Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er einhver sérstök fræðigrein sem fæst við rannsóknir á handritum?

Már Jónsson

Í heild var spurningin svona:

Er einhver sérstök fræðigrein sem fæst við rannsóknir á handritum, það er innihaldi þeirra, uppruna, aldri o.s.frv.?

Handritafræði er sjálfstæð fræðigrein sem er stunduð víða um heim og á rætur í athugunum og hugmyndum þýskra fræðimanna um miðja 19. öld. Í fyrstu voru skriftareinkenni og skriftarþróun í brennidepli slíkra rannsókna, enda tengdust þær vinnu við textaútgáfu náið. Smám saman víkkaði fræðigreinin út og fyrir miðja síðustu öld vöknuðu belgískir og franskir fræðimenn til vitundar um að fleira væri hægt að gera við handrit en að lesa þau og gefa textana út. Árið 1950 skilgreindi François Masai sjálfstætt rannsóknasvið sem hann nefndi fornleifafræði handrita eða archéologie du manuscrit, sem einkum átti að fást við útlitsleg einkenni þeirra. Árið áður hafði Alphonse Dain notað orðið codicologie fyrstur manna á prenti. Markmið þessara manna var að losa handritarannsóknir undan ægivaldi textafræðinnar. Á þýsku var og er vandræðalaust að tala um Handschriftenkunde, og reyndar var það orð fyrst notað árið 1825, en á frönsku hafði codicologie vinninginn og þar af leiðandi codicology á ensku og codicologia á ítölsku.

Fyrst um sinn beittu fræðimenn hinum nýju hugmyndum aðeins á eitt handrit í senn, sem lýst var mjög nákvæmlega, en næstu árin mótaðist sú hugmynd að athuga mætti smærri eða stærri hópa þeirra með sama hætti í því skyni að komast að niðurstöðu um verklag við handritagerð. Á áttunda áratugnum athugaði til að mynda Léon Gilissen kveraskiptingu og umbrot allmargra handrita frá 13. og 14. öld í því skyni að endurskapa verklag og viðmið handritagerðarmanna. Sú niðurstaða hans sem mest áhrif hefur haft er að meginreglan hafi verið að útbúa kver með því að brjóta skinn saman, ýmist í tvennt eða þrennt eða fernt, og skera síðan upp úr þeim. Hér var komin fyrirmynd að ítarlegri athugun á því hvernig handrit voru búin til og greinilegt að það var bæði flókið og vandasamt. Jafnframt fóru fræðimenn að huga að því að tengja miðaldahandrit við félagslegt og efnahagslegt umhverfi á sama hátt og gert hafði verið um nokkurt skeið með prentaðar bækur frá 15. og 16. öld. Þessi rannsóknarhefð lifir góðu lífi og árlega koma út tugir bóka um einstök handrit eða litla hópa handrita, þar sem útlitseinkennum er vandlega lýst. Á Íslandi hafa slíkar athuganir birst í inngöngum að ljósprentuðum útgáfum útvaldra merkishandrita.


Í handritafræði eru meðal annars gerðar rannsóknir á verklagi og viðmiðum handritagerðarmanna.

Tímamót urðu í handritarannsóknum árið 1980 með útkomu bókarinnar Pour une histoire du livre manuscrit au Moyen Âge eftir tvo ítalska fræðimenn, Cörlu Bozzolo og Ezio Ornato, sem bæði störfuðu og starfa enn í París. Yfirlýst viðfangsefni þeirra var bóksaga miðalda og í undirtitli kom helsta stefnubreytingin fram, nefnilega að hér færu þrjár ritgerðir í megindlegri handritafræði eða á frönsku codicologie quantitative. Forsenda þeirra var og er að spennandi sé að athuga handrit svo þúsundum skiptir fremur en stök handrit, að mestu óháð innihaldi, fegurð og gæðum, eða með öðrum orðum sem menningarlega og sögulega afurð. Sams konar athuganir höfðu þá rutt sér til rúms í fornleifafræði og innan hugvísinda almennt var lögð vaxandi áhersla á talningu og mælingar, sem aukin reiknigeta tölva auðveldaði mjög.

