Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á 14. öld framleiddu Íslendingar handrit til útflutnings á Noregsmarkað og einhver þeirra kunna að vera varðveitt enn í bútum og brotum, en varla heil eintök. Undir lok 16. aldar fengu danskir og sænskir fræðimenn áhuga á íslenskum fornritum og handrit tóku að slæðast úr landi. Enn jókst straumurinn um miðja 17. öld þegar biskuparnir Þorlákur Skúlason á Hólum og Brynjólfur Sveinsson í Skálholti vildu geðjast dönskum menntamönnum og Friðriki þriðja konungi með þann vonarneista í huga líka að textunum yrði komið á prent. Árið 1656 sendi Brynjólfur konungi til dæmis konungasagnasafnið Flateyjarbók (GKS 1005 fol.) og Konungsbók Eddukvæða (GKS 2365 4to) sem nú er talað um sem helstu dýrgripi íslenskrar menningar. Þormóður Torfason sótti allmörg handrit fyrir konung árið 1662 og Jón Eggertsson fyrir Svía árið 1681. Mestu varðaði þó söfnun Árna Magnússonar árabilið 1685–1729 sem svo arfleiddi háskólann í Kaupmannahöfn að óviðjafnanlegu handritasafni sínu. Um og eftir miðja 18. öld bárust handrit frá Íslandi til danskra bókasafnara á borð við Jakob Langebek, Peter Suhm og Otto Thott greifa. Enski náttúrufræðingurinn Joseph Banks fékk dágóðan slatta með sér árið 1772 og íslenskir háskólamenn í Kaupmannahöfn byggðu upp handritasöfn, svo sem Finnur Magnússon prófessor og ekki síst Jón Sigurðsson forseti. Handrit Finns lentu í Lundúnum og Edinborg en safn Jóns var keypt til Landsbókasafns árið 1879. Á 19. öld keyptu líka útlendir ferða- og fræðimenn handrit eða fengu að gjöf, svo sem Rasmus Rask árin 1813–1815, Konrad Maurer árið 1858 og Willard Fiske árið 1879. Handrit hinna tveggja síðastnefndu eru nú í Bandaríkjunum.
Til einföldunar verður svarinu skipt eftir þeim efnivið sem handritin eru skrifuð á. Skinnbækur eru einkum í umræðunni nú en pappírshandrit eru miklu fleiri og mega ekki gleymast, enda sum þeirra jafn stórfengleg að innihaldi og mörg miðaldaritin. Nákvæmar tölur liggja einungis fyrir um fjölda og geymslustaði skinnbóka og skinnbókarbrota, svo sem sést í töflu 1 hér fyrir neðan. Fáeinar bækur sem voru skrifaðar á skinn á 17. öld eru ekki hafðar með.
Ísland
Danmörk
Svíþjóð
Önnur lönd
Alls
Útlönd í %
12. og 13. öld
39
76
4
10
129
70
14. öld
132
152
22
28
334
60
15. öld
127
88
12
5
232
45
16. öld
118
56
27
14
215
45
Samtals
416
372
65
57
910
54
Tafla 1. Íslenskar skinnbækur og skinnbókarbrot eftir dvalarstað
Tæplega helmingur þess sem til er af íslenskum textum á skinni er því geymdur á Íslandi en vel að merkja aðeins þriðjungur allra elstu handritanna sem í meira mæli urðu eftir í Kaupmannahöfn. Munar þar mestu um brot úr handritum konungasagna og heilagramannasagna. Mörg þeirra eru bara eitt eða tvö blöð, enda hirti Árni Magnússon hverja skinnpjötlu sem hann komst á snoðir um og reif til að mynda ótal hlífðarkápur utan af prentuðum bókum vina og kunningja sem höfðu rifið skinnbækur í sundur. Hátt hlutfall yngri skinnhandrita á Íslandi ræðst að miklu leyti af handritum lögbókarinnar Jónsbókar frá 1281 sem eru ærið mörg og voru öll afhent á árunum 1971–1997. Skipting á handritasafni Árna Magnússonar réðst af því að handrit með textum sem vörðuðu íslensk málefni voru flutt til Íslands en hin urðu eftir, reyndar með undantekningum eins og einmitt Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða. Á móti voru til dæmis handrit að Njáls sögu (AM 468 4to) og Guðmundar sögu biskups góða (AM 399 4to) skilin eftir.
