Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær komu handritin aftur til Íslands og var það sjálfsagt mál að fá þau hingað?

Már Jónsson

Spurningin hljómaði svona í heild sinni:

Hvenær komu handritin aftur til Íslands og hvað varð til þess að þau komu heim á ný? Eru fleiri handrit enn í Kaupmannahöfn?

Undir lok 16. aldar uppgötvuðu fræðimenn í Danmörku og Svíþjóð að á Íslandi væri að finna handrit að sögum sem vörðuðu fjarlæga fortíð þessara landa, sem þá áttu í styrjöldum og hötuðust mjög. Íslenskir fræðimenn á borð við Arngrím lærða Jónsson og háttsettir embættismenn svo sem Brynjólfur biskup Sveinsson sendu þá handrit utan, sum þeirra forn á skinni. Má nefna að árið 1656 sendi Brynjólfur Friðriki þriðja Danakonungi Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða að gjöf í von um að ritsmíðar sem þar er að finna yrðu þýddar og gefnar út. Sænsk stjórnvöld sendu Jón Eggertsson til Íslands árið 1680 og hann tók allmörg merkishandrit með sér sem enn eru í söfnum í Svíþjóð. Handritasöfnun ríkjanna tveggja bliknar þó við hliðina á söfnun Árna Magnússonar skjalavarðar og prófessors sem hófst árið 1685 og stóð yfir í rúma fjóra áratugi. Árangur hans var með ólíkindum, enda atorkan mikil og áfergjan óskapleg. Í erfðaskrá Árna og konu hans Mettu er kveðið á um að Kaupmannahafnarháskóli varðveiti handritin, sem hann og gerði með ágætum næstu áratugi og raunar aldir.

Maður klýfur annan í herðar niður. Úr Svalbarðsbók frá 14. öld.

Að fenginni heimastjórn árið 1904 og aftur tveimur áratugum síðar kröfðust íslenskir fræðimenn og ráðamenn þess að skjöl og handrit sem snertu sögu landsins yrðu flutt til Reykjavíkur. Dönsk stjórnvöld tóku því ekki vel í fyrstu, en árið 1928 var álitlegt magn opinberra skjala sent frá Kaupmannahöfn, þar á meðal manntalið 1703, auk fornra bréfa sem Árni Magnússon hafði sannanlega haft að láni frá Íslandi þegar hann lést. Þessi gögn eru nú í Þjóðskjalasafni Íslands við Laugaveg.

Íslendingar létu ekki þar við sitja og vildu nú fá öll íslensk handrit afhent, en Danir tóku það ekki í mál. Eftir að Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1944 var enn hert á kröfugerð. Þremur árum síðar skipaði danska stjórnin nefnd um málið og upphófust nokkrar deilur um það í Danmörku hvernig ætti að svara óskum Íslendinga. Ekkert gerðist þó fyrr en árið 1954, en þá lagði danski menntamálaráðherrann fram málamiðlunartillögu sem fól í sér skiptingu handritanna á milli sérstakra stofnana í Kaupmannahöfn og Reykjavík. Líkt og á öldum áður á milli Dana og Svía hófst nú samkeppni á milli Dana og Íslendinga um það hverjir væru dugmestir að rannsaka handritin. Þetta hleypti nýju lífi í fræðimennsku beggja landa en sættir voru ekki í sjónmáli.

Snemma árs 1961 lagði íslensk nefnd fram ítarlegan óskalista um handrit og miðaði við þjóðerni skrifara. Þar þótti Dönum of langt seilst, enda voru langflestir handritshöfunda íslenskir. Um vorið náðist samkomulag um að miða við innihald, þannig að handrit með efni sem varðaði Ísland og íslensk málefni yrðu afhent Háskóla Íslands, en handrit með efni sem varðaði aðrar þjóðir yrðu áfram í Kaupmannahöfn. Ákveðið var að skipti og afhending mættu ekki taka lengri tíma en aldarfjórðung. Upphófust nú langir og strangir fundir fræðimanna frá báðum löndum í sérstakri skiptanefnd sem tók af skarið um það hvaða handrit ættu að fara og hver mættu vera.