Ýmsir hafa orðið til að fylgja í þessi fótspor. Viðfangsefni nýrra rannsókna eru meðal annars hlutfallsleg stærð leturflatar, línubil og línulengd, stærð bókstafa og fjöldi þeirra í línu. Einna mikilvægast er þó að athuga læsileika og markmiðið að leggja mat á það hvernig handritagerðarmenn og síðan skrifarar reynda að búa handrit svo í hendur lesenda að þau nýttust sem best. Eins og allir vita er mikill munur á blaðsíðu sem gott er að lesa og síðu sem vonlítið er að átta sig á. Lína getur til að mynda orðið of löng fyrir augað eða skriftin of þétt og kramin, eða bókstafirnir ógreinilegir. Fyrir þessu höfðu handritahönnuðir og skrifarar á miðöldum næma tilfinningu sem hægt er að nálgast og skilja. Íslensk skinnhandrit hafa ekki ennþá verið rannsökuð með þessum hætti og er það miður, því þau eru best varðveitti vitnisburður okkar um verkmenningu okkar heimsmerku miðalda.

Sjá einnig

Heimildir

  • Jónas Kristjánsson, „Bókfell og bókmenntir.“ Skarðsbók. Codex Scardensis AM 350 fol. Manuscripta Islandica Medii Aevi I. Reykjavík 1981, bls. 9-18.
  • Már Jónsson, „Megindlegar handritarannsóknir.“ Ezio Ornato, Lofræða um handritamergð, bls. 7-34.
  • Ornato, Ezio, Lofræða um handritamergð. Hugleiðingar um bóksögu miðalda. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 36. Þýðendur Björg Birgisdóttir og Már Jónsson. Reykjavík 2003.
  • Ólafur Halldórsson, „Skrifaðar bækur.“ Íslensk þjóðmenning VI. Ritstjóri Frosti F. Jóhannesson. Reykjavík 1989, bls. 57-89.
  • Soffía Guðný Guðmundsdóttir og Laufey Guðnadóttir, „Bókagerð á miðöldum.“ Handritin. Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif. Ritstjórar Gísli Sigurðsson og Vésteinn Ólason. Reykjavík 2002, bls. 45-61. Þær hafa einnig tekið saman áhugaverða vefslóð um þessi efni, sjá handritinheima.is.
  • Þórarinn Hjartarson, Skinna. Saga sútunar á Íslandi. Reykjavík 2000, bls. 15-32.
  • Myndin er fengin af síðunni The Royal College and Confraternity of Scribes and Illuminators of the Kingdom of Lochac.

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

26.4.2006

Spyrjandi

Markús Már

Tilvísun

Már Jónsson. „Er einhver sérstök fræðigrein sem fæst við rannsóknir á handritum?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2006, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5843.

Már Jónsson. (2006, 26. apríl). Er einhver sérstök fræðigrein sem fæst við rannsóknir á handritum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5843

Már Jónsson. „Er einhver sérstök fræðigrein sem fæst við rannsóknir á handritum?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2006. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5843>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er einhver sérstök fræðigrein sem fæst við rannsóknir á handritum?
Í heild var spurningin svona:

Er einhver sérstök fræðigrein sem fæst við rannsóknir á handritum, það er innihaldi þeirra, uppruna, aldri o.s.frv.?

Handritafræði er sjálfstæð fræðigrein sem er stunduð víða um heim og á rætur í athugunum og hugmyndum þýskra fræðimanna um miðja 19. öld. Í fyrstu voru skriftareinkenni og skriftarþróun í brennidepli slíkra rannsókna, enda tengdust þær vinnu við textaútgáfu náið. Smám saman víkkaði fræðigreinin út og fyrir miðja síðustu öld vöknuðu belgískir og franskir fræðimenn til vitundar um að fleira væri hægt að gera við handrit en að lesa þau og gefa textana út. Árið 1950 skilgreindi François Masai sjálfstætt rannsóknasvið sem hann nefndi fornleifafræði handrita eða archéologie du manuscrit, sem einkum átti að fást við útlitsleg einkenni þeirra. Árið áður hafði Alphonse Dain notað orðið codicologie fyrstur manna á prenti. Markmið þessara manna var að losa handritarannsóknir undan ægivaldi textafræðinnar. Á þýsku var og er vandræðalaust að tala um Handschriftenkunde, og reyndar var það orð fyrst notað árið 1825, en á frönsku hafði codicologie vinninginn og þar af leiðandi codicology á ensku og codicologia á ítölsku.