Tölur hafa ekki verið teknar saman um íslensk pappírshandrit sem liggja víða en flest vitaskuld á Íslandi. Þannig eru í handritasafni Landsbókasafns-Háskólabókasafns ekki færri en 15 þúsund slíkir gripir fyrir utan bréfasöfn og einkaskjöl af ýmsu tagi. Mest af þessu er frá 19. öld og eitthvað frá 20. öld en miðað við samantekt Gríms Helgasonar og Lárusar Blöndals eru í safninu 390 handrit frá 17. öld og 3500 frá 18. öld. Hér er reyndar margvíslegur skilgreiningar- og flokkunarvandi sem ekki er tóm til að ræða og má nefna að í byrjun síðustu aldar var í safninu gerður skurkur í að vinsa úr það sem mátti telja embættisbækur, ekki síst sýslumanna. Þær voru síðan afhentar Þjóðskjalasafni sem átti talsvert af gögnum frá 17. og 18. öld fyrir. Þar eru nú áreiðanlega á þriðja hundrað embættisbóka frá þeim árum sem hljóta að teljast til handrita. Eins er töluvert af handritum í héraðsskjalasöfnum um land allt og jafnvel á byggðasöfnum, svo sem á Skógum undir Eyjafjöllum. Við þetta bætast pappírshandrit í Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi sem gætu verið um 1200 talsins og sennilega tvö af hverjum þremur frá 17. öld. Þar er jafnframt elsta íslenska pappírshandritið sem er bréfabók Gissurar Einarssonar biskups í Skálholti frá því fyrir miðja 16. öld (AM 232 8vo). Að öllu samantöldu má gera ráð fyrir því að í landinu kunni að vera yfir 1400 handrit frá 17. öld og eitthvað á fimmta þúsund frá 18. öld en strangt tekið óteljandi frá 19. öld. Allnokkuð er þarna um afrit texta frá miðöldum en jafnframt mikið um frásagnir af ýmsu tagi eða lögfræðilegt efni, en ekki síst bænir og kveðskapur, einkum trúarlegur. Munu sálmar séra Hallgríms Péturssonar vera efstir á vinsældalista.
Þá eru það útlönd. Í Árnasafni í Kaupmannahöfn (Den Arnamagnæanske Samling) eru að ætla má nærri 700 íslensk handrit frá 17. öld og vel á þriðja hundrað frá 18. öld, segjum þúsund eintök. Nefna má Jómsvíkinga sögu frá um 1700 (AM 288 4to) og predikanir yfir pínu Krists eftir Martein Lúther í íslenskri þýðingu frá 1663 (AM 91 8vo), fyrir utan nú margvísleg vinnugögn Árna sjálfs. Úr Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn og bókasafni Hafnarháskóla voru samkvæmt skiptasamningi afhent um 200 handrit. Í skrá sem Kristian Kålund gerði yfir íslensk og norsk handrit í þessum söfnum árið 1900 eru ríflega 1400 númer en sjálfsagt er fjórðungurinn norskur og í mesta lagi 900 íslensk handrit eftir. Mestu munar um handrit úr fórum Peters Suhms sem þegar er getið og nægir að nefna litríkar eldfjallamyndir Sæmundar Hólm frá um 1780 (NKS 1088 e fol., NKS 1091–1093 fol. og NKS 1094 a fol.). Thott greifi átti um 200 íslensk handrit þegar hann lést árið 1785 og voru þrjú þeirra afhent Þjóðskjalasafni árið 1928 sem embættisbækur. Hin eru eftir, þar á meðal Jónsbók á skinni (Thott 1280 fol.), en jafnframt gott eintak af reisubók séra Ólafs Egilssonar sem lýsir Tyrkjaráni árið 1627 (Thott 1769 4to). Nokkuð er þarna líka um afrit sem þessir áhugamenn um íslensk fræði létu íslenska námsmenn í Höfn gera fyrir sig og borguðu vel. Það sama á raunar við um sitthvað í safni Árna sem unnið var fyrir Árnanefnd eftir miðja 18. öld.