Hluti myndskreytingar úr Löngu-Eddu frá 1680. Til hægri sést í þak Valhallar og til vinstri er hinn illræmdi Miðgarðsormur.

Vegna málaferla voru fyrstu tvö handritin, áðurnefnd Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða, ekki send frá Kaupmannahöfn fyrr en í apríl 1971. Mikill mannfjöldi var saman kominn á hafnarbakkanum í Reykjavík þegar danskt varðskip lagði að landi. Handritin tvö voru flutt með viðhöfn í Háskólabíó og þar afhenti Helge Larsen, menntamálaráðherra Danmerkur, handritin íslenskum starfsbróður sínum, Gylfa Þ. Gíslasyni, en hann aftur Magnúsi Má Lárussyni rektor. Eftir þetta bárust handrit hægt og bítandi til Íslands, ávallt sjóleiðis. Endanleg skipting handritanna var afgreidd árið 1986 og síðustu tvö handritin voru afhent við athöfn í hátíðarsal Háskólans 20. júní 1997.

Sárafá handrit voru afhent úr Konungsbókhlöðu og þar eru því allmörg eftir, sum hin merkustu, auk yngra efnis í stórum stíl, svo sem söfn einkabréfa frá 19. öld. Megnið af þeim handritum sem hingað eru komin eru því úr safni Árna Magnússonar. Þó má ætla að um 40 af hundraði þeirra séu enn í Kaupmannahöfn, nokkuð á annað þúsund handrita. Mörg þeirra eru reyndar norsk og dönsk. Ef aðeins er litið til íslenskra skinnhandrita og handritsbrota frá því fyrir 1600, sem eru nálægt einu þúsundi í heiminum, kemur á daginn að í Árnastofnun í Reykjavík eru 470 en 375 á söfnunum tveimur í Kaupmannahöfn. Má þar nefna handrit sem geyma Heimskringlu og aðrar konungasögur, einnig fornaldarsögur, riddarasögur og heilagra manna sögur. Í Kaupmannahöfn er hlutfallslega meira en í Reykjavík af handritum frá 13. og 14. öld, en því er öfugt farið um handrit frá 15. og 16. öld. Fáeinum handritum var reyndar skipt í tvennt og er hið merkasta þeirra, Hauksbók, frá byrjun 14. aldar. Landnámuhluti hennar var fluttur til Íslands en annað efni varð eftir.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Bjarni M. Gíslason, Íslenzku handritin. Þýðandi Jónas Kristjánsson. Reykjavík 1958.
  • Einar Ólafur Sveinsson, Handritamálið. Reykjavík 1959.
  • Gísli Sigurðsson o.fl., „Handritin heim!“ Handritin. Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif. Ritstjórar Gísli Sigurðsson og Vésteinn Ólason. Reykjavík 2002, bls. 171-177.
  • Sigrún Davíðsdóttir, Håndskriftsagens saga i politisk belysning. Þýðandi Kim Lembek. Óðinsvéum 1999.
  • Vefslóð Árnastofnunar í Reykjavík: http://www.am.hi.is/
  • Vefslóð Árnasafns í Kaupmannahöfn: http://www.hum.ku.dk/ami/
  • Vefslóð handritadeildar Konunglegu bókhlöðunnar í Kaupmannahöfn: http://www.kb.dk/kb/dept/nbo/ha/
  • Myndir eru fengnar af síðunni Handritin heima.

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

4.5.2006

Síðast uppfært

3.9.2019

Spyrjandi

Áslaug Bílddal

Tilvísun

Már Jónsson. „Hvenær komu handritin aftur til Íslands og var það sjálfsagt mál að fá þau hingað?“ Vísindavefurinn, 4. maí 2006, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5859.