Fyrst um sinn beittu fræðimenn hinum nýju hugmyndum aðeins á eitt handrit í senn, sem lýst var mjög nákvæmlega, en næstu árin mótaðist sú hugmynd að athuga mætti smærri eða stærri hópa þeirra með sama hætti í því skyni að komast að niðurstöðu um verklag við handritagerð. Á áttunda áratugnum athugaði til að mynda Léon Gilissen kveraskiptingu og umbrot allmargra handrita frá 13. og 14. öld í því skyni að endurskapa verklag og viðmið handritagerðarmanna. Sú niðurstaða hans sem mest áhrif hefur haft er að meginreglan hafi verið að útbúa kver með því að brjóta skinn saman, ýmist í tvennt eða þrennt eða fernt, og skera síðan upp úr þeim. Hér var komin fyrirmynd að ítarlegri athugun á því hvernig handrit voru búin til og greinilegt að það var bæði flókið og vandasamt. Jafnframt fóru fræðimenn að huga að því að tengja miðaldahandrit við félagslegt og efnahagslegt umhverfi á sama hátt og gert hafði verið um nokkurt skeið með prentaðar bækur frá 15. og 16. öld. Þessi rannsóknarhefð lifir góðu lífi og árlega koma út tugir bóka um einstök handrit eða litla hópa handrita, þar sem útlitseinkennum er vandlega lýst. Á Íslandi hafa slíkar athuganir birst í inngöngum að ljósprentuðum útgáfum útvaldra merkishandrita.


Í handritafræði eru meðal annars gerðar rannsóknir á verklagi og viðmiðum handritagerðarmanna.

Tímamót urðu í handritarannsóknum árið 1980 með útkomu bókarinnar Pour une histoire du livre manuscrit au Moyen Âge eftir tvo ítalska fræðimenn, Cörlu Bozzolo og Ezio Ornato, sem bæði störfuðu og starfa enn í París. Yfirlýst viðfangsefni þeirra var bóksaga miðalda og í undirtitli kom helsta stefnubreytingin fram, nefnilega að hér færu þrjár ritgerðir í megindlegri handritafræði eða á frönsku codicologie quantitative. Forsenda þeirra var og er að spennandi sé að athuga handrit svo þúsundum skiptir fremur en stök handrit, að mestu óháð innihaldi, fegurð og gæðum, eða með öðrum orðum sem menningarlega og sögulega afurð. Sams konar athuganir höfðu þá rutt sér til rúms í fornleifafræði og innan hugvísinda almennt var lögð vaxandi áhersla á talningu og mælingar, sem aukin reiknigeta tölva auðveldaði mjög.

Ýmsir hafa orðið til að fylgja í þessi fótspor. Viðfangsefni nýrra rannsókna eru meðal annars hlutfallsleg stærð leturflatar, línubil og línulengd, stærð bókstafa og fjöldi þeirra í línu. Einna mikilvægast er þó að athuga læsileika og markmiðið að leggja mat á það hvernig handritagerðarmenn og síðan skrifarar reynda að búa handrit svo í hendur lesenda að þau nýttust sem best. Eins og allir vita er mikill munur á blaðsíðu sem gott er að lesa og síðu sem vonlítið er að átta sig á. Lína getur til að mynda orðið of löng fyrir augað eða skriftin of þétt og kramin, eða bókstafirnir ógreinilegir. Fyrir þessu höfðu handritahönnuðir og skrifarar á miðöldum næma tilfinningu sem hægt er að nálgast og skilja. Íslensk skinnhandrit hafa ekki ennþá verið rannsökuð með þessum hætti og er það miður, því þau eru best varðveitti vitnisburður okkar um verkmenningu okkar heimsmerku miðalda.

Sjá einnig

Heimildir

  • Jónas Kristjánsson, „Bókfell og bókmenntir.“ Skarðsbók. Codex Scardensis AM 350 fol. Manuscripta Islandica Medii Aevi I. Reykjavík 1981, bls. 9-18.
  • Már Jónsson, „Megindlegar handritarannsóknir.“ Ezio Ornato, Lofræða um handritamergð, bls. 7-34.
  • Ornato, Ezio, Lofræða um handritamergð. Hugleiðingar um bóksögu miðalda. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 36. Þýðendur Björg Birgisdóttir og Már Jónsson. Reykjavík 2003.
  • Ólafur Halldórsson, „Skrifaðar bækur.“ Íslensk þjóðmenning VI. Ritstjóri Frosti F. Jóhannesson. Reykjavík 1989, bls. 57-89.
  • Soffía Guðný Guðmundsdóttir og Laufey Guðnadóttir, „Bókagerð á miðöldum.“ Handritin. Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif. Ritstjórar Gísli Sigurðsson og Vésteinn Ólason. Reykjavík 2002, bls. 45-61. Þær hafa einnig tekið saman áhugaverða vefslóð um þessi efni, sjá handritinheima.is.
  • Þórarinn Hjartarson, Skinna. Saga sútunar á Íslandi. Reykjavík 2000, bls. 15-32.
  • Myndin er fengin af síðunni The Royal College and Confraternity of Scribes and Illuminators of the Kingdom of Lochac.
...