Vatnsdæla saga með hendi séra Jóns Erlendssonar í Villingaholti sem skrifaði ókjör handrita fyrir Brynjólf biskup Sveinsson um miðja 17. öld. Handritið fékk Norska þjóðbókasafnið að gjöf frá hinum mikilvirka fræðimanni C.R. Unger, sem lést árið 1897. Annað eintak sögunnar með hendi séra Jóns er AM 138 fol. sem er í Reykjavík.
Í prentuðum skrám sem taka til íslenskra handrita í Stokkhólmi og Uppsölum er getið um nærri 300 pappírseintök og eitthvert smáræði er síðan í Lundi. Eins er sitthvað af íslenskum handritum í söfnum í Þrándheimi og Björgvin í Noregi en vel á annað hundrað í þjóðbókasafninu í Osló. Sumt er þar ekki af verri endanum, svo sem Vatnsdæla saga með hendi séra Jóns Erlendssonar í Villingaholti um miðja 17. öld (Oslo Ms 4to 1194) og merkilegt eintak alþingisbóka frá 1682–1718, lesið upp á þingum í Skaftafellssýslu (Ms 4to 1869). Oslóarskrána gerði Jónas Kristjánsson árið 1967 þegar átak stóð yfir sem hafði það að markmiði að ná yfirsýn yfir íslensk handrit erlendis – að hluta til kostað af UNESCO. Jón Samsonarson fór til Svíþjóðar og Ólafur Halldórsson til Englands og Skotlands. Jón Helgason hafði áður verið í Lundúnum þar sem nokkur hundruð íslensk handrit er að finna á Bretasafni sem hann kallaði svo. Þeirri vinnu fylgdu Ögmundur Helgason og Jonna Louis-Jensen eftir síðar. Því miður hafa þessar skrár ekki verið gefnar út eða unnið úr þeim á veraldarvef. Séu fáein handrit í Dyflini á Írlandi höfð með má gera ráð fyrir því að á Bretlandseyjum séu varla færri en 500 íslensk handrit frá 17. og 18. öld en bara fáein eldri. Einhver handrit eru líka í þýskum söfnum, svo sem í Wolfenbüttel og Berlín. Í Vínarborg og París eru Jónsbækur og líka í háskólabókasafninu í Princeton í Bandaríkjunum. Þar um slóðir eru íslensk handrit á bókasöfnum við Columbia, Johns Hopkins, Yale og Cornell, en flest þó við Harvard og er þeim haldið saman sem Ms Icel. 1 til 57. Þau handrit hefur Shaun Hughes skráð af mikilli vandvirkni og verður aðeins nefnt mikið sögusafn sem Halldór Jakobsson sýslumaður í Strandasýslu lauk við byltingarárið 1789, með fjörlegri fyrirsögn: „Skemmtilegur frásagna fésjóður af mörgum merkilegum fornkóngum, hertogum, jörlum og höfðingjum sem á fyrri öldum hér á Norðurlöndum mörg frægðarverk framið hafa og sínum undirmönnum loflega stjórnað. Nú að nýju uppskrifaður of þeim sem heiðrar jafnan spekina“ (Ms. Icel. 32). Fölskvalaus áhuginn leynir sér ekki og einmitt slíka afstöðu verðskulda handritin í heild og hvert í sínu lagi.
Málsvarnarskjal Markúsar Ólafssonar sem haustið 1674 sakaði Hallgrím Halldórsson um galdra. Þeir voru lögréttumenn í Skagafirði. Handritið er í British Library í Lundúnum: BL. Add. 11.095. Það samanstendur af nokkrum heftum sem safnið keypti af Finni Magnússyni í júlí 1837. Hefti númer 233 geymir sitthvað sem kemur Markúsi við og sennilega eru þetta eiginhandarrit.
