Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 01:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:37 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:53 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Hvaða handrit Íslendinga töpuðust í brunanum í Kaupmannahöfn?

Már Jónsson

Einn voðalegasti atburður Íslandssögunnar er stórbruninn í Kaupmannahöfn haustið 1728. Mestur hluti miðbæjarins brann til kaldra kola, þar með talið háskólahverfið, að undanteknu háskólaráðshúsinu. Háskólabókasafnið eyðilagðist gjörsamlega og með því ótal handrit, meðal annars ófá íslensk handrit frá miðöldum. Stjórnvöld komu litlum vörnum við og tilraunir til slökkvistarfs mistókust. Jón Ólafsson frá Grunnavík, sem var í borginni þessa daga, lýsti henni svo að bruna loknum: „Að líta á staðinn sjálfan er skelfilegt, það sér allt út eins og stórgrýtt holt eða hraun.“

Eldurinn kom upp að kvöldi miðvikudagsins 20. október og þá þegar hvöttu íslenskir námsmenn Árna Magnússon prófessor og handritasafnara til að koma eigum sínum undan. Handritasafn hans var eitt hið merkasta á Norðurlöndum og afrakstur áratuga erfiðis. Árni kvaðst treysta því að eldurinn yrði slökktur. Morguninn eftir var kominn eldur í Frúarkirkju og þá tók Árni við sér, enda aðeins nokkur hundruð metrar frá kirkjunni að húsi hans í Store Kannikestræde. Árna til aðstoðar við björgunina voru áðurnefndur Jón Ólafsson og Finnur Jónsson síðar biskup, ásamt þjónustufólki. Farið var fjórar eða fimm ferðir á vagni Árna, en á fimmta tímanum varð ekki meira að gert fyrir hita og er haft eftir Árna um leið og hann gekk út í síðasta sinn: „Þarna eru þær bækur sem aldrei og hvergi fást slíkar til dómadags.“


Eldur í Kaupinhafn. Leikmynd eftir Lárus Ingólfsson.

Á fimmta hundrað prentaðra bóka bjargaðist en mörg þúsund urðu eldinum að bráð. Handritin höfðu verið látin ganga fyrir, sem von var. Árna var mjög brugðið og í bréfum til Íslands næsta vor gerði hann meira úr glötuninni en efni stóðu til. Skaðinn var engu að síður mikill. Talið er að einungis tólf skinnhandrit hafi brunnið, mest Maríu sögur og Karlamagnúsar sögur, en ókunnur fjöldi handritsbrota. Hjá Árna voru líka fáein íslensk skinnhandrit úr Háskólabókasafninu, sem hann hafði að láni og björguðust fyrir vikið. Aftur á móti brunnu allmörg pappírshandrit frá 17. öld og eftirrit handrita og bréfa sem Árni hafði látið gera áratugina á undan. Fornar bréfabækur embættismanna, alþingisbækur, annálar og kvæðabækur týndust, sem og Sæmundar Eddur „geysimargar“ eins og Árni orðaði það sjálfur. Einnig má nefna jarðabók hans og Páls Vídalíns yfir Austurland. Síðast en ekki síst glötuðust minnisgreinar hans um ýmis efni, meðal annars lærða íslenska menn, sem hann hafði safnað fróðleik um nánast alla ævina.

Fyrst um sinn voru handritin í geymslu hjá vini Árna, Hans Becker kaupmanni. Síðar fékk Árni eigið húsnæði, mun þrengra en hann hafði haft áður, og svo virðist sem hann hafi aldrei haft geð í sér til að kanna nákvæmlega hvað bjargaðist og hvað glataðist. Hann lést rúmu ári eftir brunann, aðfaranótt 7. janúar 1730, 66 ára að aldri.


Árni Magnússon vann ótrúlegt þrekvirki með því að safna saman og varðveita ótal íslensk handrit sem annars hefðu glatast. Hér sést hann á gamla íslenska 100 króna seðlinum.