Már Jónsson. (2006, 4. maí). Hvenær komu handritin aftur til Íslands og var það sjálfsagt mál að fá þau hingað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5859

Már Jónsson. „Hvenær komu handritin aftur til Íslands og var það sjálfsagt mál að fá þau hingað?“ Vísindavefurinn. 4. maí. 2006. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5859>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær komu handritin aftur til Íslands og var það sjálfsagt mál að fá þau hingað?
Spurningin hljómaði svona í heild sinni:

Hvenær komu handritin aftur til Íslands og hvað varð til þess að þau komu heim á ný? Eru fleiri handrit enn í Kaupmannahöfn?

Undir lok 16. aldar uppgötvuðu fræðimenn í Danmörku og Svíþjóð að á Íslandi væri að finna handrit að sögum sem vörðuðu fjarlæga fortíð þessara landa, sem þá áttu í styrjöldum og hötuðust mjög. Íslenskir fræðimenn á borð við Arngrím lærða Jónsson og háttsettir embættismenn svo sem Brynjólfur biskup Sveinsson sendu þá handrit utan, sum þeirra forn á skinni. Má nefna að árið 1656 sendi Brynjólfur Friðriki þriðja Danakonungi Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða að gjöf í von um að ritsmíðar sem þar er að finna yrðu þýddar og gefnar út. Sænsk stjórnvöld sendu Jón Eggertsson til Íslands árið 1680 og hann tók allmörg merkishandrit með sér sem enn eru í söfnum í Svíþjóð. Handritasöfnun ríkjanna tveggja bliknar þó við hliðina á söfnun Árna Magnússonar skjalavarðar og prófessors sem hófst árið 1685 og stóð yfir í rúma fjóra áratugi. Árangur hans var með ólíkindum, enda atorkan mikil og áfergjan óskapleg. Í erfðaskrá Árna og konu hans Mettu er kveðið á um að Kaupmannahafnarháskóli varðveiti handritin, sem hann og gerði með ágætum næstu áratugi og raunar aldir.

Maður klýfur annan í herðar niður. Úr Svalbarðsbók frá 14. öld.

Að fenginni heimastjórn árið 1904 og aftur tveimur áratugum síðar kröfðust íslenskir fræðimenn og ráðamenn þess að skjöl og handrit sem snertu sögu landsins yrðu flutt til Reykjavíkur. Dönsk stjórnvöld tóku því ekki vel í fyrstu, en árið 1928 var álitlegt magn opinberra skjala sent frá Kaupmannahöfn, þar á meðal manntalið 1703, auk fornra bréfa sem Árni Magnússon hafði sannanlega haft að láni frá Íslandi þegar hann lést. Þessi gögn eru nú í Þjóðskjalasafni Íslands við Laugaveg.

Íslendingar létu ekki þar við sitja og vildu nú fá öll íslensk handrit afhent, en Danir tóku það ekki í mál. Eftir að Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1944 var enn hert á kröfugerð. Þremur árum síðar skipaði danska stjórnin nefnd um málið og upphófust nokkrar deilur um það í Danmörku hvernig ætti að svara óskum Íslendinga. Ekkert gerðist þó fyrr en árið 1954, en þá lagði danski menntamálaráðherrann fram málamiðlunartillögu sem fól í sér skiptingu handritanna á milli sérstakra stofnana í Kaupmannahöfn og Reykjavík. Líkt og á öldum áður á milli Dana og Svía hófst nú samkeppni á milli Dana og Íslendinga um það hverjir væru dugmestir að rannsaka handritin. Þetta hleypti nýju lífi í fræðimennsku beggja landa en sættir voru ekki í sjónmáli.