Þetta er óneitanlega svolítið ruglingslegt en engu að síður áfangi í átt að yfirsýn. Varðveitt íslensk handrit frá því fyrir 1800 eru áreiðanlega á tíunda þúsund. Væri vert að fara í almennilega saumana á ofangreindum skrám og taka saman nákvæmar tölur með tímabilaskiptingu, líkt og gert hefur verið í Landsbókasafni-Háskólabókasafni. Til bráðabirgða og með fyrirvörum sem ekki þarf að orðlengja um verður niðurstaðan sú sem gefur að líta í töflu 2. Til einföldunar er miðað við að heildarfjöldinn sé 10 þúsund. Tölur miðalda eru hækkaðar upp að næsta hundraði svo þær skeri sig ekki úr og það ætti líka að vera óhætt vegna pappírshandrita frá 16. öld sem ekki eru í töflu 1 og eru flest á Íslandi.
Ísland
Útlönd
Alls
Útlönd í %
Miðaldir
500
500
1000
50
17. öld
1500
1500
3000
50
18. öld
4500
1500
6000
25
Alls
6500
3500
10000
35
Tafla 2. Varðveislustaðir íslenskra handrita eftir tímabilum (skinn og pappír)
Gróft reiknuð niðurstaða verður á þá leið að helmingur íslenskra handrita frá miðöldum og frá 17. öld sé í erlendum bóka- og handritasöfnum en fjórðungur handrita frá 18. öld. Gera má ráð fyrir því að um það bil 3500 íslensk handrit frá því fyrir 1800 búi í útlöndum, ef svo má að orði komast, eða 35 af hundraði. Tveir af hverjum þremur þessara gripa eru í Kaupmannahöfn. Næstflest eru á Bretlandseyjum og þá í Svíþjóð og eftir það í Noregi. Um 19. öldina gilda önnur lögmál. Vissulega er eitthvað af íslenskum handritum frá þeim tíma erlendis, meðal annars í Winnipeg í Kanada, en það er hverfandi hópur miðað við þau ósköp sem eru varðveitt innanlands. Handrit í einkaeign munu vera það fá að þau breyta engu í þessu samhengi, hvar svo sem eigendurnir búa.
Heimildir:
Einar G. Pétursson og Ólafur Hjartar, Íslensk bókfræði. Helstu heimildir um íslenskar bækur og handrit. Reykjavík 1990.
Grímur M. Helgason og Lárus Blöndal, Skrá um aldur handrita í Landsbókasafni Íslands. Vélrit 1965 (sjá Vef. Handritaskrár, neðst).
Hughes, Shaun F.D., A descriptive catalogue of the Icelandic manuscripts in the Houghton Library, Harvard University. Vélrit 2014.
Jón Helgason, Catalogue of the Icelandic Manuscripts in the British Library. Vélrit 2008.
Jón Samsonarson, Drög að handritaskrá. Um íslensk handrit og handrit sem varða íslenskt efni í söfnum í Stokkhólmi og Uppsölum. Viðauki við prentaðar handritaskrár. Vélrit 1969.
Jónas Kristjánsson, Skrá um íslensk handrit í Svíþjóð. Vélrit 1967.
– Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter i det store kongelige bibliotek og i universitetsbiblioteket. Kaupmannahöfn 1900. Vef. baekur.is/bok/000224141/Katalog_over_de
Már Jónsson, „An Icelandic Medieval Manuscript in the Firestone Library: Princeton MS. 62“, The Princeton University Library Chronicle 64:1 (Haust 2002), bls. 163–174.
Ólafur Halldórsson, Skrár yfir íslensk handrit í Cambridge, London, Manchester, Leeds, Oxford og Edinborg. Vélrit. Ódagsett en frá um 1967.
Skæbne, Olaf, Catalogue des manuscrits danois, islandais, norvégiens et suédois de la Bibliothéque Nationale de Paris. Skálholti (Angers) 1887. Vef.catalog.hathitrust.org/Record/009555679
Þórunn Sigurðardóttir, Manuscript Material, Correspondence, and Graphic Material in the Fiske Icelandic Collection. A descriptive Catalogue. Íþöku 1994.
Már Jónsson. „Hversu mörg íslensk handrit eru varðveitt í útlöndum?“ Vísindavefurinn, 4. maí 2021, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81724.
Már Jónsson. (2021, 4. maí). Hversu mörg íslensk handrit eru varðveitt í útlöndum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81724
Már Jónsson. „Hversu mörg íslensk handrit eru varðveitt í útlöndum?“ Vísindavefurinn. 4. maí. 2021. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81724>.