atramentum scriptorum - skrifblek.

Sótblek

Grunnefnin í sótbleki eru sótagnir, vatn og límkvoða. Sót í sótblek (e. carbon ink) fæst til dæmis með því að brenna olíur, einkum jurtaolíur, en einnig er hægt að nota fínmöluð viðarkol. Það bindiefni sem oftast er getið og hefur reynst best hvað snertir notkunareiginleika og límseiglu, er akasíulím (e. gum arabic) sem unnið er úr kvoðu akasíutrjáa. Einnig hafa menn notað límkvoðu af öðrum uppruna og eru til dæmi þess að menn hafi notast við þynnt gelatinlím.

Sótblek binst við yfirborðsflöt en nær sjaldan dýpri bindingu. Sé sótið hreint og bindiefnið hæfilegt getur það enst svo öldum skipti og haldið litstyrk sínum. Helstu annmarkar bleks af þessu tagi eru að bindiefnið er uppleysanlegt í vatni og blekið er því viðkvæmt fyrir raka. Það getur runnið treglega ef magn bindiefnis er ekki hæfilegt og eftir þornun bleksins getur það verið viðkvæmt fyrir snertingu. Menn hafa því fljótlega farið að leita af efnum sem gæfu af sér blek sem væri með varanlegri yfirborðsfestu og gott rennsli úr skriffærinu.

Sútunarsýra

Mönnum var kunnugt til forna að við samruna járnsalts og tanníns (sútunarsýru) gæti myndast sótsvart litarefni. Nátturufræðingurinn Pliníus hinn eldri (Gaius Plinius Secundus, 23-79 e.Kr.) lýsir þessum eiginleika efnasambandsins og tilraunum sínum með það og hvernig það dökknar frá því að vera nær tært á lit og yfir í að vera svart.

Sútunarsýra (tannín) og járnsölt eru grunnefni sútunarsýrubleks ásamt vatni og límkvoðu. Notkun sútunarsýrubleks, sem einnig er oft kallað járngallblek (e. iron gall ink), var þegar hafin á 9. öld. Á 11. öld var að mestu farið að nota það í stað sótbleks. Sútunarsýra (tannín) finnst víða í náttúrunni. Ríkust af þessari sýru hafa reynst vera svokölluð gallepli eikartrjáa, en það er hýðishjúpur sem tréð myndar utan um eggjabú skordýra, svo sem geitunga.

Sútunarsýra finnst í einhverju mæli í ýmsum trjátegundum og runnagróðari, berki, laufum, rótum og ávöxtum. Galleplasýran (e. gallic acid) er þó sú sýra sem að öllu jöfnu er besta hráefnið. Efnasamband hennar og járnsúlfats gefur af sér dökkt og endingargott blek með bláum tón. Eiginleikar barksýru og tanníns sem ekki er upprunnið úr galleplum eru taldir síðri til blekmyndunar. Blek úr járnsúlfati og barksýru hefur grænleitan tón og er ekki eins endingargott og dökkt.

Járnsúlfat er það málmsalt sem best þykir gefast en úr öðrum málmsöltum, svo sem koparsúlfati og álsúlfati, myndst brúnleitara blek. Járnsúlfat er kristallað efni og uppleyst í vatni getur það dekkt og markað yfirborðstrefjar varanlega. Járnsúlfat hefur gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem ferrous sulfate, vitriol og copperas. Járngallblek er með mun betri bindieiginleika við bókfell en sótblek og það rennur betur.Efnafræðileg samsetning bleksins sem notað er á skinnhandritunum er ekki þekkt, en sennilega hafa þeir notað sútunarsýrublek.

Uppskriftir að járngallbleki skipta hundruðum. Gamlar uppskriftir járngallbleks ráðleggja oftast að blekið sé látið standa ónotað í nokkra daga eða vikur og svo sé hrært reglulega í blekleginum og hann jafnvel hitaður upp. Á þessum tíma oxast blekið og dökknar, en í lokuðu ílati er oxunin hins vegar hæg. Oxun bleksins stýrir því hversu hratt blekið dökknar og er ör þegar blekið kemst í snertingu við súrefni. Þegar hluti þessarar oxunar verður í trefjum yfirborðsefnis, svo sem bókfells, stuðlar það að varanlegri bindingu þess.

Rannsóknir hafa sýnt að þrír hlutar galleplasýru á móti einum hluta járnsúlfats, sé það hlutfall þessa efnasambands sem gefur af sér endingarbesta og dekksta blekið. Þá er miðað við efnasamband án nokkurra aukaefna. Blöndun límkvoðu í límið er fyrst og fremst ætlað til að halda blekögnunum í grugglausn svo að hluti þess botnfalli ekki.

Blek og handritin

Engar frásagnir eru til frá upphafi ritaldar á Íslandi um blekgerð. Þekkingu á blekgerð hafa Íslendingar vafalaust haft frá Evrópu eins og ýmsa aðra hagnýta þekkingu. Þaðan hafa væntanlega einnig fengist efni og áhöld til blekgerðar. Heimildir frá 17. öld segja frá aðferð við blekgerð sem talin er byggð á eldri uppskriftum. Helstu efnin í uppskriftinni eru sortulyng sem soðið er með ólaufguðum víðileggjum og mýrarsorta. Þegar tannínrík efni, svo sem viður og börkur, eru látin liggja í járnríku vatni eða jarðvegi verða þau fjótlega brúnleit eða svört á litinn. Í uppskriftinni eru því helstu grunnforsendur sútunarsýrubleks.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á bleki íslenskra skinnhandrita hafa hins vegar ekki enn þá upplýst efnafræðilega samsetningu þess svo afgerandi sé.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir:...