Snemma árs 1961 lagði íslensk nefnd fram ítarlegan óskalista um handrit og miðaði við þjóðerni skrifara. Þar þótti Dönum of langt seilst, enda voru langflestir handritshöfunda íslenskir. Um vorið náðist samkomulag um að miða við innihald, þannig að handrit með efni sem varðaði Ísland og íslensk málefni yrðu afhent Háskóla Íslands, en handrit með efni sem varðaði aðrar þjóðir yrðu áfram í Kaupmannahöfn. Ákveðið var að skipti og afhending mættu ekki taka lengri tíma en aldarfjórðung. Upphófust nú langir og strangir fundir fræðimanna frá báðum löndum í sérstakri skiptanefnd sem tók af skarið um það hvaða handrit ættu að fara og hver mættu vera.

Hluti myndskreytingar úr Löngu-Eddu frá 1680. Til hægri sést í þak Valhallar og til vinstri er hinn illræmdi Miðgarðsormur.

Vegna málaferla voru fyrstu tvö handritin, áðurnefnd Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða, ekki send frá Kaupmannahöfn fyrr en í apríl 1971. Mikill mannfjöldi var saman kominn á hafnarbakkanum í Reykjavík þegar danskt varðskip lagði að landi. Handritin tvö voru flutt með viðhöfn í Háskólabíó og þar afhenti Helge Larsen, menntamálaráðherra Danmerkur, handritin íslenskum starfsbróður sínum, Gylfa Þ. Gíslasyni, en hann aftur Magnúsi Má Lárussyni rektor. Eftir þetta bárust handrit hægt og bítandi til Íslands, ávallt sjóleiðis. Endanleg skipting handritanna var afgreidd árið 1986 og síðustu tvö handritin voru afhent við athöfn í hátíðarsal Háskólans 20. júní 1997.

Sárafá handrit voru afhent úr Konungsbókhlöðu og þar eru því allmörg eftir, sum hin merkustu, auk yngra efnis í stórum stíl, svo sem söfn einkabréfa frá 19. öld. Megnið af þeim handritum sem hingað eru komin eru því úr safni Árna Magnússonar. Þó má ætla að um 40 af hundraði þeirra séu enn í Kaupmannahöfn, nokkuð á annað þúsund handrita. Mörg þeirra eru reyndar norsk og dönsk. Ef aðeins er litið til íslenskra skinnhandrita og handritsbrota frá því fyrir 1600, sem eru nálægt einu þúsundi í heiminum, kemur á daginn að í Árnastofnun í Reykjavík eru 470 en 375 á söfnunum tveimur í Kaupmannahöfn. Má þar nefna handrit sem geyma Heimskringlu og aðrar konungasögur, einnig fornaldarsögur, riddarasögur og heilagra manna sögur. Í Kaupmannahöfn er hlutfallslega meira en í Reykjavík af handritum frá 13. og 14. öld, en því er öfugt farið um handrit frá 15. og 16. öld. Fáeinum handritum var reyndar skipt í tvennt og er hið merkasta þeirra, Hauksbók, frá byrjun 14. aldar. Landnámuhluti hennar var fluttur til Íslands en annað efni varð eftir.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Bjarni M. Gíslason, Íslenzku handritin. Þýðandi Jónas Kristjánsson. Reykjavík 1958.
  • Einar Ólafur Sveinsson, Handritamálið. Reykjavík 1959.
  • Gísli Sigurðsson o.fl., „Handritin heim!“ Handritin. Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif. Ritstjórar Gísli Sigurðsson og Vésteinn Ólason. Reykjavík 2002, bls. 171-177.
  • Sigrún Davíðsdóttir, Håndskriftsagens saga i politisk belysning. Þýðandi Kim Lembek. Óðinsvéum 1999.
  • Vefslóð Árnastofnunar í Reykjavík: http://www.am.hi.is/
  • Vefslóð Árnasafns í Kaupmannahöfn: http://www.hum.ku.dk/ami/
  • Vefslóð handritadeildar Konunglegu bókhlöðunnar í Kaupmannahöfn: http://www.kb.dk/kb/dept/nbo/ha/
  • Myndir eru fengnar af síðunni Handritin heima.

...