Árni hefur verið gagnrýndur fyrir að fara með nánast öll íslensk handrit úr landi og síðan næstum því láta þau eyðileggjast í eldi. Það eru ómaklegar aðfinnslur og líklegt að mikill hluti þeirra handrita sem þó eru til, þrátt fyrir stórbrunann í Kaupmannahöfn, hefði orðið eyðileggingu að bráð á Íslandi, hefði Árni ekki safnað þeim saman. Þýski fræðimaðurinn Konrad Maurer rökstyður þetta af mikilli skynsemi í lýsingu á ferð sinni um Ísland árið 1858, og er rétt að hann eigi síðasta orðið hér: „Auk þess er ástæða til að efast um að nokkuð markvert væri nú eftir af þeim ótölulega fjölda handrita sem Árni bjargaði með ósegjanlegum erfiðismunum úr höndum ógætinna eigenda... ef hann hefði ekki flutt þessa fjársjóði úr landi á þeim erfiðu tímum í sögu íslensku þjóðarinnar sem um var að ræða.“

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

 • Jón Ólafsson úr Grunnavík, Relatio af Kaupinhafnarbrunanum sem skeði í október 1728. Dagbók 1725-1731 og fleiri skrif. Útgefandi Sigurgeir Steingrímsson. Reykjavík 2005.
 • Maurer, Konrad, Íslandsferð 1858. Þýðandi Baldur Hafstað. Reykjavík 1997, bls. 171.
 • Már Jónsson, Árni Magnússon. Ævisaga. Reykjavík 1998, bls. 329-334.
 • Þórhallur Vilmundarson, „Bruninn mikli í Kaupmannahöfn 1728.“ Söguslóðir. Afmælisrit helgað Ólafi Hanssyni sjötugum. Reykjavík 1979, bls. 389-415.
 • Fyrri myndin er af síðunni Aðföng Leikminjasafns Íslands. Leikminjasafn Íslands. Sótt 2.5.2006.
 • Seinni myndin er af síðunni Image:Isl Krone.JPG. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin. Sótt 2.5.2006.

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

2.5.2006

Spyrjandi

Arnar Þ. Kristjánsson

Tilvísun

Már Jónsson. „Hvaða handrit Íslendinga töpuðust í brunanum í Kaupmannahöfn?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2006. Sótt 18. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5854.

Már Jónsson. (2006, 2. maí). Hvaða handrit Íslendinga töpuðust í brunanum í Kaupmannahöfn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5854

Már Jónsson. „Hvaða handrit Íslendinga töpuðust í brunanum í Kaupmannahöfn?“ Vísindavefurinn. 2. maí. 2006. Vefsíða. 18. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5854>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða handrit Íslendinga töpuðust í brunanum í Kaupmannahöfn?
Einn voðalegasti atburður Íslandssögunnar er stórbruninn í Kaupmannahöfn haustið 1728. Mestur hluti miðbæjarins brann til kaldra kola, þar með talið háskólahverfið, að undanteknu háskólaráðshúsinu. Háskólabókasafnið eyðilagðist gjörsamlega og með því ótal handrit, meðal annars ófá íslensk handrit frá miðöldum. Stjórnvöld komu litlum vörnum við og tilraunir til slökkvistarfs mistókust. Jón Ólafsson frá Grunnavík, sem var í borginni þessa daga, lýsti henni svo að bruna loknum: „Að líta á staðinn sjálfan er skelfilegt, það sér allt út eins og stórgrýtt holt eða hraun.“

Eldurinn kom upp að kvöldi miðvikudagsins 20. október og þá þegar hvöttu íslenskir námsmenn Árna Magnússon prófessor og handritasafnara til að koma eigum sínum undan. Handritasafn hans var eitt hið merkasta á Norðurlöndum og afrakstur áratuga erfiðis. Árni kvaðst treysta því að eldurinn yrði slökktur. Morguninn eftir var kominn eldur í Frúarkirkju og þá tók Árni við sér, enda aðeins nokkur hundruð metrar frá kirkjunni að húsi hans í Store Kannikestræde. Árna til aðstoðar við björgunina voru áðurnefndur Jón Ólafsson og Finnur Jónsson síðar biskup, ásamt þjónustufólki. Farið var fjórar eða fimm ferðir á vagni Árna, en á fimmta tímanum varð ekki meira að gert fyrir hita og er haft eftir Árna um leið og hann gekk út í síðasta sinn: „Þarna eru þær bækur sem aldrei og hvergi fást slíkar til dómadags.“


Eldur í Kaupinhafn. Leikmynd eftir Lárus Ingólfsson.

