Johann Sebastian Bach fæddist í bænum Eisenach í Þýskalandi árið 1685 og lést árið 1750.
Bach var af ætt margra tónlistarmanna, organista og tónskálda. Eins og faðir hans, Johann Ambrosius Bach, átti J. S. Bach eftir að þróa með sér hæfileikann að semja barokktónlist. Þrátt fyrir það varð Bach ekki þekktur fyrir tónsmíðar sínar fyrr en eftir að hann lést. Á meðan hann var uppi var hann aðallega frægur fyrir orgelleik.
Bach átti erfiða æsku. Þegar hann var aðeins níu ára lést faðir hans, og móðir hans, Maria Elisabetha Lämmerhirt, átti einnig eftir að láta lífið þegar Bach var ungur. Þótt Bach eyddi miklum tíma með tónlistarsinnuðum frændum sínum þá lærði hann einnig mikið af elsta bróður sínum, Johann Christoph Bach.
Á æskuárum sínum átti J. S. Bach eftir að læra mikið um uppbyggingu orgela. Á barokktímabilinu þótti orgelið mjög flókið hljóðfæri, enda voru á því fjöldinn allur af fótstigum og pípum. Reynsla Bachs af viðgerðum á orgelum og samtöl hans við orgelsmiði og organista áttu eftir að koma honum vel til að fullkomna orgelleik sinn.
Nokkur af frægustu tónverkum Bachs eru Brandenborgarkonsertar, Jóhannesarpassían, Mattheusarpassían, Jólaóratorían, H-moll messan og Goldbergtilbrigðin.
Þetta svar er eftir nemanda á námskeiði Vísindavefsins fyrir bráðger börn í mars 2007.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Getið þið sagt mér hvað barokktónlist er? eftir Árna Heimi Ingólfsson.
- Hvað átti Johann Sebastian Bach mörg börn? eftir Grétar Stefánsson.
- Tengjast verk Mozarts tónlist Bachs og Beethovens? eftir Karólínu Eiríksdóttur.
- Johann Sebastian Bach.
- The Bach Family: Family Tree.
- Johann Ambrosius Bach. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Mynd: Composer biographies.