Á fimmta hundrað prentaðra bóka bjargaðist en mörg þúsund urðu eldinum að bráð. Handritin höfðu verið látin ganga fyrir, sem von var. Árna var mjög brugðið og í bréfum til Íslands næsta vor gerði hann meira úr glötuninni en efni stóðu til. Skaðinn var engu að síður mikill. Talið er að einungis tólf skinnhandrit hafi brunnið, mest Maríu sögur og Karlamagnúsar sögur, en ókunnur fjöldi handritsbrota. Hjá Árna voru líka fáein íslensk skinnhandrit úr Háskólabókasafninu, sem hann hafði að láni og björguðust fyrir vikið. Aftur á móti brunnu allmörg pappírshandrit frá 17. öld og eftirrit handrita og bréfa sem Árni hafði látið gera áratugina á undan. Fornar bréfabækur embættismanna, alþingisbækur, annálar og kvæðabækur týndust, sem og Sæmundar Eddur „geysimargar“ eins og Árni orðaði það sjálfur. Einnig má nefna jarðabók hans og Páls Vídalíns yfir Austurland. Síðast en ekki síst glötuðust minnisgreinar hans um ýmis efni, meðal annars lærða íslenska menn, sem hann hafði safnað fróðleik um nánast alla ævina.

Fyrst um sinn voru handritin í geymslu hjá vini Árna, Hans Becker kaupmanni. Síðar fékk Árni eigið húsnæði, mun þrengra en hann hafði haft áður, og svo virðist sem hann hafi aldrei haft geð í sér til að kanna nákvæmlega hvað bjargaðist og hvað glataðist. Hann lést rúmu ári eftir brunann, aðfaranótt 7. janúar 1730, 66 ára að aldri.


Árni Magnússon vann ótrúlegt þrekvirki með því að safna saman og varðveita ótal íslensk handrit sem annars hefðu glatast. Hér sést hann á gamla íslenska 100 króna seðlinum.

Árni hefur verið gagnrýndur fyrir að fara með nánast öll íslensk handrit úr landi og síðan næstum því láta þau eyðileggjast í eldi. Það eru ómaklegar aðfinnslur og líklegt að mikill hluti þeirra handrita sem þó eru til, þrátt fyrir stórbrunann í Kaupmannahöfn, hefði orðið eyðileggingu að bráð á Íslandi, hefði Árni ekki safnað þeim saman. Þýski fræðimaðurinn Konrad Maurer rökstyður þetta af mikilli skynsemi í lýsingu á ferð sinni um Ísland árið 1858, og er rétt að hann eigi síðasta orðið hér: „Auk þess er ástæða til að efast um að nokkuð markvert væri nú eftir af þeim ótölulega fjölda handrita sem Árni bjargaði með ósegjanlegum erfiðismunum úr höndum ógætinna eigenda... ef hann hefði ekki flutt þessa fjársjóði úr landi á þeim erfiðu tímum í sögu íslensku þjóðarinnar sem um var að ræða.“

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

 • Jón Ólafsson úr Grunnavík, Relatio af Kaupinhafnarbrunanum sem skeði í október 1728. Dagbók 1725-1731 og fleiri skrif. Útgefandi Sigurgeir Steingrímsson. Reykjavík 2005.
 • Maurer, Konrad, Íslandsferð 1858. Þýðandi Baldur Hafstað. Reykjavík 1997, bls. 171.
 • Már Jónsson, Árni Magnússon. Ævisaga. Reykjavík 1998, bls. 329-334.
 • Þórhallur Vilmundarson, „Bruninn mikli í Kaupmannahöfn 1728.“ Söguslóðir. Afmælisrit helgað Ólafi Hanssyni sjötugum. Reykjavík 1979, bls. 389-415.
 • Fyrri myndin er af síðunni Aðföng Leikminjasafns Íslands. Leikminjasafn Íslands. Sótt 2.5.2006.
 • Seinni myndin er af síðunni Image:Isl Krone.JPG. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin. Sótt 2.5.2006.
...